Gisèle Pelicot
Þolandi í Mazan-nauðganamálinu og femínísk baráttukona (f. 1952) From Wikipedia, the free encyclopedia
Remove ads
Gisèle Pelicot (f. 7. desember 1952) er frönsk kona sem var ítrekað byrluð lyf og henni nauðgað af eiginmanni sínum, Dominique Pelicot, á níu ára tímabili frá 2011 til 2020. Dominique bauð einnig fjölda karlmanna, sem hann hafði haft samband við gegnum vefsíðu, að nauðga henni á meðan hún var meðvitundarlaus, aðallega á heimili hjónanna í Mazan. Gisèle gerði sér ekki grein fyrir ofbeldinu fyrr en árið 2020, þegar Dominique var handtekinn fyrir faldafeykjanir gegn konum á stórmarkaði og ljósmyndir af nauðgunum Gisèle fundust við lögregluleit á tölvubúnaði hans.
Þegar réttað var yfir Dominique og fimmtíu öðrum karlmönnum fyrir nauðgun, tilraun til nauðgunar og kynferðisofbeldi í Avignon árið 2024 afsalaði Gisèle sér rétti til nafnleyndar og til lokaðra réttarhalda. Réttarhöldin vöktu heimsathygli og hugrekki Gisèle og áræðni hennar við að tala máli þolenda kynferðisofbeldis vöktu víðtækan stuðning og aðdáun á henni. Hún var hyllt sem femínísk hetja og birtist á lista BBC yfir 100 konur ársins og á lista Financial Times yfir 25 áhrifamestu konur ársins.
Í desember árið 2024 voru 50 af 51 sakborningi, þar á meðal Dominique, sakfelldir fyrir nauðgun, tilraun til nauðgunar og kynferðisofbeldi gegn Gisèle. 51. maðurinn, sem hafði ekki verið ákærður fyrir að nauðga Gisèle, var sakfelldur fyrir að nauðga eiginkonu sinni. Dominique hlaut 20 ára fangelsisdóm, sem er hámarksrefsing, en hinir hlutu þriggja til 15 ára dóma.
Remove ads
Æviágrip
Gisèle Pelicot giftist Dominique Pelicot þegar þau voru 21 árs og eignaðist með honum þrjú börn.[1] Árið 2013 fluttu hjónin til þorpsins Mazan nálægt Alpafjöllum í suðurhluta Frakklands til að njóta efri áranna.[2]
Árið 2011 fór hún að finna fyrir minnisleysi og gekkst undir fjölda læknisrannsókna. Hún taldi sig vera með heilabilun en minnisleysið var í raun aukaverkun af lyfjum sem Dominique hafði byrlað henni með reglubundnum hætti. Dominique hafði reglulega nauðgað Gisèle á meðan hún var meðvitundarlaus af áhrifum lyfjanna og hafði boðið tugum annarra karlmanna að gera hið sama á heimili þeirra.[3] Dominique hafði nálgast hina mennina á spjallrás á netinu þar sem hann gekk undir dulnefninu „à son insu“ eða „án hennar vitundar“. Hann sagði þeim að eiginkona sín væri haldin því blæti að menn hefðu kynmök við hana sofandi. Mennirnir sögðust síðar hafa talið sjálfa sig vera að taka þátt í hlutverkaleik. Dominique notaði hins vegar oft orðið nauðgun í samtölum við þá.[4]
Árið 2020 var Dominique handtekinn við að taka myndir undir pils kvenna. Þetta var í annað skipti sem hann var staðinn að því að gera þetta, en hann hafði áður verið handtekinn fyrir sömu háttsemi árið 2010. Eftir handtökuna 2020 fann lögregla myndir og myndbönd af Dominique og öðrum mönnum að nauðga Giséle við leit í tölvubúnaði hans.[3] Lögreglan sýndi Giséle myndirnar við yfirheyrslur eftir handtöku Dominique.[2] Hún horfði í fyrsta sinn á myndböndin af nauðgunum sínum í maí árið 2024.[1]
Á meðan nauðgunarmálið var til rannsóknar voru Pelicot-hjónin aldrei nafngreind. Þegar réttarhöld hófust í máli Dominique og hinna mannanna krafðist Gisèle þess hins vegar, þvert á ráðleggingar, að réttarhöldin yrðu höfð opin almenningi og fjölmiðlum. Gisèle lagði áherslu á að skömmin væri gerendanna en ekki hennar sem þolandans.[1] Gisèle og lögfræðingar hennar fengu því einnig framgengt að myndböndin af mönnunum að nauðga henni voru sýnd í dómssalnum fyrir allra augum.[5] Í viðtölum við fjölmiðla sagðist Gisèle hafa verið drifin áfram af þörfinni til að breyta frönsku samfélagi og skila skömm sem þolendur kynferðisofbeldis upplifðu til gerenda.[6]
Réttarhöldin, sem hófust árið 2024, vöktu heimsathygli og Gisèle var hyllt sem hetja fyrir að leyfa þeim að fara fram fyrir opnum tjöldum. Að réttarhöldunum loknum þakkaði Emmanuel Macron Frakklandsforseti henni fyrir að sýna „reisn og hugrekki [hefði] hreyft við og veitt Frakklandi og öllum heiminum innblástur“.[7]
Réttarhöldunum lauk þann 16. desember 2024.[8] Þremur dögum síðar var Dominique sakfelldur fyrir alla ákæruliði og dæmdur í 20 ára fangelsi. Allir sakborningarnir, sem voru um 50 talsins, voru sakfelldir í að minnsta kosti einum ákærulið og hlutu fangelsisdóma.[9]
Remove ads
Tilvísanir
Wikiwand - on
Seamless Wikipedia browsing. On steroids.
Remove ads