Fallbyssa
From Wikipedia, the free encyclopedia
Remove ads
Fallbyssa (fallstykki, stykki, stórskotaliðsbyssa, stórskotabyssa eða kanóna) er mjög stór byssa, oftast á vagni, fæti eða stalli, sem í eru notuð þung skot. Fallbyssur voru fyrst fundnar upp í Kína um 1150 e.Kr. Svartpúður var notað sem drifefni. Þegar svartpúður brann myndast gas og það þeytti skotinu úr fallbyssuhlaupinu. Fallbyssur bárust til Evrópu á 14. öld. Útbreiðsla þeirra olli aukinni eftirspurn eftir brennisteini og saltpétri sem notuð voru til að framleiða svartpúður. Ísland flutti út brennistein til púðurgerðar frá 14. öld og fram á 19. öld. Fallbyssuhlaup voru framleidd úr bronsi og látúni fram á seinni hluta 19. aldar þegar byrjað var að framleiða fallbyssuhlaup úr stáli. Á 20. öld urðu fallbyssur langdrægari og öflugri. Nýjar tegundir fallbyssna eins og skriðdrekavarnarbyssur, skriðdrekabyssur, loftvarnabyssur og vélfallbyssur komu einnig fram á 20. öld þegar hertækni flaug fram. Eftir Seinni heimsstyrjöldina tóku eldflaugar við hlutverki fallbyssna sem meginvopn herskipa og voru hentugri til að granda skriðdrekum. Loftvarnabyssur eru þó enn notaðar í hernaði og stórskotalið er enn eitt af mikilvægustu vopnun nútímavígvallarins.

Remove ads
Saga
Fyrstu fallbyssurnar
Fallbyssur eru byssur sem nota byssupúður eða annað sprengiefni. Það voru líklega daoískir alkemistar í Kína sem fyrst uppgötvuðu svartpúður þegar þeir blönduðu saman saltpétri, brennisteini og viðarkolum. Árið 300 e.Kr gaf alkemistinn Ko Hung út leiðbeiningar um hvernig blanda skyldi saltpétri og brennisteini. Árið 650 útskýrði alkemistinn Sun -Ssu-Mo hvernig blanda mætti blöndu af saltpétri og brennisteini við viðarkol. Árið 850 var síðan gefin út handbók fyrir alkemista þar sem þeir voru varaðir við því að útbúa svartpúður vegna sprengihættunnar sem fylgdi því.[1] Svartpúður var fyrst notað í orrustu 919 e.Kr í Kína í orrustunni við Úlfafjallaá. Þar var svartpúður notað sem kveikja fyrir olíublöndu sem notuð var í eldvörpu. Svartpúður birtist svo aftur í kínverskum heimildum 1040 og var þá notað sem hluta af eldsprengjum sem skotið var í valslöngum.[2]

Árið 1070 hafði kínverska ríkið bannað útflutning og einkaframleiðslu á svartpúðri og byggt átta ríkisverksmiðjur sem framleiddu svartpúður fyrir keisaralega herinn. Vopnaverksmiðjur ríkisins framleiddu eldörvar þar sem hólk af svartpúðri var komið fyrir framan á örinni og síðan skotið að óvininum með boga. Einnig voru framleidd svokölluð eldspjót. Löng prik sem festur var á bambushólkur fylltur með svartpúðri. Hólkinum var síðan beint að óvininum og virkaði sem eldvarpa sem brann í um 5 mínútur. Eldspjótið þróast og árið 1150 var farið að smíða hólkinn framan á spjótinu úr járni. Nú var farið að hlaða hólkanna með svartpúðri og ofan á púðrið var sett járnrusl og brot úr leirkerum sem spýttust á óvininn þegar svartpúðrið brann. Er þá hægt að fara að tala um eiginlegar byssur.[3] Svartpúðurs byssur virkuðu vegna þess að svartpúður getur brunnið í súrefnislausu umhverfi. Svartpúðrið var því sett í járnhólkinn og það sem átti að skjóta sett þétt ofan á það. Neista er síðan hleypt í svartpúðrið, oftast í gegnum lítið op í hliðinni á járnhólknum. Þegar svartpúður brennur verða efnahvörf þar sem mikið gas myndast, formúlan að þessum efnahvörfum er 2KNO3 + S + 3C = K2S + N2 + 3CO2. Þegar gasið þenst út við brunann þeytir það skotinu út úr hlaupinu á byssunni af miklum krafti.[4]
Fyrstu fallbyssurnar sem smíðaðar voru í Kína voru úr bronsi. Brons var hentugt þar sem auðvelt var að steypa fallbyssuhlaup í heilu lagi úr því. Gallinn við brons var hins vegar sá að það þoldi ekki mikinn þrýsting og fallbyssurnar áttu það til að springa við notkun. Kínversku byssusmiðirnir hófu því að steypa fallbyssuhlaup úr steypujárni (pottjárni) sem þoldi mun meiri þrýsting. Hellamyndir frá um 1128 benda til þess að kínverskir herir hafi verið farnir að nota fallbyssur í hernaði á þeim tíma. Í kínverska handritinu Elddrekahandbókin (Huǒ Lóng Jīng) frá 1344 er að finna lýsingar á mörgum tegundum af fallbyssum. Ein þeirra, kölluð Langdræga skelfilega fallbyssan (weiyuanpao) hafði 90cm langt hlaup og var 68 kíló að þyngd. Hlaupvíddin var 50mm og þyngd fallbyssukúlunnar 1.3 kílógrömm. Ennþá stærri voru fallbyssurnar í hinu svokallaða níu uxa batteríi. Hlaup þeirrar fallbyssu var 150cm langt. Hlaupvíddin var 30cm og hún gat skotið 13.5kg steinkúlu.[5]
Fallbyssur koma til Evrópu
Kínverska ríkið reyndi að halda tækninni við gerð svartpúðurs og fallbyssna leyndri. Tæknin virðist því aðeins hafa þróast í Kína milli 800 og 1200 e.Kr. Það voru mongólar sem fyrst lærðu púðurgerð og fallbyssusmíði af Kínverjum. Árið 1214 höfðu þeir lagt undir sig stóran hluta Norður-Kína þar á meðal nokkrar af vopnaverksmiðjum kínverska ríkisins. Tæknin barst nú eftir Silkiveginum til Mið-Austurlanda og þaðan til Evrópu. Fyrsta evrópska heimildin um gerð svartpúðurs er handrit enska munksins Roger Bacon, Opus Majus frá 1267.[6] Elsta heimildin um svartpúður á Norðurlöndum er íslenska handritið Lárentíusar saga biskups frá 1320. Þar segir að flæmskur maður að nafni Þrándr hafi sýnt Lárentíusti ,,brest" sem gerði mikinn hvell og sagt honum frá ,,herbresti" sem væri notaður í stríði.[7]
Fallbyssur bárust fyrst til Evrópu frá Mið-Austurlöndum 1324 þegar íslamskur her soldánsins af Grenada notaði fallbyssur við umsátrið um kristnu borgirnar Huescar, Baza og Martos á Spáni. Í umsátrinu um Algeciras 1342-1344 notuðu íslamskir verjendurnir vopn sem Spánverjar kölluðu ,,truenos" og virðast hafa verið fallbyssur sem skutu grjótkúlum af slíkum krafti að þær gátu farið beint í gegnum brynvarinn riddara.[8] Svartpúðurs framleiðsla í Evrópu fór hægt af stað. Viðarkol var hægt að framleiða um alla Evrópu en nýtanlegur brennisteinn fannst helst á Sikiley og Íslandi, virkustu eldfjallasvæðum álfunnar. Erfiðast var að finna saltpétur til púðurframleiðslu. Hægt var að skrapa hann af gólfum gripahús þar sem hann leystist út frá þvagi húsdýra en erfitt var að hreinsa þennan saltpétur og lélegur saltpétur var viðvarandi vandamál í púðurframleiðslu í Evrópu á 14. öld sem þýddi að evrópskt svartpúður var kraftminna en svartpúður frá Mið-Austurlöndum og Asíu. Fyrsta svartpúðursmillan í Evrópu sem heimildir fara af var byggð 1340 í Augsburg í Þýskalandi.[9] Þegar svartpúðursframleiðsla hófst í stórum stíl varð brennisteinn mikilvæg útflutningsvara fyrir Íslendinga. Brennisteinn var unnin í námum í Reykjahlíð á Norðurlandi frá 14. öld og fram á miðja 19. öld.[7]
