Lady Gaga

bandarísk söngkona, lagahöfundur og leikkona From Wikipedia, the free encyclopedia

Lady Gaga
Remove ads

Stefani Joanne Angelina Germanotta (f. 28. mars 1986), betur þekkt sem Lady Gaga, er bandarísk söngkona, lagahöfundur og leikkona. Hún er þekkt fyrir reglulega endursköpun á ímynd sinni og fjölhæfni sína í skemmtanaiðnaðinum.

Staðreyndir strax Fædd, Störf ...

Eftir að hafa skrifað undir samning við Interscope Records árið 2007 náði Gaga alþjóðlegri frægð með fyrstu breiðskífunni sinni, The Fame (2008), og endurútgáfu hennar, The Fame Monster (2009). Plöturnar innihéldu vinsælu smáskífurnar „Just Dance“, „Poker Face“, „Bad Romance“, „Telephone“ og „Alejandro“. Önnur stúdíóplata hennar, Born This Way (2011), kannaði rafrokk og teknópopp og seldist í meira en milljón eintökum í fyrstu vikunni. Titillag plötunnar sló metið yfir það lag sem seldist hraðast á iTunes Store, með yfir eina milljón niðurhala innan við viku. Í kjölfar þriðju plötu hennar, Artpop (2013), sem kannaði raftónlist, lagði hún áherslu á djass á plötunni Cheek to Cheek (2014) með Tony Bennett og á mjúkt rokk með plötunni Joanne (2016).

Gaga sneri sér að leiklist og vann verðlaun fyrir aðalhlutverkin sín í þáttunum American Horror Story: Hotel (2015–2016) og kvikmyndunum A Star Is Born (2018) og House of Gucci (2021). Framlög hennar til plötu tónlistarmyndarinnar innihalda smáskífuna „Shallow“ sem gerðu hana að fyrstu konu til að vinna Óskarsverðlaun, BAFTA-verðlaun, Golden Globe-verðlaun og Grammy-verðlaun á einu ári. Hún sneri aftur í danspoppið með sjöttu breiðskífu sinni, Chromatica (2020), sem innihélt smáskífuna „Rain on Me“. Árið 2021 gaf hún út aðra samstarfsplötu með Bennett, Love for Sale (2021), og gaf út popp plötuna Mayhem (2025) sem á má finna lagið „Die with a Smile“.

Gaga er ein af söluhæsta tónlistarfólki heimsins, með um 170 milljón plötur seldar, og eina konan til að eiga fjórar smáskífur sem hafa selst í a.m.k. 10 milljónum eintaka á heimsvísu. Meðal verðlauna og viðurkenninga sem hún hlotið eru 14 Grammy-verðlaun, tvö Golden Globe-verðlaun, 18 MTV Video Music-verðlaun, verðlaun frá Frægðarhöll lagahöfunda og Council of Fashion Designers of America, auk viðurkenninga sem listamaður ársins (2010) og kona ársins (2015) hjá Billboard. Hún hefur einnig verið talin með í nokkrum listum Forbes og var í fjórða sæti Greatest Women in Music lista VH1 (2012). Time útnefndi hana sem eina af 100 áhrifamestu einstaklingum heimsins árin 2010 og 2019 og setti hana á All-Time 100 Fashion Icons lista þeirra. Góðgerðastörf hennar og aktívismi fjalla helst um geðheilbrigði og réttindi hinsegin fólks. Hún rekur eigin góðgerðarsamtök, Born This Way Foundation, sem styður við geðheilsu ungs fólks. Viðskiptastarfsemi hennar er meðal annars Haus Labs, vegan snyrtivörufyrirtæki sem kom á markað árið 2019.

