Burstabær

From Wikipedia, the free encyclopedia

Remove ads

Burstabær var torfhúsagerð sem tók við af gangabæjunum upp úr aldamótiunum 1800 og varð helsti byggarstíll til sveita allt fram á fyrstu áratugi 20. aldar. Fram að 1920 voru enn þá flestir bóndabæir byggðir og endurgerðir að mestu úr torfi og sjaldan var leitað til byggingarsérfræðinga.[1] Í arkitektúr- og byggingarsögu eru torfbæir taldir vera alþýðuhúsagerð (enska: vernacular architecture) og mótast af hluta til af þeim efnivið sem notaður er í hann og ytri skilyrðum eins og veðurfari, heldur ekki síður af menningar og samfélagslegum þáttum.[2]

Remove ads

Langhús

Thumb
Þjóðveldisbærinn, tilgátubær um skála frá landsnámstímanum

Fyrstu hús landnámsmanna á öldunum kring um ár 900 voru svo kölluð langhús byggð aðalega úr torfi, byggð á þeim byggingarhefðum sem landnemarnir höfðu með sér. Tiltölulega fáar bæjartóftir hafa verið rannsakaðar á Íslandi og því er erfitt að fullyrða um það hvernig þróun húsagerðar hefur verið. Víst er þó að hún þróaðist frá stökum byggingum til samtengdra bygginga. Landnámsmenn reistu sér skála með svipuðu lagi og þekktust í Noregi og á Suðureyjum líkt á sjá má á lagi landnámsskálans í Aðalstræti í Reykjavík, sem talinn er að hafi verið reistur um 930. Fornleifarannsóknir á byggingum frá landnámstímanum sýna að um var að ræða eina stóra byggingu sem gat verið skipt í tvö eða þrjú herbergi með timburþilum. Inngangurinn var á langhlið hússins. Smám saman var farið að byggja minni hús aftan við langhúsið, tengd með göngum.

Remove ads

Gangabær

Gangabærinn sem tók við af langhúsunum einkennist af samtengdum húsum eða herbergjum sem voru tengd saman af göngum, en form þeirra, stærð og umfang var mjög mismunandi eftir aðstæðum. Gangnabæirnir þróuðust áfram og breyttu um svip eftir því sem aldir liðu, grunnskipulagið hélst að mestu óbreytt en það var alltaf innangengt í húsin í samstæðunni um göngin, með því var hægara um vik að komast i húsin innan frá og verjast kulda. Veggirning voru þykkir, þungir og efnismiklir. Aðalbyggingarefni torfbæjanna var frá upphafi og fram á 20. öld mold, torf og grjót að utan en timbur til innansmíðar, burðargrind og innréttingar.[3]

Remove ads

Burstabær

Thumb
Bustarfell í Vopnafirði

Gangabæirnir voru ríkjandi byggingarstíll á Íslandi í ýmsum útfærslum allt fram til loka 18. aldar, þegar burstabærinn kom til sögunnar. Guðlaugur Sveinsson prófastur í Vatnsfirði var einn helsti hvatamaður þessa nýja stíls. Hann setti fram hugmynd sína að íslenska burstabænum í greininni Húsa eður bæjabyggingar á Íslandi: Sérdeilis smá eður kotbæja sem birt var í Riti þess Konunglega Íslenzka Lærdómslistafélags 1791. Þar lagði hann til að í stað þess að húsin væru öll tengd í þyrpingu í kringum göng með inngang þvert á hlaðið, þá væri húsunum raðað með gaflinn fram á hlaðið. Í greininni setti hann fram þrjár tillögur að fyrirkomulagi og útliti sveitabæja. Tvær þeirra sneru einni burst fram á hlað, bæjardyrunum sjálfum, og studdust við hefðbundið fyrirkomulag sveitabæja þess tíma – annars vegar kotbæ og hins vegar stærri bæ. Þriðja tillagan sýndi hins vegar þrjár burstir snúandi fram á hlað, í þeirri tillögu fólst mest nýjung. En bakvið burstina eða burstirnar voru áfram samtengd hús eða herbergi. Með burstunum væri meðal annars mögulegt að hleypa inn meiri birtu, þar sem auðveldara var að setja glugga í timburþilin en í torfveggina. Einnig fengu húsin þannig reisulegri ásýnd. [4][5]

