Gangan langa

Herför í kínversku borgarastyrjöldinni 1934–1935 From Wikipedia, the free encyclopedia

Gangan langa
Remove ads

Gangan langa eða gangan mikla (kínverska: 长征; pinyin: Chángzhēng; bókst. „leiðangurinn langi“) var atburður í kínversku borgarastyrjöldinni þar sem kínverski rauði herinn og kínverski kommúnistaflokkurinn flúðu undan sókn þjóðernishers Kuomintang frá október 1934 til október 1935. Um það bil 100.000 hermenn hörfuðu frá sovétinu í Jiangxi og öðrum bækistöðvum til nýrra höfuðstöðva í Yan'an í Shaanxi. Kommúnistarnir gengu um 10.000 kílómetra og aðeins um 8.000 lifðu gönguna löngu af.[1]

Staðreyndir strax Dagsetning, Staðsetning ...
Remove ads

Saga

Kommúnistaflokkur Kína var stofnaður árið 1921. Á upphafsárum flokksins var hann í bandalagi við stjórn þjóðernissinna í suðurhluta Kína, sem var frá árinu 1925 undir stjórn Chiang Kai-shek. Kommúnistar tóku árið 1925 þátt í herför Chiangs til að leggja mið- og norðurhluta landsins, sem hafði lengi verið undir stjórn íhaldssamra stríðsherra og ævintýramanna, undir þjóðernisstjórnina. Eftir að allt Kína var sameinað undir hans stjórn sleit Chiang bandalagi sínu við kommúnista til að ávinna sér fylgi borgarastéttanna og hóf markvissar ofsóknir gegn leiðtogum kommúnistaflokksins. Þeir kommúnistar sem lifðu af flúðu út á landsbyggðina og hófu þar að safna liði á ný.[2]

Eftir að bandalagi þjóðernissinna og kommúnista var rift gerði Chiang út fimm heri til höfuðs kommúnistaflokknum en kommúnistar gersigruðu þá fjóra fyrstu. Chiang hóf fimmtu sókn sína gegn kommúnistum í október 1933. Her hans var þá skipaður fimm herfylkjum og tæplega einni milljón hermanna með skriðdreka, flugvélar og stórar fallbyssur. Sóknin beindist gegn yfirráðasvæði kommúnista í Jiangxi í suðausturhluta Kína, þar sem kommúnistaflokkurinn hafði aðalbækistöðvar sínar og mestan hluta herafla síns.[3]

Chiang brá á það ráð að gera umsátur um Jiangxi með því að reisa fjölda virkja í kringum héraðið til þess að reyna að svelta baráttuþrekið úr kommúnistum. Á sama tíma gerði her hans linnulausar árásir á Jiangxi og sótti smám saman fram þannig að í september 1934 héldu kommúnistar aðeins eftir einum tíunda af því svæði sem þeir höfðu áður ráðið í héraðinu.[3]

Helstu leiðtogar kommúnista í Jiangxi voru Maó Zedong, æðsti maður sovétsins, Zhou Enlai stjórnmálahershöfðingi og Zhu De yfirhershöfðingi. Þeir sáu fram á að ef her kommúnista héldi kyrru fyrir í Jiangxi yrði hann þurrkaður út og tóku því ákvörðun um að flýja út fyrir umsáturshring þjóðernishersins. Otto Braun, meðlimur í þýska kommúnistaflokknum sem hafði verið sendur til Kína á vegum Komintern, sá um skipulagningu flóttans.[3]

Her kommúnista hóf útbrotstilraunina aðfaranóttina 17. október. Skömmu áður höfðu baksveitir kommúnista gert áhlaup á þjóðernissinna fjarri útbrotsstaðnum til að villa um fyrir Chiang. Rúmlega 100.000 manns sluppu út úr herkvínni um Jianxi áður en þjóðernisherinn áttaði sig á því hvað hafði gerst.[3] Maó fór með her sinn vestur á bóginn þar sem ekki var hægt að fara beina leið um austurhluta Kína þar sem ítök þjóðernisstjórnarinnar voru sterkust.[2]

Thumb
Zhou Enlai, Maó Zedong og Zhu De í göngunni löngu.

Þegar lagt var af stað vissu kommúnistarnir ekki hvert yrði haldið, heldur var leitað að fleiri sovét-hópum. Kommúnistarnir gengu af stað við mjög erfiðar aðstæður og slæm veðurskilyrði, með þeim afleiðingum að um 25.000 þeirra létust á fyrstu þremur vikum göngunnar. Her Chiangs veitti þeim eftirför og því varð rauði herinn að ganga á nóttinni og fela sig á daginn. Á meðan gengið var sættu kommúnistar árásum stríðsherra sem hliðhollir voru þjóðernisstjórninni og voru eltir af flugvélum. Þeim tókst engu að síður að brjótast vestur á bóginn til Sesúan og síðan norður til Shaanxi.[4]

Kommúnistaherinn varð að fara yfir tuttugu stórfljót og jafnmarga fjallgarða í göngunni. Þegar farið var í gegnum Yunnan hlutu kommúnistarnir nokkurn stuðning hjá heimamönnum, sem voru þjóðernishópar sem margir voru andsnúnir ríkisstjórn Chiangs.[2] Fyrstu fylkingar kommúnista komu á leiðarenda í Yan'an í norðurhluta Shaanxi í október árið 1935. Næstu fylkingar komu nokkru síðar, sú síðasta um ári seinna. Einn afrakstur göngunnar miklu var að Maó Zedong var orðinn ótvíræður leiðtogi kínverskra kommúnista.[4]

Chiang vildi halda í aðra útrýmingarherferð gegn kommúnistum en hershöfðingjar hans töldu hann af því. Að endingu gerðu kommúnistar um stundarsakir nýtt bandalag við þjóðernissinna vegna innrásar Japana í Kína.[4]

Remove ads

Tilvísanir

Loading related searches...

Wikiwand - on

Seamless Wikipedia browsing. On steroids.

Remove ads