Skipting Indlands
From Wikipedia, the free encyclopedia
Remove ads
Skipting Indlands var skipting hluta þeirra landsvæða sem áður voru Breska Indland milli tveggja sjálfstjórnarríkja sem skömmu síðar urðu sjálfstæðu ríkin Indland og Pakistan. Skiptingin tók gildi 15.-17. ágúst 1947. Pakistan var myndað af héruðum í norðvesturhlutanum þar sem múslimar voru meirihluti íbúa eins og Balúkistan og Sindh. Héruðunum Púnjab, Assam og Bengal var skipt upp eftir því hvort múslimar eða hindúar og síkar voru í meirihluta. Vesturhluti Púnjab varð þannig hérað í Pakistan (Vestur-Púnjab) en austurhlutinn varð indverska héraðið Púnjab. Hlutar Assam (Sylhet-umdæmi) og Bengal (Austur-Bengal) urðu Austur-Pakistan sem tengdist ekki Vestur-Pakistan. Þar varð brátt vaxandi hreyfing fyrir sjálfstæði frá Pakistan sem leiddi til stofnunar Bangladess árið 1971. Skipting Indlands á almennt við um skiptinguna milli Indlands og Pakistan 1947, en ekki við aðskilnað Búrma og Arabaríkjanna við Persaflóa og Hormússund frá nýlendustjórninni á Indlandi árið 1937, eða aðskilnað Vestur- og Austur-Pakistan 1971, þótt allar þessar skiptingar tengist upplausn Breska Indlands.[1]

Eftir að ríkin tvö fengu sjálfstæði gerðust flest sjálfstæð furstadæmi innan þeirra hlutar hinna nýju ríkja, þótt mörg þeirra hefðu vonast eftir að halda sjálfstæði sínu.[2] Þegar Bretar hurfu frá Indlandi voru þar 565 furstadæmi sem náðu yfir 40% landsins og yfir 20% mannfjöldans. Skömmu síðar höfðu þau nær öll samþykkt aðild að Pakistan, Indlandi eða Búrma.[3][4] Þannig varð Kanatið Kalat hluti Pakistan 1955 og Hyderabad og Junagadh urðu hlutar Indlands. Furstadæmið Jammú og Kasmír varð hluti Indlands utan tvö umdæmi sem urðu hluti af Pakistan. Bahawalpur í Púnjabhéraði, varð hluti af Pakistan árið 1955. Sikkim, þar sem stór hluti íbúa var búddatrúar, var áfram sjálfstætt konungdæmi í sambandi við Indland til 1975 þegar íbúar ákváðu að afnema einveldið og gerast hérað innan Indlands, meðan Nepal og Bútan héldu áfram í einveldið og sjálfstæði sitt. Oftast gekk sameining friðsamlega fyrir sig, en vopnuð andspyrna átti sér þó stað, einkum í Jammú og Kasmír, Hyderabad, Junagadh og Kalat.[5][6] Þessi landsvæði voru í raun hernumin af Indlandi eða Pakistan, en hernámið var kallað „lögregluaðgerð“.[7] Síðan þá hafa oft blossað upp átök í Balúkistan og Jammú og Kasmír, sem má rekja til skiptingarinnar. Telugumælandi héruð fyrrum furstadæmisins Hyderabad börðust lengi fyrir sjálfstjórnarhéraði sem var stofnað árið 2014.[8][9] Austurlandamærin að Búrma voru látin liggja milli hluta í mörg ár. Þau hafa verið óstöðug og einkennst af frjálsu flæði fólks milli Indlands, Bangladess og Búrma. Átök Róhingja við stjórn Mjanmar og þjóðernisátök í Manipur, leiddu til þess að Indland hvarf frá stefnu um frjálsa för um landamærin árið 2024.[10][11]
Við skiptinguna hröktust um 14 milljónir manna á vergang vegna trúarlegra og pólitískra ofsókna beggja vegna landamæranna. Múslimar flúðu frá indversku héruðunum til Pakistan og hindúar og síkar hröktust til Indlands. Mörg hundruð þúsund létu lífið í árásum eða vegna hrakninga. Verst úti urðu héruðin Púnjab og Bengal, sem skiptust milli ríkjanna tveggja. Hundruð þúsunda múslima hröktust frá stöðum þar sem þeir höfðu áður verið stór minnihluti, eins og í Gújarat og Delí.[12][13] Blóðug átök urðu líka í sumum furstadæmunum.[14] Í sumum tilvikum hófst ofbeldið þegar þjálfaðir fyrrum hermenn úr Breska Indlandshernum sneru aftur með vopn sín og gengu í þjónustu stjórnmálamanna eða glæpaforingja sem reyndu að nýta sér ringulreiðina í aðdraganda skiptingarinnar.[15][16] Eftir það stigmögnuðust átökin og nágrannar úr ólíkum trúarhópum snerust gegn hver öðrum.[17] Í mörgum tilvikum reyndi fólk líka að bjarga nágrönnum sínum frá ofbeldinu.[18] Yfir 12 þúsund vitnisburðum fólks sem upplifði skiptinguna hefur verið safnað skipulega af verkefninu 1947 Partition Archive frá 2008.[19]
Remove ads
Tilvísanir
Wikiwand - on
Seamless Wikipedia browsing. On steroids.
Remove ads