UNITA
Stjórnmálaflokkur í Angóla From Wikipedia, the free encyclopedia
Remove ads
Þjóðarsamtök til algers sjálfstæðis Angóla (portúgalska: União Nacional para a Independência Total de Angola, skammstafað UNITA) er angólskur stjórnmálaflokkur. UNITA var áður hernaðarhreyfing sem barðist fyrir sjálfstæði Angóla undan Portúgal og síðan andkommúnistahreyfing sem barðist gegn sósíalískum stjórnvöldum Angóla í angólsku borgarastyrjöldinni.
Remove ads
Saga
Sjálfstæðisstríð Angóla hófst árið 1961 og hafði slæm efnahagsleg og pólitísk áhrif á Portúgal og portúgalska nýlenduveldið. Árið 1974 leiddi nellikubyltingin svonefnda til endaloka hinnar íhaldssömu einræðisstjórnar sem Salazar hafði stofnað í Portúgal. Á þessum tíma var UNITA studd af Kínverjum og stundaði skæruhernað í anda maóista.[3] UNITA tók hins vegar smám saman upp harða hægristefnu og vann með nýlendustjórninni til að veikja marxísku þjóðernishreyfinguna MPLA.[4] Jonas Savimbi var leiðtogi UNITA frá stofnun hreyfingarinnar til dauðadags árið 2002.[3]
Eftir fimmtán ára skæruhernað gegn portúgalska hernum skrifuðu þrjár helstu sjálfstæðishreyfingar Angóla, Þjóðfylkingin til frelsunar Angóla (FNLA), Alþýðuhreyfingin til frelsunar Angóla og Þjóðarsamtök til algers sjálfstæðis Angóla (UNITA) þann 15. janúar 1975 undir samning um yfirlýsingu sjálfstæðis landsins þann 11. nóvember næsta ár. Portúgalska nýlendustjórnin undirritaði samninga um valdatilfærslu til hreyfinganna þriggja. Hlutverk UNITA í sjálfstæðisstríðinu er þó umdeilt vegna mögulegs samstarfs hermanna hreyfinganna við nýlenduherinn á móti hermönnum MPLA. Afríska einingarbandalagið viðurkenndi hreyfinguna því ekki sem raunverulega frelsishreyfingu.[5]
Í október 1975 brutust hins vegar út átök milli FNLA og UNITA annars vegar og MPLA hins vegar.[6] Þann 11. nóvember 1975 lýstu FNLA og UNITA yfir stofnun „lýðstjórnaralþýðulýðveldis“ í borginni Huambo en MPLA lýsti yfir stofnun alþýðulýðveldis í höfuðborginni Lúanda með Angostinho Neto sem forseta.[7]
Á tíunda áratugnum var UNITA einangrað í síauknum mæli þar sem Bandaríkjamenn hættu stuðningi við hreyfinguna eftir lok kalda stríðsins, aðskilnaðarstefnunni í Suður-Afríku lauk árið 1991[8] og ríkisstjórn Mobutu í Kongó (áður Saír) féll árið 1997. Sameinuðu þjóðirnar hófu jafnframt refsiaðgerðir gegn UNITA fyrir að virða ekki skilmála friðarsamkomulags sem var undirritað í Lusaka árið 1994. Hreyfingin missti jafnframt stjórn á mörgum demantanámunum sem höfðu fjármagnað hernað hennar. Hluti hermanna UNITA lagði því niður vopn og nokkrir meðlimir í hreyfingunni voru skipaðir í embætti í þjóðstjórn undir forystu MPLA.[9]

Jonas Savimbi var drepinn í bardaga árið 2002 og eftirmaður hans, Isaías Samakuva, ákvað að hætta vopnaðri baráttu og taka þátt í lýðræðislegum kosningum. UNITA hlaut 16 þingsæti af 120 í kosningum Angóla árið 2008. Borgarastyrjöldin hafði leitt til nærri milljón dauðsfalla og skilið eftir milljónir jarðsprengna gegn liðsafla sem enn valda dauðsföllum í dag. Enn er sterk þjóðernisvitund meðal þjóðarbrota í landinu en frá því að friður náðist hefur sameiginleg þjóðerniskennd Algóla í heild sinni styrkst.
Árið 2019 var Adalberto Costa Júnior kjörinn forseti UNITA á flokksþingi og tók við forystunni af Samakuva.[10] Árið 2021 komst stjórnlagadómstóll Angóla að þeirri niðurstöðu að kjör Costa í forystu flokksins hefði ekki farið rétt fram og ógilti hana. Þingmenn UNITA gagnrýndu þessa ákvörðun og sögðu hana tekna af pólitískum en ekki lagalegum ástæðum.[10] UNITA efndi til annars flokksþings árið 2023 þar sem Costa var aftur kjörinn forseti flokksins.[11]
Í kosningum Angóla árið 2022 gerði UNITA kosningabandalag við Bloco Democrático, flokks utan þings undir forystu Filomeno Vieira Lopes, og stjórnmálahreyfinguna PRA-JA Servir Angola undir forystu Abel Chivukuvuku og myndaði með þeim „Sameinuðu þjóðernisfylkinguna“. Adalberto Costa Júnior var forsetaefni hreyfingarinnar í forsetakosningum þetta ár.[11][12][13]
Remove ads
Gengi í kosningum
Forsetakosningar
Þingkosningar
Remove ads
Tilvísanir
Wikiwand - on
Seamless Wikipedia browsing. On steroids.
Remove ads


