Snorra-Edda

íslensk miðaldahandbók um norræna goðafræði From Wikipedia, the free encyclopedia

Snorra-Edda
Remove ads

Snorra-Edda er íslensk miðaldahandbók og kennslubók í dróttkvæðagerð og skáldskaparfræðum. Snorra-Edda hefur lengi verið talin ein mikilvægasta heimildin um norræna goðafræði og fornan átrúnað. Almennt er talið að íslenski sagnaritarinn, skáldið og stjórnmálamaðurinn Snorri Sturluson hafi samið verkið, enda segir svo í formála verksins í elsta varðveitta handritinu, sem nefnd er Uppsalabók Eddu, eða Codex Upsaliensis (DG 11):

Gæsalappir

Bók þessi heitir Edda. Hana hefir saman setta Snorri Sturluson eptir þeim hætti sem hér er skipat. Er fyrst frá Ásum ok Ymi, þar næst Skáldskaparmál ok heiti margra hluta, síðast Háttatal er Snorri hefir ort um Hákon konung ok Skúla hertuga.“

— Texti Snorra-Eddu á Heimskringla.no[1].

Thumb
Titilsíða Snorra-Eddu úr handritinu ÍB 299 4to frá 1764. Þar má meðal annars sjá Óðin, Hugin og Munin, Heimdall og Sleipni.

Um uppruna orðsins „edda“ er lítið vitað en því er stundum haldið fram að það merki „langamma“. Þá væri merkingin forn eða gamall skáldskapur. Fátt virðist hins vegar benda til þess að orðið „edda“ hafi í raun merkt langamma til forna og þeirri skýringu ber því að taka með fyrirvara.[2][3] Eddukvæði koma fyrir í Snorra-Eddu, Sæmundar-Eddu og nokkrum fornaldarsögum.[4]

Remove ads

Innihald

Snorra-Edda skiptist í fjóra hluta: Prologus, Gylfaginningu, Skáldskaparmál og Háttatal.

Prologus er formáli sem er einskonar heimspekilegur inngang að verkinu. Heiðin trúarbrögð eru rakin til fornrar dýrkunar á náttúrunni og norrænu goðin talin afkomendur Priams Trójukonungs sem teknir voru í guðatölu eftir að þeir fluttust til Norðurlanda.

Gylfaginning er í samtalsformi milli þriggja ása og Gylfa Svíþjóðarkonungs sem var dulbúinn sem förumaður og nefndur Gangleri. Í svörum ásanna við spurningum Gylfa er ítarlegt yfirlit yfir norrænar goðsagnir allt frá sköpun heimsins til tortímingar hans í ragnarökum.

Skáldskaparmál hefjast með samtali Braga, guðs skáldskaparins, og Ægis, sjávarguðsins, og segir Bragi frá ýmsum goðsögnum. En kaflinn snýst síðan yfir í skýringar og yfirlit yfir skáldskaparmálið, þ.e. kenningar og heiti. Fjöldamörg dæmi um notkun kenninga og heita úr kvæðum norskra og íslenskra skálda frá ýmsum tímum eru þar. Einnig er skotið inn frásögnum úr goðsögnum og hetjusögnum til skýringar á uppruna kenninga.

Háttatal er þrískipt kvæði, 102 vísur sem sýna eiga hina ýmsu bragarhætti. Talið er Snorri hafi orti kvæðið sjálfur og í fyrsta þriðjungi þess lofar hann Hákon Hákonarson Noregskonung, í öðrum þriðjungi Skúla jarl og í síðasta þriðjunginum þá báða fyrir sigursæld í orrustum og örlæti við fylgismenn sína.

Remove ads

Tilurð

Þó ekkert sé vitað með vissu er talið af allflestum fræðimönnum [5] að Snorri hafi samið verkið eftir að hann kom frá Noregi 1220. Sennilegast hefur hann þá fyrst ort Háttatal um þá Hákon konung og Skúla jarl, en bætt síðan við Skáldskaparmálum, Gylfaginningu og Prologus. Snorra-Edda var handbók fyrir þau skáld sem vildu kveða að fornum hætti og vildu nota rétt heiti og kenningar Það er greinilegt að Snorri hefur haft aðgang að erlendum bókum bæði í guðfræði og skáldskaparmennt, en notar hugtök þaðan á frjálslegan hátt. Kaflarnir Gylfaginning og Skáldskaparmál eru skrifuð á svipuðan hátt og algengt var með evrópskum námsbókum á síðari hluta 12. aldar; spurningar og svör milli lærisveina og meistara. [6]

Remove ads

Handrit

Sjö handrit af Snorra-Eddu hafa varðveist. Ekkert þeirra er algjörlega óskemmt og engin tvö þessara handrita innihalda nákvæmlega sama efnið því að verkið var í stöðugri þróun og endursköpun eins og algengt er um kennslubækur. Fjögur aðalhandrit Snorra-Eddu eru til, þrjár skinnbækur frá 14. öld: Konungsbók (Codex Regius GKS 2367 4°), Uppsalabók (Codex Upsaliensis DG 11), Ormsbók (Codex Wormianus AM 242 fol), og Trektarbók (Codex Trajectinus MSS 1374), sem er pappírsuppskrift frá því um 1600 eftir glötuðu handriti frá 13. öld.

