Trúleysi
From Wikipedia, the free encyclopedia
Remove ads
Trúleysi er sú afstaða að trúa ekki á yfirnáttúrulegar verur eða öfl, þar með talda guði. Orðið „trúleysi“ er stundum notað sem samheiti fyrir orðið „guðleysi“, þótt það síðarnefnda útiloki ekki endilega trú á yfirnáttúru aðra en guði. Stundum er gerður greinarmunur á sterku og veiku trúleysi. Veikt trúleysi felur þá í sér að trúa ekki á tilvist æðri máttarvalda, svo sem guðs eða guða, en sterkt trúleysi felur í sér sannfæringu um að æðri máttarvöld séu ekki til[1] eða að fullyrðingar um guð séu beinlínis merkingarlausar.

Remove ads
Sterkt og veikt trúleysi
Heimspekingar á borð við Antony Flew[2] og Michael Martin hafa greint á milli sterks og veiks trúleysis.[3] Sterkt trúleysi er fólgið í þeirri skoðun að guð eða æðri máttarvöld séu ekki til. Veikt trúleysi er fólgið í öllu öðru guðleysi, allt frá þeirri skoðun að það sé ekki hægt að vita neitt um tilvist guðs til þess að hafa ekki velt fyrir sér hvort guð sé til eða ekki til. Samkvæmt þessari flokkun eru allir þeir trúleysingjar — annaðhvort veikir eða sterkir trúleysingjar — sem eru ekki beinlínis guðstrúar. Þannig mætti samkvæmt þessum greinarmuni skipta öllu fólki í tvo hópa, annars vegar þá sem trúa á guð eða guði og hins vegar þá sem hafa ekki guðstrú (eru ekki þeirrar skoðunar að guð eða guðir séu til); Þeir fyrrnefndu eru þá trúaðir en þeir síðarnefndu trúleysingjar. Síðari hópnum —trúleysingjum — er svo skipt í tvennt, þannig að veikir trúleysingjar eru þeir sem hafa ekki þá skoðun að guð sé til en eru ekki endilega heldur þeirrar skoðunar að guð sé ekki til; en sterkir trúleysingjar eru þeir sem hafa ekki þá skoðun að guð sé til en hafa á hinn bóginn þá skoðun að guð sé ekki til.
Orðanotkunin veikt og sterkt trúleysi er tiltölulega ný af nálinni. Samsvarandi skipting í jákvætt og neikvætt trúleysi hefur stundum verið notuð í heimspeki.
Gegn sterku trúleysi er stundum sagt að ef ekki er hægt að vita hvort guð er til eða ekki, þá sé trúleysi líka eins konar trú. Gegn því benda trúleysingjar gjarnan á að ekki allar staðhæfingar séu jafn sennilegar og það eigi við um staðhæfingar um tilvist guðs. Af þessum sökum kjósa sumir trúleysingjar, eins og Richard Dawkins, að greina á milli guðstrúar, veiks trúleysis og sterks trúleysis eftir því hversu sennileg viðkomandi telur að staðhæfingin „Guð er til“ sé.[4]
Remove ads
Tilvísanir
Heimildir og frekari fróðleikur
Tenglar
Wikiwand - on
Seamless Wikipedia browsing. On steroids.
Remove ads