Borgarastyrjöldin í Jemen (2014–)
From Wikipedia, the free encyclopedia
Remove ads
Borgarastyrjöldin í Jemen eru átök sem hófust árið 2014 og eru tveir hópar sem berjast þar um völd. Annars vegar eru það Hútí-fylkingin og hópar sem studdu Ali Abdullah Saleh fyrrum forseta landsins. Þeir stjórna höfuðstaðnum Sana. Hins vegar eru það hópar sem styðja alþjóðlega viðurkennda stjórn Jemens, sem nú er í höndum leiðtogaráðs undir stjórn Rashad al-Alimi, og hafa höfuðstöðvar í borginni Aden. Stjórnvöld Sádi-Arabíu hafa blandað sér í átökin og styðja stjórn al-Alimi.
Þar sem uppreisnarher Húta er talinn njóta stuðnings stjórnvalda í Íran er gjarnan litið á átökin í Jemen sem leppstríð á milli Írans og Sádi-Arabíu um áhrif í Mið-Austurlöndum.[5][6]
Um 100.000 manns hafa látist í stríðinu, þar af um 12.000 óbreyttir borgarar, og um 50.000 særst. Sér í lagi hafa stríðsátökin komið illa niður á jemenskum börnum.[7]
Remove ads
Saga
Upphaf borgarastyrjaldarinnar í Jemen má rekja til arabíska vorsins og fjöldamótmæla sem þá fóru fram gegn stjórn forsetans Ali Abdullah Saleh.[8] Í byrjun 2011 var Saleh hrakinn frá völdum og varaforseti hans, Abdrabbuh Mansur Hadi, var kjörinn forseti í kosningum sem fóru fram næsta ár.[8] Hadi erfði erfiða stöðu frá forvera sínum og þurfti bæði að takast á við skæruhernað vígahópa eins og Al-Kaída, víðtæka spillingu í jemenska stjórnkerfinu, matarskort, atvinnuleysi og aðskilnaðarsinna í suðurhluta landsins.[8] Þessir erfiðleikar leiddu til þess að stjórn hans varð berskjölduð gegn uppreisn.
Á árunum 2012 til 2013 stýrði stjórn Hadi nokkurs konar þjóðfundi í Jemen þar sem reynt var að útkljá framtíðarskipulag landsins. Áætlanir voru gerðar í samráði við ýmsa þjóðfélagshópa um að skipta landinu í sex hluta og setja nýja stjórnarskrá.[9]
Hútí-fylkingin, vopnuð samtök minnihlutahóps sjíamúslima í Jemen, hafði lengi háð skærur gegn stjórnarher landsins, en eftir að ný stjórn tók við völdum nýttu þeir sér veikleika hennar og lögðu undir sig norðurhluta Jemen. Í september árið 2014 gerðu Hútar áhlaup á höfuðborgina Sana og tókst að leggja hana undir sig í janúar árið 2015.[8] Hadi forseti var settur í stofufangelsi en í febrúar sama ár tókst honum að flýja úr haldi og koma sér upp bækistöðvum í borginni Aden, sunnar í landinu.[8]
Stuttu síðar gerðu Hútar bandalag við öryggissveitir sem enn voru hliðhollar gamla forsetanum, Saleh, og gerðu tilraun til að ræna völdum í landinu og setja Saleh aftur á forsetastól. Hadi forseti flúði land, en uppreisn Hútanna var nú farin að vekja athygli grannríkisins Sádi-Arabíu. Sádar óttuðust að Hútarnir nytu stuðnings keppinauta þeirra, hins sjíaíslamska Írans, og ákváðu því að grípa inn í styrjöldina með loftárásum ásamt bandalagi átta annarra ríkja.[10] Einkum hefur her Bandaríkjanna veitt Sádum ríkulega aðstoð í styrjöldinni.[11] Deilt er þó um hversu mikil ítök, ef einhver, Íranar hafa í hreyfingu Húta.[12]
Vegna stríðsástandsins hafa öfgahreyfingar á borð við Ríki íslams einnig náð fótfestu í Jemen og hafa sölsað undir sig landsvæði í suðurhluta landsins.[8]
