Fernando Alonso
From Wikipedia, the free encyclopedia
Remove ads
Fernando Alonso Díaz (f. 29. júlí, 1981) er spænskur ökumaður sem keppir í Formúlu 1 með Aston Martin. Alonso hefur tvisvar sinnum unnið heimsmeistartitillinn í Formúlu 1 á árunum 2005 og 2006 með Renault liðinu.
Á ferli sínum í Formúlu 1 hefur Alonso hefur unnið 32 keppnir, náð 22 ráspólum, 26 hröðustu hringjum og staðið 106 sinnum á verðlaunapalli.
Árið 2018 hætti Alonso í Formúlu 1 og fór að keppa í þolakstri. Hann vann FIA World Endurance Championship (WEC) og 24 tíma Le Mans kappaksturinn á árunum 2018 og 2019.[1] Árið 2021 kom hann aftur í Formúlu 1 með Alpine liðinu.
Remove ads
Yngri ferillinn
Fernando Alonso var aðeins 3 ára gamall þegar hann byrjaði að æfa go-kart. Faðir hans José Luis Alonso bjó til litlar go-kart brautir fyrir son sinn sem hann gat æft sig á. Þegar Fernando Alonso var 8 ára gamall var hann byrjaður að vinna keppnir nálægt heimaborg sinni Oviedo og þegar leið á fór hann einnig að keppa á héraðsmeistaramótaröðum á Spáni. Alonso var 10 ára þegar vann hann héraðsmeistaramótaröðina í go-kart í Asturias héraðinu.[2]
Uppgangur Alonso hélt áfram í go-kart, fjögur ár í röð varð hann spænskur unglingameistari í go-kart(Spanish Junior Karting Championship) frá árinu 1993 til 1996. Árið 1996 var stórt ár fyrir Alonso því hann varð einnig heimsmeistari í go-kart(World Karting Championship).[3] Árið 2000 fékk Fernando Alonso sæti í Formúlu 3000 með belgíska liðinu Team Astromega. Keppt var á 10 brautum víðsvegar um Evrópu og Alonso endaði mótaröðina í 4.sæti með 17 stig og vann eina keppni sem haldinn var á Spa í Belgíu.[4]
Remove ads
Formúla 1
Minardi(2001)
Fernando Alonso fékk sæti hjá Minardi liðinu í Formúlu 1 fyrir tímabilið 2001. Alonso hafði verið prófunarökumaður hjá liðinu árinu á undan. Paul Stoddart var búinn að kaupa Minardi liðið og hann sagði skemmtilega sögu þegar Alonso hjálpaði verkfræðingum liðsins að byggja bílinn fyrir fyrsta kappakstur tímabilsins í Ástralíu.[5] Talið var að Minardi liðið yrði eitt af hægustu liðum tímabilsins. Liðsfélagi Alonso í Minardi var Tarso Marques. Alonso endaði í 12. sæti í Ástralíu sem var vonum framan meðan Marques þurfti að hætta keppni vegna hleðslu vandamála. Alonso varð þrettándi í Malasíu en þurfti að hætta keppni í fimm af næstu sex keppnum. Alonso kláraði þó næstu fjórar keppnir eftir það og náði sínum besta árangri á tímabilinu í þýska kappakstrinum þegar hann endaði tíundi. Þá kláraði hann ekki keppni í Ungverjalandi og hóf ekki keppni í Belgíu vegna gírkassa vandamála. Alonso varð í þrettándi á Ítalíu og varð kominn með nýjan liðsfélaga í síðustu þremur keppnunum þar sem Marques var látinn fara frá Minardi og Alex Yoong tók sætið hans. Alonso kláraði ekki í Bandaríkjunum og í síðustu keppni tímabilsins í Japan byrjaði Alonso átjándi en náði að vinna sig upp í 11. sætið. Alonso fékk ekkert stig fyrir tímabilið en fjölmiðillinn Atlas F1 mat hann sem sjötta besta ökumann tímabilsins.[6]
Renault(2002–2006)
Árið 2002 var Fernando Alonso varaökumaður Renault liðsins. Alonso ákvað það frekar heldur en að vera aðalökumaður liðs í Formúlu 1 í minna liði en Renault á þeim tíma. Alonso vonaðist til að keppa fyrir Renault liðið árið 2003.[7] Jenson Button sem var einn af tveimur aðalökumönnum Renault liðsins árið 2002 fór til Lucky Strike BAR Honda eftir tímabilið og Alonso fékk sæti Button hjá Renault. Jarno Trulli varð liðsfélagi Alonso fyrir tímabilið 2003. Alonso endaði í sjöunda sæti Ástralíu. Alonso var á ráspól í Malasíu og var þá yngsti ökumaður sögunar til að vera á ráspól í Formúlu 1 aðeins 21 árs ára gamall. Alonso hneppti síðan bronsið í keppninni sjálfri.[8] Í Brasilíu varð Alonso aftur þriðji og á San Marino/Imola varð hann sjötti. Á Spáni varð Alonso í öðru sæti og var þar með fyrsti Spánverjinn til að skora stig á heimavelli og var hann einnig fyrsti Spánverjinn til þess að lenda í öðru sæti allt frá árinu 1956 þegar Spánverjinn Alfonso de Portago varð annar á Silverstone.[9] Í næstu 7 keppnum tímabilsins náði Alonso ekki á verðlaunapall en endaði þrisvar sinnum í fjórða sæti í þeim keppnum. Síðar kom að Ungverjalandi og þar náði Alonso ráspól. Í keppninni sjálfri þann 24. ágúst árið 2003 vann Alonso sinn fyrsta sigur í Formúlu 1. Sigurinn var sögulegur þar sem hann var fyrsti Spánverjinn til þess að vinna sigur í Formúlu 1. Þá var einnig yngsti sigurvegari sögunnar það var ekki fyrr en árið 2008 að Sebastian Vettel bætti það met.[10] Alonso varð síðan áttundi á Ítalíu og kláraði ekki keppni í Bandaríkjunum og Japan. Alonso endaði tímabilið í sjötta sæti með 55 stig í heimsmeistaramótinu.
