Norrænir Grænlendingar
From Wikipedia, the free encyclopedia
Remove ads
Norrænir Grænlendingar var fólk frá Íslandi og Noregi sem nam land á Grænlandi í lok 9. aldar. Þessi norræna byggð hélst þar í nær 500 ár en var yfirgefin á 15. öld. Óvíst er hversu fjölmenn byggðin var þegar hún var fjölmennust, giskað hefur verið á allt frá 2000 til 6000 en nú er oftast talið að það hafi ekki farið yfir 2500.[1]
Íslendingasögur og aðrar sögur

Norrænir Grænlendingar koma fyrir í mörgum Íslendingasögum, í þeim er þó einungis fjallað um landnámið og landnámstíman. Á fyrri hluta 19. aldar kom út þriggja binda verkið Grønlands Historiske Mindesmærker (1838–1845) eftir Finn Magnússon og Carl Christian Rafn, þar sem nánast öllum heimildum sem varða miðaldasögu Grænlands var safnað. Á 20. öld voru fleiri yfirlit yfir ritheimildir um Grænland sett saman.[2]
Eftirfarandi tvær íslendingasögur fjalla nær eingöngu um landnámið og Grænlendinga:
Grænlendingasaga er varðveitt í Flateyjarbók sem var líklega rituð fyrir miðja 13. öld, það er um 200 árum eftir að sagan á að hafa gerst.
Eiríks saga rauða er varðveitt í tveimur handritum, Hauksbók frá byrjun 14. aldar og Skálholtsbók rituð skömmu fyrir miðja 15. öld. Talið er að Skálholtsbók sé líkari frumgerð sögunnar, sem er talin hafa verið rituð á 13. öld. Efnislega er fjallað um sömu efnisatriði og í Grænlendingasögu en um 300 ár liðu á milli atburðanna og skrásetningar.
Um það bil 100 árum eftir að landnámið átti að gerast, um 1122-1133, ritaði Ari fróði Þorgilsson Íslendingabók sem einnig fjallar að hluta til um landnámið á Grænlandi. Vitneskju sína um Grænland byggði Ari á frásögn föðurbróður síns, Þorkels Gellissonar (d. 1074), sem hafði sjálfur verið á Grænlandi líklega um 1055. Í Landnámabók er einnig sagt frá landnáminu.
Að auki er greint frá Grænlandi stuttlega í nokkrum fleiri sögum:
- Flóamannasaga segir frá heimsókn Þorgils Orrabeinsfóstra til Eiríks rauða.
- Fóstbræðrasaga fjallar meðal annars um blóðug átök á Grænlandi.
- Skáld-Helga rímur fjallar um ástarsögu Helga skálds á Grænlandi.[3]
- Grænlendingaþáttur, eða Einars þáttur Sokkasonar, segir frá stofnun biskupsstóllsins á Görðum.
Aðrar miðaldaheimildir
Þar að auki eru nokkrar miðalda heimildir sem segja frá Grænlandi og Grænlendingum eftir landnám:
- Í íslenskum annálum er greint frá fjölmörgum, einkum kirkjulegum, atburðum á Grænlandi.
- Í Konungs skuggsjá, sem er frá miðri 13. öld, er lýsing á Grænlandi.
- Norski presturinn Ívar Bárðarson dvaldi á Grænlandi á 14. öld og frá honum er lýsing á byggðinni og er það aðalheimildin um norræn fornöfn á Grænlandi.
- Björn Jónsson á Skarðsá samdi Grænlandsannál um 1625 og notast þar við ferðabók Björns Einarssonar Jórsalafara sem nú er glötuð.
- Aðrar heimildir eru bréf og önnur skjöl som aðallega snúast um mál kirkjunnar. [4]
Remove ads
Fornleifar

Fornleifarannsóknin á Grænlandi hófust með Hans Egede þegar hann kom til Grænlands árið 1721. Árið 1723 rakst hann fyrir tilviljun á Eystribyggð, en án þess að gera sér grein fyrir mikilvægi þess fundar. Á 18. og 19. öld voru fjölmargir danskir leiðangrar gerðir út til Grænlands til að leita að fornleifum. Eftir stofnun Kommissionen for Videnskabelige Undersøgelser i Grønland á áttunda áratug 19.aldar hófst kerfisbundin rannsókn á fornleifum frá byggð norrænna manna á Grænlandi. Meðal annars var Eystribyggð könnuð árið 1894 og Vestribyggð árið 1903. Uppgröftur á Herjólfsnesi, Görðum og Brattahlíð hófst 1921. [5]
Fjölmargar byggðir og býli á Grænlandi hafa verið grafnar upp og kannaðar síðar. Fjölmargir munir ásamt manna- og dýrabeinum auk rústanna sjálfra gefa mynd af lífi hinna fornu Grænlendinga.
