Scipio Africanus
rómverskur herforingi og stjórnmálamaður (235-183 f.Kr.) From Wikipedia, the free encyclopedia
Remove ads
Publius Cornelius Scipio Africanus Major (á latínu: P·CORNELIVS·P·F·L·N·SCIPIO·AFRICANVS¹) (235 – 183 f.Kr.) var herforingi í öðru púnverska stríðinu og rómverskur stjórnmálamaður. Hans er minnst fyrir að hafa sigrað Hannibal Barca frá Karþagó í Orrustunni við Zama. Fyrir vikið hlaut hann viðurnefnið Africanus en var auk þess nefndur „hinn rómverski Hannibal“. Hann er almennt talinn með bestu herforingjum hernaðarsögunnar.
- Þessi grein fjallar um rómverska herforingjann sem sigraði Hannibal í öðru púnverska stríðinu. Um aðra menn með sama nafni sjá Scipio.
Scipio Africanus tilheyrði Scipio greininni af Cornelia ættinni, sem var ein af helstu aðalsættunum í Róm. Faðir Scipios, sem einnig hét Publius Cornelius Scipio, féll í bardaga í Íberíu í Öðru púnverska stríðinu. Scipio Africanus tók í kjölfarið við stjórn herafla Rómverja á Íberíu og barðist þar meðal annars við Hasdrubal, bróður Hannibals. Scipio sannaði sig sem snjall herstjórnandi á næstu árum og tókst, árið 206 f.Kr. að binda enda á veru Karþagómanna á Íberíu þegar hann sigraði þá í Orrustunni við Ilipa. Í kjölfarið höfðu Rómverjar völd á stórum svæðum á Íberíuskaganum og gerðu að skattlandinu Hispaniu.
Árið 204 f.Kr. hélt Scipio til Norður-Afríku með herafla og tók þar með átökin til heimalands Karþagómanna. Til að bregðast við þessu var Hannibal kallaður heim frá Ítalíu. Scipio og Hannibal mættust svo í Orrustunni við Zama, árið 202 f.Kr., þar sem Rómverjar unnu afgerandi sigur. Orrustan reyndist vera sú síðasta í stríðinu því Karþagómenn gáfust upp stuttu síðar. Scipio var fagnað sem hetju í Róm þegar hann hélt upp á sigurinn yfir Hannibal og fékk hann viðurnefnið Africanus. Eftir stríðið tók Scipio lítinn þátt í stjórnmálum Rómar og settist að lokum í helgan stein í Campaniu.
Remove ads
Neðanmálsgreinar
Heimild
Wikiwand - on
Seamless Wikipedia browsing. On steroids.
Remove ads