Hið undarlega mál Jekylls og Hydes

Stutt skáldsaga eftir Robert Louis Stevenson frá 1886 From Wikipedia, the free encyclopedia

Hið undarlega mál Jekylls og Hydes
Remove ads

Hið undarlega mál Jekylls og Hydes (enska: Strange Case of Dr Jekyll and Mr Hyde) er gotnesk hrollvekjusaga frá árinu 1886 eftir skoska rithöfundinn Robert Louis Stevenson. Sagan segir frá Gabriel John Utterson, lögmanni í Lundúnum sem rannsakar dularfull tengsl á milli gamalvinar síns, Dr. Henry Jekyll, og ofbeldisfulls glæpamanns að nafni Edward Hyde.

Staðreyndir strax Höfundur, Upprunalegur titill ...

Hið undarlega mál Jekylls og Hydes er eitt frægasta verk enskra bókmennta og eitt af höfuðverkum gotneskra hrollvekja. Sagan hefur einnig haft mikil áhrif á dægurmenningu og hugtakið „Jekyll og Hyde“ er gjarnan notað um fólk sem hefur góðlegt yfirbragð en felur illgjarnt innra eðli sitt fyrir öðrum.[1]

Remove ads

Innblástur og tilurð

Stevenson hafði lengi verið hugfanginn af samspili hins góða og hins illa í persónuleika fólks. Sem ungur maður hafði hann samið leikrit um skoska lásasmiðinn William Brodie, sem hafði á 18. öld lifað tvöföldu lífi sem virðulegur borgari á daginn en innbrotsþjófur að nóttu til. Leikritið var sett á svið í fyrsta sinn árið 1882 í samstarfi við W. E. Henley.[2]

Árið 1884 samdi Stevenson smásöguna Markheim, sem fjallaði um morð í forngripaverslun. Stevenson lýsti því síðar í endurminningum sínum hvernig hann var á þessum tíma að leita að hugmyndum að nýrri sögu. Hann sagðist hafa fengið hugmyndina að tveimur eða þremur atriðum í sögunni um Jekyll og Hyde í draumi. Eiginkona Stevensons, Fanny, sagði síðar:

Eina nótt vaknaði ég við að Louis öskraði í svefni. Ég hélt að hann hefði fengið martröð og vakti hann. En hann hrópaði á mig: „Hvers vegna vaktirðu mig? Ég var mitt í yndislegasta óhugnanlega draum sem ég hef fengið.“ Ég hafði vakið hann í miðju fyrsta umbreytingaratriðinu.[3]

Stjúpsonur Stevensons, rithöfundurinn Lloyd Osbourne, sagði síðar um tilurð bókarinnar: „Ég man þetta eins og það hafi gerst í gær. Louis kom niður tröppurnar eins og í leiðslu; hann las næstum helming bókarinnar hátt fyrir okkur, og áður en við vissum af hvarf hann á ný og skrifaði meira. Ég held að fyrsta yfirferðin hafi tekið minna en þrjá daga.“[3]

Stevenson kann einnig að hafa sótt innblástur að sögunni til fransks vinar síns, Eugene Chantrelle, sem var í maí 1878 dæmdur til dauða og hengdur fyrir að hafa myrt eiginkonu sína með ópíumi.[4] Samkvæmt rithöfundinum Jeremy Hodges[5] var Stevenson viðstaddur öll réttarhöldin. Þegar upplýst var um hvernig morðið var framið var Stevenson, líkt og dr. Jekyll, „skelfingu lostinn yfir gjörðum Edwards Hyde“. Chantrelle var einnig grunaður um önnur morð þar sem eitrað hafði verið fyrir fórnarlömbunum með ópíumi.[6]