Thumb
Laufás í Grýtubakkahreppi

Konungleg auglýsing um afnám einokunarverslun á Íslandi var gefin út 18. ágúst 1786. Formlega lauk einokunarverslun 31. desember 1787 og svokölluð fríhöndlun tók við 1. janúar 1788. Við það urðu miklar breytingar á verðlagi og framboði á ýmsum vörum, meðal annars timbri og gleri. Eftir að verslunin var gefin frjáls fór fljótlega að bera á breytingum á húsabyggingum. Með auknu aðgengi að innfluttu gleri fóru margir bændur að setja glugga inn í torfhúsin og hleypa þannig inn birtu enda mjög dimmt í gangabæjunum. Þetta tókst ekki alltaf vel, þar sem torfveggirnir voru þykkir og oft vildi leka með gluggunum þegar torfið sökk saman. Þar að auki áttu karmarnir í torfveggjunum til með að fyllast af snjó á veturna og var þá ekki mikið um birtu.[6]

Margir bændur settu gaflþil úr timbri á torfbæina þegar byggingartimbur varð ódýrara og meira framboð af því eftir að innfluttningur þess var gefin frjáls. Það að auki var mun auðveldara að koma gluggum fyrir í gaflþilinu. Þrátt fyrir að timburþilin með glerinu hafi þótt tilkomumeiri en torfbæjadyrnar var gallinn sá að lítil sem engin einangrun var í þeim, sem þýddi að rýmin þar innaf voru gjarnan köld og þar af leiðandi óhentug til mannvistar. Herbergi næst timburgöflunum voru lítt nothæf nema að sumarlagi vegna kulda.

Thumb
Burstir á Nýibæ á Hólum í Hjaltadal

Timburframboðið gerði einnig að algengara en áður að þilja helstu íveruherbergi, eins og baðstofur og stofur og skilja þannig rýmið frá torfveggjunum og einnig þilja milli hebergja.[7]

Thumb
Bakhús Nýabæar á Hólum í Hjaltadal

Þróun burstabæja var hægfara í fyrstu og tengdist oftast við efnafólk og þá sérstaklega prestssetrin. [8] Um miðja 19. öld var burstabærinn orðinn algengur byggingarstíll meðal efnafólks og allir torfbæir sem hafa varðveist voru stórbæir. Tilkomumiklar burstir einkenndu framhlið þessara bæja, sem snéri þá fram að hlaðinu þegar komið var að bænum. Oftast voru fleiri hús á bak við bæinn, þau voru reist út frá notagildi og voru burstirnar þær einu sem þjónuðu fagurfræðilegum tilgangi.[9]

Tvær húsagerðir þróuðust af burstabæum, annars vegar sunnlenska gerðin og hins vegar norðlenska gerðin. Útbreiðsla þessara húsagerða hefur í raun ekki verið rannsökuð til hlítar og er því erfitt að fullyrða um hversu algengar þessar húsagerðir voru. Sunnlenska gerðin fylgdi að miklu hugmyndum Guðlaugs Sveinssonar prófasts. Norðlenska gerðin fylgdi þessum hugmyndum einungis að hluta til, einungis fremstu húsaröðinni var snúið fram á hlaðið, en að baki hennar var enn hið gamla skipulag gangabæjarins. Burstabærinn verður því frábrugðinn fyrrum byggingarstíl torfbæjanna meðal annars að því leyti að timburþil á framhlið hússins voru einungis sett út frá fagurfræðilegum ástæðum fremur en hagnýtum, bærinn varð mun reisulegri ásýndum með burstsettri framhliðinni.[10]

En burstirnar voru táknmynd bætts efnahags og eru fyrsta vísbendingin um arkitektúr á Íslandi sem einskonar yfirlýsing um stéttaskiptingu og efnahag.

Aðrar gerðir torfbæja þróuðust einnig og má nefna meðal annara framhúsabæinn, Marbælisgerðin og Galtastaðagerðin. [11]

