Uppsala-Edda

From Wikipedia, the free encyclopedia

Remove ads

Uppsala-Edda eða Uppsalabók (Codex Upsaliensis DG 11), er eitt af meginhandritum Snorra-Eddu, ásamt Konungsbók Snorra-Eddu, Codex Regius GKS 2367 4to, Ormsbók (Codex Wormianus AM 242 fol), og Trektarbók (Codex Trajectinus MSS 1374).

Handrit Uppsala-Eddu er talið skrifað snemma á 14. öld, nær aldamótum 1300, til þess benda bæði skrift og orðmyndir. Það er talið meðal hinna elstu handrita Snorra Eddu sem enn eru til.

Handrit Uppsala-Eddu er skrifað á 56 skinnblöð, það er að segja 120 blaðsíður. Þetta er eina handrit Snorra Eddu sem varðveist hefur þar sem vantar hvorki í upphafi né enda. Þrjú blöð eru þó illa skemmd þar sem stór göt skapa að eyður í textanum.

Umfang textans í Uppsala-handritinu er að meðaltali um 30% styttri í samanburði við önnur handrit Snorra-Eddu. Uppsala-Edda er eina handritið sem getur um höfund og hefur almenna fyrirsögn og efnislýsingu:

Gæsalappir

Bók þessi heitir Edda. Hana hefir saman setta Snorri Sturluson eptir þeim hætti sem hér er skipat. Er fyrst frá Ásum ok Ymi, þar næst Skáldskaparmál ok heiti margra hluta, síðast Háttatal er Snorri hefir ort um Hákon konung ok Skúla hertuga.“

— Texti Snorra-Eddu á Heimskringla.no[1].

Óvíst er um ritunarstað Uppsala-Eddu, en margt bendir til Vesturlands, eða nánar Borgarfjarðar og Dala. Þar var veldi Sturlunga mest og frá þeim virðist margt efni handritsins komið.[2]

Ekkert er vitað um sögu handritsins fyrr en það finnst í Danmörku í eigu Brynjólfs Sveinssonar, síðar biskups í Skálholti, en hann hefur líklega komið með það frá Íslandi. Brynjólfur biskup gaf danska safnaranum Stephanus Johannis Stephanius handritið árið 1639. Ekkja hans seldi handritið, ásamt nokkrum öðrum handritum, til Magnus Gabriel De la Gardie árið 1650. De la Gardie gaf þessi handrit, þar á meðal Silfurbiblíuna, til Carolina Rediviva, Háskólabókasafns Uppsala árið 1669 og hefur það verið þar síðan.[3]

Talsverður munur er á Uppsala-Eddu og hinum þremur meginhandritunum, bæði innihaldslega og textalengd.[4]

Efnisyfirlit Uppsala-Eddu er þannig:

  • Prologus
  • Gylfaginning
  • Skáldatal, sem er í raun tveir listar, Noregskonungar og skáld sem yrktu um þá
  • Ættartala Sturlunga
  • Lögsögumanntal, allt frá Hrafni Hǿngssyni sem var lögsögumaður 930–949 fram að Snorra Sturlusyni
  • Skáldskaparmál (einkum kenningar og heiti, endar með þremur dróttkvæðar þulur)
  • Háttalykillinn - Önnur málfræðiritgerðin um hljóðfræði
  • Vísnaskrá Háttatals
  • Háttatal sem Snorri kvað (texti, skýringar kenninga og stíls, vísur). Í Uppsala-Eddu eru einungis 56 vísur en í hinum aðalhandritunum eru 102.[5]
Remove ads

Tilvísanir

Tenglar

Loading related searches...

Wikiwand - on

Seamless Wikipedia browsing. On steroids.

Remove ads