QAnon

Samsæriskenning bandarískra öfgahægrisinna From Wikipedia, the free encyclopedia

QAnon
Remove ads

QAnon er nafn á samsæriskenningu öfgahægrimanna í Bandaríkjunum[1] sem gengur út á að söfnuður satanískra barnaníðinga reki alþjóðlegan barnaníðshring sem teygi sig til allra heimshorna og bruggi launráð gegn Donald Trump Bandaríkjaforseta, sem á að vera helsti óvinur safnaðarins.[2] Kenningar QAnons ganga jafnframt yfirleitt út á að Trump sé að undirbúa sérstakan uppgjörsdag sem kallist „Stormurinn“ og muni leiða til þess að þúsundir meðlima söfnuðarins verði handteknir.[3][4] Enginn hluti þessarar kenningar á við rök að styðjast.[5][6][7][8] Stuðningsmenn QAnons hafa sakað marga frjálslynda Hollywood-leikara, stjórnmálamenn í Demókrataflokknum og háttsetta embættismenn um að vera meðlimir í barnaníðshringnum.[9]

Thumb
Algengt einkennismerki QAnon-hreyfingarinnar.

Áhagendur QAnons halda því jafnframt fram að Trump hafi sett á svið samsæri með Rússum til þess að fá Robert Mueller til liðs við sig við að afhjúpa barnaníðshringinn og koma í veg fyrir að Barack Obama, Hillary Clinton og George Soros fremji valdarán.[10][11] Nettröll á mála hjá ríkisstjórn Rússlands hafa gefið samsæriskenningum QAnons byr undir báða vængi á samfélagsmiðlum[12][13][14][15][16][17] auk þess sem rússneskir ríkisfjölmiðlar hafa breitt út kenningarnar.[12][18]

Svipaðar samsæriskenningar á borð við Pizzagate-kenninguna svokölluðu, sem hefur síðan þá orðið hluti af hugmyndamynstri QAnons, höfðu áður náð útbreiðslu á netinu[19][20] en hin eiginlega samsæriskenningasmíð QAnon-hreyfingarinnar hófst í október árið 2017 á netspjallsíðunni 4chan með færslum notanda sem gekk undir nafninu „Q“. Almennt er gengið út frá því að notandinn Q hafi verið Bandaríkjamaður[21] en einnig hafa líkur verið leiddar að því að síðar hafi hópur fólks birt færslur undir notendanafninu Q.[22][23] Q sagðist vera háttsettur embættismaður með svokallaða Q-öryggisheimild og aðgang að leynilegum upplýsingum um ríkisstjórn Donalds Trump og andstæðinga hennar í Bandaríkjunum.[24] Fréttastofan NBC News hefur greint frá því að þrír einstaklingar hafi tekið hina upphaflegu færslu Q og dreift henni til ýmissa fjölmiðla til þess að byggja upp netfylgi í hagnaðarskyni. Ýmsir notendur á 4chan höfðu áður birt svipaðar færslur á undan Q með notendanöfnum á borð við FBIAnon, HLIAnon (High-Level Insider), CIAAnon, og WH Insider Anon.[25] Þótt hreyfingin sé bandarísk að uppruna hefur virkni hennar einnig verið talsverð utan Bandaríkjanna, einkum í Evrópu.[26]

Áhagendur QAnons fóru að birtast á kosningasamkomum Trumps í ágúst árið 2018.[27] Bill Mitchell, útvarpsmaður sem hefur talað fyrir kenningum QAnons, sótti „samfélagsmiðlafund“ í Hvíta húsinu í júlí 2019.[28][29] Stuðningsmenn QAnons merkja færslur sínar á samfélagsmiðlum gjarnan með myllumerkinu #WWG1WGA, sem er skammstöfun á slagorðinu „Where We Go One, We Go All“ (ísl. „Þangað sem eitt okkar fer, förum við öll“[30]). Á fjöldasamkomu Trumps í ágúst 2019 notaði maður slagorðið til að hita upp fyrir Trump en neitaði síðar að um væri að ræða vísun í QAnon. Þetta gerðist fáeinum klukkustundum eftir að alríkislögreglan birti skýrslu þar sem talað var um QAnon sem mögulega uppsprettu hryðjuverkastarfsemi.[31][32] Samkvæmt greiningu fjölmiðlasamtakanna Media Matters for America hafði Trump í október 2020 breitt út skilaboð QAnons að minnsta kosti 265 sinnum með því að deila eða minnast á 152 Twitter-færslur tengdar hreyfingunni, stundum oft á dag.[33][34] Stuðningsmenn QAnons fóru að kalla Trump „Q+“.[35]

Fjöldi stuðningsmanna QAnons er óljós en hreyfingin nýtur verulegs fylgis á netinu. Í júní árið 2020 hvatti Q fylgismenn sína til að sverja „hernaðareið stafrænna stríðsmanna“, sem margir gerðu og merktu með myllumerkinu #TakeTheOath á Twitter.[36] Næsta mánuð lét Twitter loka þúsundum notendaaðganga tengdum QAnon og breytti reikniforritum sínum til að draga úr útbreiðslu samsæriskenningarinnar.[37] Innri greining á Facebook í ágúst leiddi í ljós að milljónir stuðningsmanna hreyfingarinnar væru virkir á þúsundum hópa og síðna á samfélagsmiðlinum. Facebook gerði ráðstafanir síðar sama mánuð til að fjarlægja og takmarka virkni QAnons[38][39] og lét í október alfarið banna dreifingu samsæriskenningarinnar á miðlinum.[40] Fylgismenn QAnons hafa einnig flust á netmiðla á borð við EndChan og 8chan, þar sem þeir hafa skipulagt upplýsingaherferðir til að hafa áhrif á bandarísku forsetakosningarnar 2020.[41]

Margir áhagendur QAnons voru meðal þeirra stuðningsmanna Trumps sem réðust á þinghúsið í Washington í janúar 2021 eftir ósigur Trumps í forsetakosningunum gegn Joe Biden.[42][43][44]

Remove ads

Tilvísanir

Loading related searches...

Wikiwand - on

Seamless Wikipedia browsing. On steroids.

Remove ads