Remove ads

Líf og ferill

1986–2004: Æska

Stefani Joanne Angelina Germanotta fæddist 28. mars 1986 inn í kaþólska fjölskyldu á Lenox Hill-spítalanum í Manhattan, New York-borg.[1] Báðir foreldrar hennar eru af ítölskum uppruna.[2] Foreldrar hennar eru Cynthia Louise (fædd Bissett), mannvinur og framkvæmdastjóri, og Joseph Germanotta, frumkvöðull.[3] Hún á einnig yngri systur sem heitir Natali.[4] Hún ólst upp í Upper West Side-hverfinu á Manhattan.[5] Frá ellefu ára aldri gekk hún í einkarekna stúlknaskólann Convent of the Sacred Heart, sem er kaþólskur skóli.[6]

Gaga byrjaði að spila á píanó fjögurra ára. Hún tók píanótíma og æfði sig alla barnæskuna. Foreldrar hennar hvöttu hana til að halda áfram í tónlistinni og skráðu hana í Creative Arts Camp.[7] Á unglingsárunum söng hún á opnum hljóðnemakvöldum.[8] Gaga lék aðalhlutverkin Adelaide í leikritinu Guys and Dolls og Philia í leikritinu A Funny Thing Happened on the Way to the Forum í Regis High School.[9] Hún lærði leiklist í Lee Strasberg Theatre and Film Institute í tíu ár.[10] Fyrsta framkoma hennar á skjánum var sem aukaleikari í tónlistarmyndbandi AC/DC fyrir lagið „Stiff Upper Lip“ árið 2000.[11] Gaga fór í margar árangurslausar áheyrnarprufur fyrir sýningar í New York, en fékk þó lítið aukahlutverk í þætti úr The Sopranos árið 2001.[12]

Árið 2003 komst Gaga inn í Collaborative Arts Project 21, tónlistarskóla í Tisch School of the Arts, sem er hluti af New York-háskóla (NYU). Hún bjó á heimavist NYU á meðan hún var í náminu. Þar lærði hún tónlist og þróaði lagasmíðahæfileikana sína með því að skrifa ritgerðir um list, trúarbrögð, félagsleg málefni og stjórnmál.[13] Árið 2005 hætti Gaga námi á öðru ári til að einbeita sér að tónlistarferlinum.[14] Í viðtali árið 2014 sagði Gaga að henni hefði verið nauðgað þegar hún var 19 ára. Hún fór síðar í meðferð vegna þessa. Hún þjáist af áfallastreituröskun (PTSD) og tengir það við atvikið. Hún hefur þakkað stuðningi lækna, fjölskyldu og vina fyrir aðstoðina sem hún fékk.[15]

2005–2007: Upphaf ferils

Árið 2005 stofnaði hún hljómsveitina SGBand með nokkrum vinum úr NYU. Hljómsveitin spilaði á giggum víða í New York og var hluti af næturlífinu í Lower East Side-hverfinu.[9] Eftir New Songwriters Showcase-sýningu Frægðarhallar lagahöfunda (Songwriters Hall of Fame) í júní 2006, mælti leitarkonan Wendy Starland með henni við tónlistarframleiðandann Rob Fusari.[16] Fusari vann með Gaga, sem ferðaðist daglega til New Jersey til að þróa lögin hennar og semja nýtt efni.[17] Hann sagði að hann hafi verið sá fyrsti sem kallaði hana „Lady Gaga“. Nafnið er dregið af laginu „Radio Ga Ga“ með Queen.[18] Samkvæmt honum varð nafnið til þegar hann reyndi að senda henni textaskilaboð þar sem stóð „Radio Ga Ga“, en síminn leiðrétti orðið „Radio“ í „Lady“.[19]

Thumb
Gaga á Lollapalooza tónlistarhátíðinni árið 2007

Fusari og Gaga tóku upp og framleiddu rafpopplög og sendu þau til framleiðenda í tónlistarbransanum.[18] Joshua Sarubin, yfirmaður A&R hjá Def Jam Recordings, sýndi lögunum áhuga og fékk Gaga til að skrifa undir hjá Def Jam í september 2006.[20] Samningi hennar var rift þremur mánuðum síðar. Á þessum tíma kynntist hún sviðslistakonunni Lady Starlight, sem hjálpaði henni að búa til sviðspersónu sína.[21] Þær byrjuðu að koma fram saman á tónleikastöðum og komu einnig fram á Lollapalooza tónlistarhátíðinni árið 2007.[22]