Það var ekki fyrr en 1377 sem stórfelld notkun fallbyssna í evrópskum hernaði hófst. Þá lét Filippus II hertogi af Búrgundí smíða fallbyssur sem gátu skotið 90kg steinhnullungum. Þessar fallbyssur notaði hann til að brjóta niður virkisveggi Odruik þegar hann gerði umsátur um borgina. Fallbyssur voru aðallega notaðar í umsátrum þar sem þær voru yfirleitt of svifaseinar og þunglamalega til að hægt væri að nota þær í orrustu. Þar sem fallbyssur voru aðallega notaðar í umsátrum kepptust byssusmiðir Evrópu við að smíða eins stórar fallbyssur og mögulegt var til að þær gætu brotið niður virki og múra óvinarins. Árið 1415 notaði her Hinriks V Englandskonungs fallbyssur sem gátu skotið 360kg steinhnullungum til að brjóta niður virkisveggi Orléans borgar. Oft þurfti 20 manna áhöfn til að hlaða slíkar byssur og 100 menn og uxa til að hreyfa þær milli staða. Fallbyssur þessa tíma voru hins vegar oft jafn hættulegar áhöfninni og þær voru óvininum þar sem þær áttu það til að springa þegar skotið var úr þeim. Þannig fórst Jakob 2. af Skotlandi þegar fallbyssa sem hann var að miða sprakk í umsátrinu um Roxburgh.[10]
Það var helst á sjó sem fallbyssum byrjuðu að breyta gangi orrusta. Fallbyssur voru fyrst sett á skip í Evrópu 1330 af Genúamönnum. Englendingar notuðu svo fallbyssur á skipum sínum í sjóorrustunni við Sluys 1340. Fallbyssur sem notaðar voru á skipum voru oftast litlar og helst ætlaðar til að valda tjóni á áhöfnum óvinarins frekar en að sökkva skipum hans. Til að byrja með voru það helst galeiður sem búnar voru fallbyssum. Þær hentuðu vel til siglinga á Miðjarðarhafi og voru knúnar áfram af ræðurum og seglum. Byggður var sérstakur turn fremst eða aftast á galeiðunum og fallbyssunum komið fyrir þar. Oft voru fallbyssur úr bronsi, sem skotið gátu 27kg kúlum 640 metra, notaðar á þessum skipum. Galeiður vopnaðar fallbyssum urðu algengasta herskipið í flotum Ottómana og kristinna Miðjarðarhafsvelda á 16. öld.[11]
Kornapúður og járnkúlan

Á 15. öld urðu miklar framfarir í framleiðslu svartpúðurs í Evrópu. Saltpétur var nú skipulega unnin úr þvagi húsdýra og manna og púðurframleiðsla jókst og gæði svartpúðurs í Evrópu bötnuðu. Til að vinna saltpétur úr þvagi voru beð útbúin með lögum af kalki, strái og jarðvegi eða kalki, jarðvegi og viðarösku. Þvaginu var hellt í beðin á hverjum degi í þrjár vikur. Jarðveginum var síðan safnað saman og soðin þangað til nær allur vökvi var gufaður upp. Var þó eftir þykkur vökvi á botninum sem var þurrkaður þangað til hann kristallaðist. Með þessum hætti var hægt að vinna 400 grömm af saltpétri úr 45 kílógrömmum af jarðvegi.[12]
Fyrsta framþróunin í púðurgerð í Evrópu átti sér stað á fyrri hluta 15. aldar þegar Evrópumenn byrjuðu að ,,korna" púður. Fram að því var svartpúður blandað þannig að hráefnin voru méluð og síðan hrærð saman. Kornun virkaði þannig að eftir að hráefnunum var hrært saman var blandan, sem þá var fínt púður, bleytt með vatni og þrýst í gegnum sigti. Við það leystist saltpéturinn í blöndunni upp og húðaði kornin sem urðu til við þessa aðferð. Það hafði í för með sér að nýja kornapúðrið brann hraðar en fíngerða púðrið og bjó því til aukinn sprengikraft. Auk þess geymdist kornapúður mun betur heldur en gamla púðrið og var ekki eins viðkvæmt fyrir raka. Á sama tíma byrjuðu Evrópumenn að steypa fallbyssuhlaup í heilu lagi úr bronsi og látúni. Þessi fallbyssuhlaup voru sterkari en gömlu hlaup sem voru lóðið saman úr mörgum járnhringjum. Nýju bronsbyssurnar þoldi hinn mikla þrýsting sem kornapúður bjó til. Um miðja 15. öld tók búrgundíski herinn slíkar fallbyssur í notkun. Í stað þess að búa til fallbyssukúlur með því að höggva til steinhnullunga voru fallbyssukúlur nú steyptar úr járni. Slíkar fallbyssukúlur gátu flogið lengra en steinkúlur og lentu af meiri krafti á skotmarkinu. Fallbyssur búrgundímanna voru með 2.4m löngu hlaupi og skutu 11-25kg járnkúlum.[13]
Eina leiðin til að verja virki og borgir fyrir þessari nýju tegund fallbyssna var að byggja virkisveggi sem voru lægri en þeir gömlu höfðu verið. Jarðvegur var það hráefni sem mest dempaði höggkraft fallbyssukúlna og skotgrafir voru því grafnar í jörðina og múrveggir hafðir þykkari en áður og klæddir að utan með skáhöllum varnargörðum úr jarðvegi sem fallbyssukúlur hrukku af.[14] Nýju brons fallbyssurnar höfðu mikil áhrif á skipagerð í Evrópu. Fram til 1450 voru sjóorrustur háðar af fótgönguliði um borð í skipunum. Fallbyssur voru einungis ætlaðar til að granda fótgönguliði og sjóliðum óvinarins, ekki sökkva herskipum hans. Hins aukni skotraftur kornapúðursins og notkun fallbyssukúlna úr járni gerði fallbyssum kleyft að skjóta í gegnum byrðing tréskipa. Bakslagið af nýju fallbyssunum var hins vegar svo mikið að byssurnar þurftu að vera eins nálægt sjólínunni og hægt var til að koma í veg fyrir að bakslagið frá fallbyssunum velti herskipinu. Skotgöt fyrir fallbyssur voru gerð á byrðinginn og fallbyssum raðað á svokallað fallbyssudekk rétt fyrir ofan sjólínuna. Fallbyssuhlaupin lágu á lágum eikarvögnum á hjólum og tjóðraðir með sverum köðlum og talíum sem notaðar voru til að færa byssurnar fram og til baka.[15] Ef skotgötunum var ekki lokað tryggilega fossaði sjór inn um þau í veltingi með þeim afleiðingum að skipið sökk eins og kom fyrir enska karraggann Mary Rose 1545.[14]
Stórskotaliðið verður til