Remove ads
Saga
Uppgötvun og landnám Grænlands
Fundur og landnám Grænlands átti sér stað á því tímabili sem kallað er víkingaöld. Þá fóru íbúar þar sem nú er Danmörk, Noregur og Svíþjóð um á skipum víða í Evrópu með ránum og hernaði og var það kallað að fara í víking eða leggjast í víking. En þeir voru einnig verslunarmenn og fluttust líka búferlum og settust að í öðrum löndum, ýmist með landnámi eins og á Íslandi eða með því að þeir tóku sér bústað meðal annarra þjóða. Svíar settust að í Rússlandi (og ferðuðust allt til Svartahafs og Miðausturlanda, Danir settust að í Englandi og Normandí og sigldu um Miðjarðarhafið og Norðmenn settust að á Írlandi, Skotlandi, Íslandi og Færeyjum.[4]
Í Landnámabók og Eiríks sögu rauða er þess getið hvernig Gunnbjörn Úlfsson, á ferð frá Noregi til Íslands, lenti í hafsnauð í óveðri og að skip hans strandaði vestur af Íslandi. Þar sem Grímkell bróðir Gunnbjarnar tók þátt í landnámi Íslands er líklegt að þetta hafi gerst um ár 900. Samkvæmt Landnámubók vildi Snæbjörn galti Hólmsteinsson ásamt fleirum byggja landið sem Gunnbjörn hafði fundið, en ágreiningur kom upp og þeir sem höfðu hugað á landnám drápu hver annan.
Eiríks sögu rauða og Landnámabók segja frá landnámi Eiríks rauða á Grænlandi. Eiríkur fæddist í Noregi og kom til Íslands með föður sínum Þorvaldi Ásvaldssyni. Eiríkur var kallaður „rauði“ vegna hárlitarins. Þeir feðgar flæmdust frá Noregi vegna vígamála Þorvalds. Eiríki gekk illa að lynda við aðra menn og var hann rekinn úr Haukadal eftir að hann var dæmdur sekur vegna vígaferla. Þá fór hann í eyna Brokey á Breiðafirði en var einnig rekinn þaðan fyrir vígaferli og varð útlagi að nýju 982. Samkvæmt Eiríks sögu rauða varði hann þremur árum útlægur í að að finna og kanna landið sem Gunnbjörn hafði fundið. Líklega náði hann austurströnd Grænlands og sigldi síðan suður með ströndinni. Eríkur ferðaðist um suður og vestur Grænland og sneri síðan aftur til Íslands og sagði miklar og fagrar sögur af þessu nýfundna landi. Árið 985 hafði hann svo safnað fjölmennu liði og sneri með því aftur til Grænlands og stofnaði tvær nýlendur á vesturströndinni, Eystribyggð og Vestribyggð. Í Eystribyggð reisti hann stórbýlið Brattahlíð fyrir sig og sína, nálægt þar sem Narsarsuaq stendur nú. Í þessari landámsferð Eiríks voru 25 skip, sennilega knerrir, með 500 - 700 manns samanlagt um borð en einungis 14 skip komust til Grænlands. Hin 11 ýmist fórust í ofsaviðri eða sneru til baka.[6]
Uppbygging byggðar
Tímasetning landnáms norrænna manna á Grænlandi, eins og hún er skráð í íslendingasögunum, hefur verið staðfest með fornleifafundum. Samkvæmt C-14 aldursgreiningum hafa fornleifafræðingar getað séð að landnám gerðist í tveimur áföngum í Eystribyggð, sá fyrri á áratugunum fyrir árið 1000 í kringum Eiríksfjörð og Einarsfjörð og sá seinni frá 1000 fram til 1050 á svæðinu fyrir sunnan og norðan þessa fjarða. Á sama tíma var Vestribyggð einnig byggð. [6] ]Sagnirnar greina frá því að flestir landnámsmenn hafi komið frá Íslandi og erfðafræðilegar rannsóknir hafa staðfest að norrænu Grænlendingarnir, eins og Íslendingar, voru af norskum og keltneskum uppruna.[6]
