Aserbaísjan
From Wikipedia, the free encyclopedia
Remove ads
Aserbaísjan (aserska: Azərbaycan) er landlukt land á Kákasusskaga í Kákasusfjöllum við vestanvert Kaspíahaf á mörkum Evrópu og Asíu. Það á landamæri að Rússlandi í norðri, Georgíu í norðvestri, Armeníu í vestri, Íran í suðri og örstutt landamæri við Tyrkland.
Lýðstjórnarlýðveldið Aserbaísjan lýsti yfir sjálfstæði árið 1918 og varð fyrsta lýðræðislega múslimaríki heims. Árið 1920 var ríkið innlimað í Sovétríkin sem Sovétlýðveldið Aserbaísjan. Nútímaríkið Aserbaísjan lýsti yfir sjálfstæði frá Sovétríkjunum 30. ágúst 1991, skömmu fyrir upplausn Sovétríkjanna. Í september 1991 klauf armenskur meirihluti íbúa Nagorno-Karabakh sig frá Aserbaísjan og stofnaði Artsakh-lýðveldið. Héraðið varð de facto sjálfstætt ríki í kjölfar Stríðsins um Nagorno-Karabakh árið 1994. Artsakh-lýðveldið naut takmarkaðrar alþjóðlegrar viðurkenningar og flest ríki litu svo á að það væri hérað innan Aserbaísjan. Árið 2023 lokaði Aserbaísjan aðflutningsleiðum að Artsakh-lýðveldinu og hélt héraðinu þannig í herkví, án þess að rússneski herinn aðhefðist nokkuð. Stjórn Artsakh-lýðveldisins ákvað í kjölfarið að hefja viðræður um innlimun héraðsins í Aserbaísjan. Þann 15. október var fáni Aserbaísjan dreginn að húni í Stepanakert.
Aserbaísjan er lýðveldi með forsetaræði. Það er aðili að Evrópuráðinu, Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu, Samstarfi í þágu friðar. Það er eitt af sex sjálfstæðum tyrkískum ríkjum og virkur þátttakandi í Tyrkíska ráðinu og TÜRKSOY. Aserbaísjan á í stjórnmálasambandi við 158 ríki og er aðili að 38 alþjóðasamtökum. Það er stofnaðili að GUAM-bandalaginu, Samveldi sjálfstæðra ríkja og Efnavopnastofnuninni. Aserbaísjan er líka aðili í Samtökum hlutlausra ríkja og er með áheyrnaraðild að Alþjóðaviðskiptastofnuninni.
Þrátt fyrir að 89% íbúa séu sjíamúslimar eru engin opinber trúarbrögð skilgreind í stjórnarskránni. Öll helstu stjórnmálaöfl landsins eru veraldlega sinnuð. Aserbaísjan er þróað land þar sem læsi er útbreitt og atvinnuleysi lítið. Á vísitölu um þróun lífsgæða er Aserbaísjan á svipuðum stað og mörg Austur-Evrópulönd. Hins vegar hefur valdaflokkurinn, Nýi Aserbaísjanflokkurinn, verið sakaður um gerræði og mannréttindabrot.
Olíu er að finna í Aserbaísjan ásamt jarðgasi. Í Bakú er að finna margar háar byggingar eins og Eldturninn, Fánastöngina miklu í Bakú og sjónvarpsturninn.
Remove ads
Heiti
Samkvæmt nýlegri orðsifjafræði er heitið Aserbaísjan dregið af heiti Atrópatesar,[1][2] Persa[3][4][5] sem var landstjóri (satrap) á tímum Akkamenída, og var síðar skipaður landstjóri yfir Medíu af Alexander mikla.[6][7] Talið er að rekja megi merkingu nafnsins til sóróisma. Í Frawardin Yasht („verndarenglasálmur”) sem er hluti af Avestaritunum, er minnst á âterepâtahe ashaonô fravashîm ýazamaide, sem merkir bókstaflega á avestönsku, „við dýrkum fravashi hins helga Atrópatenes“.[8] Nafnið Atrópates er grísk útgáfa af fornírönsku, líklega medísku, nafni sem merkir „verndaður af helgum eldi“ eða „land eldsins helga“.[9] Gríska nafnið kemur fyrir í ritum Díodórosar frá Sikiley og Strabons. Í gegnum árþúsundin breyttist nafnið í Āturpātākān (miðpersneska), svo Ādharbādhagān, Ādharbāyagān, Āzarbāydjān (nýpersneska) að núverandi heiti.
Heitið Aserbaísjan var fyrst tekið upp af ríkisstjórn Musavat-flokksins árið 1918,[10] eftir hrun Rússneska keisaradæmisins, þegar Alþýðulýðveldið Aserbaísjan var stofnað. Fram að því hafði nafnið aðeins verið notað yfir íranska héraðið Aserbaísjan.[11][12][13][14] Landið hafði áður heitið Arran og Sjirvan.[15] Íran mótmælti því nafngiftinni á sínum tíma.[16]
Remove ads
Íbúar
Tungumál
Opinbert tungumál landsins er aserska sem 92% íbúa tala sem móðurmál. Um 1,5% tala rússnesku sem móðurmál og um 1,5% armensku (nær eingöngu í umdeilda héraðinu Artsakh-lýðveldið). Rússneska og enska leika mikilvæg hlutverk sem annað og þriðja mál í menntakerfinu og viðskiptalífinu. Tugur annarra minnihlutamála er talaður í landinu, þar á meðal avarska, budukh, georgíska, juhuríska, khinalug, kryts, lezgíska, talysh, tatíska, tsakhur og udíska. Sum þessara málsamfélaga eru mjög lítil og fara minnkandi.
Remove ads
Tilvísanir
Tenglar
Wikiwand - on
Seamless Wikipedia browsing. On steroids.
Remove ads