Túvalú
From Wikipedia, the free encyclopedia
Remove ads
Túvalú (áður Elliseyjar) eru eyríki á eyjaklasa í Pólýnesíu í Kyrrahafi, um það bil miðja vegu milli Ástralíu og Hawaii. Það nær yfir þrjú rif og sex hringrif sem liggja á milli 5° og 10° suðlægrar breiddar og 176° og 180° vestlægrar lengdar, rétt vestan við daglínuna. Túvalú er fjórða minnsta land heims að flatarmáli, en efnahagslögsagan nær yfir 900.000 ferkílómetra hafsvæði. Næstu lönd eru Kíribatí, Nárú, Samóa og Fídjíeyjar. Íbúar eru rétt rúmlega tíu þúsund sem gerir Túvalú að þriðja fámennasta sjálfstæða ríki jarðar, á eftir Vatíkaninu og Nárú.
Fyrstu íbúar Túvalú voru Pólýnesar sem sigldu þangað á eintrjáningum fyrir um 3000 árum. Spænski skipstjórinn Álvaro de Mendaña leiddi fyrsta evrópska leiðangurinn sem kom til eyjanna 1568. Árið 1819 nefndi bandarískur skipstjóri Funafuti Elliseyju eftir breska stjórnmálamanninum Edward Ellice og það nafn var síðan notað um allar níu eyjarnar. Bretar lýstu eyjarnar sitt verndarsvæði á 19. öld og frá 1892 stjórnuðu þeir eyjunum sem hluta af Vestur-Kyrrahafssvæði Breta. Árið 1916 urðu eyjarnar hluti Gilbert- og Elliseyja ásamt Kíribatí. Árið 1974 var ákveðið í þjóðaratkvæðagreiðslu að skilja eyjaklasana að og gera úr þeim tvær nýlendur sem fengu sjálfstæði 1978 og 1979.
Túvalú er þróunarland með eitt af minnstu hagkerfum heims. Um 65% vinnandi manna eru opinberir starfsmenn. Samningar um fiskveiðiréttindi við erlend ríki eins og Bandaríkin gefur landinu töluverðar tekjur. Túvalúar eru þekktir fyrir sjómennskukunnáttu og margir vinna sem sjómenn á erlendum skipum. Landbúnaður á Túvalú snýst aðallega um ræktun kókoshneta og pulaka.
Remove ads
Landfræði
Túvalú eru eldfjallaeyjar. Eyjarnar eru þrjú rif (Nanumanga, Niutao og Niulakita) og sex hringrif (Funafuti, Nanumea, Nui, Nukufetau, Nukulaelae og Vaitupu).[1] Þessar litlu, dreifðu og láglendu eyjar eru aðeins 26 ferkílómetrar að stærð samtals og eru þannig fjórða minnsta land heims. Hæsti punktur eyjanna er 4,6 metrar yfir sjávarmáli á Niulakita. Á 20 árum hafa 73,5 hektarar bæst við land eyjanna (2,9%) þótt aukningin sé ekki eins alls staðar, með 74% stækkun og 27% minnkun. Yfirborð sjávar við Funafuti hefur risið um 3,9 mm á ári, sem er tvöfalt heimsmeðaltal.[2] Hækkandi sjávarborð skapar aukinn öldugang yfir rifin sem flytur sand sem safnast upp við rifin samkvæmt ástralskri rannsókn.[1] Forsætisráðherra Túvalú gagnrýndi rannsóknina og sagði hana líta framhjá neikvæðum afleiðingum hækkunar sjávarborðs, eins og flæði sjávar inn í ferskvatnsbrunna.[3]
Funafuti er stærsta hringrifið. Það nær yfir nokkrar smáeyjar sem standa umhverfis sjávarlón sem er 25,1 km á lengd og 18,4 km á breidd með miðju staðsetta á 179°7'A og 8°30'S. Hringrifin eru náttúruleg kóralrif með nokkrum opnum rásum inn í sjávarlónið í miðjunni.[4] Í rannsókn sem gerð var á rifunum Nanumea, Nukulaelae og Funafuti í maí 2010 fundust 317 tegundir fisk, þar af 66 tegundir sem ekki höfðu áður verið skráðar við Túvalú. Heildarfjöldi fiskitegunda sem fundist hefur varð þannig 607.[5][6] Landhelgi Túvalú nær yfir um það bil 900.000 ferkílómetra svæði.[7]
Túvalú á aðild að Samningi um líffræðilega fjölbreytni.[8] Helsti gróður á eyjunum eru ræktaðir kókospálmar sem þekja 43% landsins. Innlendur laufskógur er aðeins 4,3% af gróðri á Túvalú.[9]
Remove ads
Stjórnmál
Stjórnsýslueiningar
Túvalú nær yfir sex hringrif og þrjú rif. Minnsta eyjan, Niulakita, heyrir undir Niutao.
Hver eyja hefur sinn yfirhöfðingja, eða ulu-aliki, og nokkra undirhöfðingja (alikia). Öldungaráðið er kallað falekaupule eða te sina o fenua. Áður fyrr var sérstök prestastétt (tofuga) með stjórnsýsluhlutverk. Ulu-aliki og aliki fara með óformlegt vald í héraði. Ulu-aliki eru alltaf valdir út frá ættartengslum. Samkvæmt Falekaupule-lögunum frá 1997[10] deilir falekaupule völdum með kjörnu ráði þorpsforseta (pule o kaupule), sem er eitt á hverju hringrifi.[11]

Sveitarstjórnarumdæmi sem ná yfir meira en eina eyju:
- Funafuti
- Nanumea
- Nui
- Nukufetau
- Nukulaelae
- Vaitupu
Sveitarstjórnarumdæmi sem ná aðeins yfir eina eyju:
- Nanumanga
- Niulakita
- Niutao
Samkvæmt ISO 3166-2-staðlinum er eitt bæjarráð (Funafuti) á Túvalú, og sjö eyjaráð. Niulakita, sem hefur nú sitt eigið eyjaráð, er ekki talið með þar sem það heyrir undir Niutao.
Remove ads
Íbúar
Heilsa
Princess Margaret-spítalinn á Funafuti er eina sjúkrahús eyjanna og helsti veitandi heilbrigðisþjónustu.
Frá því á síðari hluta 20. aldar hefur helsta heilsufarsvandamál Túvalú og aðaldánarorsök verið hjartasjúkdómar.[12] Þar á eftir koma sykursýki[13] og háþrýstingur.[12] Árið 2016 voru helstu dánarorsakir hjartasjúkdómar, sykursýki, háþrýstingur, ofþyngd og heilablóðfall.[14]
Tilvísanir
Wikiwand - on
Seamless Wikipedia browsing. On steroids.
Remove ads