TF-RÁN
þyrla Landhelgisgæslu Íslands (1980-1983) From Wikipedia, the free encyclopedia
Remove ads
Rán, einnig þekkt sem TF-RÁN, var þyrla í eigu Landhelgisgæslu Íslands. Hún var keypt árið 1980 og var af gerðinni Sikorsky S 76 og var sérhönnuð til leitar-, björgunar, gæslu- og eftirlitsstarfa. Hún var kennd við gyðjuna Rán, persónugerving hafsins úr norrænni goðafræði, og var önnur vél landhelgisgæslunnar til að bera nafnið. TF-RÁN fórst í Jökulfjörðum þann 8. nóvember 1983 með fjögurra manna áhöfn.[1]
- Sjá TF-RÁN (flugbátur) fyrir flugbátinn sem var í notkun hjá LHG frá 1955 til 1963.

Remove ads
Saga
TF-RÁN var keypt árið 1980 fyrir 1,6 milljónir dollara, rúmlega 800 milljónir íslenskra króna, og var afhent í september sama ár.[2] Þetta var önnur sérhæfða björgunarþyrlan í sögu Landhelgisgæslunnar, á eftir Sikorsky S-62 þyrlunni TF-GNÁ sem var í notkun á árunum 1972 til 1975. Fyrsta björgunarleiðangur TF-RÁN var 18. nóvember 1980 þegar hún flutti veikan vitavörð frá Hornströndum á sjúkrahús í óveðri.[3]
Þann 8. nóvember 1983, kl: 22:53, lagði þyrlan upp frá varðskipinu Óðni, sem statt var skammt undan Höfðaströnd i Jökulfjörðum, til æfingaflugs. Þremur mínútum síðar heyrðist óljóst kall frá henni og urðu varðskipsmenn á sama tíma einnig varir við leiftur. Umfangsmikil leit hófst þegar í stað og dreif að fiskibáta ásamt því að Flugmálastjórn og Varnarliðið sendu flugvélar af stað. Um klukkan 2 um nóttina fann línubáturinn Orri brak úr þyrlunni, sem reyndist vera hlutar úr spöðum þyrlunnar, björgunarbelti og hjálmur.[4] Vélin fannst skömmu fyrir hádegi 10. nóvember á 82 metra dýpi um hálfa aðra sjómílu norður af Höfðaströnd í Jökulfjörðum.[5] Dagana 14. til 15. nóvember var unnið að því að draga vélina upp á yfirborðið af vélbátinum Sigga Sveins. Þegar hún var komin á um 20 metra dýpi hóf kafarasveit störf við hana og fundu þeir lík tveggja áhafnameðlima í þyrlunni, þeirra Þórhalls Karlssonar, flugstjóra, og Bjarna Jóhannessonar, flugvélstjóra. Lík hinna mannanna tveggja, Björns Jónssonar, flugstjóra og Sigurjóns Inga Sigurjónssonar, stýrimanns, voru ekki um borð í þyrlunni.[6][7] Lík Sigurjóns fannst 31. janúar árið 1989 er það kom í trollið á rækjubátnum Óla ÍS,[8][9] en sami bátur fann hurð þyrlunnar árið 1985 sem talið var að hefði skyndilega opnast og sveiflast upp í aðalþyril vélarinnar og valdið hrapinu.[10][11]
Remove ads
Tilvísanir
Wikiwand - on
Seamless Wikipedia browsing. On steroids.
Remove ads
