Andrew Jackson
7. forseti Bandaríkjanna From Wikipedia, the free encyclopedia
Remove ads
Andrew Jackson (15. mars 1767 – 8. júní 1845) var sjöundi forseti Bandaríkjanna og þjónaði því embætti frá 1829 til 1837. Jackson var fyrsti bandaríski forsetinn úr Demókrataflokknum og jafnframt fyrsti forsetinn sem ekki var af ríkum landeignarættum.
Remove ads
Æviágrip
Jackson fæddist í mikla fátækt á landamærum Norður- og Suður-Karólínu. Aðeins tólf ára gamall barðist Jackson gegn Bretum í bandaríska frelsisstríðinu. Jackson missti alla nánustu fjölskyldu sína í stríðinu en lærði söðlasmíði og stundaði kennslu til að afla sér viðurværis. Jackson hóf jafnframt laganám hjá dómara í bænum Salisbury og hlaut málflutningsleyfi þegar hann var tvítugur.[1] Sem ungur maður safnaði Jackson talsverðum auði, fyrst sem lögfræðingur en síðan sem stjórnmálamaður, kaupmaður og loks sem plantekrueigandi. Jackson flutti árið 1790 til Tennessee og eignaðist þar landspildu sem hann nefndi The Hermitage. Hann stundaði þar hrossa- og hanarækt mestalla ævi þegar hann var ekki önnum kafinn við hermennsku og stjórnmál.[1]
Eftir að Jackson fluttist til Tennessee gekk hann í heimavarnarlið Bandaríkjahers á svæðinu og var gerður að majór þegar Tennesse var viðurkennt sem fylki.[a] Hann var síðar hækkaður í tign og varð generalmajór.[a] Þegar stríð braust út á ný milli Bandaríkjanna og Bretlands árið 1812 var Jackson (sem kenndi Bretum um dauða fjölskyldu sinnar) fljótur að bjóða sig fram til herþjónustu ásamt her sjálfboðaliða undir hans stjórn. Jackson varð frægur fyrir frammistöðu sína í átökum við Indíana af Creek-þjóðerni sem börðust við hlið Breta.[b]
Í stríðinu var það Jackson sem vann orrustuna um New Orleans árið 1815 og vakti þannig athygli allrar þjóðarinnar. Reyndar var stríðinu þegar lokið þegar orrustan var háð en fréttir af friðarsáttmálanum höfðu enn ekki borist hermönnum í suðurhluta Bandaríkjanna. Engu að síður jók þessi sigur Jacksons undir blálok stríðsins verulega við hróður hans og gerði hann að þjóðhetju.
Stjórnmálaferill
Stjórnmálaferill Jacksons fór á flug eftir stríðið. Jackson bauð sig fram til forseta í kosningum árið 1824 og hlaut flest atkvæði en þar sem enginn frambjóðandi hlaut meirihluta úthlutaðra kjörmanna í kjörmannaráðinu kom það í hlut fulltrúadeildar Bandaríkjaþings að kjósa forsetann. Fulltrúadeildin kaus John Quincy Adams í stað Jacksons, en þessi ákvörðun reitti stuðningsmenn Jacksons mjög til reiði. Jackson og stuðningsmenn hans töldu að Henry Clay, sem sjálfur hafði verið í framboði til forseta en var jafnframt forseti fulltrúadeildarinnar á þessum tíma, hefði fallist á að styðja Adams í skiptum fyrir að vera skipaður utanríkisráðherra í Adams-stjórninni.
Eftir kjör Adams til forseta stofnuðu félagar Jacksons Demókrataflokkinn. Jackson bauð sig fram á ný gegn Adams árið 1828 og vann í þetta sinn stórsigur. Í kosningunum var Jackson stillt upp sem „manni alþýðunnar“ á móti þurrlega hástéttarmanninum og atvinnustjórnmálamanninum Adams. Frægt er að eftir vígslu sína í embættið bauð Jackson almenningi í veislu í hvíta húsinu, en þar slettu stuðningsmenn hans svo mjög úr klaufunum að talsverðar skemmdir voru unnar á innanstokksmunum setursins. Andstæðingar Jacksons fóru að uppnefna hann „konung múgsins“ (King Mob) fyrir meintan múgæsing hans og lýðhyggju.
Mikið var þó um skítkast í báðum fylkingum á aðdraganda kosninganna og stuðningsmenn Adams veittu sér meðal annars að eiginkonu Adams, Rachel, fyrir meint fjölveri hennar. Rachel var undir miklu álagi og lést úr hjartaáfalli nokkrum dögum eftir kosningu Jacksons. Jackson kenndi stuðningsmönnum Adams um dauða hennar og sagði við jarðarför eiginkonu sinnar: „Megi Guð almáttugur fyrirgefa morðingjum hennar. Ég mun aldrei geta það.“[2]
Forsetatíð
Sem forseti gekk Jackson mjög hart fram til þess að ná fram stefnumálum sínum. Eitt af því alræmdasta og umdeildasta sem Jackson gerði á forsetatíð sinni var að skrifa árið 1830 undir lagasetningu um nauðungarflutninga á amerískum frumbyggjum frá heimalöndum þeirra í suðurhluta Bandaríkjanna til verndarsvæða sem Bandaríkjastjórn úthlutaði þeim vestan við Mississippi-fljót. Jackson gerði ýmsa samninga við fulltrúa frumbyggjaættbálka um samþykki þeirra fyrir því að vera fluttir inn á verndarsvæði en margir frumbyggjar efuðust um lagagildi þessara samninga og kvörtuðu yfir því að þeir sem skrifuðu undir samningana hefðu ekkert umboð til að tala fyrir ættbálkana í heild sinni. Nauðungarflutningarnir voru jafnan erfiðir og fjöldi Indíana lést úr vannæringu og þreytu á leiðinni.[3] Jackson komst stundum í kast við lögin með stefnu sinni gagnvart frumbyggjunum – árið 1832 kvað hæstaréttardómarinn John Marshall upp dóm um að stjórn Georgíufylkis mætti ekki banna hvítum Bandaríkjamönnum að fara inn á yfirráðasvæði frumbyggjanna þótt þeir væru að hvetja þar til andspyrnu gegn gerðum Bandaríkjastjórnar. Haft er eftir Jackson um dóminn: „John Marshall hefur tekið sína ákvörðun. Sjáum nú hvort hann getur látið framfylgja henni.“
Alræmdustu nauðungarflutningarnir sem Jackson stóð fyrir voru „táraslóðin“ (enska: Trail of Tears) árið 1839. Þeir nauðungarflutningar voru framkvæmdir í stjórnartíð eftirmanns Jacksons, Martins Van Buren, en þeir voru skipulagðir og byggðir á samningi sem gerður hafði verið í stjórnartíð Jacksons. Í þessum nauðungarflutningum voru um 16.543 frumbyggjar af Sérókaþjóðerni hraktir frá heimkynnum sínum í Georgíu, Suður-Karólínu, Norður-Karólínu, Tennessee, Texas og Alabama og neyddir til að fara fótgangandi til verndarlanda í núverandi Oklahoma. Um 2.000–8.000 af Sérókunum létust á leiðinni.[4][5][6][7][8]
- Jackson, höfuðborg Mississippi er nefnd eftir honum.
Remove ads
Neðanmálsgreinar
- (Jón Þ. Þór 2016, bls. 82)
- (Jón Þ. Þór 2016, bls. 83)
Tilvísanir
Wikiwand - on
Seamless Wikipedia browsing. On steroids.
Remove ads