Anne Hidalgo

Borgarstjóri Parísar From Wikipedia, the free encyclopedia

Anne Hidalgo
Remove ads

Ana María „Anne“ Hidalgo Aleu (f. 19. júní 1959) er frönsk og spænsk stjórnmálakona. Hún hefur verið borgarstjóri Parísar frá árinu 2014. Hidalgo er meðlimur í Sósíalistaflokknum.

Staðreyndir strax Borgarstjóri Parísar, Forveri ...
Remove ads

Æviágrip

Hidalgo-fjölskyldan flúði frá Spáni árið 1961 vegna andstöðu fjölskylduföðurins við einræðisstjórn Francos. Ana Hidalgo var þá tveggja ára gömul. Hún ólst upp í verkamannahverfi í Lyon og fékk franskan ríkisborgararétt ásamt fjölskyldu sinni þann 25. júlí árið 1973. Nafni hennar var breytt í frönsku myndina Anne þegar hún hlaut franskt ríkisfang.[1]

Starfsferill

Anne Hidalgo lauk námi í vinnufræði og vinnurétti og hóf síðan starfsferil sem vinnueftirlitsmaður hjá frönsku Vinnumálastofnuninni (fr. l'Inspection de travail).[2] Hidalgo flutti til fimmta hverfis Parísar til að sinna starfinu.[3] Vinnumarkaðseftirlitið hafði víðtækar valdheimildir til að tryggja að atvinnurekendur færu að vinnumarkaðslögum og kjarasamningum. Hidalgo varð einn yngsti vinnueftirlitsmaður í Frakklandi og vann sem slíkur frá 1984 til 1993. Síðustu tvö árin var hún framkvæmdastjóri hjá stofnuninni sem þjálfar vinnueftirlitsmenn.[1] Frá árinu 1993 starfaði hún hjá atvinnumálaráðuneytinu að málum sem tengdust starfsnámi. Árin 1995−1996 vann hún hjá Alþjóðavinnumálastofnuninni í Genf og starfaði síðan í stuttan tíma við mannauðsmál hjá einkafyrirtæki.[2]

Hidalgo gekk í franska Sósíalistaflokkinn árið 1994[1] og gegndi ýmsum þjónustustörfum innan flokksins frá árinu 1997. Árið 1997 gekk hún í starfslið Martine Aubry atvinnumarkaðsráðherra og vann þar meðal annars sem pólitískur ráðgjafi Nicole Péry, ríkisritara í málefnum kvenréttinda og starfsmenntunar. Árið 2000 flutti Hidalgo milli ráðuneyta og varð tæknilegur ráðgjafi Marylise Lebranchu dómsmálaráðherra.[2][1]

Stjórnmálaferill í París

Anne Hidalgo var kjörin í borgarstjórn í 15. hverfi Parísar í sveitarstjórnarkosningum Frakklands árið 2011 með stuðningi Martine Aubry, þáverandi flokksritarans François Hollande og borgarstjóraefnis Sósíalistaflokksins, Bertrands Delanoë. Hún var efst á kjörseðlinum í kjördæminu og náði kjöri þrátt fyrir að hægriflokkarnir hefðu sigrað í borgarhverfinu. Bertrand Delanoë var kjörinn borgarstjóri og vildi stuðla að kynjajafnrétti. Hann valdi Anne Hidalgo sem varaborgarstjóra og fól henni umsjón með jafnréttismálum. Henni var einnig farið að fara yfir aðgengi Parísarbúa að þjónustum sveitarfélagsins.[1][4]

Árið 2000 varð Hidalgo talsmaður Sósíalistaflokksins í málefnum starfsnáms og síðan talsmaður í menningarmálum árið 2003. Í sveitarstjórnarkosningum árið 2004 var hún kjörin í stjórn stjórnsýsluhéraðsins Île-de-France og hún sat í henni þar til hún varð borgarstjóri Parísar.[1]

Hidalgo var endurkjörin í borgarstjórn árið 2008 og var áfram varaborgarstjóri. Í þetta sinn fól Delanoë henni umsjón með skipulagsmálum og arkitektúr.[4]

Borgarstjóri Parísar

Í september 2012 tilkynnti Anne Hidalgo að hún yrði í framboði til borgarstjóra í sveitarstjórnarkosningunum 2014.[1] Hún var kjörin borgarstjóri þann 30. mars 2014 og varð fyrst kvenna til að gegna embættinu.[5][4] Hún hlaut 54,3 prósent atkvæðanna en mótframbjóðandi hennar, Nathalie Kosciusko-Morizet, hlaut 45,7 prósent.[6]

Hidalgo var endurkjörin borgarstjóri í sveitarstjórnarkosningum Frakklands árið 2020 með 48,4 prósent atkvæða í annarri kosningaumferð. Hún sigraði Rachidu Dati (LR), sem hlaut 35,62 prósent atkvæða, og Agnès Buxyn (LREM) með 13,56 prósent.[7] Vegna kórónuveirufaraldursins var kjörsókn þó afar lág. Aðeins 36,68 prósent greiddu atkvæði, sem var lægsta kjörsókn síðan sveitarstjórnarkosningar voru innleiddar í París árið 1977.[8]

Stjórnmálastefnur

Sem borgarstjóri hefur Hidalgo lagt áherslu á sjálfbærar samgöngur, takmörkun bifreiðaumferðar, stækkun sporvagnslína og hjólreiðastíga og lækkun fargjalda fyrir börn, ungmenni og fatlaða í almenningssamgöngum. Sumarólympíuleikarnir 2024 voru haldnir í París í borgarstjóratíð Hidalgo.[9]

Remove ads

Tilvísanir

Loading related searches...

Wikiwand - on

Seamless Wikipedia browsing. On steroids.

Remove ads