Eftir því sem leið á 15. og 16. öld jókst framleiðsla á fallbyssum og svartpúðri jafnt og þétt í Evrópu. Þessi nýja framleiðsla jókst eftirspurn eftir kopar og tini til að búa til fallbyssuhlaup úr bronsi og kopar og sínki til að búa til fallbyssuhlaup úr látúni. Einnig jókst eftirspurn eftir járni til að steypi minni fallbyssur og handbyssur. Eftirspurn eftir saltpétri og brennisteini jókst einnig til muna. Flest stórveldi Evrópu stofnuðu sérstakar verksmiðjur til að smíða fallbyssur og handbyssur og til að framleið púður og fallbyssukúlur. Þrátt fyrir nánast stöðug stríðsátök um alla álfuna voru evrópskir herir almennt mjög litlir á þessum tíma. Til dæmis gátu öflugustu stórveldin Spánn og Frakkland yfirleitt ekki kallað saman meira en 20.000 hermenn fyrir stórar herferðir. Á 17. öld styrktist ríkisvald í Evrópu og fastaherir stækkuðu. Um 1630 var ekki óalgent að evrópsk stórveldi gætu kallað 150.000 menn til vopna. Flotar stórveldanna stækkuðu einnig hratt og um miðja 17. öld taldi enski flotinn 150 herskip.[16] Þessi þróun kallaði á aukna sérfræðiþekkingu á fallbyssum. Herskólar voru stofnaðir til að þjálfa stórskotaliða og ráðuneyti stofnuð til að hafa yfirumsjón með framleiðslu og geymslu fallbyssna í ríkinu. Dæmi um þetta var enska ráðuneytið ,,Board of Ordinance" (fallbyssuráðið) sem var stofnað á dögum Hinriks 8. Árið 1671 tók það yfir stjórn á vopnabúrum enska ríkisins og sá um framleiðslu og dreifingu fallbyssna og skotfæra til hers og flota.[17]
Á 17. öld voru evrópskar byssur yfirleitt framleiddar þannig að líkan af fallbyssuhlaupinu var búið til úr timbri og leir. Líkanið var síðan notað til að búa til leirmót af hlaupinu. Mótið var síðan grafið þannig að fallbyssuhlaupið snéri upp og bronsi eða látúni var síðan hellt í mótið til að búa til fallbyssuhlaupið. Til að spara málm voru fallbyssuhlaupin steypt sem rör sem voru hol að innan. Það að steypa rörin hol að innan veikti heildarstyrk fallbyssuhlaupsins en ekki var komin áreiðanleg tækni til að bora heilsteypt fallbyssuhlaup auk sem það hefði verið erfiðara og gert framleiðsluna dýrari. Þegar fallbyssuhlaupið var tilbúið var það fest á vagn sem yfirleitt var úr eik. Fallbyssur sem ætlaðar voru á skip voru hafðar á lágum vögnum með litlum tréhjólum. Fallbyssur sem átti að nota í landhernaði voru settar á hærri vagn með stærri hjólum sem voru styrkt með járni til að bera þungann af fallbyssunni. Ekki var enn farið að mæla stærð fallbyssna í kalíberum og því þurfti yfirleitt að sérsmíða skot fyrir hverja tegund fallbyssna. Heilsteypta járnkúlan var algengasta skotfærið. Heilar járnkúlur grófust í jörðina ef þeim var skotið með miklum halla og því þurfti að skjóta þeim lárétt beint á óvininn. Góðar skyttur gátu látið járnkúluna skoppa eins og þeir væru að fleyta kerlingar en þá gátu kúlurnar flogið í gegnum margar raðir af fótgönguliði og riddaraliði óvinarins og valdið miklu tjóni. Á stuttu færi var hægt að hlaða fallbyssur með járnarusli eða blýkúlum og skjóta úr þeim á stuttu færi. Þegar það var gert virkuðu þær í raun eins og risastórar haglabyssur og gátu valdið miklu tjóni á stuttu færi. Frumstæðar sprengikúlur voru einnig komnar fram. Oft holar járnkúlur, hlaðnar með svartpúðri en þær voru aðallega notaðar í mortélsbyssur á 16. og 17. öld. Þegar járnkúlur kláruðust var enn algengt að grjót væri hoggið til og notað sem fallbyssukúlur.[18]
Það var Gústaf 2. Adólf konungur Svíþjóðar sem fyrst endurskipulagði her sinn til að gera ráð fyrir stórskotaliði. Þegar Svíþjóð hóf þátttöku sína í Þrjátíu ára stríðinu var sænski herinn endurskipulagður frá grunni. Fótgöngulið og riddaralið var nú skipulagt í hersveitir. Fótgönguliðshersveitir höfðu 1200 hermenn og riddaraliðshersveitir 1000 hermenn. Fyrir orrustu var tiltækum hersveitum raðað í stórfylki. Stórskotaliðinu var síðan deilt á stórfylkin. Við orrustuna við Breitenfeld 1631 fékk hvert stórfylki 6. léttar fallbyssur úr bronsi sem dregnar voru af hestum. Hvert stórfylki fékk einnig þrjár stærri fallbyssur sem var komið fyrir fyrir framan stórfylkið við upphaf orrustu. Þessi módeli fylgdu flestir herir Evrópu fram að lokum 18. aldar. Orrustur byrjuðu þannig að stærri byssur hófu orrustuna með því að skjóta á óvinaherinn. Þegar orrustan hófst svo fyrir alvöru fylgdu stórskotaliðarnir fótgönguliðinu og riddaraliðinu með léttum fallbyssum sem var hægt að koma hratt fyrir til að skjóta á óvininn og síðan færa auðveldlega eftir því hvernig staðan á vígvellinum þróaðist.[19]
Vallière og Gribeauval kerfin
Á 18. öld urðu miklar breytingar á framleiðslu fallbyssna. Fyrsta byltingin var borvélin sem svissneski uppfinningamaðurinn Jean Maritz fann upp 1713. Borvél Maritz var nægilega öflug til að bora í gegnum steypt málmstykki. Það þýddi að nú var hægt að smíða fallbyssuhlaup með því að steypa heilt hlaup úr bronsi eða látúni og síðan bora rásina fyrir fallbyssukúluna og púðurhleðsluna. Fallbyssuhlaup steypt með þessari aðferð voru mun sterkari en hlaup sem voru steypt með holrúmi. Því var hægt að hafa fallbyssuhlaup þynnri en áður án þess að tapa styrk. Fallbyssur urðu því öflugri og meðfærilegri. Fallbyssuverksmiðja frönsku krúnunnar var sú fyrsta til að taka nýju tæknina í notkun. Yfirmaður franska stórskotaliðsins Jean Florent de Vallière undirhershöfðingi þróaði nýtt kerfi til að skipuleggja stórskotalið franska hersins. Fallbyssur skyldu nú framleiddar í föstum stærðum. Stærðirnar voru miðaðar við þyngd fallbyssukúlunnar sem byssan gat skotið. Í Vallière kerfinu voru fallbyssur smíðaðar í 4-punda, 8-punda, 12-punda og 24-punda stærðum. Mortélsbyssur voru smíðaðar í 8-punda og 12-punda stærðum. Vallière kerfið var tekið í notkun 1732 og reyndist vel. Fallbyssur voru nú framleiddar í föstum hlaupvíddum sem gerði framleiðslu skotfæra mun auðveldari.[20]

