Maó Zedong

Kommúnistaleiðtogi og einræðisherra í Kína (1893–1976) From Wikipedia, the free encyclopedia

Maó Zedong
Remove ads

Maó Zedong (skrifað með hefðbundnum kínverskum táknum: 毛澤東, með einfölduðum táknum: 毛泽东, umskrifað með pinjin: Máo Zédōng, umskrifað með aðferð Wade-Giles: Mao Tse-tung) (26. desember 18939. september 1976) var kínverskur marxisti og pólitískur leiðtogi Kína. Maó er einnig þekktur sem skáld, rithöfundur og skrautskrifari.

Þetta er kínverskt nafn: kenni- eða fjölskyldunafnið er Maó, eiginnafnið er Zedong.
Staðreyndir strax Formaður kínverska kommúnistaflokksins, Forveri ...

Maó Zedong tók þátt í stofnþingi Kommúnistaflokks Kína árið 1921 sem fulltrúi Hunan-héraðs.[1] Hann var síðan skipaður formaður Kommúnistaflokks Kína á 7. flokksþingi hans árið 1945.[2] Kommúnistaflokkurinn stofnaði Alþýðulýðveldið Kína árið 1949 undir forystu Maós og var hann leiðtogi þess til dauðadags árið 1976.[3] Maó hefur verið gagnrýndur mjög harkalega eftir dauða sinn og verður umfjöllun um hann sífellt neikvæðari því meira sem kemur í ljós.

Remove ads

Fjölskylda, menntun og fyrri störf

Maó fæddist í Shaoshan í Hunan-héraði. Hann var af fátækum bændaættum en faðir hans, Yi Chang (fæddur 1870) hafði borgað skuldir sínar með herþjónustu og hafði efnast töluvert á hrísgrjónaræktun og sölu. Fjölskylda Maós var sem sagt ein sú ríkasta í þorpinu vegna eljusemi og ósérhlífni föður Maós.[4] Þrátt fyrir þetta leyfðu þau sér engan munað og vann Maó ýmis sveitastörf baki brotnu í æsku.[5] Maó leiddist sveitastörf og erfiðisvinna og vildi helst liggja yfir bókum.[6]

Maó byrjaði í barnaskóla átta ára að aldri og gekk vel þar sem að námið byggðist aðallega á utanbókarnámi upp úr ritum Konfúsíusar og hafði Maó afburðagott minni. Maó var mjög uppreisnagjarn og svaraði eldra fólki og kennurum alltaf fullum hálsi. Þegar hann var þrettán ára var hann rekinn, eða beðinn að fara úr skóla í fjórða sinn og hætti faðir hans þá að borga fyrir menntun hans. Því kom Maó aftur heim að hjálpa föður sínum við búskapinn og reikningshald. Fjórtán ára kvæntist Maó síðan átján ára gamalli frænku sinni (sem dó ári seinna) og settist aftur á skólabekk. Maó hóf 18 ára gamall nám við gagnfræða- og menntaskóla í Changsha-borg árið 1911. Þar fóru leiðtogahæfileikar Maós að blómstra og var hann leiðtogi stúdentasamtaka í skólanum. Árið 1918 lauk hann þar námi og stofnaði „Námssamtök nýrrar alþýðu“. Maó fékk síðan starf á bókasafni Pekingháskóla þar sem hann kynntist Li Dazhao. Þar varð Maó fyrir sósíalískum áhrifum og tók hann því þátt í 4. maí-hreyfingunni árið 1919. Árið 1920 stofnaði Maó bókmenntasamtök til að dreifa boðskap kommúnista. Maó tók síðan þátt í stofnþingi kommúnista árið 1921.[7]

Remove ads

Kínverska borgarastyrjöldin og stríðið við Japan

Árið 1927 skar Chiang Kai-shek, leiðtogi þjóðernisstjórnar Lýðveldisins Kína, upp herhör gegn kínverskum kommúnistum. Kommúnistar höfðu um skeið verið í bandalagi við kínverska þjóðernisflokkinn Kuomintang en eftir að Chiang tókst að mestu að endursameina Kína undir einni stjórn hóf hann skipulegar ofsóknir gegn kommúnistum í stórborgum landsins. Maó flúði til Changsha og hélt þar áfram að æsa til bændauppreisna. Maó var þarna orðinn leiðtogi meðal kommúnista og hafði fengið samþykki Komintern fyrir stefnu sinni. Hann kom sér upp bækistöðvum á mörkum Hunan og Jiangxi, þar sem aðstæður voru góðar til að heyja skæruhernað. Maó stýrði skæruhernaði gegn stjórn þjóðernissinna með misjöfnum árangri á næstu árum og laðaði fjölda sjálfboðaliða til liðs við her sinn.[8]

