Kúveit
ríki í Mið-Austurlöndum From Wikipedia, the free encyclopedia
Remove ads
Kúveit (arabíska دولة الكويت) er land við strönd Persaflóa með landamæri að Írak og Sádí-Arabíu. 90% útflutningstekna koma af olíu. Íbúafjöldi landsins var talinn vera um 4,3 milljónir árið 2022 en innan við helmingur íbúa eru kúveiskir ríkisborgarar. Yfir helmingur íbúa eru erlendir verkamenn og innflytjendur.
Til eru menjar um byggð í Kúveit frá Ubaid-tímabilinu (um 6000-3800 f.Kr.). Elstu merki um siglingar með seglum hafa fundist þar. Árið 224 varð Kúveit hluti af veldi Sassanída en árið 633 sigraði Rasídakalífatið Sassanída í Keðjuorrustunni við borgina Kazima í Kúveit. Kúveitborg var stofnuð árið 1613. Árið 1716 settist ættbálkurinn Bani Utbah þar að og um miðja öldina var Sabah bin Jaber kjörinn sjeik. Á 18. öld blómstraði Kúveit sem miðstöð siglinga og verslunar milli Indlands, Múskat, Bagdad og Arabíu. Kúveitborg varð líka miðstöð skipasmíða við Persaflóa. Á síðari hluta 19. aldar var Kúveitborg kölluð „Marseille Persaflóa“. Í upphafi 20. aldar beittu Bretar landið viðskiptaþvingunum vegna stuðnings sjeiksins við Tyrkjaveldi og árið 1919 hóf Ibn Sád stríð Kúveits og Najd þar sem hann vildi leggja landið undir sig. Eftir Síðari heimsstyrjöld blómstraði Kúveit á ný vegna olíuútflutnings og þótti bera af öðrum arabalöndum í frjálslyndum viðhorfum. Árið 1990 gerði Írak innrás sem hratt Fyrra Persaflóastríðinu af stað.
Líkt og flest önnur Arabaríki við Persaflóa er Kúveit emírat. Emír Kúveit er meðlimur Sabah-ættar sem hefur ríkt yfir svæðinu frá 18. öld. Ættin ræður öllu í stjórn landsins, sem hefur verið lýst sem alræðisríki.[1] Súnní íslam er opinber trúarbrögð í Kúveit, sérstaklega Maliki-skólinn. Kúveit er hátekjuland sem á sjöttu stærstu olíubirgðir heims. Landið er í fararbroddi á sviði menningar og lista, og hefur verið áberandi í framleiðslu afþreyingarefnis í heimshlutanum.[2] Kúveit er stofnaðili að Persaflóasamstarfsráðinu, og á líka aðild að Sameinuðu þjóðunum, Arababandalaginu og Samtökum olíuframleiðsluríkja.
Remove ads
Heiti
Nafn landsins, Kúveit, kemur úr kúveiskri arabísku sem smækkað form af كوت Kut eða Kout sem merkir „virki við vatnið“.[3] Kúveit merkir því „lítið virki við sjóinn“. Landið dregur nafn sitt af Kúveitborg. Hún var áður fiskiþorp sem hét Kureyn, en fékk núverandi nafn eftir að Bani Utbah-ættbálkurinn náði þar völdum 1718 og stofnað Sjeikdæmið Kúveit árið 1752 undir Emírsdæmi Bani Khalid-ættbálksins sem náði yfir vesturströnd Persaflóa.[4] Frá 1961 hefur opinbert heiti landsins verið دَوْلَةُ الكويت Dawlat al-Kuwayt „Kúveitríki“.
Remove ads
Landfræði

Kúveit er staðsett innst í Persaflóa við norðausturhorn Arabíuskaga og er eitt af minnstu löndum heims. Landið er milli 28. og 31. breiddargráðu norður og 46. og 49. lengdargráðu austur. Landið er að mestu láglent og hæsti punktur þess, Mutla-hryggur, er aðeins 306 metra yfir sjávarmáli.[5]
Tíu eyjar tilheyra Kúveit.[6] Sú stærsta er Bubiyan-eyja sem er 860 km2 og tengist meginlandinu um 2380 metra langa brú.[7] 0,6% af landi Kúveit er talið ræktanlegt[5] og gróður vex á stangli meðfram 499 km langri strandlengjunni.[5] Kúveitborg stendur við Kúveitflóa, sem er náttúruleg höfn.
Burgan-olíuvinnslusvæðið í Kúveit býr yfir um 70 milljörðum tunna af staðfestum olíubirgðum. Þegar Íraksher kveikti olíueldana í Kúveit árið 1991 voru yfir 500 olíuvötn búin til sem náðu yfir samanlagða 35,7 km2.[8] Jarðvegsmengun vegna olíu og sóts í kjölfar eldanna gerðu austur- og suðausturhluta Kúveits óbyggilega. Sandur og olíuleifar breyttu stórum hluta af eyðimörkinni í hálfgert malbik.[9] Olíulekar í Persaflóastríðinu höfðu líka neikvæð áhrif á hafið undan strönd Kúveit.[10]
Remove ads
Stjórnmál
Landstjóraumdæmi
Kúveit skiptist í sex landstjóraumdæmi. Hvert umdæmi skiptist svo í fimm kjördæmi.