Það leið þó ekki á löngu þar til gallar Vallière kerfisins komu fram. Helstu gallar þess voru skortur á léttum fallbyssum og howitzer-stórskotaliðsbyssum. Howitzer byssurnar höfðu fyrst verið þróaðar í Hollandi á 17. öld og náðu vinsælum í Niðurlöndum og Bretlandseyjum. Þær voru nokkurskonar millistig milli fallbyssu og sprengjuvörpu. Þær gátu skotið bæði járnkúlum og sprengikúlum eins og fallbyssur en skutu þeim í hærri boga en fallbyssur. Oft skutu þær á 45° gráðu halla eða meira sem gerði þeim kleift að skjóta yfir varnarveggi eða ofan í skotgrafir.[21]
Það féll á herðar Jean-Baptiste Vaquette de Gribeauval undirhershöfðinga að endurbæta fallbyssukerfi franska hersins. Hann var skipaður yfirmaður franska stórskotaliðsins 1763 og Gribeauval kerfið var tekið í notkun 1765. Fallbyssum var nú skipt í tvo flokka, vígvallarbyssur og umsátursbyssur. Vígvallarbyssur skyldu vera léttar og meðfærilegar en umsátursbyssur hafa meiri skotkraft og lengri hlaup. Vígvallarbyssur voru framleiddar í stærðunum 4-pund, 8-pund og 12-pund. Einnig voru framleiddar afar léttar 1-punda byssur og 6-punda howitzer byssur. Umsátursbyssur voru nú framleiddar í 4-punda, 8-punda, 12-punda, 16-punda og 24-punda stærðum. Mortélsbyssur voru framleiddar í 8-punda, 10-punda og 12-punda stærðum. 12-punda byssan var öflugasta vígvallarbyssa franska hersins í þessum kerfi. Fallbyssuhlaupið var 229cm á lengd og hlaupvídd þess 121mm. Þyngd hlaupsins var 880kg og eikarvagninn sem það var fest á við notkun í landhernaði var rúm 900kg. Í heildina var byssan því tæp 2 tonn á þyngd. Sex hesta þurfti til að draga byssuna og 15 stórskotaliða þurfti til að nota hana í bardaga. 12-punda byssan gat skotið einu sinni á mínútu og var banvæn á allt að 900 metra færi og skotin úr henni gátu dregið allt að 1800 metra.[22]
Napóleonsstyrjaldirnar og sprengikúlan

Napóleon Bónaparte hóf feril sinn í franska hernum stórskotaliðinu. Í styrjöldunum sem kenndar eru við hann urðu margar framfarir í notkun fallbyssna. Þegar Napóleon rændi völdum í Frakklandi 1799 notaði stórskotaliðið enn mest heilsteyptar járnkúlur. Þetta breyttist 1803 þegar uppfinningamaðurinn Henry Shrapnel kynnti uppfinningu sína fyrir breska stórskotaliðinu. Uppfinning Shrapnels var ný tegund af sprengikúlu. Kúlan var hol járnkúla fyllt með blýkúlum og sprengiefni. Í kúlunni var kveikiþráður sem kveiknaði í þegar kúlunni var skotið úr fallbyssunni. Lengd kveikiþráðarins réð því hvenær kúlan sprakk. Vel þjálfaðar fallbyssuskyttur gátu þannig stillt sprengikúluna þannig að hún sprakk rétt fyrir ofan höfuðið á óvinahermönnunum og þannig drepið og sært fjölda manns í einu.[23]
Notkun fallbyssna breyttist í Napóleonsstyrjöldunum. Skotkraftur þeirra var orðinn slíkur að í orrustunni við Austerlitz 1805 náði franski herinn að stöðva gagnsókn rússneska fótgönguliðsins með 42 fallbyssum. Í orrustunni við Jena 1806 náði Lannes marskálkur að stöðva sókn prússneska fótgönguliðsins með stöðugri skothríð 25 fallbyssna. Napóleon safnaði því stórskotaliði sínu, sérstaklega stórskotaliðinu í lífvarðarsveit sinni í stórar stórskotaliðssveitir sem höfðu það hlutverk að stoppa fótgönguliðsárásir óvinarins og búa til göt í víglínu hans.[24] Í breska hernum var stórskotalið nú skipulagt í stórfylki sem höfðu 6-12 fallbyssur hvert. Í Pýreneaskagastríðinu 1808-1814 hafði hvert stórskotaliðsstórfylki í breska hernum sex fallbyssur, sex skotfæravagna, einn vagn með aukahjólum, einn smiðjuvagn sem var með færanlega smiðju til að sinna viðgerðum, tvo birgðavagna og tvo vagna með aukaskotfæri.[25]
Rifflaða fallbyssuhlaupið, kveikjur og nítróglyserín
Eftir lok Napóleonsstyrjaldanna var næsta stóra framförin í framleiðslu fallbyssna rifflaða fallbyssuhlaupið. Rifflaðir framhlaðningur voru algengar veiðibyssur á 18. öld og breski herinn byrjaði að vopna heilar hersveitir með rifflum í Napóleonsstyrjöldunum. Rifflun virkaði þannig að rákir voru skornar í hlið byssuhlaupsins. Rákirnar gripu síðan í kúluna þegar byssunni var skotið sem olli því að kúlan byrjaði að snúast. Þessi tækni gerði byssur nákvæmari en til að rifflar virkuðu þurfi skotið að passa hárnákvæmlega í riffillinn sem olli því að tímafrekt var að hlaða framhlaðna riffla. Þróun rifflaðra fallbyssna átti sér stað báðum megin við Atlantshafið. Verkfræðingurinn William Armstrong kynnti hönnun sína fyrir breska hermálaráðuneytinu 1854. Armstrong byssan var afturhlaðin fallbyssa með riffluðu hlaupi. Fallbyssuhlaupið var úr steypujárni og klætt með smíðajárni til að styrkja það. Kúlurnar í hana voru blýhúðaðar járnkúlur. Blýið var nægilega mjúkt til að þenjast út í hlaupinu þegar skotið var út úr byssunni. Þá gripu rifflurnar í kúluna og byrjuðu að snúa henni.[26]
Á sama tíma var enski verkfræðingurinn Joseph Whitworth að vinna að hönnun rifflaðra fallbyssuhlaupa. Hönnun hans var afturhlaðin eins og hönnun Armstrong. Helsti munurinn á hönnun þeirra var að fallbyssuhlaup Whitworth var úr stáli en ekki steypujárn. Líkt og Armstrong byssan vað það klætt með smíðajárni. Hlaupin á báðum byssunum voru steypt heil og síðan boruð líkt sem veitti hlaupinu aukin styrk. Breski herinn valdi hönnun Armstrong fram yfir hönnum Whitworth þar sem hönnun Armstrong þótti einfaldari í smíðum. Í Norður-Ameríku var það bandaríski höfuðsmaðurinn Robert Parker Parrott sem fyrst byrjaði að framleiða riffluð fallbyssuhlaup 1860. Parrott fallbyssan var framhlaðin líkt og hefðbundnar fallbyssur en hlaupið rifflað. Kúlurnar í hana voru smíðaðar með brún neðan á kúlunni. Þegar hleypt var af byssunni þandist brúnin á botninum út og rifflurnar gripu í hana og sneri kúlunni. Parrott byssan var líkt og Armstrong byssan smíðuð úr steypujárni og klædd með smíðajárni.[27]