Gaga einbeitti sér í upphafi að tilraunakenndri raftónlist, en fór smám saman að blanda poppi og glysrokkstíl David Bowie og Queen í lögin sín. Meðan Gaga og Lady Starlight komu fram á sýningum, hélt Fusari áfram að þróa lögin sem þau höfðu búið til saman og sendi þau til framleiðandans og plötuforstjórans Vincent Herbert.[23] Í nóvember 2007 réði Herbert Gaga til útgáfufyrirtækisins síns, Streamline Records, sem var deild innan Interscope Records. Gaga hefur síðar nefnt Herbert sem þann sem uppgötvaði hana.[24] Eftir að hafa verið í starfsnámi sem lagahöfundur hjá Famous Music Publishing, gerði Gaga samning við Sony/ATV. Fyrir vikið var hún ráðin til að skrifa lög fyrir Britney Spears, New Kids on the Block, Fergie og Pussycat Dolls.[25] Hjá Interscope vakti Gaga athygli tónlistarmannsins Akon þegar hún söng prufuútgáfu af einu laginu hans í stúdíóinu. Akon sannfærði Jimmy Iovine, framkvæmdastjóra Interscope Geffen A&M Records um að gera sameiginlegan samning og fá Gaga einnig til að skrifa undir hjá útgáfufyrirtæki sínu, KonLive.[26] Seint á árinu 2007 kynntist Gaga lagahöfundinum og framleiðandanum RedOne. Hún vann með honum í viku í hljóðverinu að fyrstu plötunni sinni og skrifaði undir samning við Cherrytree Records, deild innan Interscope.[25] Þrátt fyrir að hafa tryggt sér plötusamning sagði hún að sumar útvarpsstöðvar hefðu fundist tónlistina hennar vera of „djarfa“, „dansmiðaða“ og „neðanjarðar“ fyrir almennan markað.[6]

2008–2010: The Fame og The Fame Monster

Árið 2008 flutti Gaga til Los Angeles til að vinna með plötufyrirtækinu sínu við að ljúka frumraunaplötunni sinni, The Fame. Platan var gefin út 19. ágúst 2008 og náði fyrsta sæti á vinsældalistum í nokkrum löndum.[27] Fyrstu tvær smáskífur plötunnar, „Just Dance“ og „Poker Face“, náðu fyrsta sæti í Ástralíu, Bandaríkjunum, Bretlandi og Kanada. „Poker Face“ var einnig mest selda smáskífa ársins 2009 á heimsvísu með 9,8 milljónir seld eintök það ár og var á Digital Songs-lista Billboard í 83 vikur.[28] Þrjár aðrar smáskífur voru gefnar út af plötunni: „Eh, Eh (Nothing Else I Can Say)“, „LoveGame“ og „Paparazzi“. Endurhljóðblandaðar (e. remix) útgáfur smáskífanna af The Fame, að undanskildu „Eh, Eh (Nothing Else I Can Say)“, voru gefnar út á plötunni Hitmixes í ágúst 2009.[29] Á 52. árlegu Grammy-verðlaununum unnu The Fame og „Poker Face“ til verðlauna fyrir bestu dans-/raftónlistarplötuna (Best Dance/Electronica Album) og bestu dansupptökuna (Best Dance Recording).[30]

