Umboðsstjórn Breta í Palestínu
From Wikipedia, the free encyclopedia
Remove ads
Umboðsstjórn Breta í Palestínu[a][1] var stjórn sem var við lýði frá 1920 til 1948 í Palestínu samkvæmt umboði sem stofnað var til á vettvangi Þjóðabandalagsins.
Í fyrri heimsstyrjöldinni (1914–1918) missti Tyrkjaveldi stjórn í Botnalöndum vegna uppreisnar Araba og innrásarhers Breta.[2] Í Hussein–McMahon-samskiptunum hafði Bretland lofað að viðurkenna stofnun sjálfstæðs Arabaríkis ef Arabar gerðu uppreisn gegn Tyrkjum en eftir styrjöldina skiptu Bretland og Frakkland landsvæðinu á milli sín með Sykes–Picot-samkomulaginu, sem Arabar litu á sem svikráð.
Í Balfour-yfirlýsingunni árið 1917 höfðu Bretar jafnframt lofað að styðja stofnun „heimalands Gyðinga“ í Palestínu. Í lok stríðsins stofnuðu Bretar og Frakkar sameiginlega hernámsstjórn þar sem áður hafði verið landsvæðið Sýrland innan Tyrkjaveldis. Bretar sköpuðu lagagrundvöll fyrir stjórn sinni í Palestínu þegar þeir hlutu umboð til að fara með stjórn svæðisins frá Þjóðabandalaginu í júní árið 1922. Þjóðabandalagið hafði komið á fót kerfi umboðsstjórna með það að markmiði að stýra landsvæðum hins sáluga Tyrkjaveldis „þar til þau gætu staðið á eigin fótum“.[3]
Á tíma umboðsstjórnarinnar fluttu margir Gyðingar til Palestínu og þjóðernishreyfingar færðust í vöxt bæði meðal Gyðinga og Araba á svæðinu. Hagsmunaárekstrar milli fólkshópanna leiddu til uppreisnar Araba í Palestínu árin 1936–1939 og uppreisnar Gyðinga árin 1944–1948. Í nóvember árið 1947 samþykktu Sameinuðu þjóðirnar áætlun um að skipta landsvæðinu í tvö ríki, eitt fyrir Araba og annað fyrir Gyðinga. Palestínustríðið 1947–1949 leiddi hins vegar til þess að landsvæði umboðsstjórnarinnar var skipt á milli Ísraelsríkis, Jórdaníu, sem innlimaði Vesturbakka Jórdan, og Egyptalands, sem stofnaði palestínskt verndarsvæði á Gasaströndinni.
Remove ads
Neðanmálsgreinar
- Á meðan stjórnin var við lýði var svæðið einfaldlega kallað Palestína en í seinni tíð hafa ýmis hugtök og heiti verið notuð, þar á meðal Palestínuumboðið eða Breska Palestína. (arabíska: فلسطين الانتدابية; Filasṭīn al-Intidābiyah; hebreska: פָּלֶשְׂתִּינָה (א״י); Pāleśtīnā (E.Y.), þar sem „E.Y.“ stendur fyrir ’Eretz Yiśrā’ēl, land Ísraels)
Tilvísanir
Wikiwand - on
Seamless Wikipedia browsing. On steroids.
Remove ads