Hönnun sprengikúlna fór líka mikið fram um miðja 19. öld. Helsti gallinn við fyrstu sprengjukúlurnar var að kveikiþráðurinn var óáreiðanlegur. Kúlurnar áttu til að springa of fljótt og valda vinveittum skaða eða of seint eftir að þær lentu á jörðinni. Þetta breyttist þegar Charles Guillaume Bormann fann upp Bormann kveikjuna (einnig kölluð tundurpípa). Bormann kveikjan var hringlaga snittaður málmdiskur. Ofan á disknum voru tölur frá 0.75 og upp í 5.5. Stórskotaliði notaði töng til að gera gat á diskinn og skrúfaði kveikjuna í kúluna. Inni í kveikjunni var pípa full af svartpúðri. Þegar kúlunni var skotið komst neisti inn í kveikjuna í gegnum gatið og kveikti í púðrinu. Púðrið gat brunnið frá 0.75 sekúndum og upp í 5.5 sekúndur. Púðrið kveikti síðan í sprengihleðslunni inni í kúlunni og hún sprakk og dreifði sprengiflísum yfir óvininn.[28]
Svartpúður var drifefni fallbyssna frá því að þær voru fundnar upp og fram á seinni hluta 19. aldar. Það breyttist þegar Ascanio Sobrero uppgötvaði nítróglyserín þegar hann blandaði saman saltpéturssýru, brennisteinssýru og glyseríni árið 1847. Nítróglyserín var fyrsta sprengiefnið sem var öflugra en svartpúður. Nítróglyserín var fljótlega þróað í sprengiefnið dínamít en var of öflugt og óstöðugt til að vera nothæft sem drifefni í fallbyssur. Árið 1889 tókst James Dewar og W. Kellner að blanda saman nítrósellulósa, nítróglyseríni og vaselíni. Blandan var stöðugt drifefni sem hægt var að nota í fallbyssur. Uppfinning þeirra var kölluð kordít og fjöldaframleiðsla þess hófst strax sama ár í skotfæraverksmiðju breska hersins í Waltham Abbey. Upphaflega var kordít 37% nítrósellulósi, 58% nítróglyserín og 5% vaselín. Þessi blanda olli hins vegar mikilli tæringu í fallbyssuhlaupum breska hersins vegna þess að kordítið myndaði svo mikinn hita þegar það brann. Blöndunni var því breytt í 65% nítrósellulósa, 30% nítróglyserín og 5% vaselín. Við þessa breytingu lækkaði brennsluhitinn og kordít tók við af svartpúðri sem sprengiefnið sem notað var til að skjóta fallbyssukúlum.[29]

Vegna þess hve stöðug nýju drifefnin eins og kordít voru var nú hægt að þróa nýja tegund skotfæra fyrir fallbyssur. Þessi nýja tegund skotfæra var fallbyssuskotið eða stórskeytið eins og við þekkjum það i dag. Áður en stórskeytið var fundið upp þurfti að hlaða púðri og kúlu í sitthvoru lagi í fallbyssur. Nýja stórskeytið var samansett þannig að látúnshólkur var fylltur með drifefni, til dæmis kordíti. Neðst á hólknum var hvellhetta (einnig kölluð primer), ofan á drifefnið kom fallbyssukúlan. Framan á fallbyssukúluna var síðan skrúfuð kveikja. Kveikjan gat verið tímastillt þannig að kúlan sprakk í loftinu eða með höggskynjara þannig að kúlan sprakk þegar hún lenti á fyrirstöðu. Til að nota nýju stórskeyti hannaði breski flotinn svokallaðar hraðskotabyssur. Til að teljast hraðskotabyssur þurftu fallbyssur að vera afturhlaðnar, nota stórskeyti og vera með dempurum til að dempa afturkast fallbyssunnar (bakslagið). Fyrsta hraðskotabyssan var eins tommu Nordenfelt byssan. Nordenfelt byssan hafði 25mm hlaupvídd og skaut heilum stálkúlum. Hún gat dregið allt að 700 metra og var ætluð til að granda tundurskeytabátum. Nordenfelt byssan var tekin í notkun 1880.[30] Árið 1896 tók breski flotinn síðan fjögurra tommu hraðskotabyssu í notkun. Hlaupvídd hennar var 101mm, hún gat skotið 11kg sprengikúlu 8200 metra og gat skotið fimm skotum á mínútu. Nýju hraðskotabyssurnar juku skotkraft herskipa til muna, voru auðveldari í notkun og öruggari en gömlu framhlöðnu fallbyssurnar.[31]
Næsta skref í þróun hraðskotabyssurnar var vélfallbyssan. Vélfallbyssan gat haldið uppi stöðugri skothríð eins og vélbyssa. Munurinn á vélbyssu og vélfallbyssu er hlaupvídd byssunnar. Vélfallbyssur hafa yfirleitt allavega 20mm hlaupvídd en vélbyssur hafa minni hlaupvídd. Fyrsta vélfallbyssan var breska fallbyssan, QF 1 pounder. Hún hafði 37mm hlaupvídd og var hönnuð af Hiram Maxim sem einnig hannaði Maxim vélbyssuna. Byssan gat skotið 340gr sprengikúlu með höggkveikju þannig að kúlan sprakk ef hún lenti á fyrirstöðu og 200gr heilum stálkúlum sem gátu farið í gegnum létta brynvörn.[32]
Fyrri heimstyrjöldin

Í aðdraganda Fyrri heimsstyrjaldarinnar hafði vopnakapphlaup átt sér stað milli virkjasmiða og fallbyssuframleiðenda. Ný byggingartækni eins og járnbent steinsteypa og ný byggingarefni eins og stál gerðu virkjasmiðum kleift að smíða virki sem þoldu vel fallbyssuskothríð. Svar vopnaframleiðenda var að framleiða stærri og stærri fallbyssur til að granda nýju virkjunum. Einnig var þróuð ný tegund sprengjukúlna til að granda virkjum. Þessar nýju sprengikúlur voru með skel úr hertu stáli og tímastilltri kveikju. Þegar kúlan lenti á virkisvegg fór hún í gegnum jarðvegslagið yfir steypunni og inn í steypuna. Síðan kveikti kveikjan í sprengjuefninu í oddinum og fallbyssukúlan sprakk inni í virkisveggnum. Flest virki voru hönnuð til að standast skothríð 210mm fallbyssna og því þurfti enn stærri byssur til að granda virkjum.[33] Þegar Fyrri heimsstyrjöldin hófst 1914 var algengasta fallbyssan í öllum herjum létt hraðskotabyssa. Frakkar notuðu Canon de 75 modèle 1897 sem hafði 75mm hlaupvídd. Bretar notuðu QF 18-pounder gun sem hafði 84mm hlaupvídd. Þjóðverjar notuðu 7.7 cm FK 96 n.A. sem var 77mm. Bretar kölluðu slíkar byssur hraðskotabyssur QF var stytting á Quick Fire en Þjóðverjar kölluðu þær vígvallarbyssur en FK var stytting á Feldkanone. Af þessum byssum gat sú franska skotið flestum skotum á mínútu og var langdrægust, sú breska hafði þyngstu kúluna og sú þýska var léttust.[34]
Enginn af þjóðunum sem hófu Fyrri heimsstyrjöldina hafði séð fyrir hvernig hún myndi þróast. Eftir fyrstu mánuði stríðsins glímdu allir stríðsaðilar við skort á stórskeytum. Til dæmis höfðu 4780, 75mm fallbyssur franska hersins skotið meira en helmingi af 75mm stórskeytabirgðum Frakklands á fyrstu mánuðum stríðsins. Ný tækni eins og síminn þýddu að hermenn í fremstu víglínu gátu leiðbeint stórskotaliðinu. Það þýddi að fallbyssur þurftu að vera nægilega langdrægar til að skjóta yfir sjónlínu. Hönnun hraðskotabyssna var því breytt þannig að hægt væri að hækka fallbyssuhlaupið. Til dæmis var þýska 7.7 cm FK 96 n.A byssan endurhönnuð þar sem einungis var hægt að hækka hlaupið í 15° gráðu halla.. Á nýju útgáfunni 7.7 cm FK 16 sem var tekin í notkun 1916 var hægt að hækka hlaupið í 40° gráðu halla sem gerði hana 2300 metrum langdrægari. Þegar leið á stríðið var einnig farið að nota fallbyssukúlur sem innihéldu eiturgas. Mest notaða eiturgasið í fallbyssukúlur var sinnepsgas en blásýra og fosgen voru einnig notuð.[35]

