Samkynhneigð

From Wikipedia, the free encyclopedia

Samkynhneigð
Remove ads

Samkynhneigð nefnist það þegar einstaklingur laðast tilfinningalega og/eða kynferðislega aðallega að einstaklingum af sama kyni og hann sjálfur. Samkynhneigðir karlmenn eru oft kallaðir hommar, samkynhneigðar konur lesbíur.

Thumb
Hér sést forngrikkinn Saffó syngja fyrir Hómer, umkringd konum. Saffó var talin samkynhneigð og bjó í eynni Lesbos, þaðan er orðið lesbía komið. Málverkið er frá 1824.
Thumb
Édouard-Henri Avril, 1860

Samkynhneigð er, ásamt tvíkynhneigð og gagnkynhneigð, ein af þremur helstu flokkum á kynhneigðarskalanum. Ekki er vitað hvað veldur mismunandi kynhneigð í mönnum, en talið er að það orsakist af samspili erfðaþátta, hormóna, og umhverfisþátta í móðurkviði og að fólk hafi ekki val um það.[1][2][3] Vísbendingar benda ekki til þess að kynhneigð ráðist af uppeldi.[4] Vísindalegar rannsóknir hafa sýnt að samkynhneigð, líkt og aðrar kynhneigðir, sé eðlilegur hluti af breytileika innan margra dýrategunda.[5][6] Sálfræðimeðferðir og önnur inngrip hafa ekki sýnt að þau geti haft áhrif á kynhneigð.[7]

Í kringum 3,5% af fullorðnum skilgreina sig sem sam- eða tvíkynhneigð samkvæmt könnun sem gerð var í Bandaríkjunum árið 2011.[8][9] Á milli 2% og 11% af fullorðnum hafa átt í einhverju kynferðislegu sambandi við einstakling af sama kyni.[10][11][12][13] Í breskri könnun frá 2010 sögðust 95% Breta skilgreina sig sem gagnkynhneigða, 1,5% sem sam- eða tvíkynhneigða, og 3,5% voru óvissir eða svöruðu ekki spurningunni.[14][15]

Remove ads

Samkynhneigð til forna

Thumb
Lesbíur (Bandaríkin, 2013).

Hugmyndin um samkynhneigð er tiltölulega ný af nálinni og varla til fyrir lok 19. aldar en þá varð mikið hneykslismál í kringum rithöfundinn Oscar Wilde sem var fangelsaður fyrir að hafa átt samræði við aðra karlmenn.[16] Miklar umræður hafa staðið yfir um hvort hugmyndin um samkynhneigð hafi verið til staðar í fornöld eða á miðöldum, jafnvel þótt hugtakið sjálft hafi ekki verið til. Miðaldafræðingurinn John Boswell taldi að eins konar samkynhneigð pör hefðu verið til á miðöldum, en margir fræðimenn hafa andmælt því og nýjustu rannsóknir hafna hugtakinu samkynhneigð að mestu leyti. Flestir eru á því að á víkingatímanum (800-1100) hafi einstaklingar sem höfðu áhuga á fólki af sama kyni hvorki talið sig samkynhneigða né talið sig geta valið á milli þess að elska karla eða konur. Núverandi flokkun byggir að miklu leyti á tilfinningum einstaklingsins og hverjum hann laðast að, en í ýmsum samfélögum hefur sú flokkun ekki verið til og fólk þá flokkað eftir því með hverjum það stundar kynlíf eða hvaða hlutverki það gegnir í kynlífi.

Hugmyndin milli menningarheima

Tekið var saman yfirlit yfir helstu menningarheima sem voru uppi fyrir tíma iðnbyltingarinnar. Af 42 menningarheimum voru 41% eindregið á móti kynferðislegri hegðun milli einstaklinga af sama kyni, hjá 21% var sú hegðun tekin í sátt eða hunsuð, og hjá 12% var hugmyndin óþekkt. Í annarri samantekt af 70 menningarheimum var hugmyndin um þá hegðun til staðar hjá 41%, en hjá 59% var hugmyndin sjaldgæf eða ekki til staðar.[17]

Í þeim menningarheimum sem byggja á Abrahamstrú (Kristni, Íslam, Gyðingdómur) hefur verið harkaleg andstaða við endaþarmsmök og þau talin siðferðisbrot og brot á lögmálum náttúrunnar. Andstaða við endaþarmsmök var þó til staðar á undan Kristninni og var líka algeng í Grikklandi hinu forna. Platón kallaði þau ónáttúruleg.[18]

Grikkland hið forna

Í Grikklandi hinu forna var kynlíf milli karlmanns og drengs algengt og þótti gegna góðu hlutverki í uppeldi unglinga. Gerður var greinarmunur á samkynja kynlífi og samböndum, ástarsambönd voru litin hornauga og vanalega ekki leyfð. Litið var niður á þá sem létu drottna yfir sér í kynmökum einkum eftir unglingsár, en slíkt átti ekki við um þá sem voru í drottnandi hlutverki. Skilningur Grikkja á hugmyndinni um samkynhneigð var því verulega frábrugðinn okkar nútímaskilningi. Lítið er vitað um samkynhneigðar konur í Grikklandi hinu forna, en ljóðskáldið Saffó frá eyjunni Lesbos skrifaði ástríðufull ljóð til bæði karla og kvenna og því var á 19. öld byrjað að nota nafn hennar og stað til að lýsa samkynhneigð í konum, t.d. í íslensku lesbía og lesbísk en einnig saffísk.[19]