Fanny Stevenson, sem var vön að prófarkalesa handrit eiginmanns síns og skrifa athugasemdir á spássíurnar, skrifaði í handritið að sögunni um Jekyll og Hyda að henni fyndist sagan frekar táknsaga heldur en einföld frásögn. Stevenson var rúmliggjandi á þessum tíma og stutttu síðar kallaði hann á Fanny inn í svefnherbergið og benti henni á haug af ösku. Hann hafði brennt handritið til að neyða sjálfan sig til að byrja upp á nýtt með táknsöguna í huga. Fræðimenn eru ekki á einu máli um hvort Stevenson hafi í raun og veru brennt handritið því ekki eru til sönnungargögn fyrir því, en sagan um brennuna er fastur hluti í frásögnum um tilurð bókarinnar.[7]

Stevenson skrifaði nýtt handrit, sem tók hann um þrjá til sex daga. Ýmsir ævisöguritarar hans halda því fram að á meðan á þessu annasama ritferli stóð hafi Stevenson verið undir áhrifum vímuefna, annaðhvort kókaíns eða sveppa.[8] En að sögn konu hans og sonar og hans sjálfs var hann veikur og rúmliggjandi þegar hann skrifaði bókina. Hann hélt áfram að vinna að nýja handritinu næstu fjórar til sex vikurnar á meðan hann ferðaðist til Bournemouth í Suður-Englandi til að njóta sjávarloftsins og mildara loftslags.

Nafnið Jekyll var fengið frá prestinum Walter Jekyll, vini Stevensons og yngri bróður landslagsarkitektsins Gertrude Jekyll.[9]

Remove ads

Söguþráður

Yfirvegaður og siðprúður lögmaður að nafni Gabriel John Utterson er á vikulegri göngu með frænda sínum, Richard Enfield, þegar þeir koma að dularfullu, niðurníddu húsi á hliðargötu í erilsömu hverfi í Lundúnum. Enfield greinir Utterson frá því að mánuði áður hafi hann séð grimmúðlegan mann að nafni Edward Hyde traðka á ungri stúlku eftir minniháttar árekstur. Enfield neyddi Hyde til að greiða fjölskyldu stúlkunnar háa fjárhæð til að koma í veg fyrir hneykslismál. Hyde fór með Enfield að þessu húsi og gaf honum ávísun sem undirrituð var af virtum herramanni sem síðar kemur í ljós að var dr. Henry Jekyll, vinur og skjólstæðingur Uttersons. Utterson óttast að Hyde sé að fjárkúga Jekyll, því Jekyll breytti nýlega erfðaskrá sinni og gerði Hyde að eina erfingja sínum ef Jekyll dæi eða hyrfi. Þegar Utterson reynir að ræða um Hyde við Jekyll segir Jekyll honum að hann geti losnað við Hyde þegar honum sýnist og biður Utterson að minnast ekki á þetta framar.

Thumb
Hr. Hyde ber Sir Danvers Carew til dauða í myndskreytingu eftir Charles Raymond Macauley (1904).

Ári síðar í októbermánuði verður vinnukona vitni að því er Hyde ber Sir Danvers Carew, annan af skjólstæðingum Uttersons, til dauða og skilur eftir hálfan brotinn göngustaf. Lögreglan hefur samband við Utterson, sem vísar henni til íbúðar Hydes. Hyde er þá horfinn en lögreglan finnur hinn helminginn af brotna stafnum, sem Utterson ber kennsl á því hann hafði gefið Jekyll stafinn. Utterson vitjar Jekylls, sem sýnir honum bréf sem hann segir að Hyde hafi skrifað sér. Í bréfinu biðst Hyde afsökunar á uslanum sem hann hefur valdið. Utterson tekur hins vegar eftir því að rithönd Hydes er keimlík rithönd Jekylls og ályktar því að Jekyll hafi falsað bréfið til að vernda Hyde.