Í lok ársins 2017 flosnaði upp úr bandalagi Hútanna og fyrrum forsetans Saleh. Hersveitir Saleh í Aden háðu orrustu við Hútana og Saleh var skotinn til bana er hann reyndi að flýja úr borginni yfir á yfirráðasvæði Sáda.[13]
Brestir hafa einnig myndast í bandalaginu sem berst gegn Hútunum. Þann 11. ágúst árið 2019 tókst Umbreytingaráði suðursins (STC), sveitum aðskilnaðarsinna sem vilja aukið sjálfræði fyrir suðurhluta Jemens, að hertaka borgina Aden, þar sem stjórn Hadi hafði haft aðsetur sitt, með hjálp Sameinuðu arabísku furstadæmanna.[14][15][16] Stjórn Hadi komst þann 5. nóvember sama ár að samkomulagi við STC um að ríkisstjórninni yrði leyft að snúa aftur til Aden og skyldi mynda 24 ráðherra ríkisstjórn þar sem stjórnarsinnar og STC fengu 12 ráðherra hvor.[17] Stjórn STC rauf þetta samkomulag hins vegar í apríl árið 2020 og lýsti yfir sjálfstæði Suður-Jemens.[18][19] Ráðið dró sjálfstæðisyfirlýsinguna til baka í lok júlí sama ár.[20]
Þann 14. september 2019 var gerð drónaárás á tvær olíuvinnslustöðvar sádi-arabíska ríkisolíufyrirtækisins Aramco innan Sádi-Arabíu. Árásin skaðaði olíuframleiðslu Sáda og hafði mikil áhrif á alþjóðlegt olíuverð. Hútar lýstu yfir ábyrgð á árásinni en Sádar og Bandaríkjamenn hafa sakað Írana um að standa að baki henni.[21][22][23] Íranar hafa neitað sök í málinu.[24]
Þann 7. apríl 2022 tilkynnti Hadi að hann hygðist stíga til hliðar og framselja sérstöku leiðtogaráði völd sín sem forseti.[25]
Remove ads
Stríðsglæpir
Allir stríðsaðilar í jemensku borgarastyrjöldinni hafa sætt ásökunum um stríðsglæpi og mannréttindabrot. Í ágúst árið 2018 gaf rannsóknarnefnd mannréttindasérfræðinga Sameinuðu þjóðanna út skýrslu þar sem því var lýst yfir að hvorki stjórnarher Jemens, alþjóðabandalag Sáda né Hútí-fylkingin hafi reynt að takmarka mannfall óbreyttra borgara í stríðinu.[26][27] Samkvæmt skýrslunni hefur hernaðarbandalag Sádi-Arabíu gert að minnsta kosti 32 árásir á sjúkrahús, skóla, moskur og menningarhús sem njóta verndar samkvæmt alþjóðalögum. Þá voru rakin fjölmörg tilfelli þar sem hernaðarbandalagið hefur ráðist á íbúðahverfi, markaði og önnur opin almenningssvæði með þeim afleiðingum að hundruðir óbreyttra borgara hafa látið lífið.[28]
Í skýrslu sem Amnesty International gaf út um styrjöldina í júlí sama ár voru stjórnarher Jemens og hersveitir Sameinuðu arabísku furstadæmanna sökuð um gróf mannréttindabrot á borð við kerfisbundin mannrán og pyntingar.[29] Í skýrslunni eru Sameinuðu arabísku furstadæmin sökuð um að hafa komið upp valdakerfi á hernámssvæðum sínum í Jemen þar sem jemenskir borgarar er handteknir af tilefnislausu og pyntaðir, meðal annars með raflostum og kynferðislegu ofbeldi.[30]
Í skýrslu sem fréttastofan AP vann í samstarfi við Pulitzer-stofnunina og birti í desember 2018 var komist að þeirri niðurstöðu að Hútar pynti fanga sína. Samkvæmt skýrslunni hafa um þúsund verið pyntaðir og 186 látist af um 18.000 skráðum föngum Hútí-fylkingarinnar.[31] Í skýrslu Sameinuðu þjóðanna eru Hútar jafnframt sakaðir um að brjóta á kvenfrelsi og trúfrelsi á yfirráðasvæði sínu og um að hafa fangelsað Jemena sem aðhyllast Bahá'í-trú.[28]
