Rafael Trujillo
Einræðisherra í Dóminíska lýðveldinu (1891-1961) From Wikipedia, the free encyclopedia
Remove ads
Rafael Leónidas Trujillo Molina (24. október 1891 – 30. maí 1961), gjarnan kallaður El Jefe (íslenska: „Stjórinn“), var dóminískur stjórnmálamaður, herforingi og einræðisherra sem réð yfir Dóminíska lýðveldinu frá febrúar árið 1930 þar til hann var myrtur í maí árið 1961. Á valdatíð sinni var Trujillo forseti landsins frá 1930 til 1938 og aftur frá 1942 til 1952. Utan þessara tveggja forsetatíða réði Trujillo landinu óformlega í gegnum strengjabrúðuforseta með hjálp hersins. Valdatíð Trujillos er kölluð El Trujillo (íslenska: Trujillo-tímabilið) meðal Dóminíkumanna. Þetta tímabil var eitt hið blóðugasta í nokkru Ameríkulandi og einkenndist af mikilli persónudýrkun á Trujillo. Fjöldi fólks var myrtur á stjórnartíð Trujillos, þar á meðal um 20.000 til 30.000 manns í hinum svokölluðu steinseljumorðum árið 1937.
Remove ads
Æviágrip
Trujillo fæddist árið 1891 nærri borginni San Cristóbal. Faðir hans var nautgripasali og nautgripaþjófur sem hafði komist í kast við lögin fyrir þjófnað.[2]
Árið 1916, á meðan á fyrri heimsstyrjöldinni stóð, krafðist ríkisstjórn Bandaríkjanna þess að Bandaríkjamönnum yrði gefin stjórn á lögreglu, landher og flota dóminíska lýðveldisins. Dóminísk stjórnvöld neituðu að uppfylla kröfurnar en Bandaríkjamenn brugðust við með því að ráðast inn í dóminíska lýðveldið og hertaka það. Trujillo, sem þá var að nálgast þrítugt og hafði oft komist í kast við lögin fyrir hrossaþjófnað og aðra glæpi, var ráðinn sem njósnari hjá bandaríska hernámsliðinu. Hernámið varði til ársins 1924.[3]
Trujillo varð brátt foringi í lögreglusveitum sem bandaríska hernámsliðið stofnaði til þess að hafa hemil á innfæddum og hlaut herþjálfun hjá bandarísku landgönguliðunum. Árið 1923 skipuðu Bandaríkjamenn Trujillo hershöfðingja og æðsta yfirmann herliðsins í Santó Dómingó.[3] Í febrúar árið 1930 tók Trujillo þátt í valdaráni gegn Horacio Vásquez forseta ásamt öðrum herforingjum[4][5] og var síðan sjálfur kjörinn forseti í sýndarkosningum með meintum 99 prósentum atkvæða.
Stuttu eftir að Trujillo var kjörinn forseti skall mannskæður fellibylur á höfuðborginni Santó Dómingó. Trujillo nýtti sér hamfarirnar til þess að auka eigin völd: Hann lýsti yfir herlögum í því skyni að auðvelda yfirvöldum að endurbyggja höfuðborgina. Eftir að því verki var lokið lét Trujillo endurnefna borgina Ciudad Trujillo í höfuðið á sjálfum sér. Eftir ár á forsetastól bannaði hann alla stjórnmálaflokka nema sinn eigin. Stjórn Trujillos ræktaði undir verulega persónudýrkun á foringjanum og lét bæði reisa fjöldann allan af styttum og minnisvörðum honum til heiðurs og nefndi fjölda bæja og héraða eftir honum. Á valdatíð Trujillos stóð ljósaskilti í höfuðborginni sem á stóð „Dios y Trujillo“, eða „Guð og Trujillo“.[3] Á númeraplötum bíla stóðu venjulega orðin „Lengi lifi Trujillo!“ á valdatíð hans.[2][6]
Stjórn Trujillos hóf snemma skipulegar ofsóknir gegn meintum og raunverulegum stjórnarandstæðingum og því flúðu þúsundir manna úr landi.[3] Árið 1937 krafðist Trujillo þess að ríkisstjórn nágrannaríkisins Haítí framseldi honum pólitíska flóttamenn sem hefðu sloppið yfir landamærin. Þegar Haítar neituðu að fara að óskum hans lét Trujillo safna saman Haítum sem bjuggu innan landamæra dóminíska lýðveldisins og taka þá af lífi í hinum svökölluðu „steinseljumorðum“ (spænska: La Masacre del Perejil). Talið er að um 20-30.000 manns hafi látið lífið í fjöldamorðunum.[7]
Óvinir Trujillos voru ekki óhultir frá ofsóknum hans utan landsteina dóminíska lýðveldisins. Ríkisstjórn hans lét myrða ýmsa stjórnarandstæðinga erlendis og sumar af þessum aðgerðum vöktu heimsathygli. Árið 1956 lét Trujillo ræna og myrða spænska háskólakennarann Jesús Galíndez í New York til þess að koma í veg fyrir birtingu bókar sem átti að fletta ofan af ýmsum glæpum Trujillo-fjölskyldunnar.[3][8] Af svipuðum ástæðum lét Trujillo drepa spænska rithöfundinn José Almoina í Mexíkó árið 1960 og stóð jafnframt sama ár fyrir misheppnuðu morðtilræði gegn forseta Venesúela, Rómulo Betancourt.[9]
Þann 25. nóvember árið 1961 lét Trujillo myrða Mirabal-systurnar, andófskonur gegn stjórn hans innan Dóminíska lýðveldisins. Morðið á systrunum vakti hörð viðbrögð innan og utan ríkisins og leiddi, ásamt morðtilræðinu gegn Betancourt, til þess að stjórn Trujillos einangraðist mjög frá öðrum stjórnum í Rómönsku Ameríku.[10]
Þann 30. maí árið 1961 réðst hópur manna á Trujillo í glæsibifreið sinni stutt fyrir utan dóminísku höfuðborgina. Mennirnir hófu skothríð á bílinn og myrtu einræðisherrann. Morðið var skipulagt af herforingjum sem hugðu á valdarán, en þrátt fyrir dauða Trujillos misheppnaðist tilræðismönnunum að taka völdin í ríkinu. Tilræðismennirnir voru flestir handteknir og teknir af lífi og sonur Trujillos, Ramfis, tók í stuttan tíma við völdum.
Remove ads
Tilvísanir
Wikiwand - on
Seamless Wikipedia browsing. On steroids.
Remove ads