Medici-ætt
From Wikipedia, the free encyclopedia
Remove ads
Medici-ættin var ítalskt ættarveldi sem komst upphaflega til æðstu metorða í Lýðveldinu Flórens á tíma Cosimo de' Medici og sonarsonar hans Lorenzo „hins mikilfenglega“ á fyrri hluta 15. aldar. Medici-ættin var upphaflega frá Mugello-dalverpinu í Toskana og auðgaðist smám saman á verslun þar til hún stofnaði Medici-bankann. Bankinn var sá stærsti í Evrópu á 15. öld og stuðlaði að pólitískum uppgangi Medici-ættarinnar í Flórens, þótt meðlimir hennar hafi að nafninu til áfram verið óbreyttir borgarar fremur en erfðaeinvaldar fram á 16. öld.

Árið 1532 áskotnaðist fjölskyldunni erfðatitillinn hertogi af Flórens. Árið 1569 breyttist hertogadæmið í Stórhertogadæmið Toskana eftir að meira landsvæði hafði verið lagt undir það. Medici-ættin réði yfir stórhertogadæminu frá stofnun þess á tíma Cosimo 1. allt fram að andláti Gian Gastone de' Medici árið 1737. Medici-ættin gat af sér fjóra páfa kaþólsku kirkjunnar — Leó 10. (1513–1521), Klemens 7. (1523–1534), Píus 4. (1559–1565) og Leó 11. (1605) — og tvær drottningar Frakklands — Katrínu af Medici (1547–1559) og Maríu af Medici (1600–1610).[1] Í valdatíð fyrstu stórhertoganna dafnaði efnahagur Stórhertogatæmisins Toskana en ríkið var orðið gjaldþrota þegar Cosimo 3. fór með stjórn (árin 1670–1723).
Medici-ættin auðgaðist upphaflega á vefnaðarvöruverslun með ullargildi Flórens, Arte della Lana. Líkt og aðrar ítalskar valdafjölskyldur réð Medici-ættin yfir stjórn borgarinnar sinnar. Ættinni tókst að ná Flórens undir sína stjórn og stuðla að umhverfi þar sem list og húmanismi fengu að dafna. Ítalska endurreisnin spratt upp úr valdatíma Medici-ættarinnar og annarra ítalskra valdaætta eins og Visconti- og Sforza-ættanna í Mílanó, Este-ættarinnar í Ferrara, Borgia- og Della Rovere-ættanna í Róm og Gonzaga-ættarinnar í Mantúa.
Medici-bankinn var, frá stofnun hans árið 1397 til upplausnar hans 1494, ein voldugasta og virtasta stofnun í Evrópu og Medici-ættin var lengi talin auðugasta fjölskylda Evrópu. Með þessum auði gat fjölskyldan aflað sér pólitískra valda í Flórens og síðar víðar um Ítalíu og Evrópu. Viðskiptaveldi þeirra var meðal hinna fyrstu sem notuðu höfuðbækur í bókhaldi sínu með þróun tvíhliða bókhaldskerfis til að hafa eftirlit með inneignum og skuldfærslum.
Medici-ættin fjármagnaði byggingu Péturskirkjunnar og Dómkirkjunnar í Flórens og styrkti hugsuði og listamenn á borð við Donatello, Brunelleschi, Botticelli, Leonardo da Vinci, Michelangelo, Raffaello, Machiavelli, Galileo og Francesco Redi. Ættin fjármagnaði uppfinningu píanósins[2] og færa má rök fyrir að hún hafi stutt þróun óperunnar.[3] Medici-ættin lék jafnframt lykilhlutverk í gagnsiðbótinni frá upphafi siðaskiptanna fram að kirkjuþinginu í Trentó og í frönsku trúarbragðastríðunum.
Remove ads
Tilvísanir
Wikiwand - on
Seamless Wikipedia browsing. On steroids.
Remove ads