Geraldine Ferraro
Bandarískur lögfræðingur og stjórnmálamaður (1935-2011) From Wikipedia, the free encyclopedia
Remove ads
Geraldine Anne Ferraro (26. ágúst 1935 – 26. mars 2011) var bandarískur stjórnmálamaður, erindreki og lögmaður. Hún sat á fulltrúadeild Bandaríkjaþings frá 1979 til 1985 og var frambjóðandi Demókrataflokksins í embætti varaforseta Bandaríkjanna í framboði Walters Mondale í forsetakosningunum 1984. Ferraro var fyrst kvenna til að vera í framboði til varaforseta fyrir einn stóru stjórnmálaflokkanna í bandarískum forsetakosningunum.
Remove ads
Æviágrip
Geraldine Ferraro fæddist þann 26. ágúst árið 1935 í Newburgh í New York-fylki. Faðir hennar, sem var af ítölskum innflytjendaættum, lést þegar hún var átta ára. Móðir hennar vann sem saumakona. Ferraro lauk kennaraprófi með ensku sem aðalfag og kenndi í almennum skólum í Queens í New York-borg. Hún nam lögfræði samhliða vinnu sinni og tók lagapróf árið 1960. Hún vann þaðan af sem lögfræðingur til ársins 1974 en þá varð hún aðstoðarsaksóknari Queens. Ferraro átti þar þátt í stofnun sérstakrar deildar til að taka á ofbeldisglæpum eins og nauðgunum og heimilisofbeldi.[1] Ferraro var gift fasteignasalanum John Zaccaro og átti með honum þrjú börn.[2]
Árið 1978 var Ferraro kjörin á fulltrúadeild Bandaríkjaþings. Hún var endurkjörin með auknum atkvæðamun árin 1980 og 1982, í síðasta skiptið með 72,22 prósentum atkvæða. Ferraro þótti mikill skörungur á þingi og tók afstöðu með frjálslyndari armi Demókrataflokksins. Hún sat í fjármálanefnd fulltrúadeildarinnar[3] og varð fyrst kvenna til að gegna stöðu ritstjóra þingflokksnefndar Demókrataflokksins.[1]
Í janúar árið 1984 ferðaðist Ferraro til Níkaragva og El Salvador á vegum Bandaríkjaþings og fundaði með kontraskæruliðum. Eftir heimkomuna gagnrýndi hún stjórn Ronalds Reagan Bandaríkjaforseta fyrir utanríkisstefnu hans í þessum ríkjum og sagði stuðning hans við andkommúnískar skæruliðahreyfingar ekki stuðla að bandarískum öryggishagsmunum.[1][4]
Ferð Ferraro til Rómönsku Ameríku átti þátt í að vekja á henni þjóðarathygli sem leiddi til þess að Walter Mondale, forsetaefni Demókrataflokksins í kosningunum 1984, ákvað að velja hana sem varaforsetaefni sitt í kosningunum. Þetta var í fyrsta sinn sem kona birtist á kjörseðli annars stóru stjórnmálaflokkanna í forsetakosningum Bandaríkjanna. Eftir að Ferraro samþykkti að bjóða sig fram með Mondale lýsti hún því yfir útnefning hennar merkti „að konur [yrðu] aldrei framar annars flokks borgarar“.[5]
Valinu á Ferraro var almennt vel tekið og hún þótti standa sig með prýði í sjónvarpskappræðum á móti sitjandi varaforsetanum George Bush.[1] Aftur á móti varð Ferraro fyrir gagnrýni eftir að hún birti skattskýrslur þeirra eiginmanns síns og í ljós kom að hjónin skulduðu skatta frá árinu 1978 að upphæð 53.000 Bandaríkjadala. Hjónin greiddu skattana um hæl eftir að skýrslurnar voru gerðar opinberar en málið leiddi til neikvæðrar umfjöllunar í tengslum við viðskiptahætti eiginmanns Ferraro og lán sem hún hafði þegið frá honum fyrir kosningaherferðir sínar.[6]
Mondale og Ferraro guldu sögulegt afhroð í forsetakosningunum á móti Reagan og Bush. Þau töpuðu í öllum fylkjum Bandaríkjanna að undanskildu Minnesota og höfuðborginni. Ekki birtist aftur kona sem varaforsetaefni á kjörseðli eins stóru stjórnmálaflokkanna fyrr en með framboði Söruh Palin í kosningunum 2008 og kona var ekki kjörin varaforseti fyrr en Kamala Harris náði kjöri í kosningunum 2020.
Geraldine Ferraro studdi Hillary Clinton í forvali Demókrataflokksins fyrir forsetakosningarnar 2008. Hún var gagnrýnd fyrir að láta þau ummæli falla að Barack Obama, helsti keppinautur Clintons í forvalinu, hefði aðeins náð árangri í forkosningunum þar sem hann væri svartur.[7] Ferraro lést úr krabbameini þann 26. mars 2011.[5]
Remove ads
Tilvísanir
Wikiwand - on
Seamless Wikipedia browsing. On steroids.
Remove ads