Árið 1931 stofnuðu kommúnistar opinbert sovét, eða ráðstjórn, í Jiangxi og Maó varð æðsti maður þess. Árin 1931 til 1934 efndi Chiang Kai-shek fimm sinnum til útrýmingarherferða gegn kommúnistum í Jiangxi. Þær fjórar fyrstu misheppnuðust illa en í fimmta skiptið fór Chiang að ráðum þýskra hernaðarráðgjafa sinna og hóf allsherjarumsátur um héraðið. Kommúnistar töpuðu fljótt miklu landsvæði og mannafla vegna umsátursins. Í október árið 1934 tók Maó ásamt fleiri leiðtogum kommúnista ákvörðun um að yfirgefa Jiangxi-sovétið og brjótast út fyrir umsáturshring Chiangs. Maó tókst að brjótast út úr herkvínni með liðsmönnum sínum eftir harða bardaga og með þessu hófst gangan langa, þar sem her kommúnista gekk um 10.000 kílómetra leið yfir Kína á flótta undan her Chiangs. Um 100.000 menn voru í liði Maós í upphafi göngunnar en aðeins um 20.000 komu á leiðarenda, og þar af höfðu flestir bæst í hópinn á leiðinni.[8] Kommúnistar komu til fjallahéraðsins Shaanxi í norðurhluta Kína í október 1935 og komu sér þar upp nýjum bækistöðvum, langt frá valdastöðvum Chiangs.[9]

Það var í göngunni löngu sem Maó öðlaðist viðurkenningu sem óumdeildur leiðtogi kínverskra kommúnista. Gangan sjálf öðlaðist táknrænt gildi sem eldraun sem mótaði þá sem síðar áttu eftir að leiða byltinguna til sigurs.[10]

Chiang hugði í fyrstu á aðra herferð til að ganga milli bols á höfuðs á kommúnistum í Shaanxi en herforingjar hans töldu hann ofan af því í ljósi síaukinnar hættu sem stafaði af útþenslustefnu Japanska keisaradæmisins. Maó sendi Zhou Enlai til að semja við Chiang um bandalag milli kommúnista og þjóðernissinna gegn Japönum, stuttu áður en allsherjarstríð milli Kína og Japans hófst árið 1937. Zhou og Maó réttlættu þetta með því móti að þjóðleg eining væri nauðsynleg til þess að verja Kína á móti Japönum. Samkomulag var gert þar sem kínverski rauði herinn var endurskipulagður undir heitinu áttundi herinn og Chiang viðurkenndi stjórn kommúnista í landamærahéruðunum.[8]

Í stríðinu gegn Japan, sem rann inn í seinni heimsstyrjöldina eftir árás Japana á Perluhöfn árið 1940, veiktist staða Chiangs mjög vegna ítrekaðra ósigra gegn Japönum og spillingar innanlands. Á sama tíma óx kommúnistum fiskur um hrygg þar sem her þeirra þurfti ekki að eiga í neinum stórorrustum við Japani en vann þeim þó töluvert tjón með skæruhernaði. Árið 1945 réðu kommúnistar yfir um 450.000 ferkílómetra landsvæði með um 95 milljónum íbúa og höfðu komið sér upp rúmlega milljón manna her. Kommúnistar stækkuðu smám saman yfirráðasvæði sitt í norðurhluta Kína, hröktu burt landeigendur og skiptu upp jörðum þeirra meðal smábænda, komu upp samvinnufélögum, bættu kjör kvenna og fræddu æskulýðinn í kommúnískri hugmyndafræði.[8]

Thumb
Maó og Chiang Kai-shek í stjórnarmyndunarviðræðunum 1945.

Japanir gáfust upp eftir að Bandaríkin gerðu kjarnorkuárásirnar á Hiroshima og Nagasaki árið 1945. Þá var staða kommúnista orðin svo sterk að Maó gerði kröfu um að mynduð yrði samsteypustjórn Kuomintang og Kommúnistaflokksins á jöfnum grundvelli. Maó fundaði með Chiang haustið 1945 en gat ekki komist að samkomulagi um myndun samsteypustjórnar og því hófst borgarastyrjöldin milli kommúnista og þjóðernissinna á ný.[8]

Eftir að borgarastyrjöldin hófst að nýju varð her þjóðernissinna í fyrstu töluvert ágengt en árið 1948 snerist gæfan kommúnistum í vil. Í lok ársins hafði allur her Chiangs í Mansjúríu gefist upp og mikið magn bandarískra hergagna hafði fallið í hendur kommúnista. Snemma árs 1949 féll Peking í hendur kommúnista og Maó lýsti yfir stofnun Alþýðulýðveldisins Kína. Chiang flúði með leifarnar af her sínum til eyjarinnar Taívan.[8]