Þjóðverjar voru eina þjóðin sem byrjaði Fyrri heimsstyrjöldina með risafallbyssur sem gátu grandað virkjum andstæðingsins. Heráætlun Þjóðverja gerði ráð fyrir hraði sókn inn í Frakkland og því voru risafallbyssur nauðsynlegar til að brjóta niður virki óvinarins. Stærsta fallbyssa Þjóðverja í stríðinu var 42cm M-Gerät. Hún hafði 420mm hlaupvídd og gat skotið 400-1160kg sprengikúlu. Drægi þeirra var 9300 metrar. Byssan var uppnefnd Digra Berta af þýskum hermönnum og nafnið festist við hana. Í raun virkaði Digra Berta eins og mortélsbyssur höfðu gert áður fyrr þar sem hún skaut fallbyssukúlum í háum boga. Fallbyssan var 42 tonn á þyngd og gat skotið 8 fallbyssukúlum á klukkustund. Einungis tvær fallbyssur voru tilbúnar 1914 og tíu til viðbótar voru smíðaðar meðan á stríðinu stóð[36] Það tók Bandamenn nokkur ár að þróa sínar eigin risafallbyssur. Árið 1914 notaði breski herinn ennþá 152mm Howitzer fallbyssur sem teknar höfðu verið í notkun 1896. Bretar voru þó fljótir að átti sig á því að dráttarvélar hentuðu best til að færa stærri fallbyssur milli staða og breski herinn keypti meira en þúsund 75 hestafla Holt dráttarvélar. Næsta skref var að útbúa fallbyssur á vélknúnum vögnum. Slíkar fallbyssur voru kallaðar sjálfknúnar fallbyssur á ensku (self-propelled artillery) en kallaðar vélknúnar fallbyssur á íslensku. Fyrsta vélknúna fallbyssan var tekin í notkun af breska hernum 1917. Vélbúnar fallbyssur og skriðdreka má aðgreina með því að á skriðdrekum er fallbyssan í snúanlegum turni en á vélknúinni fallbyssu er ekki snúanlegur turn sem gerir þær einfaldari og ódýrari í framleiðslu.[37]
Nýjar tegundir af fallbyssum voru þróaðar í Fyrri heimsstyrjöldinni. Skriðdrekabyssur og skriðdrekavarnarbyssur voru þróaðar samhliða skriðdrekanum. Fyrstu skriðdrekarnir eins og franski St-Chamond skriðdrekinn notuðu fallbyssur frá stórskotaliðinu en St-Chamond skriðdrekinn var vopnaður með Canon de 75 modèle 1897.[38] Þegar breski Mark IV skriðdrekinn var hannaður var ný stutthleypt 57mm fallbyssa hönnuð sem aðalvopn hans. Tvær tegundir af fallbyssukúlum voru hannaðar fyrir nýju byssuna. Heil kúla sem gat farið í gegnum 30mm af brynvörn úr stáli og lítil sprengikúla sem hentaði betur gegn fótgönguliði.[39] Fallbyssur voru hentugasta vopnið til að granda nýju skriðdrekunum en vagnarnir á flestum fallbyssum voru ekki nægjanlega hreyfanlegir til miða á hraðskreið skotmörk eins og skriðdreka. Lausnin var að þróa nýjan vagn fyrir fallbyssur sem gerði stórskotaliðunum kleyft að miða hratt. Fyrstu vagnarnir fyrir skriðdrekavarnarbyssur voru úr timbri og smíðaðir á víglínunni. Seinna voru sérstakir stálvagnar smíðaðir sem gerðu stórskotaliðum kleyft að hreyfa fallbyssuhlaupið hratt lárétt og lóðrétt.[40]
Í Fyrri heimsstyrjöldinni var geigleisan megin orrustuskipið í flotum stórveldanna. Þegar fyrsta geigleisan HMS Dreadnaught var hleypt af stokkunum 1906 gerði hún öll önnur orrustuskip úrelt. Orrustuskip, orrustubeitiskip og beitiskip voru nú búin fáum en gífurlega öflugum fallbyssum í hreyfanlegum turnum. Þegar Fyrri heimsstyrjöldin hófst voru 305mm fallbyssur meginvopn breska, franska og þýska flotans. Slíkar byssur gátu skotið 250-440kg sprengikúlum meira en 20km. Breski flotinn hafði þó rétt áður en stríðið hófst tekið í notkun enn stærri fallbyssu. 381mm fallbyssu sem gat skotið 879kg sprengikúlu meira en 30km. Sjóorrustur voru því fallbyssueinvígi yfir sjónlínuna milli brynvarinna herskipa. Stærsta sjóorrusta Fyrri heimsstyrjaldarinnar var háð milli breska og þýska flotans undan ströndum Jótlands 1916. Orrustan var fallbyssueinvígi sem hófst þegar flotarnir komu auga á hver annan á rúmlega 12km færi. Flotarnir sigldu síðan í röð meðfram hvor öðrum og létu fallbyssuskot dynja á hver öðrum. Þegar orrustunni lauk höfðu Bretar misst 3 orrustubeitiskip, 3 beitiskip og 8 tundurspilla. Þjóðverjar misstu eitt orrustubeitiskip, eitt úrelt orrustuskip, 4 létt beitiskip, og 5 tundurspilla.[41]
Seinni heimstyrjöldin

Þegar Seinni heimsstyrjöldin hófst var 75mm fallbyssan enn algengasta fallbyssan í stórskotaliði stórveldanna. Þýski herinn notaði byssuna 7.5cm leichte Infanteriegeschütz sem var létt fallbyssa með 75mm hlaupvídd. Einn helsti kosturinn við fallbyssuna var að hún var nægilega létt til að hestar gætu dregið hana. Meginhlutinn af stórskotaliði þýska hersins var dreginn af hestafli í Seinni heimstyrjöldinni. Hin megin fallbyssa þýska hersins var howitzer fallbyssa með 105mm hlaupvídd sem kölluð var 10.5cm leichte Feldhaubitze. Tilraunir þýska hersins höfðu leitt í ljós að sprengikúlur úr 105mm byssur gátu verið allt að 6 sinnum öflugari en sprengikúlur úr 75mm fallbyssum og því var aukin áhersla lögð á framleiðslu stærri fallbyssna eftir því sem leið á stríðið. Stærsta fallbyssan í almennri notkun hjá þýska hernum í stríðinu var 15cm schwere Feldhaubitze 18. Hún hafði 150mm hlaupvídd en var þyngri en hinar byssurnar og 20 mínútur þurfti til að koma henni fyrir áður en hún gat hafið skothríð. Í heildina framleiddu þjóðverjar um 13.025, léttar 75mm fallbyssur í nokkrum útgáfum á stríðsárunum, um 17.816 meðalstórar 105mm howizter fallbyssur og um 5.803 stórar 150mm howitzer fallbyssur.[42] 105mm howitzer fallbyssur voru einnig algengustu fallbyssurnar hjá bandaríska hernum en Bandaríkin framleiddu um 11.116 slíkar byssur i nokkrum útgáfum frá 1940-1945.[43]