- a með eyjunum Failaka, Miskan og Auhah
- b með eyjunum Warbah og Bubiyan
Efnahagslíf

Kúveit er auðugt olíuframleiðsluríki.[11] Opinber gjaldmiðill landsins er kúveiskur dínar. Kúveit situr ofarlega á ýmsum mælikvörðum sem byggjast á framleiðslu á mann.[12][13][14]
Árið 2021 var Kúveit það ríki í heimshlutanum sem var mest háð olíu, með veikustu innviði og hlutfallslega minnsta efnahagslega fjölbreytni.[15][16][17]
Árið 2019 var Írak helsti útflutningsmarkaður Kúveits og matur/landbúnaðarvörur voru 94,2% af útflutningsvörum.[18] Á alþjóðavísu eru helstu útflutningsvörur Kúveits jarðefnaeldsneyti, þar á meðal olía (89,1% af heildarútflutningi), flugvéla- og geimskipaeldsneyti (4,3%), lífræn efni (3,2%), plast (1,2%), járn og stál (0,2%), gimsteinar og eðalmálmar (0,1%), vélar og tölvur (0,1%), ál (0,1%), kopar (0,1%), og salt, brennisteinn, steinn og sement (0,1%).[19] Kúveit var stærsti útflytjandi vetniskolefna með súlfónati, nítrati eða nítrósati árið 2019.[20]
Á síðustu áratugum hefur Kúveit leitast við að hafa aukna stjórn á erlendu vinnuafli vegna öryggissjónarmiða. Þannig þurfti verkafólk frá Georgíu að gangast undir öryggisskimun við umsókn um dvalarleyfi, og bannað var að flytja verkafólk til heimilisstarfa frá Gíneu-Bissá og Víetnam.[21] Verkafólk frá Bangladess hefur líka verið bannað.[22] Í apríl 2019 bætti Kúveit Eþíópíu, Búrkína Fasó, Bútan, Gíneu og Gíneu-Bissaú á lista yfir bönnuð lönd sem við það urðu alls 20. Samkvæmt rannsóknarstofnuninni Migrant Rights (nú MRRORS) stöfuðu þessi bönn af því að löndin reka ekki sendiráð eða vinnumálastofnanir í Kúveit.[23] Eftir 2021 var þessum bönnum að mestu aflétt.[24] Kafala-kerfið þar sem verkafólk er bundið vinnuveitanda sínum og missir öll réttindi um leið og það missir vinnuna, hefur oft verið gagnrýnt, en er enn undirstaða dvalarleyfa verkafólks í landinu.[25]
Remove ads
Menning
Íþróttir
Knattspyrna er vinsælasta íþróttagreinin í Kúveit. Gullöld karlalandsliðs þjóðarinnar var undir lok áttunda áratugarins og í byrjun þess níunda. Liðið rataði á verðlaunapall í Asíukeppninni þrisvar í röð frá 1976 til 1984, þar af sem meistarar árið 1980. Kúveit komst í fyrsta og eina sinn í úrslitakeppni HM á Spáni 1982, þar sem liðið gerði jafntefli við Tékkóslóvakíu.
Talsverð hefð er fyrir handknattleik í Kúveit og er karlalandsliðið eitt það sigursælasta í Asíu og hefur margoft keppt í úrslitakeppni HM og á Ólympíuleikunum. Kúveit hefur fjórum sinnum unnið Asíuleikana í handbolta karla en einungis Suður-Kórea hefur gert betur.
Kúveit hefur keppt á Ólympíuleikum frá því í Mexíkóborg 1986. Fyrsti íþróttamaðurinn frá Kúveit steig á verðlaunapall í Barcelona 1992 og hlaut brons í tækvondó, en þar sem tækvondó var einungis sýningargrein á leikunum teljast þau verðlaun ekki með. Skotíþróttamaðurinn Fehaid Al-Deehani vann til bronsverðlauna á leikunum í Sidney 2000 og Lundúnum 2012. Það teljast einu formlega viðurkenndu verðlaun Kúveit á Ólympíuleikum. Vegna óstjórnar hjá Ólympíunefnd Kúveit var íþróttafólki landsins ekki heimilað að taka þátt undir sínum merkjum í Ríó 2016 heldur kepptu þau sem óháðir íþróttamenn. Fehaid Al-Deehani vann til gullverðlauna og varð þannig fyrsti óháði íþróttamaðurinn til að fá gull á Ólympíuleikum. Landi hans Abdullah Al-Rashidi fékk brons í skotfimi á sömu leikum. Verðlaununum var vel fagnað í Kúveit og líta heimamenn á þau sem fyrstu gullverðlaun landsins hvað sem bókum Alþjóðaólympíunefndarinnar líður.
Remove ads
Tilvísanir
Wikiwand - on
Seamless Wikipedia browsing. On steroids.
Remove ads
