Sankti Pétursborg
Borg í Rússlandi From Wikipedia, the free encyclopedia
Remove ads
Sankti Pétursborg (rússneska: Санкт-Петербург Sankt-Peterbúrg; áður þekkt sem Petrograd 1914-1924 og Leníngrad 1924-1991) er borg sem stendur á Kirjálaeiðinu við ósa árinnar Nevu þar sem hún rennur út í Kirjálabotn í Norðvestur-Rússlandi. Um 5,6 milljónir bjuggu í borginni árið 2021.
Pétur mikli Rússakeisari stofnaði borgina árið 1703 sem evrópska stórborg og var hún höfuðborg Rússlands fram að októberbyltingunni 1917. Borgin heitir þó ekki eftir Pétri mikla heldur Pétri postula. Borgin var reist þar sem áður stóð sænska virkið Nyenschantz sem Rússar höfðu lagt undir sig í norðurlandaófriðnum mikla árið 1702. Í Rússlandi tengist borgin því stofnun rússneska keisaradæmisins og upphafinu á stórveldistíma Rússlands í Evrópu. Borgin var höfuðborg keisaradæmisins frá 1713 til 1918. Eftir októberbyltinguna 1917 fluttu bolsévikar höfuðborgina til Moskvu.
Í fyrri heimstyrjöldinni árið 1914 var borgin nefnd Petrograd á rússnesku eða „Pétursborg“. Þýsku orðin „sankt“ og „burg“ voru fjarlægð úr nafninu. Fimm dögum eftir andlát Vladímírs Leníns, 26. janúar 1924 var borgin nefnd Leníngrad eftir honum. Í fyrstu forsetakosningunum í Rússlandi 19. júní 1991 völdu íbúar borgarinnar í atkvæðagreiðslu að nafni hennar yrði breytt til fyrra horfs. Rússar hafa oft talað um borgina sem „glugga að Evrópu“ eða „glugga til vesturs“.[5][6] Borgin er nyrsta stórborg (með yfir milljón íbúa) heims. Hún hefur verið kölluð „Feneyjar norðursins“ eða „hinar rússnesku Feneyjar“, bæði út af vatnaleiðum í borginni og vegna þess hve arkitektúr og hönnun borgarinnar er innblásin af fyrirmyndum frá Vestur-Evrópu.[7][8][9] Borgin hefur líka verið kölluð „borg hinna hvítu nátta“ vegna miðnætursólarinnar á sumrin.[10][11] Sankti Pétursborg hefur verið kölluð „Palmýra norðursins“ vegna fjölda áberandi ríkmannlegra bygginga.[12]
Miðbær borgarinnar er á heimsminjalista UNESCO. Þar á meðal er Vetrarhöllin. Nýbyggingin Lakhta-miðstöðin er hæsta bygging Evrópu (463 metrar). Yfir 200 söfn eru í borginni.
Remove ads
Stjórnsýsla

Sankti Pétursborg er alríkisborg og þannig sjálfstæður aðili að Rússneska sambandslýðveldinu.[13] Réttindaskrá Sankti Pétursborgar sem borgarþingið samþykkti árið 1998 er eins konar stjórnarskrá borgarinnar.[14] Framkvæmdavaldið er í höndum borgarstjórnar Sankti Pétursborgar sem landstjóri Sankti Pétursborgar (áður borgarstjóri til 1996) fer fyrir. Þing Sankti Pétursborgar er héraðsþing borgarinnar sem kemur saman í einni deild.

Samkvæmt alríkislögum sem voru samþykkt árið 2004, eru æðstu leiðtogar aðildarfylkja skipaðir af Rússlandsforseta og samþykktir af héraðsþingum. Ef héraðsþingið samþykkir ekki tilnefninguna, getur forsetinn leyst það upp. Fyrrum landstjóri, Valentína Matvijenko, var samþykkt samkvæmt nýja kerfinu í desember 2006. Hún var eini kvenkyns landstjórinn í Rússlandi þar til hún sagði af sér 22. ágúst 2011. Eftir afsögn hennar tók Georgíj Poltavtsjenkó við og síðan Alexander Beglov frá 2018.[15][16]
Auk þess að vera alríkisborg, er Sankti Pétursborg í reynd stjórnarsetur Leníngradfylkis (sem er líka sjálfstæður aðili að ríkjasambandinu), og Norðvesturfylkjanna.[17] Sankti Pétursborg deilir mörgum stofnunum sem Leníngradfylki, eins og dómstólum, lögreglu, öryggislögreglu, póstþjónustu, lyfjaeftirliti, fangelsiskerfi og fleirum.
Stjórnlagadómstóll Rússlands flutti til Sankti Pétursborgar frá Moskvu árið 2008. Frá 2014 hefur staðið til að flytja Hæstarétt Rússlands þangað.
Remove ads
Tilvísanir
Wikiwand - on
Seamless Wikipedia browsing. On steroids.
Remove ads