Þegar Seinni heimsstyrjöldin hófst skriðdrekar þróast mikið frá Fyrri heimsstyrjöldinni. Í Frakklandi og Bretlandi voru skriðdrekar flokkaðir í tvo flokka. Léttir skriðdrekar, einnig kallaðir riddaraliðsskriðdrekar og þyngri skriðdrekar, einnig kallaðir fótgönguliðsskriðdrekar. Léttir skriðdrekar voru hraðskreiðir, létt brynvarðir og hannaðir með bardaga við aðra skriðdreka í huga. Fótgönguliðsskriðdrekar voru betur brynvarið og með hlaupvíðari en styttri fallbyssur sem hentuðu betur gegn virkjum og niðurgröfnum skriðdrekavarnarbyssum. Þjóðverjar skiptu sínum skriðdrekum einnig í tvo flokka. Þannig var Panzer III skriðdrekinn hannaður til að berjast við skriðdreka óvinarins og upphaflega vopnaður með 37mm skriðdrekavarnarbyssu. Hún skaut fallbyssukúlum með hertum oddi sem hönnuð voru til að fara í gegnum brynvörn og gat einnig skotið litlum sprengikúlum. Panzer IV var hins vegar ætlaður til að styja fótgönguliðið í sókn og því með meiri brynvörn og vopnaður með 75mm howitzer fallbyssu sem hentaði ekki gegn brynvörðum farartækjum þar sem hún var hönnun til að skjóta sprengjukúlum í háum boga á hraðanum 355m/s. Eftir því sem leið á stríðið varð brynvörn skriðdreka þykkari og sífellt stærri fallbyssur voru settar í skotturna skriðdreka. Hlaupin á fallbyssum lengdust líka þegar leið á stríðið þar sem hægt var að skjóta fallbyssukúlum á hærri hraða úr lengri fallbyssuhlaupum. Hærri hraða gerði síðan fallbyssukúlum kleift að fara í gegnum þykkari brynvörn. Undir stríðslok var þannig búið að endurhanna Panzer IV skriðdrekann þannig að hann bæri hlauplanga 75mm fallbyssu, 7.5cm KwK L/48, sem gat skotið fallbyssukúlu með hertum oddi á hraðanum 930 m/s. Það gerði Panzer IV kleift að granda flestum bandarískum, breskum og sovéskum skriðdrekum.[44]
Skriðdrekavarnarbyssur þróuðust líka til að halda í við nýju og meira brynvörðu skriðdrekana sem teknir voru í notkun á seinni hluta stríðsins. Þegar Seinni heimsstyrjöldin hófst gerðu allir herir ráð fyrir því að lykilinn að góðri skriðdrekavarnabyssu væri lítil hlaupvídd en langt hlaup. Þannig væri hægt að skjóta lítilli fallbyssukúlu með hertum oddi í gegnum brynvörn flestra skriðdreka. Oft var volfram notað í odda slíkra fallbyssukúlna vegna þess að það er harðara en stálið sem notað var í brynvörn skriðdreka.[45] Bandaríski herinn tók nýja skriðdrekavarnarbyssu í notkun 1940. Hún var með 37mm hlaupvídd og létt og meðfærileg. Þegar Bandaríski herinn mætti þýska hernum í Norður-Afríku kom hins vegar fljótt í ljós að byssan var ekki nægjanlega öflug til að granda þýskum skriðdrekum. Ný 57mm skriðdrekabyssa var því þróuð. Hún var þrisvar sinnum þyngri en 37mm fallbyssan en mun öflugari. Nýja byssan var hins vegar ekki nægjalega öflug til að granda þýska Tiger skriðdrekanum. Enn stærri skriðdrekavarnarbyssa var því tekin í notkun 1943. Hún hafði 76mm hlaupvídd og gat skotið kúlu með hertum oddi á 790 m/s. Kúlan var nægilega ölfug til að fara í gegnum 115mm brynvörn á 500 metra færi. Það gerði kúluna nægilega öfluga til að fara í gegnum brynvörnina framan á Tiger I skriðdreka og hliðarbrynvörnina á Tiger II skriðdreka.[46]

Þróun loftvarnabyssna hafði hafist á seinustu árum Fyrri heimsstyrjaldarinnar. Það var hins vegar ekki fyrr en 1930 sem fyrsta nútíma loftvarnabyssan var hönnuð. Það var 40mm Bofors loftvarnabyssan, framleidd af AB Bofors í Svíþjóð. Bofors byssan var vélfallbyssa með 40mm hlaupvídd. Hún gat skotið 100 skotum á mínútu. Bæði sprengikúlum og heilum kúlum. Sprengikúlan var um 950gr, dró 8.500 metra og flaug á 899 m/s. Hún var fyrst notuð í Spænska borgarastríðinu 1936 og framleiðsluleyfi seld til margra Evrópuríkja og Bandaríkjanna.[47] Fyrir háfleygar sprengjuflugvélar þurfti öflugri loftvarnabyssur. Eins sú besta í stríðinu var 88mm fallbyssa þýska hersins. Flak 37 útgáfa byssunnar kom með reiknitölvu sem kölluð var Funkmessgerate. Hún virkaði þannig að fallbyssuskyttan notaði sjónauka sem tengdur var tölvuna til að finna skotmarkið. Talvan reiknaði út hæð, fjarlægð og hraða skotmarksins. Stórskotaliði setti síðan sprengikúluna í stillara sem tengdur var við tölvuna. Stillarinn stillti tímakveikju sprengikúlunnar þannig að hún myndi springa við skotmarkið. Sprengikúlan var síðan sett í byssuna og kúlunni skotið. Þegar kúlan sprakk flugu sprengjuflísar í allar áttir og kúlan þurfti því einungis að springa nálægt óvinaflugvélinni til að granda henni.[48] Önnur mikilvæg framför var nálægðarkveikjan sem Bandaríkjamenn tóku í notkun 1943. Nálægðarkveikjan var skrúfuð framan á sprengikúlu eins og tímastillt kveikja. Hún sendi frá sér útvarpsbylgjur. Þegar kveikjan nam nálægð við annan flöt, til dæmis óvinaflugvél, þegar hann endurvarpaði útvarpsbylgjunum kveikti hún í sprengihleðslunni. Þetta gerði loftvarnabyssum mun auðveldara að granda smáum skotmörkum eins og orrustuflugvélum og reyndist afar gagnlegt gegn Kamikaze árásum Japana gegn Bandarískum skipum á Kyrrahafi 1944-1945.[49]

Vélfallbyssur voru notaðar sem meginvopn margra flugvéla í Seinni heimsstyrjöldinni. Til dæmis var Messerschmitt Bf 109, sem var megin orrustuvél þýska flughersins, upphaflega vopnuð með tveimur 20mm vélfallbyssum og tveimur 7.92mm vélbyssum. Kosturinn við að nota vélfallbyssur var að þær höfðu nægjanlegan skotkraft til að granda stórum sprengjuvélum. Gallinn við þær var að skotfærin voru stór og því var til dæmis einungis hægt að koma 60 fallbyssukúlum með hverri byssu í fyrstu útgáfum Bf109. Vegna hins mikla skothraða byssunnar þýddi það að flugmaðurinn gat einungis skotið úr byssunni í 7 sekúndur áður en hann varð skotfæralaus. Þegar leið á stríðið var farið að nota stærri vélfallbyssur eins og 30mm vélfallbyssuna Maschinenkanone 108 sem var notuð í seinustu útgáfur Bf 109 og í fyrstu orrustuþotuna Messerschmitt Me-262.[50] Vélfallbyssur hentuðu einnig til að granda skriðdrekum þar sem brynvörn þeirra var almennt þynnst á toppnum. Árið 1943 hófu Þjóðverjar notkun á Ju-87G. Vélin var Stuka steypiflugvél vopnuð með tveimur 37mm vélfallbyssum og gafst vél sem skriðdrekabani.[51]
