Mohammad-Ali Rajai
2. forseti Írans (1933-1981) From Wikipedia, the free encyclopedia
Remove ads
Mohammad-Ali Rajai (persneska: محمدعلی رجایی; 15. júní 1933 – 30. ágúst 1981) var íranskur stjórnmálamaður sem var annar forseti Írans frá 2. ágúst 1982 þar til hann var ráðinn af dögum fjórum vikum síðar. Fyrir forsetatíð sína hafði Rajai verið forsætisráðherra í stjórn Abolhassan Banisadr forseta og hafði um leið verið utanríkisráðherra frá 11. mars 1981 til 15. ágúst 1981. Rajai lést í sprengjuárás þann 30. ágúst 1981 ásamt þáverandi forsætisráðherranum Mohammad-Javad Bahonar.
Remove ads
Æska og menntun

Mohammad-Ali Rajai fæddist 15. júní 1933 í Qazvin í Íran.[1] Faðir hans, sem var verslunareigandi að nafni Abdolsamad, lést þegar hann var fjögurra ára gamall.[2][3] Rajai ólst upp í Qazvin og flutti til Teheran á fimmta áratugnum. Hann gekk til liðs við íranska flugherinn þegar hann var sextán eða sautján ára gamall.[4][5] Árið 1959 útskrifaðist hann frá Tarbiat Moallem-háskóla með gráðu í kennslufræði. Hann vann síðar sem stærðfræðikennari.[3][5]
Remove ads
Stjórnmálaferill
Eftir að Rajai flutti til Teheran gekk hann í andófshreyfingar gegn stjórn Múhameðs Resa Pahlavi keisara og átti í tengslum við Mahmoud Taleghani og hreyfinguna Fada'iyan-e Islam.[3] Rajai var um skeið meðlimur í andklerkasinnuðu andspyrnuhreyfingunni Mojahedin-e-Khalq en hann snerist brátt gegn vinstrisinnuðum hugmyndum hennar.[6] Árið 1960 gekk hann í Frelsishreyfingu Írans.[1][4] Hann var að minnsta kosti tvisvar sinnum handtekinn af leynilögreglunni SAVAK fyrir andófsaðgerðir sínar. Rajai sat lengst í fangelsi frá maí 1974 til seinni hluta 1978.[2][4][5] Í ræðu til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna árið 1980 sýndi Rajai áheyrendunum afskræmdan fót sinn og sagði hann hafa afskræmst vegna pyntinga í fangelsi keisarastjórnarinnar.[2][5]

Eftir írönsku byltinguna árið 1979 hætti Rajai í Frelsishreyfingunni og var útnefndur menntamálaráðherra í bráðabirgðastjórn Mehdi Bazargan.[1] Í þessu embætti lét Rajai íslamvæða íranska skóla með því að banna enskukennslu og hætta við kennsluáfanga sem hann taldi „ó-íslamska“, loka háskólum til að koma í veg fyrir andóf stúdenta og reka kennara sem voru honum ósammála.[2][5]
Bráðabirgðastjórnin baðst lausnar þann 6. nóvember 1979 vegna gíslatökunnar í Teheran en Rajai gegndi áfram embætti til 12. ágúst 1980, þegar hann var útnefndur forsætisráðherra af nýkjörnum forseta Írans, Abolhassan Banisadr, sem var undir þrýstingi frá Íslamska lýðveldisflokknum. Aðeins mánuði eftir að Rajai varð forsætisráðherra hófst stríð Írans og Íraks.
Forsetatíð
Banisadr var leystur úr embætti af íranska þinginu þann 21. júní 1981, að sögn fyrir að beita sér gegn klerkastjórninni. Æðstiklerkurinn Ruhollah Khomeini kallaði saman sex manna forsetaráð undir forystu Mohammad Beheshti og síðar Abdolkarim Mousavi Ardebili. Rajai, sem sat í ráðinu, tilnefndi sjálfan sig sem frambjóðanda í forsetakosningum Írans árið 1981. Hann bauð sig fram fyrir Íslamska lýðveldisflokkinn. Rajai vann 91% atkvæðanna og tók formlega við forsetaembætti eftir að hann sór embættiseið þan 2. ágúst 1981.[7] Eitt fyrsta verk hans í embætti var að skipa Mohammad-Javad Bahonar næsta forsætisráðherra Írans.
Remove ads
Morð

Þann 30. ágúst 1981 hélt Rajai fund varnarráðs Írans ásamt Bahonar. Sjónarvottar sögðu síðar frá því að aðstoðarmaður hefði komið með skjalatösku inn í fundarherbergið, lagt hana milli leiðtoganna tveggja og síðan farið. Stuttu síðar opnaði annar hinna viðstöddu töskuna, sem kveikti í falinni sprengju sem sprengdi upp herbergið og drap Rajai, Bahonar og sex aðra embættismenn.[8] Árásin var gerð tveimur mánuðum eftir sprengjuárásina í Haft-e Tir. Írönsk stjórnvöld sögðu Massoud Keshmiri, meðlim í Mojahedin-e-Khalq, bera ábyrgð á árásinni, en aðrir hafa vænt keppinauta Rajai innan stjórnarflokksins um að hafa komið honum fyrir kattarnef.[9][10] Rajai var jarðsettur í Behesht-e Zahra-grafreitnum.
Stjórnmálaskoðanir
Stjórnmálastefna Rajai byggðist á stjórnlagarétti þar sem íslam átti að vera í forréttindastöðu. Hann sagði nauðsynlegt að múslimar færu með stjórn ríkisins og lagði áherslu á hugmynd Khomeini um Velayat-e Faqih (íslamska stjórn). Hann taldi jafnframt nauðsynlegt að ríkisstjórnin ætti í samstarfi við Íslamska byltingarvörðinn og Íslamska byltingardómstólinn. Hann virti persónufrelsi svo lengi sem það braut ekki gegn íslömskum lögum og reyndi á valdatíma sínum að viðhalda stöðugri stjórn.[11]
Remove ads
Tilvísanir
Wikiwand - on
Seamless Wikipedia browsing. On steroids.
Remove ads