Árið 2004 voru Jarno Trulli og Alonso aftur liðsfélagar í Renault. Alonso byrjaði árið á þriðja sæti í Ástralíu en átti lítinn séns í Ferrari ökumennina sem enduðu í fyrsta og öðru sæti.[11] Alonso fékk stig í næstu fjórum keppnum tímabilsins en kláraði ekki keppni í Mónakó. Alonso var á ráspól í franska kappakstrinum og endaði í keppnina í öðru sæti og var um 8 sekúndum á eftir Michael Schumacher. Schumacher vann á kænsku þar sem hann stoppaði fjórum sinnum á þjónustusvæðinu en Alonso aðeins þrisvar sinnum.[12] Alonso varð síðan í 10. sæti á Silverstone. Í Þýskalandi varð Alonso í þriðja sæti á eftir Michael Schumacher og Jenson Button. En stóra hluta þeirrar keppni þurfti Button að stýra með aðra hönd á stýri vegna þess að ólar á hjálmnum hans losnuðu og þurfti hann því að nota hina höndina til að halda hjálmnum á höfði sér en endaði þrátt fyrir það á undan Alonso.[13] Alonso varð aftur þriðja í Ungverjalandi og kláraði ekki á Ítalíu og Belgíu. Alonso var fjórði í Kína, fimmti í Japan og loks fjórði í Brasilíu. Alonso kláraði heimsmeistaramótið í fjórða sæti með 59 stig samtals.
Árið 2005 var Fernando Alons áfram í Renault og var kominn með nýja liðsfélaga í Giancarlo Fisichella. Í Ástralíu var Alonso þrettándi á ráslínu en endaði keppnina í þriðja sæti. Liðsfélagi hans Fisichella var á ráspól og vann keppnina.[14] Alonso var ráspól hafi í Malasíu, leiddi keppnina frá fyrstu mínútu og sigraði nokkuð örugglega.[15] Í Bahrain var Alonso aftur á ráspól og vann keppnina.[16] Árangurinn hjá Alonso var farinn að skipta máli, það var uppselt á Imola kappaksturinn og viðhorf Spánverja gagnvart Formúlu 1 var að breytast. Formúlan hafði skipt Spánverjum litlu máli áður en Alonso fór að ná árangri.[17] Alonso var annar á ráslínu á eftir Kimi Räikkönen á Imola. Räikkönen þurfti að hætta keppni á níunda hring vegna gírskiptavandamála, Alonso vann keppnina og var það hans þriðji sigur í röð. Alonso náði að halda Michael Schumacher fyrir aftan sig sem var mjög nálægt honum síðustu tólf hringina.[18] Á Spáni var Alonso annar á ráslínu í sinni heimakeppni, það var stappað í stúkunni og það var mikið fagnað þegar Alonso fór framhjá stúkunni.[19] Alonso varð annar í keppninni. Í Mónakó endaði Alonso í 4. sæti. Í evrópska kappakstrinum á Nürburgring var Alonso sjötti á ráslínu en vann keppnina eftir að Kimi Räikkönen sem var í forystu á síðasta hringnum lenti í því óláni að framhjól brotnaði á bílnum hans á síðasta hringnum. Alonso var þá kominn með 59 stig í heimsmeistaramótinu og 22 stigum á undan næsta manni.[20] Í Kanada kláraði Alonso ekki keppnina og tók ekki þátt í Bandaríska kappakstrinum þar sem aðeins sex bílar tóku þátt vegna Michelin og Bridgestone dekkja fíaskóið.[21] Í Frakklandi vann Alonso sína fimmtu keppni á tímabilinu og varð hann í öðru sæti í Bretlandi. Í Þýska kappakstrinum vann Alonso sinn sjötta sigur á tímabilinu en var lengst af í öðru sæti á eftir Räikkönen sem þurfti að hætta keppni vegna vélarbilunar og þá var aldrei önnur spurning um að Alonso væri að fara að vinna keppnina.[22] Í Ungverjalandi endaði Alonso í 11. sæti og það var eina keppnin á tímabilinu sem Alonso endaði ekki í topp 4 fyrir utan sá Bandaríska. Alonso varð í 2. sæti þrjár keppnir í röð í Tyrklandi, Ítalíu og Belgíu. Í Brasilíu var Alonso á ráspól og var í góðri stöðu um að vera heimsmeistari. Í kappakstrinum komust bæði McLaren bílarnir fram úr Alonso og Alonso endaði þriðji. En þá var ljóst að Alonso var orðinn heimsmeistari ökumanna og var þar með yngsti heimsmeistari sögunnar í Formúlu 1 og þar með lauk sigurhrina Michael Schumacher sem var heimsmeistari fimm árin á undan.[23] Í Japan varð Alonso í þriðja sæti og vann síðan síðustu keppni tímabilsins í Kína. Alonso endaði heimsmeistaramótið með 133 stig og 21 stigi á undan Räikkönen sem var í öðru sæti.
