Girolamo Savonarola

Ítalskur svartmunkur, leiðtogi Lýðveldisins Flórens (1452-1498) From Wikipedia, the free encyclopedia

Girolamo Savonarola
Remove ads

Girolamo Savonarola (21. september 1452 – 23. maí 1498) var munkur og predikari úr Dóminíkanareglunni sem var óformlegur leiðtogi borgríkisins Flórens frá 1494 til dauðadags árið 1498. Savonarola stóð fyrir stofnun nokkurs lags lýðræðislegs, kristins lýðveldis í Flórens í óþökk hinnar voldugu Medici-ættar, sem hafði farið með lög og lof í borginni áratugina á undan. Páfaríkið og andstæðingar Savonarola innan Flórens gerðu að endingu uppreisn gegn honum. Árið 1498 var hann dæmdur fyrir villutrú og brenndur á báli fyrir framan höllina Palazzo Vecchio.

Staðreyndir strax Fæddur, Dáinn ...
Remove ads

Bakgrunnur og predikanir

Girolamo Savonarola fæddist í Ferrara. Hann nam í upphafi náttúrufræði en taldi sig ekki geta fundið neitt samhengi í rás viðburða eða heimsskipulaginu í því námi og gekk því í klaustur. Eftir að ábótinn í klaustrinu las tvö ljóð eftir hann hvatti hann Savonarola til að predika. Savonarola hóf að predika um opinberunarbók Jóhannesar og spámenn gamla testamentsins, við góðar undirtektir. Hann fór frá Bologna til annarra ítalskra borga og predikaði í tuttugu borgum á tólf árum.[1]

Árið 1489 kvaddi Lorenzo de' Medici hinn mikilfenglegi, leiðtogi Lýðveldisins Flórens, Savonarola til Flórensborgar. Lorenzo veitti honum til umráða klefa í San Marco-klaustrinu. Savonarola hélt áfram predikunum sínum og varð kunnur undir nafninu „munkurinn frá San Marco“. Í predikunum sínum lagði Savonarola áherslu á að kirkjan yrði að umskapa sig og að menn yrðu að bæta ráð sitt því annars yrði allri Ítalíu refsað á himnum. Hann gagnrýndi fegurðardýrkun, sællífi, auðvald og glysgirni veraldlegra þjóðhöfðingja.[1]

Lorenzo fór að óttast predikanir Savonarola og reyndi að fá hann á sitt band með því að gera hann að ábóta í San Marco-klaustrinu. Savonarola tók við stjórn klaustursins en neitaði að biðja stjórnanda borgarinnar um vernd eins og venja var meðal ábóta. Þar sem Savonarola neitaði að milda orðræðu sína gagnvart höfðingjastéttinni fékk Lorenzo munk úr Fransiskanareglunni, Mariano da Genazzano(it), til að predika gegn honum.[1][2]

Sagt er að þegar Lorenzo veiktist og fann að hann átti skammt eftir ólifað hafi hann kallað Savonarola á sinn fund og beðið um syndaaflausn. Savonarola setti þrjú skilyrði: Að Lorenzo yrði að trúa því að Guð gæti og vildi fyrirgefa allar syndir, að skila öllu sem hann hefði komist yfir með rangsleitni og að hann yrði að innleiða á ný hina gömlu, frjálslyndu stjórnarskrá Flórens. Lorenzo er sagður hafa fallist á fyrstu tvö skilyrðin en aðeins þagað yfir hinu þriðja. Samkvæmt sögunni neitaði Savonarola því að veita honum aflát og Lorenzo lést nokkrum dögum síðar.[1]