Remove ads

Torf og torfbær

Thumb
Torfveggur hlaðinn úr klömbruhnausum

Aðaleinkenni torfbæja, óháð formi og stærð þeirra, tengist byggingarefninu. Hleðslutorf fékkst með því að rista grassvörðinn og efsta rótarlagið af yfirborði eða stinga hann upp eftir ákveðnum reglum, eftir því hvers konar torf þurfti hverju sinni. Torf er gróft og seigt rótarkerfi plantna, sem best var að taka í mýrlendi eða á vel grónu og rótarmiklu landi. Torfið sem nýtt var í byggingar er misjafnt af gæðum og hentar misvel til húsagerðar. Þetta er lífrænt efni sem með tíð og tíma verður að mold og tapast þá að miklu leyti bindingseiginleikar þess, sem hefur mikil áhrif á endingarmöguleikana. Stundum þurfti að gilda upp í veggi og taka ofan af þekjur, en torf í veggjum var ekki endurnýjað nema mjög sjaldan. Eftir að torfið hefur verið hlaðið var það mjög einangrandi ef það helst þurrt. Regn gat hins vegar átt greiðan aðgang inn í veggina ef ekki var rétt hlaðið og var oft mikill raki í torfbæjum. Raki og rigning var mikið vandamál og reynt að troða upp í gættir og göt með mold og halda við bæjunum til þess að halda veðri og vindum úti. Tíðar breytingar á hitastigi, frost og hláka, gat það valdið miklum skemmdum á torfinu. Miklir þurrkar og sól á sumrin gátu einnig eyðilagt torfið á þakinu. Trégrindin, sem hélt uppi þakinu, var endurnýjuð eftir þörfum, en reynt var að endurnýta þann efnivið sem var til staðar, annað hvort með því að skeyta nýju timbri við þá hluta sem enn voru heilir eða nýta heila hluta timbursins á öðrum stöðum. Einstök hús voru endurbyggð eftir þörfum, þess á milli voru minni háttar viðgerðir látnar nægja til að halda húsakostinum við. Talið er að ending torfhúsa á Suðurlandi hafi verið um 25 ár en allt upp í 100 ár á Norðurlandi vegna stöðugri veðurskilyrða þar.[12]

Flestir burstabæirnir voru, fyrir utan burstina, eins og gangabæirnin í raun húsaþyrping sem tengd var saman með göngum sem voru ýmist krókótt, bein, löng eða stutt. Samanburður á húsnæði í Hvolhreppi á árunum 1830 til 1920 sýnir að lengd ganga og bæjardyra afar mismunandi. Í sumum elstu úttektunum eru engar bæjardyr heldur aðeins „gaung til útidyra“ sem þýðir að ranghalinn hefur opnast beint út á hlaðið. Þegar líður á 19. öldina eru þó komnar burstir eða önnur sérstök bæjardyrahús á allflestum bæjum. Þó að göngin hafi verið mjög mislöng voru þau flest, eða 70%, jafnmjó eða 0,94 m, en um 20% voru 0,78 m. Mjóstu göng sem getið er í úttekt voru tæpir 50 sm en þau breiðustu 1,26 m.[13]

Thumb
Hlóðaeldhús

Rýmin í bæjunum voru síðan skipulögð þannig að því lengra sem gengið var inn, því persónulegri urðu rýmin. Frá bæjarhlaðinu var gengið inn um bæjardyrnar þar sem eina timburþil bæjarhúsanna snéri fram að hlaðinu. Oft voru svefnhús vinnumanna fremst í bæjunum og ekki síst á ríkari bæum svo kölluð “fínni stofa”. Frábrugðið torfinu voru timburþilin með litla sem enga einangrun og voru þess vegna mjög köld nema yfir hásumarið. Göngin leiddu inn í bygginganna þyrpinguna. Fremst var algengt að finna rými eins og búr, eldhús og geymslur af ýmsu tagi. Einnig voru fjós, heyhlaða og önnur geymsluhús innangeng frá göngunum. Aftast í bænum var baðstofan, oft beggja vegna við ganginn. Oft var afþiljað hjónarými í öðrum hvorum endanum á baðstofunni. Baðstofan var aðal vinnurými kvenna og voru oftast flestir veggir þar úr torfi og var þiljað með timbri á betri bæjum.[14] Af úttektunum í Hvolhreppi sést að eftir 1880 fara glerrúður að verða algengar í bæjum og um aldamótin 1900 gat hver einasti bær státað af að minsta kosti einum glerglugga. Í baðstofum varð timbursúð í auknum mæli algeng eftir 1880. Einnig urðu pallbaðstofur – baðstofur upphækkaðar með trégólfum – algengari í lok 18. aldar, en áður höfðu langflestar verið bekkbaðstofur, þar sem gólfið var einungis viðarklætt með veggjum fram, en moldargólf í miðjunni.[15]

Tryggva Emilsson, sem ólst upp í torfbæ á fyrstu áratugum 20. aldarinnar lýsir torfbæum í ævisögu sinni, Fátækt fólk:

