Malasía
ríki í Suðaustur-Asíu From Wikipedia, the free encyclopedia
Remove ads
Malasía er land í Suðaustur-Asíu. Það skiptist milli tveggja landsvæða; Vestur-Malasíu á Malakkaskaga og Austur-Malasíu á eyjunni Borneó, með Suður-Kínahaf á milli. Vestur-Malasía á landamæri að Taílandi í norðri, og mjótt sund skilur það frá Singapúr í suðri. Austur-Malasía á landamæri að Brúnei í norðri og Indónesíu í suðri. Höfuðborg Malasíu er Kúala Lúmpúr en stjórnarsetrið er í Putrajaya. Árið 2010 var íbúafjöldi Malasíu 28,33 milljónir og þar af bjuggu 22,6 milljónir í vesturhlutanum. Höfðinn Tanjung Piai á suðurodda Vestur-Malasíu er syðsti punktur meginlands Asíu.
Uppruna Malasíu má rekja til hinna ýmsu ríkja malaja á Malakkaskaga sem lentu á áhrifasvæði Breska heimsveldisins á 18. öld. Skiptingin milli Malasíu og Indónesíu var ákveðin í samningum milli Bretlands og Hollands í kjölfar Napóleonsstyrjaldanna. Ríkin á Malakkaskaga mynduðu síðan Malajabandalagið árið 1946 sem breyttist í Sambandsríkið Malaja árið 1948. Þetta ríki fékk sjálfstæði frá Bretlandi árið 1957. Þetta ríki sameinaðist Norður-Borneó, Sarawak og Singapúr árið 1963 og bætti því sí við nafnið sem varð Malasía. Tveimur árum síðar var Singapúr rekið úr sambandinu.
Malasía er fjölmenningarríki sem hefur mikil áhrif á stjórnmál landsins. Opinber trúarbrögð Malasíu eru íslam en 20% íbúa aðhyllast búddisma, 9% kristni og 6% hindúatrú. Stjórnarfar í Malasíu er þingbundin konungsstjórn þar sem einn af fimm hefðbundnum einvöldum landsins er kjörinn konungur á fimm ára fresti. Stjórnkerfið byggist á breskri fyrirmynd.
Malasía er eitt af þeim löndum Asíu sem býr við hvað mesta efnahagslega velsæld. Hagvöxtur hefur verið 6,5% að meðaltali í hálfa öld. Efnahagslífið er drifið áfram af miklum náttúruauðlindum en hefur þróast yfir í fleiri geira. Malasía býr við nýiðnvætt markaðshagkerfi sem er það þriðja stærsta í Asíu og 29. stærsta í heimi. Malasía var stofnaðili að Sambandi Suðaustur-Asíuríkja, Leiðtogafundar Austur-Asíu, Stofnun um íslamska samvinnu, Efnahagssamvinnustofnun Asíu- og Kyrrahafslanda, Breska samveldinu og Samtökum hlutlausra ríkja.
Remove ads
Landfræði
Malasía er 329.613 km² að stærð og er því 66. stærsta land heims. Það á landamæri að Taílandi í Vestur-Malasíu, og Indónesíu og Brúnei í Austur-Malasíu.[1] Malasía tengist Singapúr um mjótt eiði og brú. Landhelgi Malasíu liggur auk þess að landhelgi Víetnam[2] og Filippseyjum.[3] Landamærin liggja eftir landslagsþáttum eins og Perlis-á, Golok-á og Pagalaya-skurðinum, en mörk landhelginnar eru víða umdeild.[1] Brúnei er næstum hólmlenda innan landamæra Malasíu,[4] sem fylkið Sarawak skiptir í tvennt. Malasía er eina landið sem er bæði á meginlandi Asíu og Malajaeyjum.[5] Tanjung Piai, sem er í malasíska fylkinu Johor, er syðsti oddi meginlands Asíu.[6] Malakkasund milli eyjunnar Súmötru og meginlandshluta Malasíu er ein af fjölförnustu siglingaleiðum heims. Um 40% af vöruflutningum heimsins fara þar um.[7]
Malasía skiptist í tvo hluta með Suður-Kínahaf á milli. Báðir hlutar hafa svipað landslag, með flötum strandhéruðum sem liggja að hæðum og fjöllum.[1] Meginlandshlutinn, þar sem um 40% af Malasíu er,[5] er 740 km að lengd frá norðri til suðurs, og mesta breidd hans er 322 km.[8] Titiwangsa-fjöll skipta honum eftir endilöngum skaganum,[9] en hæsti tindur þeirra er Korbu-fjall, 2.183 metrar á hæð.[10] Fjöllin eru vaxin þéttum skógi[11] og eru aðallega mynduð úr graníti og öðru gosbergi sem er mjög veðrað og hefur myndað karstlandslag.[5] Í fjallgarðinum eiga sumar af helstu ám Malasíu upptök sín.[11] Strandhéruðin sem umkringja skagann eru mest 50 km að breidd, en strandlengja meginlandshlutans er 1.931 km að lengd. Einu hafnirnar þar eru á vesturströndinni.[8]

Austur-Malasía er á eyjunni Borneó. Sá hluti er með 2.607 km langa strandlengju[1] og skiptist í strandhéruð, hæðir og dali, og fjalllendi innar í landinu.[5] Crocker-fjöll liggja í norður frá Sarawak og skipta fylkinu Sabah.[5] Þar er Kinabalu-fjall sem nær 4.095 metra hæð[12][13] og er hæsta fjall Malasíu. Kinbalu-fjall er í Kinbalu-þjóðgarðinum sem er einn af fjórum heimsminjastöðum í landinu.[14] Hæstu fjallgarðarnir liggja á landamærum Malasíu og Indónesíu á Borneó. Í Sarawak eru Mulu-hellar, stærsta hellakerfi heims, í Gunung-þjóðgarðinum sem er líka á heimsminjaskrá.[5]