Bandaríkin, Bretland og Frakkland hafa verið sökuð um hlutdeild í stríðsglæpum alþjóðabandalagsins vegna vopnasölu ríkjanna til Sádi-Arabíu.[32] Í mars árið 2019 samþykktu bæði fulltrúadeild og öldungadeild Bandaríkjaþings frumvarp þess efnis að Bandaríkin skyldu hætta hernaðarstuðningi og vopnasölum til Sádi-Arabíu[33] en Donald Trump Bandaríkjaforseti beitti neitunarvaldi gegn ályktuninni. Trump færði þær röksemdir að vopnasölur til Sáda væru nauðsynlegar til að verjast Írönum og bandamönnum þeirra í Austurlöndum nær og að án nákvæmra vopna yrði mannfall óbreyttra borgara í styrjöldinni enn meira.[34] Eftir að stjórnarskipti urðu í Bandaríkjunum árið 2021 tilkynnti Joe Biden, nýr forseti landsins, hins vegar þann 4. febrúar að Bandaríkin hygðust hætta fjárstuðningi við stjórnarherinn í stríðinu.[35]
Remove ads
Friðarumleitanir
Alþjóðlegar friðarumleitanir í borgarastyrjöldinni hafa borið takmarkaðan árangur. Í desember árið 2018 hittust fulltrúar Húta og ríkisstjórnar Jemen þó í friðarviðræðum sem haldnar voru í Stokkhólmi í Svíþjóð með milligöngu Sameinuðu þjóðanna. Á fundinum var fallist á vopnahlé í héraðinu Hodeida og að sveitir beggja fylkinga myndu hverfa frá hafnarborginni Hodeida, sem er ein mikilvægasta borg landsins fyrir innflutning á matvælum. Í stað þeirra voru öryggissveitir á vegum Sameinuðu þjóðanna staðsettar í borginni.[36][37] Vopnahléð í Hodeida var enn í gildi í júlí 2019 en er talið brothætt.[38]
Þann 8. apríl 2020 lýsti hernaðarbandalag Sáda einhliða yfir vopnahléi vegna kórónaveirufaraldursins það ár.[39]
Í mars 2022 féllust stríðandi fylkingar á tveggja mánaða vopnahlé.[40]
Tímalína

2015
- 25. mars: Forsetinn Abdrabbuh Mansur Hadi flýr höfuðborgina Sana. Sama dag hefur Sádí Arabía loftárásir gegn Hútum.[41]
- 26. mars: Flugher Sádí Arabíu gerir árásir á alþjóðaflugvöllinn í Sana'a og herflugvöllinn al Dulaimi. Alls látast 17 í árásunum.[42]
- 27. mars: Hersveitir undir forystu Sádí Arabíu og Egyptalands gera árásir á Jemen annan daginn í röð, sem skilja eftir sig 10 látna í umdæminu Saada. Sádí Arabía lýsir því jafnframt yfir að flugbanni verði skýrt uppi haldið.[43]
- 28. mars: Loftárásir halda áfram, Sádí Arabía gerir fullt tilkall til Jemensks flugsvæðis og flugumferðar.[44] Ennfremur heldur Sádí Arabía því fram að hafa eyðilagt eldflaugageymslu í eigu Húta samstundis því að flytja á brott hóp á vegum Sameinuðu Þjóðanna í Sana'a.[45]
- 29. mars: Þrátt fyrir flugbann sett af Sádí Arabíu, sendir Pakistan Boeing 747 þotu til þess að flytja á brott pakistanska ríkisborgara frá Jemen sökum neyðarástandsins.[46]
- 30. mars: Kína safnar ríkisborgurum sínum í landinu burt vegna áhyggja af öryggisástandinu.[47] Flóttamannabúðir í Harad Umdæmi verða fyrir loftárásum Sádí Arabíu þar sem minnst 40 látast. Hútar bæta undir sig landsvæði við seinasta vígi Hadi forseta í Aden.[48]
- 3. apríl: Flugvélar frá Sádi-Arabíu kasta út vopnum og sjúkrabúnaði yfir Tawahi.[50]