Árið 2006 voru Alonso og Fisichella aftur liðsfélagar hjá Renault. Áður en tímabilið var hafið var búið að staðfesta að Alonso myndi keyra fyrir McLaren árið 2007.[24] Alonso hóf titilvörnina frábærlega þegar hann vann fyrstu keppnina í Bahrain, Michael Schumacher var annar og Räikkönen þriðji.[25] Alonso var annar í Malasíu en sigraði í Ástralíu eftir að hafa verið þriðji á ráslínu. Á Imola var Alonso fimmti á ráslínu og var nálægt því að sigra kappaksturinn en náði ekki fram úr Michael Schumacher sem sigraði.[26] Alonso varð annar í evrópska kappakstrinum og heimavelli á Spáni var Alonso á ráspól. Í keppninni sótti Michael Schumacher hart á Alonso en án árangurs og Alonso fagnaði sigrii. Spánverjar voru sáttir með sigurinn, það voru 130 þúsund áhorfendur á keppninni og Alonso var fagnaður sem þjóðhetju.[27] Í Mónakó sigraði Alonso sína fjórðu keppni á tímabilinu. Þá vann Alonso á Silverstone með yfirburðum, var á ráspól og var einnig með hraðasta hring keppninar. Þá var þetta 200 keppni Renault í Formúlu 1.[28] Í Kanada vann Alonso aftur eftir spennandi keppni við Michael Schumacher og Räikkönen. Þá var Alonso búinn að vinna 5 keppnir í röð. Þá var þetta 100 sigur ökumanns á Michelin dekkjum.[29] Í Bandaríkjunum var Alonso fimmti, var annar í Frakklandi og fimmti í Þýska kappakstrinum. Í Ungverjalandi var Alonso í 14. sæti á ráslínu en það var mikill rigning á brautinni og Alonso var á Michelin dekkjum sem hentu betur í rigningu heldur en Bridgestone dekkin. Alonso náði að koma sér í fyrsta sæti en þegar það voru 19 hringir eftir bilaði bílinn og Alonso þurfti að hætta keppni og Jenson Button á McLaren sigraði sína fyrstu keppni í Formúlu 1.[30] Í Tyrkneska kappakstrinum varð Alonso annar og hann kláraði ekki keppnina í ítalska kappakstrinum. Í Kína varð Alonso annar á eftir Michael Schumacher og eftir keppnina voru þeir jafnir á stigum með 116 stig. Alonso sigraði í Japan meðan Schumacher datt út vegna vélarbilunar og var Alonso kominn með níu fingur á titillinn. Schumacher þurfti að vonast til þess að vinna í Brasilíu og að Alonso myndi ekki fá stig í keppninni til þess að verða heimsmeistari. Í Brasilíu var Alonso fjórði á ráslínu og Michael Schumacher var tíundi. Í keppninni endaði Alonso annar meðan Michael Schumacher endaði fjórði. Því var ljóst að Fernando Alonso var heimsmeistari annað árið í röð. Einnig var Renault heimsmeistari bílasmiðja.[31] Alonso endaði tímabilið með 134 stig og 13 stigum á undan Michael Schumacher.
McLaren(2007)
Árið 2007 fór Fernando Alonso til McLaren og liðsfélagi hans var nýliðinn Lewis Hamilton. Í fyrstu keppni tímabilsins í Ástralíu var Alonso annar á ráslínu. Alonso endaði líka annar í keppninni þar sem Kimi Raikkönen vann og Hamilton kom á óvart og endaði þriðji í sinni fyrstu keppni.[32] Í Malasíu var Alonso annar á ráslínu og Felipe Massa var fremstur. Alonso komst fram úr Massa í fyrstu beygju í keppninni. Alonso lét forystuna aldrei af hendi og varð 17 og hálfri sekúndu á undan Hamilton sem endaði annar. Fyrsti sigur Alonso fyrir McLaren var í höfn.[33] Alonso var fimmti í Bahrain og þriðji á Spáni í sínu heimalandi. Í Mónakó var Alonso á ráspól og sigraði keppnina annað árið í röð.[34] Í Kanada varð Alonso að sætta sig við sjöunda sætið. Í Bandaríkjunum var Alonso annar á ráslínu á eftir Hamilton. Alonso reyndi nokkrar tilraunir að komast fram úr Hamilton en það tókst ekki, Hamilton vann og Alonso varð annar.[35] Sjöundi endaði Alonso í Frakklandi og var annar á Silverstone. Í Evrópska kappakstrinum í Þýskalandi var Alonso annar á ráslínu á eftir Kimi Raikkönen. Mikill rigning var í keppninni og það þurfti að taka hálftíma hlé vegna hennar í miðri keppni. Felipe Massa komst fram úr Alonso í fyrstu beygju en þegar nokkrir hringir voru eftir snerist það við og Alonso komst fram úr Massa og sigraði keppnina og Massa varð annar. Aðeins 13 bílar kláruðu keppnina af 22 og 9 bílar duttu úr keppni og þar á meðal Raikkönen sem datt út vegna leka vandamála.[36] Í Ungverjalandi var Alonso fjórði og fékk bronsverðlaun í Tyrklandi. Alonso var rétt á undan Hamilton í tímatökunum á Monza og var á ráspól. Alonso vann á Monza með yfirburðum og Hamilton endaði annar og Raikkönen varð þriðji. Massa kláraði ekki vegna bilunar. Kappaksturshelgin hjá McLaren var fullkominn að mati Alonso.[37]
