Kassettutæki

From Wikipedia, the free encyclopedia

Remove ads

Kassettutæki er segulbandstæki sem notast við kassettur eða hljóðsnældur (segulbönd í sérstökum plasthylkjum) sem hægt er að nota til að spila og taka upp hljóð. Kassettutæki með innbyggðum magnara og hátölurum voru vinsæl hljómflutningstæki á 8. og 9. áratug 20. aldar. Kassettutæki með innbyggðu útvarpi voru vinsæl bæði sem stök tæki, ferðatæki og innfelld hljómflutningstæki í bílum. Með slíku tæki var auðvelt að taka upp hljóð úr útvarpinu til að hlusta síðar. Hægt var að taka yfir sömu kassettuna aftur og aftur.

Thumb
Kassettutæki frá 9. áratugnum.

Fyrstu segulbandstækin komu fram í Þýskalandi á 4. áratug 20. aldar, en þau komust fyrst í almenna notkun eftir 1950. Segulböndin voru undin upp á spólur sem þurfti að handþræða í gegnum lesara á tækinu. Árið 1958 setti RCA á markað segulband í handhægu plasthylki sem hægt var að koma fyrir á samhæfðu segulbandstæki. Árið 1963 setti hollenska fyrirtækið Philips svo nútímakassettutækið fyrst á markað og hóf um leið fjöldaframleiðslu á auðum kassettum í Hannóver.[1][2] Nokkrum árum síðar gaf Philips út leyfi til að endurgera hönnun kassettunnar sem við það varð ráðandi á markaði.[3]

Eftir 1970 bötnuðu hljómgæði kassettutækja verulega auk þess sem kassetturnar tóku upp í steríó. Við það urðu kassettutækin vinsæl hljómflutningstæki.[4] Árið 1979 kom fyrsta vasadiskóið með léttum heyrnartólum, Walkman TPS-L2, á markað. Rafhlöðutæki með tveimur stórum hátölurum og kassettutæki/útvarpi (gettóblaster) urðu vinsæl á 9. áratugnum. Hljómplötuframleiðendur seldu kassettur með tónlist, en börðust jafnframt gegn afritunum. Sala á ólöglega afrituðum hljómplötum og blandspólum blómstraði um allan heim. Notkun kassettutækja dróst saman eftir því sem geislaspilarinn náði meiri útbreiðslu á 9. og 10. áratug 20. aldar.

Remove ads

Tilvísanir

Loading related searches...

Wikiwand - on

Seamless Wikipedia browsing. On steroids.

Remove ads