- 10. apríl: Pakistanska þingið kýs gegn tillögu um að ganga til liðs við bandalag Sádi-Arabíu og Egyptalands og lýsir yfir hlutleysi sínu.[51] Sameinuðu þjóðirnar vara við því að ástandið haldi áfram að fara versnandi samtímis því sem þær flytja mannúðaraðstoð ýmiskonar til landsins.[52] Indland flytur í veg 5600 manns frá Jemen þar með talið 690 ríkisborgara sína, sem hluta að því sem þeir kalla aðgerðina Raahat þrátt fyrir flugbann.[53]
- 11. apríl: Sádi-Arabía staðhæfir að loftárásir þeirra hafi orðið yfir 500 Hútum að bana. Ríkisstjórn Jemen heldur því fram að 385 óbreyttir borgarar hafi látist og 342 særst. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin heldur því á hinn bóginnn fram að 648 manns hafi látist og 2191 særst, þar með talið hermenn.[54]
- 14. apríl: Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna kýs refsiaðgerðir gegn Hútum með 14 atkvæðum með, 0 á móti og 1 atkvæði sem sat hjá frá Rússum. Refsiaðgerðirnar innihalda vopnasölubann til að stemma stigu við ofbeldinu. Rússar sögðust einungis myndu styðja vopnasölubann sem næði jafnt til fylkinganna á meðan Bandaríkin eru að taka klára afstöðu gegn Hútum og með Sádí-Arabíu og stjórnarhernum.[55]
- 16. apríl: Al-Kaída klófestir Riyan-flugvöll í borginni Al Mukalla sunnarlega í landinu.[56]
2016
- 1 október: Skip, af gerðinni HSV-2 Swift, í eigu Sameinuðu Arabísku Furstadæmanna sem notaðist við mannúðarstörf verður fyrir árásum Húta og skemmist.
2017
- 23. janúar: Fylgismenn Hadi taka höfnina Mokha frá Hútum. Hún hafði verið undir stjórn Húta frá nóvember 2014.[57]
- 18. apríl: Þyrla frá Sádí Arabíu af gerðinni Black Hawk er skotin niður með 12 hermönnum. Hútar lýsa yfir ábyrgð.[58]
- 4. nóvember: Flugskeyti sem skotið var af Hútum var skotið niður í lofti yfir alþjóðaflugvellinum í Ríad í Sádí Arabíu. [59] Var af gerðinni Volcano H-2 þótt Bandaríkin hafi sagt að það hafi verið af írönsku gerðinni Qiam 1.[60]
- 28. nóvember: Slær í bardaga milli Húta og sveita forsetans. Fyrrum forsetinn Ali Abdullah Saleh sem studdi Hadi var skotinn til bana á flótta úr borginni.
- 7. desember: Hersveitir hliðhollar Hadi grípa svæðishlutann Al-Khoukha við rauðahafsströndina.[61]
2018
- 3. maí: Sameinuðu arabísku furstadæmin hliðholl Hadi setja niður hermenn á eyjunni Sokotra og taka stjórn á flugvelli og höfnum.
- 13. desember: Fulltrúar Húta og stjórnarsinna semja um vopnahlé í borginni Hodeida eftir friðarviðræður í Stokkhólmi.
- 18. desember: Vopnahlé í Hodeida tekur gildi.[62]
2019
- 11. ágúst: Umbreytingaráð suðursins hertekur Aden og hrekur ríkisstjórn Hadi frá borginni með aðstoð Sameinuðu arabísku furstadæmanna.
- 14. september: Drónaárásir eru gerðar á tvær olíuvinnslustöðvar Aramco í Sádi-Arabíu.
- 28. september: Hútar lýsa því yfir að „þúsundir“ sádi-arabískra hermanna hafi verið handteknir eftir áhlaup Húta á landamærum Jemen og Sádi-Arabíu.[63]
2020
- 27. september: Stríðandi fylkingar í Jemen samþykktu fangaskipti í gegnum Sameinuðu þjóðirnar.[64]
2021
2022
Remove ads
Heimildir
Wikiwand - on
Seamless Wikipedia browsing. On steroids.
Remove ads