Hinsegin
From Wikipedia, the free encyclopedia
Remove ads
Hinsegin er regnhlífarhugtak yfir ýmsa minnihlutahópa hvað varðar kynhneigð, kynferði, kyntjáningu og kyneinkenni sem skera sig frá gagnkynhneigðu viðmiði.[1] Orðið nær þá m.a. yfir samkynhneigða, tvíkynhneigða, eikynhneigða, trans fólk, fólk með ódæmigerð kyneinkenni (intersex), pankynhneigða, fjölkæra (e. polyamorous) og kynsegin fólk.[2][3]
Ísland hefur náð miklum árangri í réttindum hinsegin fólks. Ísland er í þriðja sæti á regnbogakorti ILGA-Europe, sem mælir lagalega stöðu hinsegin fólks í 49 löndum, og í 1. sæti á Transréttindakorti TGEU (2025).[4] Ný lög um bann við bælingarmeðferð og bætt þjónusta fyrir trans fólk hafa stuðlað að þessum árangri.[5] Þrátt fyrir árangurinn er baráttan fyrir réttindum hinsegin fólks enn í gangi.[6]
Samtökin '78 eru elstu og stærstu félagasamtök hinsegin fólks á Íslandi. Þau voru stofnuð árið 1978 og berjast fyrir réttindum og sýnileika hinsegin fólks. Samtökin veita einnig fræðslu, ráðgjöf og félagsskap.[7]
Remove ads
Að koma út úr skápnum
Gagnkynhneigð er algengasta kynhneigðin og því er oft reiknað með að einstaklingur sé gagnkynhneigður ef annað er ekki tekið fram, þessi hugsunarháttur kallast gagnkynhneigðarhyggja.[8] Það að gera öðrum grein fyrir kynhneigð sinni eða kynvitund er oft kallað að koma út úr skápnum, en einnig að koma úr felum eða einfaldlega að koma út.[9] Það þarf ekki að vera gert með nokkurri yfirlýsingu heldur einungis með því að hætta að vera í felum með málefnið. Það að koma út er persónulegt ferli sem gerist á mismunandi tíma eftir fólki, þar sem upplifanir og tilfinningar fólks eru mismunandi. Eftir að einstaklingur áttar sig á því að hann laðast að einhverju leyti að sama kyni getur það tekið tíma fyrir sjálfsmynd hans að aðlagast því og fyrir viðkomandi að vera reiðubúinn að ganga á móti væntingum þess samfélags sem hann býr í.
Remove ads
Uppruni orðsins
Orðið hinsegin hefur tekið miklum breytingum í íslenskri tungu og hefur áður fyrr verið notað í niðrandi tilgangi, einkum um samkynhneigða einstaklinga. Í orðabókum er hinsegin skilgreint sem það sem er frábrugðið viðmiðum eða er óvenjulegt. Af þeim sökum á orðið sér dimma sögu um jaðarsetningu og mismunun gagnvart fólki sem var talið „öðruvísi“. Síðan þá hefur merking orðsins þróast verulega og samsvarar nú að miklu leyti enska hugtakinu queer. Hinsegin fólk tók orðið, sem áður var notað gegn því í niðrandi tilgangi, og færði orðinu jákvæða merkingu.[3][2]
Q – Félag hinsegin stúdenta var fyrsta félagið til að taka orðið hinsegin opinberlega upp í nafn sitt. Áður hét félagið „Félag samkynhneigðra stúdenta“ (FSS).[10] Samtökin '78 fylgdu þessu fljótt eftir og breyttu undirskrift sinni úr „Félag lesbía og homma á Íslandi“ í „Félag hinsegin fólks á Íslandi“. Notkun orðsins hefur síðan þá aukist verulega á landsvísu og er nú almennt notað um hinsegin fólk.[2]
Remove ads
Stafasúpan
Þegar rætt er um hinsegin fólk er algengt að vísað sé til ýmissa stafaruna, svo sem LGBT, LGBTQ+, eða lengri útgáfa eins og LGBTQQIA2SPA. Af þessum er LGBT+ oftast notuð.[11] Þessi skammstöfun nær hins vegar aðeins yfir fjórar birtingarmyndir hinseginleika, en hinsegin samfélagið er mun fjölbreyttara en það og þess vegna var plúsmerkinu (+) bætt við stafarununa.[12] Plúsmerkið táknar þær birtingarmyndir hinseginleika sem ekki eru sérstaklega taldir upp í stafarununni á undan.[12] Þar sem fólk veit almennt ekki um hvaða útgáfu það á að nota þá nota flestir orðið hinsegin í staðinn.[2]
Tengt efni
Heimildir
Wikiwand - on
Seamless Wikipedia browsing. On steroids.
Remove ads