Fjöldamorðin í Srebrenica
Þjóðarmorð gegn 8.000 Bosníökum í júlí 1995 í Bosníustríðinu From Wikipedia, the free encyclopedia
Remove ads
Fjöldamorðin í Srebrenica, einnig þekkt sem þjóðarmorðið í Srebrenica, var atburður í Bosníustríðinu í júlí 1995 þar sem rúmlega 8.000 karlmenn og drengir af þjóðerni Bosníaka í bænum Srebrenica voru myrtir. Morðin voru aðallega framin af her Bosníuserba undir stjórn Ratko Mladić en serbneska hersveitin Sporðdrekarnir tók einnig þátt í þeim. Morðin eru fyrsta lagalega viðurkennda dæmið um þjóðarmorð í Evrópu frá lokum seinni heimsstyrjaldarinnar.

Remove ads
Saga
Bosnía og Hersegóvína lýsti yfir sjálfstæði árið 1992 og ríkið var fljótt viðurkennt af Bandaríkjunum og af mörgum ríkjum í Evrópu. Bosnía-Hersegóvína hafði áður verið sjálfsstjórnarlýðveldi innan Sósíalíska sambandslýðveldisins Júgóslavíu þar sem fjölmennustu þjóðarbrotin voru Bosníakar, Serbar og Króatar. Þegar ríkið lýsti yfir sjálfstæði við upplausn Júgóslavíu viðurkenndu Bosníuserbar ekki sjálfstæðisyfirlýsinguna og gerðu árásir á nýja ríkið með aðstoð serbneskra stjórnvalda. Margir Bosníuserbar aðhylltust þjóðernissinnaða hugsjón um „Stór-Serbíu“ og beindu spjótum sínum sérstaklega gegn Bosníökum.[1]
Bosníustríðið, sem stóð milli Bosníaka, Króata og Bosníuserba, stóð frá 1992 til 1995 og talið er að um 100 þúsund manns hafi farist í stríðinu.[2] Árið 1993 skilgreindu Sameinuðu þjóðirnar borgina Srebrenica sem átakalaust svæði og komu fyrir friðargæsluliðum í bænum Potočari í grenndinni. Um 600 hollenskir hermenn úr herdeildinni Dutchbat voru staðsettir þar, en Sameinuðu þjóðirnar höfðu talið þörf á sex þúsund friðargæsluliðum á svæðinu.[3]
Fjöldi Bosníaka leitaði skjóls í Srebrenica eftir að hafa verið rekinn frá öðrum hlutum Bosníu. Í aðdraganda fjöldamorðanna lagði her Bosníuserba undir stjórn Ratko Mladić undir sig fjölmörg þorp Bosníaka umhverfis borgina og rak þorpsbúa til Srebrenica.[3] Þann 11. júlí 1995 hélt her Bosníuserba inn í Srebrenica og lagði undir sig borgina. Hollensku friðargæsluliðarnir gerðu ekkert til að stöðva þá. Eftir að Bosníuserbar höfðu tekið yfir Srebrenica gaf Mladić út tilkynningu um að Bosníakar í borginni hefðu ekkert að óttast.[4] Hann greindi fjölmiðlum frá því að fólkið yrði flutt á brott og að það væri öruggt. Konur og börn voru flutt af svæðinu en um 8.000 karlmenn og drengir urðu eftir svo hægt væri að „yfirheyra“ þá.[3]
Á næstu tíu dögum myrtu hersveitir Mladićs kerfisbundið um 8.000 Bosníaka, aðallega karlmenn og drengi á aldrinum 16 til 60 ára. Eftir morðin reyndu hersveitirnar að dylja glæpina með því að koma líkamsleifunum fyrir í hundruð fjöldagrafa.[5] Sumir voru skotnir við Potočari en flestir voru myrtir þegar þeir reyndu að flýja yfir á svæði undir yfirráðum Bosníaka. Þeir voru ýmist gripnir og teknir af lífi eða skotnir úr launsátri, þrátt fyrir að langflestir þeirra væru óvopnaðir.[6] Þetta urðu stærstu fjöldamorð í Evrópu frá því í seinni heimsstyrjöldinni.[7]