Í kringum þessa tvo meginhluta Malasíu eru fjölmargar eyjar. Stærst þeirra er Banggi-eyja.[15] Hitabeltisloftslag er ríkjandi í Malasíu með monsúnvindum úr suðvestri frá apríl til október og norðaustri frá október til febrúar.[8] Nálægð við sjóinn dregur úr hitanum.[5] Raki er oftast mikill og meðalúrkoma er 250 cm.[8] Veðurfar er ólíkt í meginlandshlutanum og á Borneó, þar sem áhrifa meginlandsvinda gætir meira á skaganum, en áhrifa úthafsvinda gætir meira á eyjunni. Staðbundið veðurfar er breytilegt á hálendi, láglendi og við ströndina. Talið er að loftslagsbreytingar muni hafa áhrif á yfirborð sjávar og úrkomu, með aukinni hættu á flóðum og þurrkum.[5]
Remove ads
Stjórnmál
Stjórnsýslueiningar
Perlis Kedah Penang Kelantan Terengganu Perak Selangor Negeri Sembilan Malacca Johor Pahang Sarawak Sabah Labuan Putrajaya Alríkissvæði |
Malasía er sambandsríki sem skiptist í þrettán fylki og þrjú alríkissvæði. Ellefu fylki og tvö alríkissvæði eru á Malakkaskaga, en tvö fylki og eitt alríkissvæði á Borneó. Hvert fylki skiptist í umdæmi sem aftur skiptast í undirumdæmi (mukim). Í fylkjunum Sabah og Sarawak á Borneó eru umdæmin flokkuð í landshluta.
Fylkin þrettán byggjast á sögulegum konungsríkjum malaja. Níu þeirra eru enn með konungsfjölskyldur. Einn af hefðbundnum ráðamönnum þessara ríkja er kjörinn konungur Malasíu á fimm ára fresti. Konungurinn skipar fjóra landstjóra í þeim fylkjum sem ekki eru konungsríki eftir að hafa ráðfært sig við ráðherra þess fylkis. Hvert fylki hefur eigið þing sem situr í einni deild, og eigin stjórnarskrá. Sabah og Sarawak hafa mun meiri sjálfstjórn en önnur fylki og eru með sína eigin innflytjendalöggjöf og stjórnun landamæra.
- Fylki
Listi yfir fylkin 13 og höfuðborgir þeirra (innan sviga):
- Johor (Johor Bahru)
- Kedah (Alor Setar)
- Kelantan (Kota Bharu)
- Malakka (Malakkaborg)
- Negeri Sembilan (Seremban)
- Pahang (Kuantan)
- Penang (George Town)
- Perak (Ipoh)
- Perlis (Kangar)
- Sabah (Kota Kinabalu)
- Sarawak (Kuching)
- Selangor (Shah Alam)
- Terengganu (Kuala Terengganu)
- Alríkisumdæmi
- Alríkisumdæmið Kúala Lúmpúr
- Alríkisumdæmið Labuan
- Alríkisumdæmið Putrajaya
Remove ads
Íbúar
Trúarbrögð

Stjórnarskrá Malasíu tryggir trúfrelsi og lýsir Malasíu formlega veraldlegt ríki, en að íslam sé „trúarbrögð sambandsins“.[17] Samkvæmt manntali frá 2010 fara trúarbrögð og þjóðerni saman. Um 61,3% íbúa Malasíu eru múslimar, 19,8% búddistar, 9,2% kristnir, 6,3% hindúatrúar, og 1,3% aðhyllast konfúsíusisma, daóisma og önnur hefðbundin kínversk trúarbrögð. 0,7% lýstu sig trúlausa og 1,4% töldu upp önnur trúarbrögð eða gáfu ekkert upp.[16] Súnní íslam og Shafi'i-skóli íslamsks réttar eru ráðandi útgáfa íslam í Malasíu.[18][19] 18% íbúa eru múslimar utan trúfélaga.[20]
Stjórnarskrá Malasíu skilgreinir sérstaklega hvað felst í því að vera Malaji. Samkvæmt henni eru Malajar múslimar, tala malajamál reglulega, viðhafa siði og venjur Malaja og búa eða eiga forfeður í Brúnei, Malasíu eða Singapúr.[5] Manntalið árið 2010 gefur til kynna að 83,6% íbúa af kínverskum uppruna aðhyllist búddisma, og stórir hlutar þeirra aðhyllist daóisma (3,4%) og kristni (11,1%), auk lítilla hópa múslima á svæðum eins og í Penang. Meirihluti íbúa af indverskum uppruna eru fylgjendur hindúatrúar (86,3%), en stórir hlutar aðhyllast kristni (6,0%) og íslam (4,1%). Kristni er aðaltrúarbrögð Bumiputera (46,5%), en 40,4% telja sig múslima.[16]
Múslimum ber að fylgja úrskurðum Syariah-dómstóla (þ.e. sjaríadómstóla) í trúmálum. Íslamskir dómarar eiga að fylgja Shafi'i-skóla íslamsks réttar sem er aðallögfræðiskóli (madh'hab) Malasíu.[18] Lögsaga Syariah-dómstólanna nær aðeins yfir múslima í tilteknum málum, sem varða til dæmis hjónaband, skilnað, trúarfráhvarf, trúskipti, forræði og fleira. Engin önnur sakamál eða önnur mál heyra undir lögsögu Syariah-dómstólanna. Borgaralegir dómstólar taka ekki fyrir mál sem heyra undir Syariah-dómstólana.[21]
Tilvísanir
Wikiwand - on
Seamless Wikipedia browsing. On steroids.
Remove ads