Thomas E. Dewey
Bandarískur stjórnmálamaður (1902–1971) From Wikipedia, the free encyclopedia
Remove ads
Thomas Edmund Dewey (24. mars 1902 – 16. mars 1971) var bandarískur stjórnmálamaður og lögmaður sem var 47. fylkisstjóri New York, frá 1943 til 1954.
Hann var frambjóðandi Repúblikanaflokksins í forsetakosningum Bandaríkjanna árin 1944 og 1948. Dewey tapaði fyrri kosningunum fyrir Franklin D. Roosevelt og hinum seinni á móti Harry S. Truman. Flestar skoðanakannanir höfðu spáð Dewey auðveldum sigri í kosningunum 1948 og ósigur hans gegn Truman var því ein óvæntasta kosninganiðurstaða í bandarískri stjórnmálasögu.
Remove ads
Æviágrip
Thomas Dewey fæddist árið 1902 í Owosso í Michigan. Faðir hans var leiðtogi Repúblikanaflokksins í sýslunni, ritstjóri og póstmeistari staðarins. Dewey vann ungur við blaðaútburð og í sykurverksmiðju í Owosso, auk þess sem hann vann í prentsmiðju föður síns. Hann vann sér inn fé til að ganga í Michigan-háskóla og var ritstjóri stúdentablaðs skólans á námsárum sínum þar. Dewey útskrifaðist árið 1923 og flutti til New York, þar sem hann hóf nám við lagadeild Columbia-háskóla. Hann útskrifaðist þaðan árið 1925 og hóf lögmannsstörf í New York.[1]
Árið 1931 var Dewey skipaður aðstoðarsaksóknari í New York. Dewey skar upp herör gegn glæpastarfsemi í borginni, meðal annars mafíuforingjanum Lucky Luciano, og varð landsþekktur í Bandaríkjunum fyrir frammistöðu sína.[2][3] Árið 1935 skipaði Herbert H. Lehman, fylkisstjóri New York, Dewey saksóknara og veitti honum sérstakar valdheimildir til að taka á fjárglæpastarfsemi sem viðgekkst í fylkinu. Dewey ávann sér miklar vinsældir með framgöngu sinni í baráttu gegn glæpastarfsemi borgarinnar. Hann var kjörinn saksóknari í Manhattan-umdæmi New York árið 1937.[2]
Árið 1938 völdu Repúblikanar Dewey sem frambjóðanda sinn í fylkisstjórakosningum New York. Dewey tapaði naumlega gegn sitjandi fylkisstjóranum Lehman með aðeins um 60 þúsund atkvæða mun. Vinsældir Dewey voru það miklar að hann var aftur valinn sem frambjóðandi flokksins í fylkisstjórakosningum árið 1942 og vann hann þá afgerandi sigur með um 600 þúsund atkvæða meirihluta. Hann var endurkjörinn árið 1946 með enn fleiri atkvæðum.[2]
Dewey sóttist eftir tilnefningu Repúblikanaflokksins í forsetakosningum Bandaríkjanna árið 1940 en lét í lægra haldi fyrir Wendell Willkie, sem tapaði kosningunum gegn sitjandi forsetanum Franklin D. Roosevelt.[2]
Dewey sóttist aftur eftir tilnefningu flokksins í forsetakosningunum 1944 og varð í þetta sinn fyrir valinu. Hann gagnrýndi utanríkisstefnu Roosevelt í tilteknum málum, einkum ákvörðun hans um að taka upp stjórnmálasamband við Sovétríkin.[4] Í þessum kosningum tapaði Dewey fyrir Roosevelt, sem naut mikillar alþýðuhylli, en hlaut þó meira fylgi en margir höfðu búist við.[2]
Forsetakosningarnar 1948

Dewey hlaut tilnefningu Repúblikanaflokksins í annað skipti í forsetakosningunum árið 1948. Varaforsetaefni hans í kosningunum var Earl Warren, fylkisstjóri Kaliforníu. Dewey bauð sig þar fram gegn Harry S. Truman, sem hafði tekið við forsetaembætti eftir dauða Franklins D. Roosevelt árið 1945. Á þessum tíma naut Truman þverrandi vinsælda og Demókrataflokkurinn var þríklofinn á milli stuðningsmanna Trumans, íhaldssamra suðurríkjademókrata undir forystu Stroms Thurmond, og vinstrisinna undir forystu Henry A. Wallace. Því þóttu yfirgnæfandi líkur á því að Dewey myndi vinna kosningarnar og verða næsti forseti Bandaríkjanna.[5]
Þar sem sigur Dewey þótti nánast öruggur rak hann máttlitla kosningabaráttu þar sem hann lagði höfuðáherslu á að koma Demókrötum frá völdum. Hann talaði lítið um stefnumál sín og kosningabarátta hans einkenndist öðru fremur af orðhengilshætti og slagorðum á borð við „To err is Truman“. Truman rak hins vegar þróttmikla kosningabaráttu þar sem hann ferðaðist um öll Bandaríkin og gagnrýndi Dewey og Repúblikana fyrir aðgerðaleysi og einangrunarstefnu.[5]
Þegar kom á kjördag árið 1948 vann Truman óvæntan sigur gegn Dewey með um tveggja milljóna atkvæða forskoti.[5] Truman vann í 39 fylkjum og hlaut 303 atkvæði í kjörmannaráðinu en Dewey vann í 16 fylkjum og hlaut 189 kjörmannaatkvæði.[6] Áður en úrslit kosninganna lágu fyrir hafði dagblaðið The Chicago Tribune verið búið að prenta forsíðufrétt með fyrirsögninni „Dewey sigrar Truman“ þar sem svo litlar líkur þóttu á því að Dewey myndi tapa. Ranga fyrirsögnin varð alræmd sem dæmi um fljótfærni í bandarískri blaðamennsku.[5]
Remove ads
Tilvísanir
Wikiwand - on
Seamless Wikipedia browsing. On steroids.
Remove ads