Fallbyssur voru enn meginvopn flestra herskipa þegar Seinni heimsstyrjöldin hófst. Frægasta orrustuskip Þjóðverja í stríðinu var Bismarck. Þegar því var sökkt á Atlantshafi 1941 eftir langa orrustu var það vopnað með átta 380mm fallbyssum. Þær gátu skotið tveimur 800kg sprengikúlum á mínútu og drægi þeirra var rúmir 36 kílómetrar. Auk þess hafði það tólf 150mm fallbyssur. Þær gátu skotið átta 43.5kg sprengikúlum á mínútu og drægi þeirra var 23 kílómetrar. Síðan hafði það fjórtán 105mm fallbyssur. Þær gátu skotið átján 15kg sprengikúlum og drægi þeirra var 17,7kílómetrar. Til að verjast flugvélum hafði skipið sextán 37mm vélfallbyssur. Þær gátu skotið fjörtíu 750gr sprengikúlum á mínútu og drægi þeirra var 8.5 kílómetrar. Auk þess hafði það tólf 20mm vélfallbyssur. Þær gátu skotið hundrað og tuttugu sprengikúlum á mínútu og drægi þeirra var 4.9 kílómetrar. Þrátt fyrir allan þennan vopnabúnað náðu tundurskeytavélar breska sjóhersins að hitta það með tundurskeytum áður en orrustuskip breska flotans skutu það á kaf.[52] Tundurskeytavélar og steypiflugvélar gerðu risafallbyssur orrustuskipanna urðu smám saman úreltar í Seinni heimsstyrjöldinni. Flugmóðurskip höfðu langdrægari og öflugri skotkraft í formi flugvéla en stærstu orrustuskipin og við lok stríðsins voru orrustuskip aðallega notuð til að styðja landgöngu fótgönguliðs með því að skjóta á skotmörk á landi.[53]
Nútíma fallbyssur

Eftir Seinni heimsstyrjöldina tóku eldflaugar við sem meginvopn herskipa. Í stað risafallbyssna komu eldflaugaskotpallar sem gáfu minni skipum eins og tundurspillum meiri skotkraft en stóru orrustuskipin höfðu haft.[54] Fallbyssur hurfu þó ekki af herskipum. Vélfallbyssur eru í dag á nær öllum herskipum og hlutverk þeirra að skjóta niður eldflaugar óvinarins. Einnig eru fallbyssur ódýrari kostur en eldflauga til að granda litlum og hægfara skipum eins og sjóræningjaskipum á Adenflóa. Til dæmis hefur nýlegur tundurspillir bandaríska flotans USS Jack H. Lucas eina 127mm fallbyssu og tvær 20mm vélfallbyssur auk 98 eldflauga.[55] Á landi tóku eldflaugar einnig við hlutverki skriðdrekavarnarbyssna og stærri loftvarnabyssna. Léttir eldflaugaskotpallar og einnota eldflaugabyssur sem fótgöngulið gat borið með sér hafði meiri skotkraft og var einfaldara í notkun en gömlu skriðdrekavarnarbyssurnar. Loftvarnaeldflaugar hentuðu mun betur gegn orrustu- og sprengiþotunum sem komu fram eftir Seinni heimsstyrjöld en loftvarnabyssur eru þó ekki alveg horfnar. Til dæmis hefur þýski loftvarnarskriðdrekinn Gepard, vopnaður tveimur 35mm vélfallbyssum reynst vel gegn drónum og eldflaugum í vörninni gegn innrás Rússa í Úkraínu.[56]
Fallbyssan hélt áfram að vera meginvopn skriðdreka eftir Seinni heimsstyrjöldina. Skriðdrekabyssur stækkuðu eftir stríð. Þannig var Centurion Mark 7 sem tekin var í notkun af breska hernum 1953 vopnaður með 84mm fallbyssu. Þegar hönnunin var uppfærð 1959 var fallbyssan stækkuð upp í 105mm hlaupvídd með riffluðu hlaupi til að geta grandað sovéskum skriðdrekum eins og T-55.[57] Árið 1978 ákvað bandaríski herinn að taka í notkun 120mm fallbyssu. Þessi fallbyssa var ólík gömlu skriðdrekabyssunum þar sem hún var ekki með rifflað hlaup. Það var gert vegna þess að byssan skaut nýrri tegund af fallbyssukúlum. Það voru fleygskot með veltiuggum. Þeim var skotið í hringlaga hólki sem splundraðist þegar hann kom út úr fallbyssuhlaupinu. Fleygurinn var með oddi úr hörðum málmi og veltiuggarnir héldu honum á réttri braut.. Þær gátu einnig skotið sprengikúlum sem hentuðu betur gegn óbrynvörðum skotmörkum. Flestir nútímaskriðdrekar eru með óriffluðuð byssum þar sem fleygskotin virka vel til að granda öðrum skriðdrekum.[58]

Kordít er ekki lengur notað sem drifefni í stórskotaliði. Drifefnið sem er notað núna er yfirleitt blanda af nítrósellulósa, nítróglyseríni og nítroguanidine. Drifefnið er síðan kornað og kornin klætt með mýkingarefni sem tryggir jafnari bruna og þrýsting í fallbyssuhlaupinu.[60] Fallbyssur eru ennþá mikilvæg vopn fyrir nútímaheri og notað bæði í sókn og vörn. Í sókn eru þær nauðsynlegar til að bæla varnir óvinarins með því að láta fallbyssukúlum rigna á varnarlínur hans meðan fótgöngulið eða bryndeildir sækja fram. Í vörn eru þær notaðar til að brjóta niður sókn óvinarins með því að láta fallbyssukúlum rigna á sóknarlið hans.[61] Ein mest notaða fallbyssa samtímans er M777 howitzer fallbyssan. Hún hefur 155mm hlaupvídd sem er hlaupvíddin sem allar stórar fallbyssur NATÓ herja nota. Hún var fyrst tekin í notkun 1987 og hefur verið notuð alla daga síðan. Hún getur skotið 43kg sprengikúlu 24 kílómetra. Einnig hafa verið gerðar tilrauni með GPS stýrðar sprengikúlur og sprengikúlur með litlum eldflaugarhreyfli sem geta flogið lengra en venjulega sprengikúlur. Með slíkri kúlu getur M777 hitt skotmörk í allt að 40km fjarlægð með mikilli nákvæmni. Slíkar fallbyssukúlur eru þó mun dýrari og erfiðari í framleiðslu en venjulega sprengjukúlur. Til dæmis kostaði ein M982 Excalibur kúla, sem er GPS stýrð sprengikúla með eldflaugarhreyfli og stýrisuggum, 68.000 Bandaríkjadali árið 2016.[62]
Á 21. öld voru gerðar tilraunir með ný drifefni. Árið 2005 hóf bandaríski flotinn þróun á rimlabyssu (railgun). Það er fallbyssa sem notar rafsegulsvið til að skjóta fallbyssukúlu eftir rimlum innan í fallbyssuhlaupinu. Flotinn vonaðist eftir því að slík byssa gæti skotið fallbyssukúlu 50-100 sjómílur á miklum hraða. Einnig voru gerðar tilraunir með að nota slíkar byssur í stað vélfallbyssna til að granda eldflaugum og drónum.[63] Vandamál með mikla orkuþörf byssunnar og léleg ending á rimlunum í fallbyssunni gerðu það að verkum að tæknin var ekki talin tilbúin í almenna notkun og þróun byssunnar var hætt 2022.[64]
Remove ads
Tengt efni
- Digra Berta (þýska: Dicke Bertha)
- Línubyssa
- Sprengjuvarpa
Tenglar
- Fallbyssa til Skagastrandar; grein af Skagaströnd.is Geymt 2 október 2015 í Wayback Machine
Tilvísanir
Wikiwand - on
Seamless Wikipedia browsing. On steroids.
Remove ads