Kenískur umhverfissinni og Nóbelsverðlaunahafi (1940-2011) From Wikipedia, the free encyclopedia
Wangari Muta Mary Jo Maathai (1. apríl 1940 – 25. september 2011) var kenískur líffræðingur og handhafi friðarverðlauna Nóbels.
Wangari Maathai | |
---|---|
Fædd | 1. apríl 1940 Ihithe-þorpi, Nyeri, Keníu |
Dáin | 25. september 2011 (71 árs) |
Dánarorsök | úr krabbameini |
Þjóðerni | Kenísk |
Menntun | Pittsburgh-háskóli Háskólinn í Naíróbí |
Flokkur | Mazingira-græningjaflokkur Keníu |
Maki | Mwangi Mathai (g. 1969; sk. 1979) |
Börn | Wanjira Mathai |
Wangari Maathai fæddist árið 1940 í héraðinu Nyeri í Keníu og var úr þjóðarbroti Kíkújúa.[1] Hún nam líffræði í Bandaríkjunum, Þýskalandi og Keníu og varð árið 1971 fyrsta konan í Mið- og Austur-Afríku til að hljóta doktorsgráðu. Frá 1976 til 1977 var hún dósent í dýralækningum og deildarforseti dýralækningadeildar Háskólans í Naíróbí.[2]
Árið 1977 stofnaði Maathai kvennahreyfingu sem hún kallaði Grænabeltishreyfinguna sem hafði það að markmiði að vinna gegn eyðingu skóga og auka þátttöku alþýðu í stjórnmálum, sérstaklega fátækra kvenna. Samtökin urðu öflug grasrótarhreyfing og höfðu árið 2004 staðið fyrir gróðursetningu á um 30 milljónum trjáa.[2]
Maathari varð jafnframt umdeild í heimalandi sínu vegna starfa sinna og lenti oft í útistöðum við kenísk stjórnvöld. Snemma á tíunda áratugnum vakti hún athygli þegar hún stóð fyrir mótmælum gegn byggingu skýjakljúfs í Frelsisgarðinum (e. Uhuru Park), stærsta almenningsgarði Naíróbí. Eyðilegging garðsins hefði kostað um 200 milljónir Bandaríkjadala sem Maathai taldi að ætti fremur að verja til að bæta menntun, fæðuöryggi og aðgang að heilsugæslu. Maathai sætti ofbeldi, niðurlægingu og barsmíðum fyrir þátt sinn í mótmælunum og þurfti um skeið að flýja land. Þáverandi forseti Keníu, Daniel arap Moi, kallaði hana „brjálaða konu“ og lýsti henni sem ógn við þjóðaröryggi.[2]
Seinna um tíunda áratuginn leiddi Maathari mótmæli gegn því að stjórnvöld seldu einkaaðilum Karuru-skógarsvæðið nærri Naíróbí undir byggingaframkvæmdir. Mótmælin snerust upp í þriggja daga óeirðir í höfuðborginni og vöktu heimsathygli.[2] Í þessum mótmælum var talið að um spillingu væri að ræða í stjórnkerfinu og að óeðlilega hefði verið staðið að úthlutun framkvæmdaleyfanna. Mótmælin fólu því í sér baráttu bæði fyrir bættu umhverfi og fyrir siðbót í stjórnkerfinu.[1]
Maathai hlaut fjölda verðlauna og viðurkenninga fyrir störf sín í umhverfismálum og í baráttu gegn fátækt. Hún hlaut meðal annars afrísk leiðtogaverðlaun Sameinuðu þjóðanna árið 1991 og heiðursdoktorsnafnbót við Yale-háskóla árið 2004. Maathai og grasrótarhreyfing hennar áttu þátt í því að fjölflokkalýðræði var innleitt í Keníu árið 1992 og að frjálsar kosningar voru haldnar tíu árum síðar.[2]
Árið 2002 var Maathai kjörin á keníska þingið fyrir Nyeri-hérað með miklum meirihluta atkvæða[2] og árið 2003 varð hún aðstoðarumhverfisráðherra í ríkisstjórn Mwai Kibaki forseta.[1]
Skoðanir Maathai á eyðni voru umtalaðar. Hún hélt því fram að eyðniveiran hefði verið búin til á Vesturlöndum til þess að útrýma svarta kynstofninum og dró í efa að notkun smokka gæti komið í veg fyrir útbreiðslu hennar.[3]
Wangari Maathai lést árið 2011 á sjúkrahúsi í Naíróbí eftir baráttu við krabbamein.[4]
Wangari Maathai skildi við eiginmann sinn á áttunda áratugnum. Eiginmaður hennar var þá í framboði til þings og skilnaður þeirra varð mjög umtalaður.[5] Sagt er að hann hafi fengið skilnað á þeim forsendum að Wangari væri of menntuð, of sterk, of þrjósk og léti of illa að stjórn.[2]
Seamless Wikipedia browsing. On steroids.
Every time you click a link to Wikipedia, Wiktionary or Wikiquote in your browser's search results, it will show the modern Wikiwand interface.
Wikiwand extension is a five stars, simple, with minimum permission required to keep your browsing private, safe and transparent.