Næstu tvo mánuði virðist Jekyll sjálfum sér líkur á ný en í byrjun janúar fer hann skyndilega að vísa burt öllum gestum, sem eykur áhyggjur fólks af hegðun hans. Dr. Hastie Lanyon, sameiginlegur vinur þeirra Jekylls og Uttersons, deyr úr áfalli eftir að honum berast upplýsingar sem tengjast Jekyll. Fyrir dauða sinn gefur Lanyon Utterson bréf sem á að opna ef Jekyll deyr eða hverfur. Seint í febrúar, á annarri göngu með Enfield, byrjar Utterson að ræða við Jekyll í gegnum gluggann á tilraunastofu hans. Skyldilega skellir Jekyll glugganum og hverfur, sem gerir Utterson hverft við.

Snemma í mars heimsækir bryti Jekylls, hr. Poole, Utterson og segir Jekyll hafa lokað sig af inni á tilraunastofu sinni í margar vikur. Utterson og Poole brjótast inn í tilraunastofuna og finna þar lík Hydes í fötum Jekylls. Vettvangurinn bendir til þess að hann hafi fyrirfarið sér. Þeir finna bréf frá Jekyll til Uttersons. Utterson les fyrst bréf Lanyons og síðan bréf Jekylls.

Í bréfi Lanyons kemur fram að hann hafi orðið fyrir áfalli eftir að hann sá Hyde drekka lyf sem breytti honum í Jekyll. Í bréfi Jekylls útskýrir hann að hann hafi alltaf gert strangar siðferðislegar kröfur til sjálfs sín á almannafæri, en hafi verið haldinn ýmsum löstum í einrúmi og hafi skammast sín fyrir það. Hann fann upp leið til að breyta ásjónu sinni og geta þannig hagað sér á ósiðlegan máta án þess að fólk þekkti hann. Hinn umbreytti Jekyll, Hyde, varð illgjarn, nautnasjúkur og sjálfselskur. Í fyrstu hafði Jekyll stjórn á umbreytingunum með lyfinu en nótt eina í ágúst breyttist hann óviljugur í Hyde á meðan hann svaf.

Jekyll ákvað að hætta að breyta sér í Hyde. Nótt eina lét hann hins vegar freistast til að drekka lyfið á ný. Eftir að hafa verið birgður inni svona lengi drap Hyde Carew. Jekyll varð skelfingu lostinn og reyndi af alefli að koma í veg fyrir umbreytingarnar. Snemma í janúar breyttist hann hins vegar óviljandi í Hyde á meðan hann var vakandi. Hyde var þá langt í burtu frá tilraunastofu sinni og eftirlýstur af lögreglu fyrir manndráp. Til að forðast handtöku skrifaði hann því bréf til Lanyons með rithönd Jekylls og bað hann um að koma með efnablöndur úr tilraunastofunni til sín. Hyde blandaði efnunum saman í viðurvist Lanyons, drakk lyfið og breyttist í Jekyll. Áfallið af því að sjá umbreytinguna leiddi síðan til dauða Lanyons. Ósjálfráðar umbreytingar Jekylls urðu síðan enn tíðari og stærri skammta af lyfinu þurfti til að snúa þeim við. Ein þessara umbreytinga leiddi til þess að Jekyll skellti skyndilega glugganum framan í Utterson.

Brátt varð Jekyll uppiskroppa með salt til að brugga lyfið og næstu skammtar af lyfinu sem bruggaðir voru með nýjum hráefnum virkuðu ekki. Jekyll ályktaði að einhver eiginleiki upphaflega hráefnisins hefði verið nauðsynlegur svo lyfið gæti haft áhrif. Eftir að hafa gert sér grein fyrir því að hann myndi breytast varanlega í Hyde skrifaði Jekyll niður alla frásögnina. Í lokin viðurkennir Jekyll að hann sé ekki viss hvort Hyde verði tekinn af lífi eða hvort hann safni kjarki til að fyrirfara sér, en honum er sama: Vitund Jekylls er að hverfa og því er það undir Hyde einum komið að mæta örlögum sínum.

Remove ads

Tilvísanir

Loading related searches...

Wikiwand - on

Seamless Wikipedia browsing. On steroids.

Remove ads