Njósnamálið svokallaða hjá McLaren var í gangi þar sem talið var að McLaren væri að njósna um uppsetningu bíla keppinauta. Sögusagnir voru þær að njósnir hafi farið gegnum tölvupósta á milli Alonso og Pedro de la Rosa.[38] Þann 13. september kom niðurstaða í málið þar sem McLaren fékk háa sekt upp á um 100 milljóna dollara sem var hæsta sekt sögunnar í akstursíþróttum á þeim tíma. McLaren var dæmt úr leik í heimsmeistarakeppni bílasmiðja og endaði þar með 0 stig. Úrskurðurinn hafði ekki áhrif á Alonso og Hamilton og ekkert stig voru dreginn af þeim í ökumanna keppninni.[39] Í Belgíu varð Alonso í þriðja sæti á eftir báðum Ferrari bílunum. Í Japan var Alonso annar á ráslínu en mikil rigning var í keppninni og Alonso klessti á öryggisvegg á 42. hring og datt út. Hamilton vann, Heikki Kovalainen var annar og Räikkönen þriðji. Aðeins tvær keppnir voru eftir og Hamilton var kominn í góða stöðu, 12 stigum á undan Alonso og 17 stigum á undan Räikkönen.[40] Í Kína var Alonso fjórði á ráslínu, Hamilton var á ráspól en datt úr keppni eftir að hann festist í malargryfju, Räikkönen vann keppnina og Alonso varð annar.[41] Þeir þrír áttu því allir möguleikar að vera heimsmeistari í lokakeppninni í Brasilíu. Alonso var aðeins fjórði á ráslínu í Brasilíu. Hamilton var annar á ráslínu en Räikkönen þriðji. Bæði Räikkönen og Alonso komust fram úr Hamilton á fyrstu hringjunum. Räikkönen komst fram úr liðsfélaga sínum Massa í keppninni og vann, Massa varð annar og Alonso varð þriðji. Hamilton missti vélarafl í keppninni og var um tíma í átjándi en endaði sjöundi. Räikkönen varð heimsmeistari á einu stigi með 110 stig en bæði Alonso og Hamilton enduðu með 109 stig. Alonso endaði þriðji í heimsmeistaramótinu en Hamilton í öðru vegna þess að Hamilton lenti oftar í öðru sæti heldur en Alonso.[42]
Renault(2008–2009)
Í desember árið 2007 var staðfest að Fernando Alonso myndi snúa aftur til Renault fyrir tímabilið 2008 og einnig var staðfest að Nelson Piquet Jr. yrði hans liðsfélagi, hann er sonur Nelson Piquet sem var þrefaldur heimsmeistari í Formúlu 1.[43] Tímabilið hófst í Ástralíu þar sem Alonso var aðeins tólfti á ráslínu, Alonso átti erfitt með að keyra bílinn og uppsetning bílsins var ekki nógu stöðug.[44] Alonso átti betri keppni heldur en tímatökur og endaði keppnina í fjórða sæti. Piquet Jr. átti ekki góða helgi og þurfti að hætta keppni eftir 31 hring.[45] Í Malasíu varð Alonso níundi á ráslínu og endaði áttundi í keppninni. Í Bahrain þurfti Alonso að sætta sig við tíunda sætið. Á Spáni átti Alonso góðar tímatökur og varð annar á ráslínu. Í keppninni var Alonso í þriðja sæti þegar það var komið að fyrsta dekkjastoppi og vonaðist hann eftir því að enda sjötti en á hring 35 gaf vélin sig og kláraði því ekki keppnina.[46] Alonso endaði í sjötta sæti í Tyrklandi, tíundi í Mónakó og þá var nokkuð ljóst að Alonso yrði líklega ekki heimsmeistari árið 2008. Alonso var fjórði á ráslínu í Kanada og keyrði hann bílnum sínum á vegg á 42 hring þegar hann reyndi að komast fram úr Nick Heidfeld.[47] Alonso varð áttundi í Frakklandi, sjötti á Silverstone, ellefti í Þýskalandi og fjórði í Ungverjalandi. Í evrópska kappakstrinum sem þá var haldinn í Valencia á Spáni var Alonso tólfti á ráslínu en keppni hans var stutt þar sem Kazuki Nakajima hjá Williams keyrði aftan á hann með þeim afleiðingum að tjónið á bílnum var of mikið til þess að Alonso gæti haldið keppninni áfram.[48] Hlutirnir fóru að líta betur út fyrir Alonso í enda tímabilsins því í bæði Belgíu og á Ítalíu náði Alonso í fjórða sætið. Í Singapore var Alonso fimmtándi á ráslínu, þrátt fyrir að byrja svona aftarlega vann hann sinn fyrst sigur á árinu og einnig var þetta hans fyrsti verðlaunapallur á árinu. Alonso græddi á því þegar liðsfélagi hans Piquet Jr. keyrði á vegg og Alonso fór fyrstur inn til að taka þjónustustopp og um miðbik keppninnar var Alonso orðinn fremstur og vann.[49] Í Japan var Alonso fjórði á ráslínu og vann keppnina eftir að Lewis Hamilton og Felipe Massa lenda í samstöðu á öðrum hring.[50] Í Kína var Alonso fjórði á ráslínu og endaði á sama stað. Í Brasilíu í síðustu keppni tímabilsins var Alonso fjórði á ráslínu. Alonso endaði annar í keppninni. Keppnin var söguleg þar sem Felipe Massa á Ferrari vann á heimavelli og margir héldu að hann væri orðinn heimsmeistari. Lewis Hamilton varð hins vegar heimsmeistari með því að enda fimmti í keppninni og komst fram úr Timo Glock á síðasta hring keppninnar þótt að Glock var 15 sekúndum á undan honum fyrir síðasta hringinn. Framúraksturinn á Glock gerði það að verkum að Hamilton varð heimsmeistari.[51] Hamilton vann heimsmeistaratitilinn með 98 stigum einu stigi meira heldur en Massa. Alonso endaði í fimmta sæti í heimsmeistaramótinu með 61 stig.
