Nihon Hidankyo
japönsk samtök fórnarlamba atóm- og vetnissprengja From Wikipedia, the free encyclopedia
Remove ads
Nihon gensuibaku higaisha dantai kyōgi-kai (japanska: 日本原水爆被害者団体協議会), gjarnan stytt í Nihon Hidankyō (japanska: 日本被団協), eða í lauslegri þýðingu Japanssamband samtaka eftirlifenda atóm- og vetnissprengja, eru samtök sem stofnuð voru árið 1956 af fólki sem lifði af kjarnorkuárásirnar á Hiroshima og Nagasaki (hibakusha) í þeim tilgangi að þrýsta á japönsk stjórnvöld að bæta stuðning við fórnarlömbin og hvetja erlendar ríkisstjórnir að leggja niður kjarnavopn.[1]
Samtökin hafa meðal annars safnað saman þúsundum vitnisburða, gefið út ályktanir og áköll og sent árlegar sendinefndir til ýmissa alþjóðastofnana, þar á meðal Sameinuðu þjóðanna, til að hvetja til afnáms kjarnavopna.[2]
Samtökin hlutu friðarverðlaun Nóbels árið 2024 fyrir „baráttu sína fyrir kjarnorkuvopnalausum heimi og fyrir að sýna með eigin vitnisburði hvers vegna aldrei megi beita kjarnavopnum aftur“.[2][3]
Remove ads
Saga
Nihon Hidankyo eru landssamtök sem stofnuð voru af hópum fólks sem lifði af kjarnorkuárásirnar á Hiroshima og Nagasaki í hverju héraði Japans, sem kallað er hibakusha á japönsku.[4] Sprenging Castle Bravo-vetnissprengjunnar, sem Bandaríkjamenn sprengdu í tilraunaskyni á Bikini-hringrifinu árið 1954, olli alvarlegum geislunarheilkennum á íbúum hringrifanna í grenndinni og á 23 skipverjum á japanska veiðiskipinu Daigo Fukuryū Maru. Þetta leiddi til stofnunar Japanska ráðsins gegn atóm- og vetnissprengjum í Hiroshima næsta ár.[5] Fólk sem hafði lifað af kjarnorkuárásirnar stofnaði í kjölfarið samtökin Nihon Hidankyo með stuðningi hreyfingarinnar á öðru ársþingi ráðsins í Nagasaki.[6] Samheldni hreyfingarinnar var hins vegar hætt komin þegar ráðið tók virkan þátt í mótmælum gegn öryggissáttmála Japans og Bandaríkjanna ásamt japanska Sósíalistaflokknum árið 1959.[7] Margir stuðningsmenn sögðu sig úr ráðinu og stofnuðu ný samtök með stuðningi Frjálslynda lýðræðisflokksins. Þessi nýju samtök voru leidd af Masatoshi Matsushita, leiðtoga hins andkommúníska Lýðræðislega sósíalistaflokks.[8] Þegar Sovétríkin hófu kjarnorkutilraunir á ný árið 1961 neitaði kommúnistaarmur ráðsins að fordæma þær, sem skapaði mikla spennu innan samtakanna.[9] Þetta leiddi til frekari klofnings innan hreyfingarinnar þar sem hópur tengdur Sósíalistaflokknum stofnaði nýtt ráð sem fordæmdi allar kjarnorkutilraunir án tillits til þess hvaða ríki gerði þær.[10] Flokkadrættir innan hreyfingarinnar gegn kjarnavopnum leiddu jafnframt til þess að klofningar urðu milli eftirlifenda kjarnorkuárásanna í tilteknum landshlutum, til dæmis í Hiroshima, þar sem samnefnd ráð urðu til sem hvert um sig nutu stuðnings sósíalista og kommúnista.[4] Landssamtökin sjálf ákváðu að tengja sig ekki við neinar stjórnmálahreyfingar árið 1965, eftir að hreyfingin hafði orðið æ flokkspólitískari.[4]
Remove ads
Starfsemi
Í dag fæst Nihon Hidankyo meðal annars við eftirfarandi starfsemi:[11]
- Áköll eftir afnámi kjarnavopna og kröfur um bætur frá hinu opinbera,
- Bænaskrár til japönsku ríkisstjórnarinnar, Sameinuðu þjóðanna og erlendra stjórna,
- Förgun kjarnorkuvopna, stofnun alþjóðasáttmála um afkjarnavopnun, skipulagningu alþjóðlegra ráðstefna, setningu laga gegn kjarnorku og eflingu á hjálp við eftirlifendur árásanna,
- Vitundarvakningu um veruleika kjarnorkuárásanna bæði innanlands og á alþjóðavettvangi,
- Rannsóknir, útgáfu, sýningar og samkomur um tjón kjarnorkusprengja,
- Ráðgjöf og stuðning fyrir eftirlifendur sprengjuárásanna.
Remove ads
Lykilfólk

Núverandi meðlimir[12]
Meðformenn:
- Terumi Tanaka: Varð fyrir geislun 3,2 km frá miðju sprengingarinnar í Nagasaki þegar hann var 13 ára; tók við embætti þann 14. júní 2017[13]
- Shigemitsu Tanaka: Varð fyrir geislun 6 km frá miðju sprengingarinnar í Nagasaki þegar hann var 4 ára;[14] tók við embætti þann 14. júní 2018[15]
- Toshiyuki Mimaki: Varð fyrir geislun á heimili sínu í Hiroshima þegar hann var 3 ára;[16] tók við embætti þann 9. júní 2022[17]
Aðalritari:
- Sueichi Kido: Varð fyrir geislun í Nagasaki þegar hann var 5 ára; tók við embætti þann 7. júní 2017[18]
Fyrrum meðlimir
- Sumiteru Taniguchi: Slasaðist illa 1,8 km frá miðju sprengingarinnar í Nagasaki þegar hann var 16 ára; meðformaður samtakanna til dauðadags 20. ágúst 2017[19]
- Sunao Tsuboi: Slasaðist illa 1,5 km frá miðju sprengingarinnar í Hiroshima þegar hann var 20 ára; meðformaður samtakanna til dauðadags 24. október 2021[20]
- Mikiso Iwasa: Slasaðist illa 1,2 km frá miðju sprengingarinnar í Hiroshima þegar hann var 16 ára; meðformaður samtakanna til dauðadags 7. september 2020.[21]
Viðurkenningar
- 2003: Seán MacBride-friðarverðlaunin[22]
- 2010: Verðlaun fyrir félagslega aðgerðastefnu frá heimsþingi friðarverðlaunahafa Nóbels[23]
- 2024: Friðarverðlaun Nóbels[2]
Áður en Nihon Hidankyo unnu friðarverðlaun Nóbels árið 2024 höfðu þau verið tilnefnd árin 1985, 1994 og 2015 af Alþjóðafriðarskrifstofunni í Sviss.[24]
Tengt efni
Tilvísanir
Wikiwand - on
Seamless Wikipedia browsing. On steroids.
Remove ads