Ratko Mladić
Bosníu-serbneskur hershöfðingi og dæmdur stríðsglæpamaður From Wikipedia, the free encyclopedia
Remove ads
Ratko Mladić (kyrillískt letur: Ратко Младић; f. 12. mars 1942) er bosníu-serbneskur fyrrum herforingi sem leiddi her Lýðveldis Bosníu-Serba (Republika Srpska) í Júgóslavíustyrjöldunum. Árið 2017 sakfelldi Alþjóðlegi stríðsglæpadómstóllinn fyrir fyrrverandi Júgóslavíu hann fyrir að fremja stríðsglæpi, glæpi gegn mannúð og þjóðarmorð með atferli sínu í stríðunum. Hann afplánar nú lífstíðardóm fyrir glæpi sína í Haag.
Remove ads
Æviágrip
Ratko Mladić fæddist árið 1942 í þorpinu Božanovići í Bosníu.[1] Faðir hans barðist í andspyrnuhreyfingu Títós gegn fasistastjórn Króatíu og bandamönnum hennar í seinni heimsstyrjöldinni og var drepinn af Króötum. Mladić sagði dauða föður síns hafa haft mikil áhrif á sig og að hann hefði alltaf óskað hefnda. Hann gekk í júgóslavneskan herskóla og vakti þar ungur athygli fyrir metnað og gáfur.[2]
Þegar Júgóslavíustríðin brutust út við upplausn Júgóslavíu árið 1991 var Mladić ofursti í júgóslavneska hernum og stýrði hersveitum í Króatíu í króatíska sjálfstæðisstríðinu. Þegar Bosnía og Hersegóvína lýstu yfir sjálfstæði sama ár lýstu Bosníuserbar undir forystu Radovans Karadžić yfir stofnun eigin lýðveldis. Næsta ár hófust átök milli Bosníuserba annars vegar og Bosníaka og bosnískra Króata hins vegar og varð Mladić þá yfirmaður vopnaðra sveita Bosníuserba, sem nutu stuðnings Júgóslavíuhers.[1]
Í Bosníustríðinu stýrði Mladić umsátrinu um Sarajevó, sem stóð í 44 mánuði frá 1992 til 1996. Í umsátrinu voru um 10.000 manns drepin, þar á meðal 1.500 börn. Sum dóu úr sulti en önnur voru drepin af stórskotaliðum og leyniskyttum.[3]
Þann 11. júlí 1995 hertók her Mladićs bæinn Srebrenica, sem Sameinuðu þjóðirnar höfðu lýst átakalaust svæði. Eftir að Bosníuserbar höfðu tekið yfir Srebrenica gaf Mladić út tilkynningu um að Bosníakar í borginni hefðu ekkert að óttast.[4] Hann greindi fjölmiðlum frá því að fólkið yrði flutt á brott og að það væri öruggt. Konur og börn voru flutt af svæðinu en um 8.000 karlmenn og drengir urðu eftir svo hægt væri að „yfirheyra“ þá.[5]
Á næstu tíu dögum myrtu hersveitir Mladićs kerfisbundið um 8.000 Bosníaka í Srebrenica, aðallega karlmenn og drengi á aldrinum 16 til 60 ára. Eftir morðin reyndu hersveitirnar að dylja glæpina með því að koma líkamsleifunum fyrir í hundruð fjöldagrafa.[6] Sumir voru skotnir við Potočari en flestir voru myrtir þegar þeir reyndu að flýja yfir á svæði undir yfirráðum Bosníaka. Þeir voru ýmist gripnir og teknir af lífi eða skotnir úr launsátri, þrátt fyrir að langflestir þeirra væru óvopnaðir.[7] Þetta urðu stærstu fjöldamorð í Evrópu frá því í seinni heimsstyrjöldinni.[8]
Í ágúst 1995 hófu hersveitir Atlantshafsbandalagsins loftárásir á bækistöðvar Bosníuserba og eftir þriggja vikna viðræður var samið um frið í Bosníustríðinu með Dayton-samkomulaginu.[1] Í júlí næsta ár gaf Alþjóðlegi stríðsglæpadómstóllinn fyrir fyrrverandi Júgóslavíu út handtökuskipun gegn Mladić og Radovan Karadžić. Tvær ákærur voru gefnar út gegn Mladić, sú fyrri um þjóðernishreinsanir og hryðjuverk á landsvæðum Bosníuserba og hin síðari um morðin og fjöldaaftökurnar í Srebrenica.[2]
Eftir að handtökuskipunin var gefin út lifði Mladić fyrir opnum tjöldum í Serbíu, þar sem hann naut verndar hjá stjórn Slobodans Milošević. Eftir að Milošević féll frá völdum árið 2000 fór Mladić í felur og dvaldist meðal annars í neðanjarðarbyrgjum í Bosníu og í herstöðvum. Mál Mladićs varð serbneskum stjórnvöldum erfitt þar sem hann naut vinsælda sem þjóðhetja meðal margra landsmanna en Evrópusambandið gaf til kynna að aðildarviðræður Serbíu gætu ekki hafist fyrr en hann yrði framseldur.[9] Stjórnvöld í Serbíu neituðu því lengst af að þau vissu hvar felustaður Mladićs væri en síðar viðurkenndu þau að hann hefði verið undir verndarvæng hersins fram á mitt árið 2002 og hefði hlotið eftirlaun frá hernum til desember 2005.[10]
Mladić var loks handtekinn í Serbíu árið 2011 og Boris Tadić, forseti landsins, tilkynnti að hann yrði framseldur til Haag.[11] Í nóvember 2017 sakfelldi stríðsglæpadómstóllinn í Haag Mladić fyrir þjóðarmorð, stríðsglæpi og glæpi gegn mannúð og dæmdi hann í ævilangt fangelsi.[3] Dómstóll Sameinuðu þjóðanna staðfesti lífstíðardóminn yfir Mladić eftir áfrýjun í júní 2021. Mladić fordæmdi dóminn og sagði að dómstólnum væri stýrt af vestrænum öflum.[12]
Árið 2022 bárust fréttir af því að Mladić væri alvarlega veikur á sjúkrahúsi í Hollandi.[13]
Remove ads
Tilvísanir
Wikiwand - on
Seamless Wikipedia browsing. On steroids.
Remove ads