Shinzō Abe
90. forsætisráðherra Japans From Wikipedia, the free encyclopedia
Remove ads
Shinzō Abe (安倍 晋三 Abe Shinzō, IPA: [abe ɕiɴzoː]; 21. september 1954 – 8. júlí 2022) var japanskur stjórnmálamaður sem var 57. forsætisráðherra Japans. Hann gegndi forsætisráðherraembættinu í tvígang, frá 2006 til 2007 og svo til 2012 til 2020. Í bæði skiptin var Abe forseti Frjálslynda lýðræðisflokksins, sem hefur farið fyrir stjórn Japans að mestu frá því á sjötta áratugnum. Alls sat Abe í um níu ár í embætti og var því þaulsetnasti forsætisráðherra í sögu Japans. Abe var skotinn til bana á útifundi árið 2022 af manni sem kenndi honum um uppgang hinnar umdeildu Sameiningarkirkju í Japan.
Abe var hægrisinnaður þjóðernissinni sem talaði lengi fyrir því að utanríkisstefnu Japans yrði breytt og horfið frá hreinni friðarstefnu sem hefur verið bundin í stjórnarskrá landsins frá lokum seinna stríðs.[1] Abe var margoft gagnrýndur, sérstaklega í Kína og Suður-Kóreu, fyrir að afneita stríðsglæpum Japana í seinni heimsstyrjöldinni.[2][3]
Remove ads
Æviágrip
Abe var barnabarn fyrrum forsætisráðherrans Nobusuke Kishi, sem var einn af æðstu embættismönnum japanska stjórnkerfisins á tímum seinni heimsstyrjaldarinnar.[4] Faðir Abe, Shintarō Abe, var einnig stjórnmálamaður sem sat á þingi í 33 ár og var um skeið utanríkisráðherra Japans. Shinzō Abe var fyrst kjörinn á þing árið 1993 og öðlaðist lýðhylli árið 2002 þegar hann leiddi viðræður við Norður-Kóreu um lausn Japana sem Norður-Kóreumenn höfðu rænt.[5]
Abe varð forsætisráðherra Japans og leiðtogi Frjálslynda lýðræðisflokksins í fyrra sinn árið 2006 þegar Junichiro Koizumi sagði af sér.[5] Fyrri forsætisráðherratíð Abe varði aðeins í eitt ár, en hann tilkynnti afsögn sína í september 2007. Valdatíð hans hafði þá einkennst af hneykslismálum og minnkandi vinsældum og aðeins 30% Japana sögðust hlynntir ríkisstjórn hans. Abe vísaði til þess að hann gæti ekki haldið uppi skilvirkri stefnu með stuðningi og trausti almennings.[6]
Abe sneri aftur til valda árið 2012, þegar hann leiddi Frjálslynda lýðræðisflokkinn til stórsigurs í þingkosningum.[5]
Á seinni valdatíma sínum innleiddi Abe efnahagsstefnu sem þekkt var undir hinu óformlega heiti „Abenomics“. Grunnur að henni voru svokallaðar „þrjár örvar“. Sú fyrsta fólst í því að seðlabanki Japans stórjók grunnfé sitt og dró úr aðhaldi í peningamálastjórn til að auka peningamagn í umferð. Önnur örin fólst í auknum útgjöldum japanska ríkisins með það að markmiði að auka hagvöxt. Þriðja örin fólst í umbótum á stofnanaumhverfi Japans og niðurskurði í regluverki Japans til að draga úr hömlum sem drægju úr hagvexti.[5]
Abe sagði af sér af heilsufarsástæðum þann 28. ágúst árið 2020. Hann hafði lengi þjáðst af sáraristilbólgu sem hafði þá nýlega versnað.[7]
Á útifundi í júlí 2022 í borginni Nara var Abe skotinn til bana á meðan hann hélt stuðningsræðu fyrir frambjóðanda. Árásarmaðurinn var fyrrverandi sjóliði á fimmtugsaldri að nafni Tetsuya Yamagami, sem notaði heimagerða byssu til verksins.[8][9] Yamagami sagðist hafa drepið Abe þar sem hann taldi hann tengjast Sameiningarkirkjunni í Japan, sértrúarsöfnuði sem hann kenndi um að hafa keyrt móður hans í gjaldþrot.[10][11]
Remove ads
Tilvísanir
Wikiwand - on
Seamless Wikipedia browsing. On steroids.
Remove ads