Miðaldaheimildir um Grænland og stjórnarfar þar eru fremur fáar og í brotum. Heimildir sýna þó að tveir meginþættir í stjórnun hjá öllum germönskum þjóðum á miðöldum, höfingjavaldið og þingið, voru til staðar á Grænlandi. [2]Grænlensku höfðingjarnir voru nefndir goðorðsmenn eins og á Íslandi.[7]Sennilega voru þrjú goðorð á Grænlandi, tvö í Eystribyggð og eitt í Vestribyggð. [8] Ekki er vitað hvað varð af þessum goðorðum þegar Grænlendingar gengu Noregskonungi á hönd árið 1261. Garðar voru að öllum líkindum þingstaður Grænlendinga.[9]
Um miðja 13. öld voru Ísland og Grænland enn sjálfstæð þjóðfélög án þjóðhöfðingja. Á þessum tíma vildi Hákon gamli Hákonarson Noregskonungur stækka og efla ríkið og það vildi hann meðal annars gera með því að fá Grænlendinga og Íslendinga að sverja sér land og þegna. Árið 1261 sneru sjómenn heim til Noregs eftir fjóra vetur á Grænlandi. Þeir fluttu þau tíðindi að Grænlendingar samþykktu að greiða Noregskonungi skatta og gjöld. Við krýningu Hákonar gamla í Björgvin 1247 hafði sendimaður páfans Innocensíus 3. lýst því yfir að ekkert fólk skyldi vera án konungs og sama sumar var Ólafur biskup sendur til Grænlands til að fá norræna menn til að gangast undir þetta.[10]
Gert er ráð fyrir að Grænlendingarnir hafi gengist að þessu af frjálsum vilja, með loforði Noregskonungs um að senda tvo knerri árlega með vörur milli landanna og þar með tryggja verslun og vistir en upp frá þessu þurftu Grænlendingar að greiða Noregskonungi skatt. En verslunareinokun var einnig komið á og máttu einungis norskir kaupmenn versla við Grænland og öll viðskipti áttu að fara í gengum Björgvin.[6]
Kristnitaka

Lítið er vitað um trúarbrögð fyrstu landnámsmannanna. Sennilega hafa flestir landnámsmenn á Grænlandi fylgt ‘hinum forna sið’ en sagnir fara af kristnum mönnum frá upphafi norrænnar byggðar á Grænlandi. Fundur ýmisra muna sýnir að kristnir menn voru meðal fyrstu landnámsmanna. En engin heiðin kuml hafa fundist.[6] Grænlenska samfélagið varð kristið um svipað leyti og kristnitaka á Íslandi og vegna svipaðra áhrifa, það er frá Noregi og Bretlandseyjum. Í upphafi kristni á Grænlandi heyrði kirkjan eins og aðrar kirkjur á Norðurlöndum undir erkibiskupinn í Hamborg-Bremen en árið 1103 voru þær lagðar undir erkibiskupinn í Lundi. En frá árinu 1152 heyrðu kirkjur i Noregi, Mön, Orkneyjum, Færeyjum, Íslandi og Grænlandi undir erkibiskupinn í Niðarósi (nú Þrándheimi).
Kirkjur voru margar, rústir af að minnsta kosti 16 kirkjum eru þekktar frá Eystribyggð einni. Flestar voru þetta litlar heimiliskirkjur, flestar um 10 m2, en aðrar mjög stórar eins og dómkirkjan í Görðum og Hvalseyjarkirkja. Ósennilegt er að allar kirkjurnar hafi verið í notkun samtímis. Í Eystribyggð voru líka tvö klaustur, eitt fyrir hvort kyn (bæði stofnuð upp úr 1300). Var annað nunnuklaustur af Benediktsreglu í Hrafnsfirði og hitt munkaklaustur af reglu Bendedikts í Ketilsfirði sem helgað var Ólafi helga og heilögum Ágústínusi.
Remove ads
Wikiwand - on
Seamless Wikipedia browsing. On steroids.
Remove ads