IceGuys
From Wikipedia, the free encyclopedia
Remove ads
Iceguys er íslensk strákahljómsveit sem var stofnuð árið 2023. Meðlimir hennar eru Aron Can, Herra Hnetusmjör, Rúrik Gíslason og bræðurnir Friðrik Dór og Jón Jónsson.[1][2] Tónlistarmaðurinn Ásgeir Orri Ásgeirsson semur og tekur upp flest lög hljómsveitarinnar.[3] Hljómsveitin stofnaði hlutafélagið Fegurð er glæpur ehf. til að sjá um útgáfu á tónlistinni.[4][5] Árið 2004 hafði samnefnd hljómsveit verið stofnuð.[6][7][8]
Jón Jónsson átti frumkvæðið að stofnun hljómsveitarinnar í upphafi árs 2023 þegar hann bætti hljómsveitarmeðlimunum í spjallhóp á Instagram og bar upp hugmyndina um að stofna strákahljómsveit. Allir meðlimir hljómsveitarinnar voru fljótir að svara játandi, en Rúrik var hikandi í byrjun. Jón fékk leikstjórann og fyrrum landsliðsmarkvörðinn Hannes Þór Helgason til að leikstýra fyrsta myndbandi hljómsveitarinnar og sannfæra Rúrik um að taka þátt.[1][2]
Þann 16. júní 2023 kom út fyrsta lagið þeirra „Rúlletta“.[9][10] Annað lagið þeirra „Krumla“ kom út 20. júlí 2023. Til að kynna lagið fylgdi með því tónlistarmyndband.[11] Hljómsveitin kom óvænt fram á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum þann 4. ágúst.[12] Þriðja lagið þeirra „Stingið henni í steininn“ kom út 29. september 2023. Þann 10. nóvember 2023 kom út stuttskífan Þessi Týpísku Jól þar sem samnefnt lag fylgdi.[13]
Í ágúst 2023 hófust upptökur á sjónvarpsþáttunum IceGuys þar sem skyggnst var á bak við tjöldin hjá hljómsveitinni.[14][15] Fjórir þættir voru teknir upp.[16] Þættirnir voru frumsýndir í Sjónvarpi Símans þann 6. október 2023 og slógu áhorfsmet sjónvarpsstöðvarinnar.[17] Þann 16. desember 2023 hélt hljómsveitin þrenna tónleika í Kaplakrika í Hafnarfirði þar sem tæplega tíu þúsund gestir mættu.[18]
Fjórða lagið þeirra, „Gemmér Gemmér“, kom út 19. júlí 2024 og naut mikilla vinsælda.[19] Lagið hlaut verðlaun fyrir besta myndbandið á Hlustendaverðlaununum 2025.[20] Þann 18. október 2024 gáfu þeir út plötuna 1918, en nafnið er tilvísun í frostaveturinn mikla. Sama dag gáfu þeir einnig út bók.[21] Þann 15. nóvember gaf hljómsveitin út lagið „Sexy Ru“ þar sem Rúrik söng einn undir listamannsnafninu Sexy Ru.[22][23] Önnur þáttaröð sjónvarpsþáttanna kom út 24. nóvember. Í desember 2024 slógu þeir met þegar þeir héldu 5 tónleika í Laugardalshöll á tveimur dögum og seldu 24.000 miða, en tónleikasalurinn tekur 5.000 manns.[24][25] Í aðdraganda tónleikanna opnuðu þeir verslun í Kringlunni þar sem þeir seldu varning og árituðu bókina.[26]
Þann 21. mars 2025 gaf hljómsveitin út lagið „Stígðu inn“ og gaf í kjölfarið út ís í samstarfi við Kjörís.[27] Hugmyndin að ísnum var innblásin af Bestís, ís sem áhrifavaldarnir Sunneva Einarsdóttir og Birta Líf Ólafsdóttir gerðu í samstarfi við Kjörís.[28]
Remove ads
Útgefið efni
Stuttskífur
- Þessi Týpísku Jól (2023)
- 1918 (2024)
Smáskífur
- „Rúlletta“ (2023)
- „Krumla“ (2023)
- „Stingið Henni í Steininn“ (2023)
- „Gemmér Gemmér“ (2024)
- „Sexy Ru“ (2024) (ásamt Sexy Ru)
- „Þegar Jólin Koma“ (2024)
- „Stígðu Inn“ (2025)
Tilvísanir
Wikiwand - on
Seamless Wikipedia browsing. On steroids.
Remove ads