Árið 2009 var Alonso og Nelson Piquet Jr. aftur liðsfélagar á Renault. Í Ástralíu var Alonso tólfti á ráslínu og endaði í sjötta sæti en fékk fimmta sætið að launum þar sem Hamilton var dæmdur úr leik eftir keppnina. Brawn-Mercedes liðið leit best út í byrjun tímabilsins og enduðu í fyrstu tveimur sætunum.[52] Í Malasíu var Alonso ekki í stigum og endaði í ellefti. Í næstu fimm keppnum tímabilsins náði Alonso í stig, var níundi í Kína, áttundi í Bahrain, fimmti á Spáni, sjöundi í Mónakó og tíundi í Tyrklandi. Alonso var tíundi á ráslínu á Silverstone en átti ekki góða keppni þar sem hann endaði fjórtándi og Alonso var ekki sáttur með það. Þá tapaði hann tíma í keppninni í 20 hringi þegar hann var fastur á bakvið Nick Heidfeld sem var með mun meira bensín á sínum bíl heldur en Alonso.[53] Í Þýskalandi vann Mark Webber á Red Bull en Alonso var sjöundi. Í Ungverska kappakstrinum vann Lewis Hamilton sinn fyrsta sigur á árinu en Alonso féll út vegna bilunar.[54] Í evrópska kappakstrinum í Valencia var Alonso sjötti. Í Belgíu var Alonso þrettándi á ráslínu en það var eitthvað vandamál með vinstra framhjólið hjá honum í keppninni og þegar Alonso tók sitt fyrsta þjónustuhlé ákvað liðið að segja honum að hætta vegna þess. Alonso var vonsvikinn því hann var kominn upp í þriðja sætið í keppninni pg vonaðist til þess að ná sínum fyrsta verðlaunapalli á tímabilinu sem varð ekkert úr.[55] Nelson Piquet Jr. hafði verið rekinn frá Renault liðinu eftir Ungverska kappakstrinum og Romain Grosjean tekið sæti hans hjá Renault. Í september árið 2009 voru Flavio Briatore liðsstjóri Renault liðsins og Pat Symonds tæknistjóri liðsins báðir reknir frá liðinu eftir að Piquet Jr. sakaði þá að um að segja sér að keyra á vegg í Singapore kappakstrinum árið 2008 til þess að Alonso fengi betri stöðu í kappakstrinum sem Alonso síðar vann.[56] Bæði Briatore og Symonds fengu refsingu frá FIA, Briatore mátti ekki mæta á keppnir eða stjórna einhverjum liðum í kappakstrum á vegum FIA í óákveðinn tíma og Symonds fékk svipað bann til fimm ára. Renault liðið slapp við stiga refsingu.[57] Á Ítalíu varð Alonso fimmti. Í Singapore var Alonso sjötti á ráslínu, í keppninni ók hann vel og endaði þriðji sem var hann fyrsti og eini verðlaunapallur á árinu. Einnig var Alonso með hraðasta hring keppninnar.[58] Í Japan var Alonso tíundi, kláraði ekki í Brasilíu og var fjórtandi í Abú Dabí sem var síðasta keppni tímabilsins. Jenson Button á Brawn-Mercedes varð heimsmeistari með 95 stig. Alonso varð níundi í heimsmeistaramótinu með 26 stig.
Ferrari(2010–2014)
Í september árið 2009 var staðfest að Fernando Alonso myndi keyra fyrir Ferrari liðið tímabilið 2010.[59] Felipe Massa var hans liðsfélagi hjá Ferrari. Í Bahrain var Alonso þriðji í tímatökunum og hann var ánægður með að vera kominn með samkeppnishæfan bíl.[60] Alonso vann keppnina og þar með sinn fyrsta sigur fyrir Ferrari liðið. Massa varð annar og Lewis Hamilton á McLaren varð þriðji.[61] Í Ástralíu var Alonso þriðji á ráslínu og endaði fjórði í keppninni. Í Malasíu var rigning í tímatökunum og í Q1 vonaðist Ferrari liðið að brautin myndi þorna sem myndi líða á en það gerðist ekki því það fór að rigna meira, Alonso og Massa komust ekki upp úr Q1 og Alonso var nítjándi í tímatökunum og Massa varð tuttugasti og fyrsti.[62] Keppnin byrjaði ekki vel fyrir Alonso því á upphitunarhring bilaði gírkassinn hjá honum og Alonso átti erfitt með að kúpla niður og upp á milli gíra alla keppnina. Þess vegna þurfti Alonso að bremsa öðruvísi heldur en hann var vanur og taldi þetta vera ein erfiðasta keppni sem hann hafi keyrt á ferlinum. Þegar tveir hringir voru eftir að keppninni bilaði vélin hjá Alonso sem gerði það að verkum að hann þurfti að hætta keppni þegar hann var að berjast um 9 sætið.[63] Þó Alonso kláraði ekki keppnina endaði hann samt í 12. sæti því 7 bílar duttu úr leik, Jarno Trulli var með leka vandamál og kláraði 5 hringjum á eftir, báðir HRT bílarnir voru hægir og kláruðu þremur og fjórum hringjum á eftir fyrsta manni og Lucas di Grassi á Virgin var einnig þremur hringjum á eftir fyrsta manni.[64] Í Kína varð Alonso í fjórða sæti. Á Spáni var Alonso fjórði á ráslínu og í keppninni var hann lengst í keppninni í fjórða sæti en þegar 10 hringir voru eftir fór Sebastian Vettel í sandgryfju og þurfti hann að skipta um dekk og Alonso komst fram úr honum. Alonso komst í annað sætið þegar tveir hringir voru eftir þegar það sprakk dekk hjá Lewis Hamilton sem var á undan Alonso fyrir það. Alonso endaði annar en Mark Webber sigraði keppnina.[65] Í Mónakó varð Alonso sjötti og síðar áttundi í Tyrklandi. Í Kanada fékk Alonso bronsið og varð áttundi í evrópska kappakstrinum í Valencia.
