Bosnía og Hersegóvína
land í Suðaustur-Evrópu From Wikipedia, the free encyclopedia
Remove ads
Bosnía og Hersegóvína (serbó-króatíska: Bosna i Hercegovina/Босна и Херцеговина) er fjalllent land á vestanverðum Balkanskaga í Suðaustur-Evrópu. Höfuðborg landsins heitir Sarajevó. Landið liggur að Króatíu í norðri og vestri og Serbíu í austri og Svartfjallalandi í suðri, auk þess liggur landið að Adríahafi á örstuttum kafla í suðvestri. Nafn landsins er samansett úr nöfnum héraðanna Bosníu og Hersegóvínu, sem mynda landið. Norðurhlutinn, Bosnía, býr við milt meginlandsloftslag með heitum sumrum og köldum vetrum. Mið- og austurhéruðin eru fjalllend. Hersegóvína í suðri býr við miðjarðarhafsloftslag og er fjalllent hérað.
Menn hafa búið á þessu svæði frá síðsteinöld en ummerki um fasta búsetu eru frá nýsteinöld, frá Butmir-menningunni, Kakanj-menningunni og Vučedol-menningunni. Eftir að Indóevrópumenn settust þar að urðu þar til ríki Illýra og Kelta. Landið á sér ríka og flókna sögu. Forfeður Suður-Slava sem nú búa þar fluttust þangað frá 6. öld til 9. aldar. Banatið Bosnía var stofnað á 12. öld og var orðið að konungsríkinu Bosníu á 14. öld. Tyrkjaveldi lagði þetta ríki undir sig um miðja 15. öld. Með yfirráðum Tyrkja kom íslam sem olli miklum trúarlegum, menningarlegum og samfélagslegum breytingum.
Seint á 19. öld lagði Austurrísk-ungverska keisaradæmið landið undir sig. Eftir hrun þess í fyrri heimsstyrjöld varð landið hluti af konungsríkinu Júgóslavíu. Eftir síðari heimsstyrjöld varð það eitt af lýðveldum sambandsríkisins Júgóslavíu. Eftir upplausn Júgóslavíu 1992 lýsti lýðveldið yfir sjálfstæði sem leiddi til Bosníustríðsins sem stóð til 1995 og lauk með undirritun Dayton-samninganna.
Í dag skiptist land Bosníu milli þriggja þjóðarbrota sem þar búa samkvæmt stjórnarskrá landsins. Stærsti hópurinn eru Bosníakar, þar á eftir koma Serbar og síðan Króatar. Allir íbúar landsins eru kallaðir Bosníumenn, óháð þjóðerni. Önnur þjóðarbrot sem búa í landinu eru meðal annars Albanar, Gyðingar, Rómafólk, Svartfellingar, Úkraínumenn og Tyrkir. Í landinu eru þrjú opinber tungumál: bosníska, króatíska og serbneska, sem öll eru slavnesk mál.
Þing Bosníu situr í tveimur deildum. Landið er með þrjá forseta, einn frá hverju þjóðarbroti. Miðstjórnarvaldið er mjög takmarkað þar sem stjórn landsins er dreifð. Í landinu eru tvö sjálfstjórnarhéruð, sambandslýðveldið Bosnía-Hersegóvína og lýðveldi Bosníu-Serba, og Brčko-umdæmi sem lýtur eigin stjórn. Sambandslýðveldið Bosnía-Hersegóvína skiptist í 10 kantónur.
Bosnía og Hersegóvína er þróunarland og er í 80. sæti á lista yfir lönd eftir vísitölu um þróun lífsgæða. Efnahagur landsins byggist aðallega á iðnaði og landbúnaði, en þar á eftir koma ferðaþjónusta og þjónustugeirinn. Ferðaþjónusta hefur vaxið síðustu ár.[1][2] Landið býr við velferðarþjónustu og niðurgreidda heilbrigðisþjónustu og grunnskólamenntun er gjaldfrjáls. Bosnía og Hersegóvína er aðili að Sameinuðu þjóðunum, Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu, Evrópuráðinu, Samstarfi í þágu friðar og Fríverslunarsamtökum Mið-Evrópu. Landið er líka stofnaðili að Miðjarðarhafsbandalaginu.[3] Bosnía og Hersegóvína hefur sótt um aðild að Evrópusambandinu og NATO.[4]
Remove ads
Íbúar
![]() |
Þessi grein þarfnast hreingerningar svo hún hæfi betur sem grein hér á Wikipediu. Mögulega er vandamálið við síðuna skráð á Wikipedia:Stílviðmið. |
Tölfræði þjóðernishópa Bosníu-Hersegóvinu frá 1948-2013.
Remove ads
Tilvísanir
Wikiwand - on
Seamless Wikipedia browsing. On steroids.
Remove ads