Egon Krenz
Leiðtogi Austur-Þýskalands From Wikipedia, the free encyclopedia
Remove ads
Egon Rudi Ernst Krenz (f. 19. mars 1937) er þýskur fyrrum stjórnmálamaður sem var síðasti kommúníski leiðtogi Austur-Þýskalands. Hann tók við af Erich Honecker sem aðalritari stjórnarflokks landsins, Sósíalíska einingarflokksins (SED), árið 1989 en neyddist til að segja af sér fáeinum vikum síðar eftir fall Berlínarmúrsins.[1]
Krenz gegndi ýmsum mikilvægum embættum innan SED á ferli sínum. Hann var staðgengill Honeckers frá 1984 þar til hann tók við af honum árið 1989 í miðju mótmæla gegn stjórninni. Krenz tókst ekki að viðhalda stjórn kommúnistaflokksins í landinu. Flokkurinn afsalaði sér valdaeinokun sinni nokkrum vikum eftir fall Berlínarmúrsins og Krenz neyddist til að segja af sér stuttu síðar. Hann var rekinn úr Lýðræðislega sósíalistaflokknum, arftaka SED, þann 21. janúar 1990.[2] Árið 2000 var hann dæmdur til sex og hálfs árs fangelsisvistar fyrir manndráp vegna aðgerða sinna á kommúnistatímanum. Eftir að honum var sleppt árið 2003 settist hann að í smábænum Dierhagen í Mecklenburg-Vorpommern. Hann var áfram á skilorði þar til fangelsisdómnum lauk árið 2006.[3] Ásamt Karel Urbánek frá Tékkóslóvakíu er Krenz eini fyrrum aðalritari gömlu austurblokkarinnar sem enn er á lífi.
Remove ads
Æviágrip
Æska og menntun
Egon Krenz er sonur klæðskera. Hann stundaði kennaranám í Putbus á eyjunni Rügen frá 1953 til 1957 og útskrifaðist með kennarapróf.[4] Á námsárum sínum gekk hann í Frjálsan æskulýð Þýskalands (FDJ) og svo í Sósíalíska einingarflokkinn árið 1955. Hann gegndi herþjónustu í Prora frá 1957 til 1959.[4]
Frá 1964 til 1967 gekk hann í flokksskóla miðnefndar Kommúnistaflokks Sovétríkjanna í Moskvu og útskrifaðist með gráðu í félagsfræði.
Stjórnmálaferill

Krenz varð aðalritari FDJ í hverfinu Bergen á Rügen og síðar í hverfinu Bezirk í Rostock árið 1960. Hann varð ritari miðnefndar FDJ árið 1961 og bar ábyrgð á starfsemi með háskólum og fagskólum.[4] Krenz átti sæti á þingi frá 1971 til 1990 og í forsætisnefnd þingsins frá 1971 til 1981.[4]
Árið 1984 varð Krenz meðlimur í ríkisráði Austur-Þýskalands. Frá 18. október 1989 hafði hann umsjón með öryggismálum innanlands og innan Sósíalíska einingarflokksins. Krenz var forseti ríkisráðsins og þar með þjóðhöfðingi Austur-Þýskalands frá 24. október til 6. desember 1989. Hann boðaði „pólitíska og diplómatíska sókn“ og gerði ráðstafanir til að auðvelda austurþýskum ríkisborgurum utanlandsferðir og heimila opnar umræður í útvarpi.
Eftir fjöldamótmæli gegn ríkisstjórninni og fall Berlínarmúrsins sagði öll stjórnmálanefnd SED af sér þann 3. desember 1989. Krenz sagði af sér sem forseti ríkisráðsins þremur dögum síðar. Hann sagði upp þingsæti sínu í janúar 1990 og var rekinn úr Lýðræðislega sósíalistaflokknum, sem tók við af SED.[4]
Fangelsisdómar
Kosningasvindl
Eftir sameiningu Þýskalands bar Krenz vitni í réttarhöldum gegn gömlum leiðtogum Austur-Þýskalands. Árið 1992 hafnaði hann því að hafa sem yfirkjörstjóri Austur-Þýskalands staðið fyrir kerfisbundnu kosningasvindli. Þessi yfirlýsing samræmdist hins vegar ekki ummælum sem hann hafði gefið frá sér á 12. fundi miðnefndar Sósíalíska einingarflokksins í desember 1989. Þar sagði hann um sveitarstjórnarkosningar í maí sama ár:
| Auðvitað er mér fullkomlega ljóst og ég geri mér vel grein fyrir því, jafnvel frá sjónarhóli dagsins í dag, að niðurstöður kosninganna samræmdust ekki pólitískum veruleika í landinu, hvorki þá né nú. En það var óhugsandi að tilkynna aðrar kosninganiðurstöður, því þær samræmdust starfsreglum sem voru til staðar í kjördæmunum. Ef við tækjum þetta mál upp að nýju eins og sumir leggja til, þá óttast ég, félagar, að við yrðum ekki aðeins að láta af þeim embættum sem við gegnum núna, heldur gætum við ekki annað en farið heim. Ég óska þess að þetta verði ekki skrifað í fundargerðina.[5] |
Fórnarlömb Berlínarmúrsins
Þann 25. ágúst 1997 var Krenz dæmdur til sex og hálfs árs fangelsisvistar fyrir manndráp. Hann var talinn bera ábyrgð á dauða fjögurra manneskja sem voru drepnar af austurþýskum landamæravörðum þegar þær reyndu að komast yfir Berlínarmúrinn.[6]
Dómurinn gegn Krenz var staðfestur í nóvember 1999 þegar sambandsdómstóll Þýskalands synjaði áfrýjunarbeiðni hans. Krenz sagði um þá ákvörðun að verið væri að heyja „kalda stríðið í miðjum dómssalnum“.[7] Þegar stjórnlagadómstóll Þýskalands synjaði einnig beiðni hans um áfrýjun þann 11. janúar 2000 byrjaði Krenz afplánun sína tveimur dögum síðar í Berlin-Hakenfelde-fangelsinu. Hann var síðar fluttur í Plötzensee-fangelsið. Þann 22. mars 2001 hafnaði Mannréttindadómstóll Evrópu því einróma að brotið hefði verið gegn réttindum Krenz.
Þann 18. desember 2003, tæpum fjórum árum eftir dóminn, fékk Krenz reynslulausn og eftirstöðvar fangelsisdómsins voru gerðar skilorðsbundnar.[8]
Krenz hóf í kjölfarið störf á Berlín-Tegel-flugvellinum fyrir flugfélagið Germaniu.[9]
Eftir fangavistina
Krenz býr nú í Dierhagen í Mecklenborg-Vorpommern við Eystrasalt.[4] Í apríl 2021 gaf hann út bókina Komm mir nicht mit Rechtsstaat ásamt Friedrich Wolff, fyrrum lögfræðingi Erichs Honecker. Í bókinni færði Krenz rök fyrir því að staða mannréttinda í Austur-Þýskalandi hefði ekki verið neitt síðri en í Vestur-Þýskalandi. Krenz birtist jafnframt í heimildaþáttunum The Cuba Libre Story árið 2015.
Í innrás Rússa í Úkraínu lýsti Krenz yfir stuðningi við Rússland. Hann sagðist mótfallinn því að Þýskaland tæki þátt í sendingu vopna til Úkraínu og í refsiaðgerðum gegn Rússlandi.[10]
Remove ads
Tilvísanir
Wikiwand - on
Seamless Wikipedia browsing. On steroids.
Remove ads