Frumbyggjar Ameríku

Hjá frumbyggjum Ameríku fyrir nýlendutímann var samkynhneigð í allt öðrum flokki sem er ekki sambærileg núverandi flokkun. Hjá þeim voru sumir taldir búa yfir tvöföldum anda og uppfylltu hlutverk nokkurs konar þriðja kyns í samfélaginu. Hlutverkið var að einhverju leyti trúarlegt og var hluti af trúarlegum athöfnum.[20][21]

Á Íslandi

Samkynja kynlíf, einkum milli karlmanna, var lengi vel litið hornauga á Íslandi. Hugtakið ergi, notað um karla sem töldust hegða sér kvenlega, er elsta túlkunin á samkynhneigð hér á landi og þekktist á víkingaöld.[16][22] Þegar hugmyndir um samkynhneigð fóru að breiðast út í lok 19. aldar tíðkuðust orðin kynvilla og kynhvörf í merkingunni sjúkdómur þar sem samkynhneigð var talin óeðlileg.[23][24][25] Þessi þrjú orð þykja afar úrelt og þekkjast nú á dögum í neikvæðri merkingu.[26]

Víkingaöld (800-1100)

Á miðöldum (800-1100) var hugtakið ergi til, sem hafði neikvæða merkingu. Það fól í sér að karlmennska karlmanns var dregin í efa og hann talinn hegða sér kvenlega, vera ragur eða blauður. Ergi fól meðal annars í sér að hafa verið „sorðinn“ af öðrum karlmanni. Slíkar ásakanir, er kölluðust fullréttisorð, heimiluðu mönnum að grípa til hefnda samkvæmt íslenskum lögum. Einnig gat skeggleysi eða barnleysi orðið til þess að menn voru sakaðir um ergi.[16]

Tréníð var myndræn birting á níði, oft um kynlíf karla. Dæmi úr Bjarnar sögu Hítdælakappa sýnir neikvæða sýn á kynlífi milli karlmanna. Þar var munur gerður á „virkum“ og „óvirkum“ þátttakendum, þar sem hið síðarnefnda var álitið ergi. Níð af þessu tagi og skriftaboð kirkjunnar, sem töldu slíkt syndsamlegt ásamt framhjáhaldi, kynlífi með dýrum og sjálfsfróun, snérust um kynlíf en ekki ást. Hins vegar var bann ekki lagt við kynlífi með börnum.[16]

Hugmyndin um tiltekinn hóp „samkynhneigðra“ var hvorki til staðar í skriftaboðum né níði. Líklega var álitið að allir menn væru færir um að drýgja þessa „synd“. Þrátt fyrir að kynlíf karla hafi verið álitin synd, ásamt framhjáhaldi og sjálfsfróun, virðist hún ekki hafa verið sérstaklega áberandi í skriftaboðum Þorláks helga frá 1179. Hugtakið samkynhneigð eins og það þekkist í dag var óþekkt á þessum tíma. Þrátt fyrir að líklegt var að kynferðisleg ástríða milli karla hafi alltaf verið til, en hún var túlkuð og skilgreind á mismunandi hátt.[16]

Thumb
Jóhanna Sigurðardóttir, fyrrverandi forsætisráðherra, var fyrsti þjóðarleiðtoginn sem lýsti opinberlega yfir samkynhneigð sinni.[27]
Thumb
Tim Cook, forstjóri Apple, kom opinberlega út sem samkynhneigður árið 2014.
Remove ads

Réttindabarátta

Undanfarna áratugi hefur réttindabarátta samkynhneigðra tekið stakkaskiptum. Í Bandaríkjunum þykir réttindabaráttan hafa byrjað af alvöru þegar kom til kasta milli mótmælenda og lögreglu við barinn Stonewall í New York borg árið 1969 og með tilkomu fyrstu kröfugöngunnar (gleðigöngunnar) árið þar á eftir. Þegar HIV- og alnæmisfaraldurinn geisaði um miðjan 9. áratug síðustu aldar meðal samkynhneigðra manna leiddi það til mikillar andstöðu frá almenningi í þeirra garð og var réttindabaráttan lengi að hrista af sér mótlætið.

Á Íslandi

Á Íslandi var það Hörður Torfason sem var fyrstur til að lýsa opinberlega yfir samkynhneigð sinni árið 1975. Hann var þegar þjóðþekkt tónskáld. Í kjölfarið varð hann fyrir miklum fordómum og fluttist brott af Íslandi um tíma.[28]

Árið 2010 voru samkynja hjónabönd lögleidd af íslenska ríkinu.[29] Staða hinsegin fólks á Íslandi er nokkuð góð, sér í lagi samanborið við önnur lönd, og njóta samkynhneigðir fullra lagalegra réttinda.[30] Félagslegt samþykki hefur stóraukist á örfáum áratugum.[31] Þó eru enn til staðar fordómar í samfélaginu.[32]

Remove ads

Félagssamtök á Íslandi

Tengt efni

Tenglar

Íslensk félög, hópar og samtök

Alþjóðleg samtök

Remove ads

Tilvísanir

Loading related searches...

Wikiwand - on

Seamless Wikipedia browsing. On steroids.

Remove ads