Á Silverstone var Alonso þriðji á ráslínu en í keppninni gekk allt á afturfótunum hjá báðum Ferrari bílunum, Massa þurfti að fá ný dekk eftir fyrsta hring, Alonso fékk refsingu eftir að dómararnir töldu Alonso hafa tekið ólöglega fram úr Robert Kubica og tók hann refsinguna eftir að öryggisbíll var farinn aftur inn eftir að hafa komið inn á brautina, því varð Alonso orðinn síðastur eftir að hann tók refsinguna sína. Alonso endaði keppnina í 14. sæti og Massa var fimmtándi.[66] í Þýskalandi var Alonso annar á ráslínu og komst fram úr Vettel meðan Massa komst fram úr þeim báðum í byrjun. Á 49. hring sagði Ferrari liðið við Massa að hleypa Alonso fram úr sem hann gerði vegna þess að þeir töldu Alonso hraðskreiðari. Alonso vann sína aðra keppni á tímabilinu og Massa varð annar og Vettel þriðji.[67] Í Ungverjalandi vann Alonso silfur. Í Belgíu datt Alonso út eftir að hafa lenti á vegg vegna þess að hann snerist í beygju.[68] Á Ítalíu var Alonso fremstur á ráslínu en var orðinn annar eftir fyrsta hring þegar Jenson Button komst fram úr honum. Í lok 35 hringjar kom Button inn til að skipta um dekk og tapaði tíma því. Alonso skipti um dekk hring seinna og var rétt á undan Button þegar hann kom út. Button komst ekki fram úr Alonso aftur og Alonso vann sína þriðju keppni á tímabilinu. Þetta var fyrsti sigur Ferrari á Monza síðan Michael Schumacher vann árið 2006.[69] Alonso hélt sigurgöngu sinni áfram í Singapore með sigri og varð síðan þriðji í Japan. Í Suður-Kóreu var Alonso þriðji á ráslínu, það var töf á því að byrja keppnina vegna úrhellis, keppnin byrjaði á því að ræsa fyrir aftan öryggisbíl fyrstu fjóra hringina og síðan aftur 13 hringi eftir endurræsingu. Alonso komst fram úr Hamilton eftir ræsingu og Vettel sem var fyrstur þurfti að hætta keppni vegna vélarbilunar. Alonso var þá kominn fremstur og sigraði keppnina.[70] Alonso var kominn í væna stöðu í heimsmeistaramótinu, var efstur þegar aðeins tvær keppnir voru eftir, 11 stigum á undan Webber, 21 stigi á undan Hamilton og 25 stigum á undan Vettel. Í Brasilíu varð Alonso þriðji í keppninni og Vettel sigraði og Webber var annar. Webber var þá bara 8 stigum á eftir Alonso á meðan Vettel var fimmtán stigum á eftir Alonso. Í Abú Dhabí var Alonso þriðji á ráslínu, Vettel á ráspól og Webber var fimmti. Í keppninni tók Webber dekkjastop snemma og Alonso ákvað að gera það líka rétt á eftir Webber. Alonso var þá ennþá á undan Webber en þetta voru afdrífaleg mistök fyrir báða vegna þess að það getur verið erfitt að taka fram úr í Abú Dhabí, Alonso komst ekki fram úr Vitaly Petrov á Renault sem var sjötti og Alonso þurfti því að sætta sig við sjöunda sætið í keppninni og Webber endaði áttundi. Vettel sigraði keppnina og varð heimsmeistari, með fjórum stigum meira heldur en Alonso og 14 stigum á undan Webber.[71] Alonso fannst það vera mistök að fara svona snemma inn að skipta um dekk og líklega hefði hann endar ofar ef hann hefði farið seinna inn.[72]
Árið 2011 voru Massa og Alonso ennþá liðsfélagar hjá Ferrari. Í fyrstu keppni tímabilsins var Alonso fjórði í Ástralíu, varð síðan sjötti í Malasíu og sjöundi í Kína. Í Tyrklandi var Alonso fimmti á ráslínu en í ræsingu komst hann fram úr bæði Nico Rosberg og Lewis Hamilton og endaði þriðji á sínum fyrsta verðlaunapalli á tímabilinu.[73] Alonso tók fimmta sætið á Spáni og í Mónakó var hann fjórði á ráslínu og náði að vinna sig upp í annað sætið. Þegar það var komið að 72. hring var Alonso á betri dekkjum heldur en Vettel sem var fremstur en þá kom rautt flagg og ökumenn gátu skipt um dekk fyrir síðustu hringina og Alonso endaði annar. Alonso taldi sig mögulega geta unnið ef það hefði ekki komið út rautt flagg.[74] Í Kanada var Alonso annar á ráslínu en lenti í samstuði við Jenson Button á 37. hring og lenti á vegg og datt út.[75] Í Evrópska kappakstrinum fékk Alonso silfur. Í Breska kappakstrinum á Silverstone var Alonso þriðji á ráslínu, Alonso komst fram úr Webber og síðan komst hann fram úr Vettel í þjónustuhléum. Alonso sigraði keppnina nokkuð þægilega á Silverstone sem var fyrsti sigur Alonso á tímabilinu.[76] Í Þýskalandi var Alonso fjórði á ráslínu en endaði í öðru sæti eftir að hafa verið um tíð í fyrsta sæti en Hamilton komst aftur fram úr honum og sigraði.[77] Í Ungverjalandi fékk Alonso brons, í Belgíu var hann fjórði, þriðji á Ítalíu og fjórði í Singapúr. Í tímatökunum í Japan var Alonso fimmti en náði að vinna sig upp í annað sætið í keppninni eftir að hafa komist fram úr Vettel, Hamilton og Massa. Button vann en Vettel var þriðji en með því var Vettel orðinn heimsmeistari annað árið í röð þrátt fyrir að það voru fjórar keppnir eftir á tímabilinu.[78] Alonso var fimmti í Suður-Kóreu og þriðji á Indlandi. Í Abú Dhabí endaði Alonso fimmti í tímatökunum og tók silfrið í keppninni eftir að dekk hjá Vettel sprakk á fyrsta hring og einnig komst hann fram úr Button og Webber.[79] Í síðustu keppni tímabilsins í Brasilíu var Alonso fjórði. Hann endaði tímabilið með 257 stig í fjórða sæti í heimsmeistaramótinu og þá 135 stigum á eftir heimsmeistaranum Sebastian Vettel.