Remove ads
Eftirmálar


Bosníustríðinu lauk með Dayton-samkomulaginu árið 1995 og varð Srebrenica þá hluti af Lýðveldi Bosníu-Serba innan Bosníu-Hersegóvínu. Radovan Karadžić, leiðtogi Bosníuserba, hóf þá stefnu að „Serbavæða“ bæinn með því að flytja þangað serbneskt fólk af svæðum sem Bosníakar höfðu fengið yfirráð yfir samkvæmt friðarsamkomulaginu.[8]
Í réttarhöldum um stríðsglæpi árin eftir stríðið staðfestu bæði Alþjóðadómstóllinn og Alþjóðlegi stríðsglæpadómstóllinn fyrir fyrrverandi Júgóslavíu að fjöldamorðin í Srebrenica yrðu lagalega skilgreind sem þjóðarmorð.[9]
Árið 1996 gaf Alþjóðlegi stríðsglæpadómstóllinn fyrir fyrrverandi Júgóslavíu út handtökuskipanir gegn bæði Ratko Mladić og Radovan Karadžić og sakaði þá um að fremja glæpi gegn mannúð.[10] Þeir fóru í felur og voru með eftirlýstustu mönnum í Evrópu næstu árin.[11] Karadžić var handtekinn árið 2008 og síðan framseldur til Alþjóðlega stríðsglæpadómstólsins í Haag.[12] Árið 2016 var Karadžić dæmdur til 40 ára fangelsisvistar af Alþjóðlega stríðsglæpadómstólnum.[13] Áfrýjunardómstóll Sameinuðu þjóðanna þyngdi dóminn árið 2019 og dæmdi Karadžić í lífstíðarfangelsi.[14] Ratko Mladić var handtekinn í Serbíu árið 2011 og einnig framseldur.[15] Hann var dæmdur í lífstíðarfangelsi af stríðsglæpadómstólnum í Haag árið 2017.[16] Dómurinn gegn honum stóð óhaggaður eftir áfrýjun árið 2021.[17]
Líkamsleifar rúmlega 6.700 manns sem höfðu fundist í fjöldagröfum voru jarðsettar á ný í minningargrafreit í Srebrenica sem opnaður var árið 2003. Fleiri fórnarlömb sem búið er að bera kennsl á eru jarðsett þar við minningarathöfn á hverju ári.[5] Árið 2020 höfðu líkamsleifar um 6.900 fórnarlamba fjöldamorðanna í Srebrenica fundist í yfir 80 fjöldagröfum.[2]
Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna samþykkti árið 2024 að lýsa 11. júlí hvert ár „alþjóðlegan dag íhugunar og minningar um þjóðarmorðið í Srebrenica í Bosníu-Hersegóvínu“. 84 ríki kusu með tillögunni, 19 á móti og 68 sátu hjá. Volker Türk mannréttindastjóri Sameinuðu þjóðanna fagnaði tillögunni og sagði samþykkt hennar athyglisverða í ljósi þess að pólitískir leiðtogar í Bosníu-Hersegóvínu og nágrannaríkjum hefðu reynt að endurskrifa söguna, afneita þjóðarmorðinu í Srebrenica og stunda hatursáróður.[18] Aleksandar Vučić forseti Serbíu varaði við því að ályktunin myndi opna gömul sár og skapa pólitískan óstöðugleika. Milorad Dodik, forseti Lýðveldis Bosníu-Serba, hafnaði því að þjóðarmorðið hefði átt sér stað og sagði að þjóð hans myndi ekki viðurkenna ályktun allsherjarþingsins.[19]
Remove ads
Tilvísanir
Wikiwand - on
Seamless Wikipedia browsing. On steroids.
Remove ads