Öll þessi handrit nema Trektarbókin innihalda viðbótarefni auk Gylfaginningu, Skáldskaparmál og Háttatal.. Í Konungsbókinni fylgja Jómsvíkingadrápa og Málsháttakvæði á eftir meginhlutum Snorra-Eddu. Í Uppsala-Eddu er Skáldskaparmálum skipt í tvo hluta með lista yfir skáld (Skáldatal), Ættartala Sturlunga og listi yfir lögsögmenn (Lǫgsǫgumannatal). Að auki, á milli Skáldskaparmála og Háttatals, eru þrjár dróttkvæðar þulur í Uppsala-Eddu, önnur málfræðiritgerðin og listi yfir vísur úr Háttatali. Háttatal fylgir ekki heldur strax á eftir Skáldskaparmálum í Ormsbók. Fjórar málfræðiritgerðir koma á eftir Skáldskaparmálum. Ekkert vantar í þennan hluta handritsins, en á eftir honum koma þrír brotakenndir textar á níu blaðsíðum: Háttatal, Rígsþula og svo kölluð Orms-Eddu-brot sem eru þrjú skinnblöð sem innihalda viðbætur við Skáldskaparmál sem eingöngu má finna í Ormsbók.

Auk þess eru til þrjú handritabrot, AM 748; AM 757 a 4to; og AM 738 II 4to, AM le ß fol.

Uppsala-Edda

Þetta handrit er talið vera skráð um 1300-1325 og er varðveitt í Háskólabókasafninu í Uppsölum í Svíþjóð. Uppsala Eddan varðveitir mjög styttan texta, miðað við önnur varðveitt handrit. Það er einungis í þessu handriti sem heitið „Gylfaginning“ er notað. Handrit Uppsala-Eddu er skrifað á 56 skinnblöð, það er að segja 120 blaðsíður. Þetta er eina handrit Snorra Eddu sem varðveist hefur þar sem vantar hvorki í upphaf né enda. Þrjú blöð eru þó illa skemmd þar sem stór göt skapa að eyður í textanum.

Konungsbók

Konungsbókin er umfangsmesta handritið og fræðimenn telja það vera það sem næst upprunalegu handriti. Frá 1973 til 1997 var fjöldi íslenskra handrita skilað frá Danmörku til Íslands, þar á meðal Konungsbókin árið 1985, er hún nú er varðveitt af Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Talið er að hún hafi verið rituð á áttunda áratugi 13. aldar og er skrifuð á 45 skinnblöð. Handritið hefur varðveist í góðu ástandi en sennilega vantar átta blöð. Í Konungsbók er Prologus verulega skertur þar sem vantar heilt blað fremst í handritið auk þess sem eyður eru víða í textanum.Lítið er vitað um sögu handritsins frá upphafi. Brynjólfur biskup Sveinsson í Skálholti eignaðist það árið 1643 og sendi það síðar Friðriki 3. Danakonungi að gjöf: þaðan kemur nafnið Konungsbókin (Codex Regius). [7]

Ormsbók

Ormsbók hefur, auk Snorra-Eddu, að geyma fjórar málfræðiritgerðir sem einfaldlega eru kallaðar fyrsta, önnur, þriðja og fjórða málfræðiritgerðin [8]. Þær eru í aldursröð í handritinu, hvort sem tilviljun hefur ráðið því eða ekki, sú fyrsta er elst og sú fjórða er yngst. Ekki er vitað hver er höfundur málfræðiritgerðanna. Auk málfræðiritgerðanna og Snorra-Eddu er í handritinu einnig að finna eina varðveitta eintak Rígsþulu, auk annarra smávægilegri verka og athugasemda. Talið er að handritið hafi verið skrifað í Þingeyraklaustri Benediktsreglunnar á Norðurlandi um 1350. [9] Handritið fékk Árni Magnússon árið 1706 frá Christian Worm, sonarsyni Ole Worm, sem handritið dregur nafn af. Ole Worm var prófessor í læknisfræði við Hafnarháskóla en jafnframt forgöngumaður um norrænar fornfræða- og rúnarannsóknir. Í starfi sínu við háskólann var hann leiðbeinandi margra íslenskra stúdenta í Kaupmannahöfn og átti í bréfaskiptum við þá eftir að þeir sneru heim til Íslands aftur. Handritið fékk hann árið 1628 frá lærdómsmanninum séra Arngrími Jónssyni, eins og áritun á forsíðunni gefur til kynna: Olai Wormii – Dono Arngrimi Jonæ Islandi. Ole Worm jók við handritið með pappírsviðbótum. Í dag er það hluti af handritasafni Arnamagnæanska stofnunarinnar í Kaupmannahöfn í Danmörku.

Trektarbók

Trektarbók Snorra-Eddu er pappírshandrit, afrituð af skinnhandriti sem nú er horfið, um 1600. Af meginhandritum Eddu er Trektarbók yngst en samt er hún eina handritið sem geymir verkið í því formi sem talið er upphaflegast, án þess að nokkru hafi verið sleppt eða bætt við. Jafnframt varðveitir hún fornlegri rithætti en önnur handrit.

Á 17. öld barst handritið til Kaupmannahafnar og var um hríð í eigu Ole Worms prófessors. Síðan komst bókin í hendur þýska fræðimannsins Christians Rave sem gaf hana Háskólabókasafninu í Utrecht árið 1643. Þar hefur handritið verið varðveitt alla tíð síðan.[10]

Remove ads

Tilvísanir

Tenglar

Loading related searches...

Wikiwand - on

Seamless Wikipedia browsing. On steroids.

Remove ads