Sani Abacha
Nígerískur einræðisherra (1943-1998) From Wikipedia, the free encyclopedia
Remove ads
Sani Abacha (20. september 1943 – 8. júní 1998) var nígerískur hershöfðingi og einræðisherra sem var þjóðarleiðtogi Nígeríu frá árinu 1993 til dauðadags árið 1998.[1][2]
Valdataka Abacha var síðasta valdarán hersins sem heppnaðist í sögu Nígeríu. Hann stýrði landinu harðri hendi og stjórn hans framdi fjölda mannréttindabrota, meðal annars pólitísk morð og aftökur án dóms og laga á andófsmönnum og stjórnarandstæðingum. Í valdatíð Abacha fékk landið slæmt orð á sig og varð mjög einangrað á alþjóðavettvangi, sérstaklega eftir aftöku umhverfisaðgerðasinnans Ken Saro-Wiwa.[2][3]
Sani Abacha var talinn einn spilltasti einræðisherra 20. aldarinnar.[4] Stjórn hans hefur verið kölluð þjófræði þar sem Abacha er talinn hafa dregið sér andvirði um 2,5 milljarða Bandaríkjadala úr ríkissjóði. Abacha og fjölskylda hans földu meirihluta þýfisins í bankareikningum í Sviss og í öðrum ríkjum eins og Liechtenstein, Bretlandi og Bandaríkjunum.[5][6][7][8][9] Eftir andlát Abacha þann 8. júní 1998 var fjórða nígeríska lýðveldið stofnað ári síðar og Abdulsalami Abubakar hershöfðingi tók við af honum sem þjóðarleiðtogi.
Remove ads
Æviágrip
Sani Abacha var af þjóðflokki Kanúra en fæddist í Kano, á landsvæði Hása í norðurhluta Nígeríu. Hann útskrifaðist úr herskóla í Zaria árið 1963 og varð höfuðsmaður í nígeríska hernum árið 1967. Abacha var einn af leiðtogum herforingjabyltinganna sem var gerðar voru gegn borgaralega forsetanum Shehu Shagari árið 1985 og hershöfðingjanum Muhammadu Buhari árið 1985. Eftir að Buhari var steypt af stóli hélt Abacha tryggð við stjórn hershöfðingjans Ibrahim Babangida. Þann 27. ágúst 1993 sagði Babangida af sér vegna mótmæla eftir að stjórnin ógilti niðurstöður lýðræðislegra forsetakosninga þar sem borgaralegi frambjóðandinn Moshood Abiola vann sigur. Abacha var þá útnefndur varnarmálaráðherra í bráðabirgðaríkisstjórn sem Babangida skipaði.
Í nóvember 1993 framdi Abacha valdarán og lýsti sjálfan sig þjóðarleiðtoga. Hann leysti up allrar lýðræðislegar stofnanir, rak fjölda borgaralegra embættismanna og skipaði herforingja í stöður þeirra. Abacha myndaði ríkisstjórn sem var aðallega skipuð herforingjum og lögreglumönnum. Stjórnin átti að hafa umsjón með borgaralegu framkvæmdaráði sambandsríkisins.
Í janúar 1994 lagði Abacha fram fjárlög þar sem horfið var frá efnahagsumbótum sem höfðu verið í framkvæmd frá árinu 1986. Þetta útilokaði að Nígería fengi lán frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Árið 1994 leiddu skuldasöfnun ríkisins, veikleiki iðngeirans og einræðislegt stjórnarfarið til mikillar óánægju almennings. Abacha brást við með því að kynna áætlanir um stjórnarumbætur en þegar hann kallaði til fundar um stjórnlagaþing sniðgengu lýðræðissinnar hann og Abacha bannaði alla stjórnmálastarfsemi utan ríkisstjórnarinnar. Í júní lýsti Abiola sig forseta og var handtekinn fyrir landráð. Óróinn versnaði ákaflega, sér í lagi í Lagos, og verkamenn í olíugeiranum fóru í verkfall til að krefjast lausnar Abiola. Verkföll og borgaraleg óhlýðni lömuðu suðurhluta landsins og jafnvel norðurhlutinn, sem var helsta vígi herforingjanna, fór að láta í ljós óánægju með stjórnina.
Árið 1995 fordæmdi nígeríski Nóbelsverðlaunahafinn Wole Soyinka aftöku stjórnarinnar á rithöfundinum Ken Saro Wiwa og átta andspyrnumönnum af þjóðerni Ogonimanna. Aftökurnar leiddu til þess að Nígería einangraðist mjög á alþjóðavettvangi. Fátækt og spilling jukust áfram í landinu á næstu árum, þar til Abacha lést skyndilega þann 8. júní 1998. Opinberlega dó hann úr hjartaáfalli en orðrómar fóru á kreik um að hann hafi dáið úr ofneyslu frygðarauka með vændiskonum.[10] Moshood Abiola lést einnig í fangelsi stuttu síðar. Hershöfðinginn Abdulsalami Abubakar, sem tók við völdum af Abacha, lét völdin í hendur lýðræðislega kjörinnar ríkisstjórnar árið 1999.
Remove ads
Tilvísanir
Wikiwand - on
Seamless Wikipedia browsing. On steroids.
Remove ads