Flestir voru bæirnir hlaðnir úr torfi og grjóti og þökin tyrfð, framstafnar voru burstmyndaðir af standþiljum, og „hvít með stofuþil“. Þar sem best var að fólki búið voru baðstofur þiljaðar í hólf og gólf, á nokkrum bæjum voru þil bakatil við rúmin en annars staðar naktir torfveggir og súð, þar bjó fátækasta fólkið. ... Útihúsin voru öll hlaðin úr sama efni og bæirnir, það voru lágreist hús, fjósin heima við bæina en fjárhús og hesthús oftast í útjöðrum túna og voru fjárhúsin að jafnaði staðsett þar sem best lá við að hleypa fé í haga. Önnur bæjarhús en baðstofan voru óþiljuð víðast hvar, búr og eldhús, göng og skemmur, veggir voru víðast grjóthleðsla í einnar alinnar hæð og síðan klömbruhnausar með strengjum á milli og mold til uppfyllingar,… Erfitt var að halda þessum bæjum hreinum og tókst misjafnlega, krabbar og skúm sóttu í dimma afkima, moldarmylgringur sáldraðist um búr og göng úr veggjum og þaki, sótfok var í eldhúsi en heyryk og veðraslæðingur barst inn um öll göng allt til baðstofu. … Það var mikil vinna sem margar konur á sig lögðu að berjast gegn öllum þessum áleitna óþrifnaði og mjög víða sást furðumikill árangur þeirrar eljusemi. [16]
Remove ads

Endalok torfbæjanna

Torfbæir sem voru algengasti húsakostur landsmanna fyrir aldamótin 1900 héldu lengur velli til sveita en í þéttbýli og það var í raun ekki fyrr en fór að líða á 20. öldina að aðrar húsagerðir fóru að vera algengari. Algengt var að timburhús var byggt við hlið torfbæjarins, og torfhúsin notuð áfram sem útihús, eins og sjá má bæði á Núpsstað og Keldum, áður enn steypuöldin tók yfir alla húsabyggingu á Íslandi.[17]

Jarðskjálftarnir 1896 flýttu svo fyrir brotthvarfi torfbæja því torfbæirnir fóru mjög illa. Torfhleðsla hefur litla samloðun og þolir illa jarðskjálfta, torfbæir skemmdust því oft mikið eða hreinlega féllu saman í jarðskjálftum. Samtals riðu fimm öflugir skjálftar yfir Suðurland milli 26. ágúst til 5. september 1896. Fjórir létust í þessum jarðskjálftum, en samtals féllu 3692 bæjarhús, skemmur og gripahús.[18]

Árið 1894 var bannað að byggja torfbæi í miðbæ Reykjavíkur.[19] Eftir því sem lengra dró inn í 20. öldina fækkaði torfbæjum og var svo komið um miðja öldina að nokkuð óvanalegt var að búa í torfbæ. Síðasti torfbærinn í Reykjavík var Litla-Brekka sem stóð við Suðurgötu á Grímsstaðaholti. Bærinn sem var byggður 1918 og rifinn 1980. Síðasti íbúinn í Litlu-Brekku var Eðvarð Sigurðsson (1910-1983).

Eftirfarandi tafla, byggð á gögnum úr manntölum 1910 –1930, sýnir hvernig þróunin átti sér stað. Taflan sýnir glöggt hversu hratt breytingar áttu sér stað á þessum árum, þar sem ný hús voru byggð úr timbri eða steini en ekki torfi.

Nánari upplýsingar Ár, Stein- og steypuhús ...

Líklegt má telja að á mörgum stöðum hafi torfbæir verið notaðar áfram sem útihús. Ef þessar tölur eru sundurliðaðar má sjá að torfbæjum fækkar úr 52% á árinu 1910 í 27% á árinu 1930. Í Reykjavík fækkar þeim úr tólf í fjóra eða úr 1% í 0,16%. Til sveita voru þeir þó enn algengur húsakostur og teljast rúmlega 73% íbúðarhúsa þar 1910 en fækkar niður í 50% á 20 árum.[21] Þrjátíu árum síðar, þ.e. 1960, eru torfbæir aðeins 1% íbúðarhúsa á Íslandi.[22]

Remove ads

Húsasöfn

Einu torfbæirnir sem enn standa og eru nú friðlýstir eru allir burstabæir og hluti af húsasafni Þjóðminjasafnsins: Bustarfell í Vopnafirði, Glaumbær í Skagafirði, Grenjaðarstaður í Suður-Þingeyjarsýslu, Keldur á Rangárvöllum, Laufás í Eyjafirði, Núpsstaður í Vestur-Skaftafellssýslu, Nýibær á Hólum í Hjaltadal og Stóru-Akrar í Skagafirði.

Tengt efni

Tilvísanir

Tenglar

Loading related searches...

Wikiwand - on

Seamless Wikipedia browsing. On steroids.

Remove ads