Remove ads

Valdatíð í Flórens

Árið 1494 gerði Karl 8. Frakkakonungur innrás í Norður-Ítalíu. Savonarola taldi sig hafa spáð fyrir um þennan atburð og tók honum fagnandi þar sem hann leit á innrásina sem tækifæri til að reka Medici-ættina frá völdum í Flórens. Flórens sendi Savonarola sem sendimann til Frakkakonungs til að semja um frið og honum tókst að telja honum á að hlífa borginni í skiptum fyrir að borgríkið gengi í bandalag við hann og að Savonarola tæki að sér stjórnskipan hennar. Þetta gekk eftir og Savonarola sneri aftur til Flórens við mikinn fögnuð en Piero de' Medici, sonur Lorenzos, var rekinn burt ásamt ætt sinni.[1]

Savonarola vildi að prestar stjórnuðu ríkinu og að þjóðin stjórnaði sér sjálf eftir lögmálum Guðs. Hann lét loka vínveitingakrám og spilavítum og hvatti fólk til að halda strangar föstur. Hann skipaði málurum að brenna allar myndir sem ekki voru trúarlegs eðlis og hóf baráttu gegn munkum sem ekki voru nógu nægjusamir í líferni sínu. Hann hvatti fólk til að klæðast fátæklegum fatnaði og skipaði að andleg ljóð yrðu sungin í stað þjóðkvæða.[1] Fylgismenn Savonarola voru kallaðir „ýlarar“ en andstæðingar hans „þeir óðu“.[3] Frægt er að Savonarola hélt mikla brennu þar sem veraldlegum bókum, listaverkum og skrautmunum var kastað á bál.[4]

Alexander 6. páfi vonaði í fyrstu að hann gæti fengið Savonarola á sitt band og að hann myndi hjálpa honum að gera son hans, Cesare Borgia, að ríkisstjóra í Toskana.[3] Hann bauð honum skipun til kardínála en Savonarola afþakkaði og hélt áfram að gagnrýna páfastólinn. Í kjölfarið bannaði páfi honum að tala og bannfærði hann síðan þegar Savonarola neitaði að hlýða skipunum hans.[1] Savonarola sagði Alexander hafa náð kjöri á páfastól með mútugreiðslum og því væri ekki mark á honum takandi.[5]

Remove ads

Endalok Savonarola

Thumb
Málverk af aftöku Savonarola eftir Filippo Dolciati (1498).

Stuðningur við Savonarola þvarr samhliða auknum erfiðleikum borgarbúa og efasemdarmenn hans kröfðust þess að skorið yrði úr um kenningar hans með svokallaðri eldraun. Í því fólst að eldur var kveiktur og sá sem sakaður var um villutrú var látinn vaða hann. Ef hann komst óskemmdur yfir eldinn var það talið sanna að hann væri sýkn. Bálið var kynt en Savonarola vildi ekki vaða eldinn. Munkur að nafni Domenico bauðst til að vaða eldinn í hans nafni og vildi fá að bera vígðan Kristlíkama með sér, sem honum var neitað um.[3] Hætt var við eldraunina, sem hafði átt að fara fram 7. apríl 1498, og slökkt var á bálinu. Þetta vakti mikla reiði og margir töldu þetta sönnun þess að Savonarola væri villutrúarmaður.[1]

Fáeinum dögum réðust andstæðingar Savonarola á San Marco-klaustrið og lögðu hendur á Savonarola og helstu bandamenn hans, munkana Domenico og Silvestro. Þeim var varpað í dýflissu undir ráðhúsi borgarinnar, þar sem þeir voru pyntaðir af rannsóknarréttinum. Við pyntingarnar játuðu þeir að þeir væru í þjónustu djöfulsins og hefðu boðað villutrú. Alexander páfi var hvattur til að sýna Savonarola vægð en hann mun hafa svarað að Savonarola yrði að deyja „enda þótt hann væri sjálfur Jóhannes skírari“. Savonarola og bandamenn hans voru formlega dæmdir til dauða þann 22. maí 1498. Daginn eftir voru þeir Savonarola, Domenico og Silvestro festir upp í gálga fyrir framan ráðhúsið og bál kynt undir þeim til að taka þá af lífi.[1]

Tilvísanir

Loading related searches...

Wikiwand - on

Seamless Wikipedia browsing. On steroids.

Remove ads