Alma Möller
Íslenskur læknir og heilbrigðisráðherra From Wikipedia, the free encyclopedia
Remove ads
Alma Dagbjört Möller (f. 24. júní 1961) er íslenskur svæfinga- og gjörgæslulæknir og núverandi heilbrigðisráðherra Íslands. Alma var áður landlæknir frá 2018 til 2024 og var fyrsta konan sem gegndi embættinu. Hún var kjörin á þing fyrir Samfylkinguna árið 2024 og tók í kjölfarið við embætti heilbrigðisráðherra.
Remove ads
Fjölskylda
Alma fæddist á Siglufirði og foreldrar hennar eru hjónin Jóhann Georg Möller (1918-1997) verkstjóri og bæjarfulltrúi Alþýðuflokksins á Siglufirði og Helena Sigtryggsdóttir húsmóðir (1923-2024). Alma er yngst sex systkina[1] og er gift Torfa Fjalari Jónassyni hjartalækni[2] og eiga þau tvö börn. Bróðir Ölmu er Kristján Möller fyrrverandi ráðherra.[3]
Menntun og starfsferill
Hún ólst upp á Siglufirði en lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri árið 1981, læknaprófi frá Háskóla Íslands árið 1988, sérfræðinámi í svæfingum og gjörgæslu við Háskólasjúkrahúsið í Lundi í Svíþjóð árið 1995 og prófi Evrópsku svæfingalæknasamtakanna árið 1996. Hún varði doktorsritgerð sína við Háskólann í Lundi árið 1999 og hefur einnig lokið meistaraprófi í stjórnun heilbrigðisþjónustu og lýðheilsu og hlotið sérfræðiviðurkenningu í heilbrigðisstjórnun.[4] Skömmu eftir að hún tók við embætti landlæknis lauk hún diplómanámi í opinberri stjórnsýslu frá Háskóla Íslands.
Alma starfaði sem sérfræðingur við Háskólasjúkrahúsið í Lundi í Svíþjóð frá 1993-2002. Árið 2002 fluttist hún til Íslands og tók við starfi yfirlæknis á gjörgæsludeildum Landspítala í Fossvogi og við Hringbraut. Frá árinu 2014-2018 var hún framkvæmdastjóri aðgerðasviðs Landspítala.[5] Þann 1. apríl 2018 tók Alma við embætti landlæknis og er fyrsta konan sem gegnir embættinu í 258 ára sögu þess.[6] Alma var einnig fyrsta konan sem starfaði sem þyrlulæknir Landhelgisgæslunnar en hún var þyrlulæknir frá 1990-1992.[7]
Alma var sæmd riddarakrossi Hinnar íslensku fálkaorðu fyrir störf í þágu heilbrigðismála þann 17. júní 2020.[8]
Frá 2020 til 2022 var Alma áberandi í fjölmiðlum og upplýsingafundum vegna Kórónaveirufaraldursins sem þá gekk yfir. Þau Alma, Víðir Reynisson og Þórólfur Guðnason hlutu viðurnefnið „þríeykið“ í fjölmiðlaumfjöllun á tíma faraldursins.[9]
Remove ads
Þingferill
Alma tilkynnti hinn 17. október 2024 að hún hygðist gefa kost á sér í alþingiskosningum sama ár fyrir Samfylkinguna.[10] Hún var kosin á þing og tók við embætti heilbrigðisráðherra í ráðuneyti Kristrúnar Frostadóttur 21. desember 2024.[11]
Tilvísanir
Wikiwand - on
Seamless Wikipedia browsing. On steroids.
Remove ads