Stóra-Seyla
From Wikipedia, the free encyclopedia
Remove ads
Stóra-Seyla eða Seyla er bær og gamalt höfuðból á Langholti í Skagafirði.[1] Þar var áður þingstaður Seyluhrepps, sem var kenndur við bæinn.[2]
Bærinn hét upphaflega aðeins Seyla en eftir að hjáleigan Litla-Seyla byggðist úr landi jarðarinnar, líklega á 17. öld, var hann kallaður Stóra-Seyla. Nafni Litlu-Seylu var breytt í Brautarholt 1915 og eftir það er bærinn yfirleitt aðeins nefndur Seyla þótt formlegt heiti sé Stóra-Seyla. Nafnið Seyla er talið merkja kelda. Bærinn á víðáttumikið land á Langholti, milli Húseyjarkvíslar að austan og Sæmundarár að vestan.[3]
Seyla var hluti af heimanmundi þeim sem Gottskálk biskup Nikulásson galt með Kristínu dóttur sinni þegar hún giftist Þorvarði Erlendssyni lögmanni 1508.[4] Þorbergur Hrólfsson (1573 - 8. september 1656) eignaðist líklega jörðina snemma á 17. öld og bjuggu ættmenn hans þar lengi síðan, þó ekki óslitið.[5] Launsonur hans var Halldór Þorbergsson annálaritari (1623-1711), sem skrifaði Seyluannál.[6] Árið 1713 bjó Marteinn Arnoddsson prentari við Hólaprentsmiðju á Seylu.[7][8]
Kirkja var á Seylu á miðöldum eins og kemur fram í Sturlungu, þar sem segir frá því að árið 1255, eftir að Oddur Þórarinsson var veginn í Geldingaholti, var lík hans fært að Seylu, þar sem annars var ekki grafreitur, og grafið þar inn undir kirkjugarðsvegg. Þetta var gert vegna þess að Oddur dó í banni og mátti í raun ekki fá leg í vígðri mold.[3]
Remove ads
Heimildir
Wikiwand - on
Seamless Wikipedia browsing. On steroids.
Remove ads