Forseti Tyrklands
From Wikipedia, the free encyclopedia
Remove ads
Forseti Lýðveldisins Tyrklands (Türkiye Cumhuriyeti Cumhurbaşkanı) er þjóðhöfðingi og ríkisstjórnarleiðtogi Tyrklands og yfirmaður tyrkneska hersins. Forsetinn er jafnframt leiðtogi þjóðaröryggisráðs landsins.
Embætti forseta var stofnað þegar Tyrkland varð lýðveldi þann 29. október 1923. Fyrsti forsetinn var stofnandi lýðveldisins, Mústafa Kemal Atatürk.[2][3] Forsetaembættið var lengi aðallega táknrænt embætti og forsætisráðherra fór með mestallt framkvæmdavaldið. Stjórnarskrárbreytingar sem samþykktar voru í þjóðaratkvæðagreiðslu árið 2017 leystu hins vegar upp embætti forsætisráðherra og færðu allt framkvæmdavaldið í hendur forseta. Breytingarnar tóku gildi eftir kosningar í landinu árið 2018.[4][5] Forsetinn er kjörinn í beinum kosningum til fimm ára.[6][7]
Forseti Tyrklands er stundum kallaður Cumhurbaşkanı („lýðveldisforingi“), og áður stundum Cumhurreisi eða Reis-i Cumhur, sem einnig þýðir „foringi lýðveldisins/þjóðarinnar“.[8][9]
Recep Tayyip Erdoğan er tólfti og núverandi forseti Tyrklands. Hann hefur gegnt embættinu frá 28. ágúst 2014.
Remove ads
Saga
Embætti forseta var stofnað með yfirlýsingu um stofnun tyrkneska lýðveldisins þann 29. október 1923. Í atkvæðagreiðslu sem haldin var sama dag var Kemal Atatürk einróma kjörinn fyrsti forseti lýðveldisins. Frá þeim degi til ársins 2014 voru allir forsetar Tyrklands nema Kenan Evren kjörnir af þinginu.
Fyrstu þrír forsetar landins, Kemal Atatürk, İsmet İnönü og Celâl Bayar, voru meðlimir í stjórnmálaflokkum. Atatürk og İnönü voru áfram leiðtogar Lýðveldisflokks alþýðunnar á meðan þeir gegndu embætti. Celâl Bayar sagði af sér sem leiðtogi Lýðræðisflokksins þegar hann varð forseti en var áfram meðlimur í flokknum.
Með nýrri stjórnarskrá sem tók gildi árið 1961 eftir herforingjabyltingu árið áður var ákveðið að forsetinn yrði að vera óháður stjórnmálaflokkum. Evren, sem stýrði landinu sem þjóðhöfðingi og leiðtogi þjóðaröryggisráðs eftir valdaránið 1980, var útnefndur forseti þann 7. nóvember 1982, þegar ný stjórnarskrá var samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu, í samræmi við fyrsta bráðabirgðaákvæði stjórnarskrárinnar.
Í þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrárbreytingar árið 2007 samþykktu Tyrkir að forsetinn yrði framvegis þjóðkjörinn. Í fyrstu forsetakosningunum sem haldnar voru eftir þessa breytingu þann 10. ágúst 2014 var Recep Tayyip Erdoğan kjörinn forseti í almennum kosningum. Forsetinn, sem er þjóðhöfðingi, varð jafnframt ríkisstjórnarleiðtogi eftir frekari stjórnarskrárbreytingar sem samþykktar voru í þjóðaratkvæðagreiðslu árið 2017.
Erdoğan sagði af sér sem leiðtogi Réttlætis- og þróunarflokksins þegar hann var kjörinn forseti árið 2014 en var aftur kjörinn leiðtogi flokksins eftir stjórnarskrárbreytingarnar 2017. Hann er þar með fyrsti forseti landsins frá İnönü sem er í senn forseti og leiðtogi stjórnmálaflokks.
Remove ads
Tilvísanir
Wikiwand - on
Seamless Wikipedia browsing. On steroids.
Remove ads