Ales Bjaljatskí
Hvítrússneskur andófsmaður og Nóbelsverðlaunahafi From Wikipedia, the free encyclopedia
Remove ads
Ales Víktaravítsj Bjaljatskí (hvítrússneska: Алесь Віктаравіч Бяляцкі; f. 25. september 1962) er hvítrússneskur aðgerðasinni sem er þekktur fyrir störf sín með Vjasna-mannréttindamiðstöðinni. Bjaljatskí vann til friðarverðlauna Nóbels árið 2022 ásamt rússnesku mannréttindasamtökunum Memorial og Miðstöð borgaralegra réttinda frá Úkraínu.[1]
Bjaljatskí hefur setið í fangelsi í heimalandi sínu frá 14. júlí 2021 vegna meintra skattsvika. Málsvarar mannréttindahreyfinga telja fangelsisdóm hans pólitíska ofsókn og skilgreina Bjaljatskí því sem samviskufanga.
Remove ads
Æviágrip
Ales Bjaljatskí er menntaður í bókmenntafræði og tók þátt í andófsaðgerðum gegn stjórn Sovétríkjanna á 8. áratug 20. aldar. Eftir að Sovétríkin liðu undir lok hélt Bjaljatskí áfram andófsaðgerðum gegn stjórnvöldum og baráttu í þágu mannréttinda í nýsjálfstæða lýðveldinu Hvíta-Rússlandi.[2]
Árið 1996 stofnaði Bjaljatskí mannréttindasamtökin Vjasna („Vor“ á hvítrússnesku) sem viðbrögð gegn aðgerðum hvítrússnesku lögreglunnar eftir mótmæli gegn einræðisherranum Alexander Lúkasjenkó.[3] Samtökin berjast gegn mannréttindabrotum hvítrússneskra stjórnvalda og pyntingum fanga.[4]
Bjaljatskí hefur margsinnis verið fangelsaður fyrir störf sín í Hvíta-Rússlandi. Hann var handtekinn þann 4. ágúst 2011 og dæmdur í fjögurra ára fangelsi fyrir að nota bankareikninga sína í Litháen og Póllandi til að fjármagna störf Vjasna. Frá árinu 2003 höfðu hvítrússnesk stjórnvöld neitað að skrá Vjasna og þannig meinað samtökunum að notast við bankareigning í eigin nafni í heimalandinu. Amnesty International taldi réttarhöldin yfir Bjaljatskí ekki réttlát og benti á að sum sönnunargögnin gegn honum hafi verið nafnlaus eða óstaðfest og að yfirheyrslur yfir vitnunum hafi ekki tengsl ákærunum heldur mannréttindastarfi Bjaljatskí og vitnanna sjálfra.[5]
Árið 2013 hlaut Bjaljatskí Václav Havel-verðlaunin, mannréttindaviðurkenningu Evrópuráðsþingsins, við fyrstu veitingu þeirra.[2] Þar sem Bjaljatskí var í fangelsi tók eiginkona hans, Natallía Píntsjúk, við verðlaununum fyrir hans hönd.[6]
Þrýstingur frá alþjóðasamfélaginu stuðlaði að því að Bjaljatskí var látinn laus sumarið 2014. Næsta ár flutti hann erindi fyrir mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna í Genf þar sem hann lýsti ofsóknum gegn sér og öðru mannréttindafólki í Hvíta-Rússlandi.[2]
Bjaljatskí var meðal helstu bakherja Svetlönu Tsíkjanovskaju, sem bauð sig fram til forseta Hvíta-Rússlands á móti Lúkasjenkó árið 2020. Lúkasjenkó var lýstur sigurvegari kosninganna en talið er að hann hafi haft rangt við og flest vestræn ríki viðurkenndu ekki niðurstöðu þeirra. Bjaljatskí var handtekinn eftir mótmæli gegn kosningunum 2020 og hefur verið í haldi án dóms og laga síðan þá.[4]
Árið 2022 hlaut Bjaljatskí friðarverðlaun Nóbels ásamt rússnesku mannréttindasamtökunum Memorial og Miðstöð borgaralegra réttinda frá Úkraínu. Nóbelsnefndin sagði verðlaunahafana hafa „sýnt fram á mikilvægi þess að halda gagnrýni á valdahafa á lofti og vernda grundvallarréttindi borgara.“[1]
Bjaljatskí var dæmdur í tíu ára fangelsi þann 3. mars 2023.[7]
Remove ads
Tilvísanir
Wikiwand - on
Seamless Wikipedia browsing. On steroids.
Remove ads