Árið 2012 voru Massa og Alonso áfram hjá Ferrari. Í fyrstu keppni tímabilsins í Ástralíu endaði Alonso fimmti. Í Malasíu var Alonso áttundi á ráslínu. Það var mikil rigning í keppninni og Alonso fór með sigur sem var nokkuð óvænt vegna þess hversu aftarlega hann var í byrjun og liðsfélagi hans Massa endaði fimmtándi. Sergio Perez varð annar á Red Bull og var það fyrsti verðlaunapallur Mexíkóa í 41 ár síðan Pedro Rodriguez var annar í hollenska kappakstrinum árið 1971.[80] Í Kína varð Alonso aðeins níundi og tók sjöunda sætið í Bahrain. Á Spáni var Alonso annar á ráslínu og reyndi að vinna keppnina en komst ekki fram úr Pastor Maldonado hjá Williams sem ræsti fremstur á ráslínu og vann keppnina sem var hans fyrsti og eini sigur á ferlinum í Formúlu 1. Þá var þetta einnig fyrsti sigur Williams síðan frá árinu 2004 og liðið hefur ekki unnið sigur síðan þá í Formúlu 1. Kimi Räikkönen hjá Lotus varð þriðji.[81] Í Mónakó fékk Alonso brons og varð fimmti í Kanada. Í Evrópska kappakstrinum í Valencia var Alonso ellefti á ráslínu en kom á óvörum og sigraði keppnina eftir magnaðan kappakstur. Alonso varð kominn í sjöunda sætið á tólfta hring og eftir þjónustuhlé var Alonso orðinn fjórði. Hamilton lenti í veseni í þjónustuhléi og komst þá Alonso í þriðja sæti vegna þess. Þá kom öryggisbíl á hring 30 og eftir að hann fór inn komst Alonso upp í annað sætið þegar hann tók fram úr Roman Grosjean. Vélin fór hjá Vettel sem var fremstur og með því komst Alonso í fyrsta sætið og hélt því til loka. Alonso var kominn með 34 stiga forystu í heimsmeistaramótinu.[82]
Alonso var fremstur á ráslínu á Silverstone og endaði annar á eftir Webber sem sigraði. Í Ungverjalandi endaði Alonso fimmti. Á Spa var Alonso fimmti á ráslínu en datt út á fyrsta hring þegar Grosjean á Lotus var valdur á árekstri þar sem Alonso, Hamilton og Perez duttu allir út ásamt honum.[83] Grosjean var bannað að keppa í Ítalíu vegna árakstursins og fékk um leið 7,5 milljóna króna sekt.[84] Alonso varð bæði þriðji á Ítalíu og í Singapúr. Í Japan datt Alonso út á fyrsta hring eftir að hafa lent í árekstri við bíl Kimi Raikkönen. Vettel sigraði keppnina og var Alonso þá bara með fjögurra stiga forystu á Vettel þegar fimm keppnir voru eftir.[85] Í Suður-Kóreu varð Alonso þriðji meðan Vettel sigraði. Vettel var þá kominn fram úr Alonso í heimsmeistaramótinu. Á Indlandi var Alonso fimmti á ráslínu og sýndi mikinn styrk og náði í silfur. Vettel sigraði sína fjórðu keppni í röð og var þá orðinn 14 stigum á undan Alonso þegar þrjár keppnir voru eftir.[86] Í Abú Dhabi varð Alonso annar meðan Vettel var þriðji. Þá snerist það við í Bandaríska kappakstrinum þar sem Alonso þriðji og Vettel var annar. Í loka keppni tímabilsins í Brasilíu var Alonso sjöundi á ráslínu en Vettel var fjórði á ráslínu. Vettel lenti í samstuði við Bruno Senna á fyrsta hring og varð orðinn síðastur og Alonso var kominn í þriðja sæti á sjötta hring.[87] Keppnin var rigningakeppni, Alonso komst í annað sætið og endaði keppnina þar. Vettel nýtti sér rigninguna með því að komast fram úr bílum og ók frábærlega og endaði sjötti. Það var nóg fyrir Vettel sem varð heimsmeistari þriðja árið í röð.[88] Alonso var aðeins þremur stigum á eftir Vettel í heimsmeistaramótinu með 278 stig og var þó 156 stigum á undan Massa sem endaði sjöundi. Í þriðja sinn þurfti Alonso að bíta í það súra epli að geta orðið heimsmeistari í síðustu keppni tímabilsins en ná því samt ekki sem voru árin 2007, 2010 og 2012 en var auðvitað heimsmeistari 2005 og 2006.
Árið 2013 var bæði Alonso og Massa áfram hjá Ferrari. Í Ástralíu var Alonso fimmti á ráslínu og endaði annar í keppninni en Kimi Raikkonen sigraði sem tók bara tvö þjónustuhlé meðan flestir í toppbaráttunni tóku þrjú þjónustuhlé eins og Alonso gerði.[89] Í Malasíu á fyrsta hring reyndi Alonso að komast í forystu en lenti í samstuði við Vettel og skemmdi framvæng sinn, hann hélt aðeins áfram áður en framvængurinn datt af bílnum sem gerði það að verkum að Alonso skautaðist inn í mölina og þá var keppni hans á enda í Malasíu.[90] Alonso var þriðji á ráslínu í Kína, komst fram úr Raikkonen á fyrsta hring og eftir fimmta hring var hann orðinn fyrstur eftir framúrakstur á Hamilton. Alonso hélt forystunni til enda fyrir utan þegar hann skipti um dekk en komst aftur í forystu stuttu síðar og vann sína fyrstu keppni á tímabilinu.[91] Í Bahrain var Alonso aðeins áttundi. Í spænska kappakstrinum var Alonso fimmti á ráslínu á heimavelli, var þó hraðskreiðastur í kappakstrinum og sigraði nokkuð örugglega. Kimi Raikkonen varð annar og Felipe Massa var þriðji.[92] Keppnin í Mónakó var ekki sérstök hjá Alonso og endaði hann í sjöunda sæti. Alonso átti góða keppni í Kanada, byrjaði sjötti og náði að vinna sig upp í annað sæti, þó átti hann engan séns í Vettel sem sigraði með um 14 sekúnda mun.[93]