Thumb
Gaga á The Monster Ball Tour tónleikaferðalaginu árið 2010

Gaga fór í tónleikaferðalag, The Fame Ball Tour, sem stóð frá mars til september 2009.[31] Á meðan hún ferðaðist um heiminn samdi hún átta lög fyrir The Fame Monster, endurútgáfu af The Fame.[32] Nýju lögin voru einnig gefin út sem sjálfstæð stuttskífa þann 18. nóvember 2009. Fyrsta smáskífa plötunnar, „Bad Romance“, kom út einum mánuði fyrr og náði fyrsta sæti í Bretlandi og Kanada. „Telephone“, með Beyoncé, var önnur smáskífan af plötunni. Þriðja smáskífan, „Alejandro“, olli deilum þar sem tónlistarmyndbandið var talið vera guðlast af Catholic League samtökunum.[33] Tónlistarmyndbandið við „Bad Romance“ varð myndbandið með mesta áhorf á YouTube í apríl 2010, og í október sama ár varð Gaga fyrsta manneskjan með meira en einn milljarð samtals áhorf á síðunni.[34] Á MTV Video Music-verðlaununum 2010 vann hún átta verðlaun af 13 tilnefningum, þar á meðal myndband ársins (Video of the Year) fyrir „Bad Romance“.[35] Hún var mest tilnefnda listakonan á einu ári og fyrsta konan til að fá tvær tilnefningar fyrir myndband ársins á sömu athöfn.[36] The Fame Monster vann Grammy-verðlaun fyrir bestu poppsöngplötuna (Best Pop Vocal Album), og „Bad Romance“ vann fyrir besta poppsöng kvenna (Best Female Pop Vocal) og besta stutta tónlistarmyndbandið (Best Short Form Music Video) á 53. árlegu Grammy-verðlaununum.[37]

Árið 2009 var Gaga með metfjölda vikna á UK Singles Chart og varð listakonan með flestar niðurhalningar ársins í Bandaríkjunum með 11,1 milljón niðurhöl, sem kom henni í Heimsmetabók Guinness.[38] Á heimsvísu hafa The Fame og The Fame Monster saman selst í meira en 15 milljónum eintaka, og sú síðarnefnda var önnur mest selda platan árið 2010.[39] Gaga hóf aðra tónleikaferð, The Monster Ball Tour, og gaf út The Remix, síðustu plötuna sína hjá Cherrytree Records.[40] The Monster Ball Tour stóð frá nóvember 2009 til maí 2011 og þénaði 227,4 milljónir Bandaríkjadala.[41] Tónleikar sem haldnir voru í Madison Square Garden í New York-borg voru teknir upp fyrir sérstaka HBO sjónvarpsþætti, Lady Gaga Presents the Monster Ball Tour: At Madison Square Garden.[42]

2011–2014: Born This Way, Artpop, og Cheek to Cheek

Í febrúar 2011 gaf Gaga út „Born This Way“, smáskífu af samnefndri plötu. Lagið seldist í meira en milljón eintökum á innan við fimm dögum.[43] Það komst á topp Billboard Hot 100 og varð þúsundasta lagið til að ná fyrsta sæti í sögu listans.[44] Önnur smáskífa plötunnar, „Judas“, kom út tveimur mánuðum síðar, og „The Edge of Glory“ varð þriðja smáskífan hennar. Bæði lögin náðu topp-10 í Bandaríkjunum og Bretlandi.[45]

Thumb
Gaga kynnir Born This Way með flutningi í Good Morning America árið 2011

Born This Way var gefin út 23. maí 2011 og komst á topp Billboard 200 í fyrstu viku með 1,1 milljón seld eintök.[46] Hún seldist í átta milljónum eintaka á heimsvísu og fékk þrjár Grammy-tilnefningar.[47] Rolling Stone setti plötuna á lista yfir „500 bestu plötur allra tíma“ árið 2020.[48] Fjórðu og fimmtu smáskífurnar, „You and I“ og „Marry the Night“, náðu 6. og 29. sæti á Hot 100. Lagið „Bloody Mary“ varð vinsælt á ný og var gefið út sem smáskífa árið 2022.[49] Hún hóf Born This Way Ball tónleikaferðinni í apríl 2012, sem átti að enda í mars árið eftir, en lauk einum mánuði fyrr þegar Gaga aflýsti seinustu tónleikunum vegna meiðsla á mjöðm sem hún þurfti að fara í aðgerð fyrir.[50] Tónleikaferðalagið þénaði 183,9 milljónir dollara á heimsvísu.[51]