Remove ads

Stóra stökkið

Máo lagði mikla áherslu á að koma iðnvæðingu á í Kína sem hafði verið bændasamfélag frá örófi alda. Frá stofnun alþýðulýðveldisins var farið af stað með svokallaðar fimm ára áætlanir að sovéskri fyrirmynd allt þar til árið 1957 þegar áætlunin um stóra stökkið framávið var hrundið af stað. Stóra stökkið var efnahagsáætlun sem miðaði að því að koma iðnaði í Kína framar en helstu iðnríkja heims á örfáum árum. Til þess átti að eyða sem minnstum fjármunum og átti þessi áætlun að byggja á mannlegri viðleitni. Frá október 1957 fram í júní 1958 voru yfir 100 milljónir Kínverja látnir grafa skurði og hlaða flóðgarða í áveituframkvæmdum við lélegar aðstæður.[11] Verkefnið skilaði ekki tilætluðum árangri og leiddi af sér afturkipp í efnahagslífinu. Á sama tíma varð uppskerubrestur og kreppa í landbúnaði sem leiddu af sér hungursneyð sem kostaði um 15-25 milljónir manns lífið.[12] Á árunum 1960-1962 ríkti því kreppa í Kína.[13]

Á valdatíma Maós, eða áratugunum þremur frá 1950 til 1980, hækkuðu meðallífslíkur Kínverja frá 35–40 árum í 65,5 ár. Þessi hraða og viðvarandi lenging æviskeiða er meðal annars rakin til greiðari aðgangs almennings að menntun og heilbrigðisþjónustu á tímabilinu. Stóra stökkið fram á við er stærsta frávikið í þeirri þróun, en á árunum 1959–1961 styttist meðalævi Kínverja vegna hungursneyðarinnar. Að henni lokinni héldu lífslíkur áfram að hækka.[14]

Menningarbyltingin

Menningarbyltingin hófst í nóvember 1965 og var allsherjar uppgjör hins róttækra og hægfara arms Kommúnistaflokks Kína.[15] Kona Maós, Jiang Qing, fór þar fremst í flokki sem fulltrúi menningarmálaráðuneytisins. Mikil eyðilegging fornminja og menningarverðmæta átti sér stað í baráttunni gegn „gamaldags hugsun“. Stöðnun varð í menntamálum í Kína á þessum tíma þar sem forsvarsmenn menningarbyltingarinnar börðust gegn fornum kínverskum menningararfi, svo sem kenningum Konfúsíusar, sem þeir töldu ýta undir íhaldssemi og hefðu staðið framþróun í Kína fyrir þrifum. Í menningarbyltingunni var kommúnistaflokkurinn nánast klofinn og ýmsir innan flokksins voru bornir þungum sökum og fangelsaðir. Róttæklingar hvöttu til uppreisnar menntamanna sem í kjölfar leiddi af sér fylkingu „Rauðra varðliða“ sem hugðust gera uppreisn gegn andstæðingum Maós. Undir lokin lá við borgarastríði í Kína og greip Frelsisherinn inn í. Maó tókst þó að styrkja stöðu sína innan flokksins enn frekar og hafa aðgerðir hans á þessu tímabili verið nefndar „hreinsunin mikla“.[16]

Þótt Maó hafi nýtt sér menningarbyltinguna er hann talinn hafa haft takmörkuð áhrif á þróun hennar. Margar kröfur róttæklinganna gengu mun lengra en nokkuð sem Maó hafði sjálfur boðað og stuðningur hans við þá virðist sumpart hafa verið tvístígandi. Því hafa sumir fræðimenn haldið því fram að Maó hafi aðeins hugsað sér menningarbyltinguna sem tæki til að efla tök sín á Kommúnistaflokknum.[17]

Remove ads

Síðustu dagar Maós

Maó dvaldi síðustu vikur ævi sinnar í jarðskjálftaheldri byggingu sem kallaðist 202. Hann var bitur og sár undir það síðasta og harmaði mjög að hafa ekki náð að breyta Kína í það heimsveldi sem hann hafði ætlaði sér. Hann hélt skýrri hugsun allt til dauðadags en heilsu hans hafði hrakað í síðustu mánuðina fyrir lát hans, en hann lét lífið 00:10 aðfaranótt 9. september 1976.[18]

Bækur um Maó

Maó er mjög umdeildur leiðtogi og um hann hafa verið samdar margar bækur. Nafni hans er haldið mjög á lofti í Kína enn þann dag í dag þar sem kommúnistastjórn er enn við völd. Hann hefur þó verið gagnrýndur mjög harkalega eftir dauða sinn, einkum á Vesturlöndum. Hann hefur til dæmis verið gagnrýndur harðlega fyrir „stóra stökkið framávið“ og „menningarbyltinguna“ en þessar áætlanir hans höfðu í för með sér margvíslegar neikvæðar afleiðingar fyrir efnahag og menningu Kína. Neikvæð gagnrýni í garð Maós nær hámarki í bókinni Maó, sagan sem aldrei var sögð eftir Jung Chang og Jon Halliday.[19] Aðrar bækur sem gagnrýna Maó, þó mismikið, eru til dæmis: Mao Zedong eftir Deliu Davin (1997), Mao Zedong eftir Jonathan Spence (1999), Mao: A Biography eftir Ross Terill (1999) og Mao: A Life eftir Philip Short (1999).[20]

Remove ads

Tilvísanir

Heimildir

Tengt efni

Tenglar

Loading related searches...

Wikiwand - on

Seamless Wikipedia browsing. On steroids.

Remove ads