Alonso var aðeins níundi í tímatökunum á Silverstone. Í keppninni var mikið um að vera, Hamilton lenti í veseni með dekkin hjá sér og Vettel datt út vegna gírkassa vandræða. Alonso átti stöðuga keppni með nokkrum framúrakstrum og náði að vinna sig upp í þriðja sæti og endaði því á verðlaunapalli.[94] Alonso var fjórði Þýskalandi og fimmti í Ungverjalandi. Alonso átti ekki góðar tímatökur á Spa og var níundi á ráslínu, Alonso átti mjög góða ræsingu og var orðinn fimmti eftir fyrsta hring og vann sig upp í annað sætið sem hann endaði síðan í.[95] Alonso fylgdi því eftir á Ítalíu og í Singapúr þegar hann vann silfur í báðum keppnum. Hins vegar var hann aðeins sjötti í Suður-Kóreu en ekkert var að stöðva Vettel sem var þá búinn að vinna fjórar keppnir í röð. Í Japan endaði Alonso fjórði en með þeim stigum sem hann fékk fyrir keppnina náði Alonso að bæta stigamet Michael Schumacher og var því orðinn stigahæsti ökumaður Formúlu 1 frá upphafi með 1.571 stig sem var tveimur stigum meira heldur en Schumacher.[96] Á Indlandi var Alonso áttundi á ráslínu en lenti í því að tjóna framvæng sinn í fyrsta hring og endaði ellefti og var ekki í stigum. Vettel sigraði sína sjöttu keppni í röð og var því orðinn heimsmeistari fjórða árið í röð þrátt fyrir að það voru þrjár keppnir voru eftir.[97] Í Abú Dhabí og í Bandaríkjunum endaði Alonso fimmti. Í Brasilíu endaði Alonso tímabilið í þriðja sæti í keppninni eftir harða baráttu við Mark Webber um annað sætið. Vettel sigraði sína níundi keppni í röð og jafnaði met Alberto Ascari sem vann níu keppnir í röð árin 1952 og 1953, síðustu sex keppnir 1952 og fyrstu þrjár keppnir 1953.[98] Alonso kláraði tímabilið með 242 stig í öðru sæti í heimsmeistaramótinu en var þó langt á eftir Vettel sem var 155 stigum á undan Alonso. Massa var 130 stigum á eftir Alonso í heimsmeistaramótinu með 112 stig og tók áttunda sætið.
Árið 2014 fer Felipe Massa til Williams meðan Kimi Raikkonen fer frá Lotus til Ferrari. Nýjar reglur breytingar voru gerðar fyrir tímabilið og því mátti búast við að rásröð liðanna myndi breytast vegna þeirra.[99] Í Ástralíu var Alonso fimmti í tímatökunum og endaði fjórði í keppninni. Hamilton hætti á fjórða hring og Vettel hætti á fimmta hring. Raikkonen var í vandræðum með bílinn og endaði sjöundi. Nico Rosberg á Mercedes sigraði keppnina, Kevin Magnussen var annar og Jenson Button var þriðji.[100] Í Malasíu varð Alonso bæði fjórði í tímatökunum og í keppninni. Lewis Hamilton á Mercedes sigraði nokkuð örugglega, Rosberg var annar og Vettel þriðji. Þá var aðeins farið að skýrast að Mercedes liðið hafi komist sterkast út úr nýju reglubreytingunum í byrjun þess.[101] Alonso var aðeins níundi í Bahrain. Þá var komið að Kínverska kappakstrinum þar sem Alonso náði þriðja sætinu eftir að hafa náð að halda báðum Red-Bull bílunum fyrir aftan sig, þetta var fyrsti verðlaunapallur Alonso á tímabilinu en hann átti lítinn séns í Mercedes bílanna þar sem Hamilton varð fyrstur og Rosberg annar.[102] Í næstu sex keppnum náði Alonso ekki á verðlaunapall, var sjötti á Spáni, fjórði í Mónakó, sjötti í Kanada, fimmti í Austurríki, sjötti í Bretlandi og fimmti í Þýskalandi. Alonso var fimmti á ráslínu í Ungverjalandi en átti frábæra keppni og komst fram úr Rosberg og endaði annar og varð líka á undan Hamilton en vissulega byrjaði hann keppnina á þjónustusvæðinu. Daniel Ricciardo sigraði keppnina.[103]
Alonso endaði sjöundi í Belgíu. Á Ítalíu þurfti Alonso að hætta keppni vegna gírkassavandamála á 28. hring. Sem var fyrsta keppnin á tímabilinu sem Alonso náði ekki í stig.[104] Þá var Alonso fjórði í Singapúr. Fyrir Japönsku keppnina var staðfest að Sebastian Vettel myndi keyra fyrir Ferrari fyrir tímabilið 2015.[105] Keppni Alonso endaði snemma þegar að bíll hans virðist hafa slökkt á sér sem var fyrsta hring eftir endurræsingu þegar það þurfti að endurræsa keppnina vegna rigningar.[106] Í næstu þremur keppnum í Rússlandi, Bandaríkjunum og Brasilíu var Alonso í sjötta sæti í þeim öllum. Í fyrsta sinn var gefið tvöföld stig í lokakeppninni í Abú Dhabí og Rosberg átti ennþá möguleika að vinna Hamilton um titillinn um heimsmeistaratitilinn. Alonso átti ekkert sérstaka helgi og endaði í níunda sæti. Rosberg endaði fjórtándi og Hamilton varð fyrstur. Með því tryggði Hamilton sér sinn annan heimsmeistaratitill.[107] Alonso endaði sjötti í heimsmeistaramótinu með 161 stig meðan Kimi Raikkonen endaði í tólfta sæti með 55 stig sem var að eiga erfitt tímabil með nýjum reglubreytingunum. Í desember var orðið staðfest að Fernando Alonso væri að snúa aftur til McLaren og tími hans hjá Ferrari var því lokið að minnsta kosti í bili.[108]
Remove ads
Tilvísanir
Heimildir
Wikiwand - on
Seamless Wikipedia browsing. On steroids.
Remove ads
