Múhameð bin Zayed Al Nahyan

Forseti Sameinuðu arabísku furstadæmanna From Wikipedia, the free encyclopedia

Múhameð bin Zayed Al Nahyan
Remove ads

Sjeik Múhameð bin Zayed bin Sultan Al Nahyan (محمد بن زايد آل نهيان; f. 11. mars 1961), einnig þekktur sem MbZ er þriðji og núverandi forseti Sameinuðu arabísku furstadæmanna og emír af Abú Dabí frá árinu 2022.[1][2]

Staðreyndir strax Forseti Sameinuðu arabísku furstadæmanna, Forsætisráðherra ...

Múhameð bin Zayed er þriðji sonur Zayed ben Sultan al Nahyan, fyrsta forseta Sameinuðu arabísku furstadæmanna og emírs af Abú Dabí.[3] Árið 2014, þegar hálfbróðir Múhameðs, forsetinn og emírinn Khalifa bin Zayed Al Nahyan, fékk heilablóðfall, tók Múhameð bin Zayed í reynd við völdum í ríkinu. Hann tók formlega við völdum daginn eftir að Khalifa lést átta árum síðar, þann 14. maí 2022.[4]

Árið 2019 taldi The New York Times Múhameð bin Zayed voldugasta leiðtoga Araba og einn þann voldugasta í heimi.[5][6] Sama ár taldi tímaritið Time hann meðal 100 áhrifamestu einstaklinga ársins.[7][8]

Remove ads

Innanríkisstefna

Innan Sameinuðu arabísku furstadæmanna hefur Múhameð bin Zayed lagt áherslu á að bæla niður alla starfsemi Bræðralags múslima. Hann hefur byggt upp lögregluríki þar sem stjórnvöld hafa eftirlit með öllum landsmönnum til að fyrirbyggja uppgang íslamistahreyfinga eða aðrar ógnir gegn einveldinu.[9]

Utanríkisstefna

Ásamt bandamönnum sínum í Sádi-Arabíu studdi Múhameð bin Zayed valdaránið í Egyptalandi 2013 þar sem forsetanum Múhameð Morsi var steypt af stóli.

Múhameð bin Zayed er náinn bandamaður Bandaríkjanna en hann var engu að síður gagnrýninn á viðleitni Baracks Obama Bandaríkjaforseta til að leita sátta við Íran. Samband Múhameðs bin Zayed við eftirmann Obama, Donald Trump, er talið betra. Bandaríska varnarmálaráðuneytið hefur þó alltaf litið á Múhameð bin Zayed sem tryggan og nytsamlegan bandamann.[10]

Múhameð bin Zayed hefur gjarnan verið álitinn lærifaðir sádi-arabíska krónprinsins Múhameðs bin Salman (MBS).[11] Undir forystu Múhameðs bin Zayed hafa Sameinuðu arabísku furstadæmin leikið lykilhlutverk í borgarastyrjöldinni í Jemen. Í stríðinu hafa furstadæmin stutt Umbreytingaráð suðursins, sem styður algera skiptingu Jemens, þrátt fyrir að Sádar hafi frá upphafi stutt ríkisstjórn Abdrabbuh Mansur Hadi forseta og eftirmanna hans.[12]

Múhameð bin Zayed hefur beitt sér gegn hryðjuverkasamtökunum Al-Shabab í Sómalíu. Hann hefur jafnframt beitt höfnum Sameinuðu arabísku furstadæmanna til að ná miklum áhrifum yfir verslun í kringum Horn Afríku. Í júní 2017 slitu Sameinuðu arabísku furstadæmin og Sádi-Arabía stjórnmálasambandi við Katar og settu viðskiptabann gegn Katörum. Katarskir ríkisborgarar voru jafnframt reknir frá Sameinuðu arabísku furstadæmunum og það var lýst glæpsamlegt og refsivert upp á þriggja til fimmtán ára fangelsi að styðja Katar á internetinu.[13]

Árið 2015 hóf MBZ afskipti af borgarstríðinu í Líbíu þrátt fyrir bann Sameinuðu þjóðanna. Samkvæmt Middle East Eye bauð Múhameð bin Zayed Bashar al-Assad þrjá milljarða Bandaríkjadala í mars 2020 til að fá hann til að gera árásir á uppreisnarsveitir sem nutu stuðnings Tyrkja í Sýrlandi. Tilraunir Sameinuðu arabísku furstadæmanna til að koma þannig af stað átökum í Idlibhéraði höfðu þann tilgang að draga athygli Tyrkja frá átökunum í Líbíu, þar sem Tyrkir studdu ríkisstjórn Fayez el-Sarraj gegn bandamanni furstadæmanna, stríðsherranum Khalifa Haftar.[14]

Múhameð bin Zayed lék mikilvægt hlutverk við samningaviðræður sem leiddu til Abrahamssamninganna við Ísrael árið 2020. Hann undirritaði jafnframt friðarsamning og kom upp stjórnmálasambandi milli Sameinuðu arabísku furstadæmanna og Ísraels þann 15. september 2020.[15]

Remove ads

Tilvísanir

Loading related searches...

Wikiwand - on

Seamless Wikipedia browsing. On steroids.

Remove ads