Árið 2011 vann Gaga með Tony Bennett á djassútgáfu af „The Lady Is a Tramp“. Í nóvember kom hún fram í sérstökum þakkargjörðarþætti, A Very Gaga Thanksgiving, og voru bandarísku áhorfendurnir 5,7 milljónir. Í kjölfarið gaf hún út fjórðu stuttskífuna sína, A Very Gaga Holiday.[52] Árið 2012 gaf hún út fyrsta ilmvatnið sitt, Lady Gaga Fame, og síðar, Eau de Gaga, árið 2014.[53]

Gaga byrjaði að vinna að þriðju stúdíóplötunni sinni, Artpop, snemma árs 2012, á meðan hún var á tónleikaferðalaginu Born This Way Ball.[54] Í ágúst 2013 gaf Gaga út fyrstu smáskífuna af plötunni, „Applause“, sem náði fjórða sæti í Bandaríkjunum.[45] Önnur smáskífa Artpop, „Do What U Want“, ásamt söngvaranum R. Kelly, var gefin út síðar þann mánuð. Artpop var gefin út 6. nóvember 2013 og fékk misgóða dóma.[55] Platan náði toppi Billboard 200-listans í útgáfuviku og hefur selst í meira en 2,5 milljónum eintaka á heimsvísu frá og með júlí 2014.[56] „G.U.Y.“ var gefin út sem þriðja smáskífan í mars 2014. Gaga var kynnir í þættinum Saturday Night Live í nóvember 2013.[57] Í maí 2014 hélt hún tónleikaferðina ArtRave: The Artpop Ball, sem byggði á hugmyndum frá kynningarviðburðinum ArtRave. Ferðalagið þénaði 83 milljónir dollara í tekjur.[58]

Thumb
Gaga ásamt Tony Bennett á Cheek to Cheek Tour tónleikaferðalaginu

Í september 2014 gaf Gaga út samstarfs djassplötu með Tony Bennett, Cheek to Cheek. Innblásturinn fyrir plötunni kom frá vináttu hennar og Bennett og frá áhuga hennar fyrir djasstónlist síðan í æsku.[59] Bennett sagði að Gaga væri „sá hæfileikaríkasti listamaður sem ég hef nokkurn tímann hitt“.[60] Áður en platan kom út, gáfu þau út smáskífurnar „Anything Goes“ og „I Can't Give You Anything but Love“. Cheek to Cheek fékk almennt jákvæða dóma.[61] Platan var þriðja plata Gaga í röð til að ná toppi Billboard 200 og vann hún Grammy-verðlaun fyrir bestu hefðbundnu söngpopp plötuna (Best Traditional Pop Vocal Album).[62] Parið tók upp tónleikaþáttinn Tony Bennett and Lady Gaga: Cheek to Cheek Live! og fór í ferðalagið Cheek to Cheek Tour frá desember 2014 til ágúst 2015.[63]

2015–2017: American Horror Story, Joanne og Super Bowl

Eftir misgóðu viðtökurnar á Artpop byrjaði Gaga að endurskapa ímynd sína og stíl. Samkvæmt Billboard hófst þessi breyting með útgáfu Cheek to Cheek og þeirri athygli sem hún fékk fyrir frammistöðu sína á 87. Óskarsverðlaunahátíðinni, þar sem hún söng lagasyrpu úr The Sound of Music.[64] Hún og Diane Warren sömdu lagið „Til It Happens to You“ fyrir heimildarmyndina The Hunting Ground, sem vann Satellite-verðlaun fyrir besta frumsamda lagið (Best Original Song) og fékk tilnefningu til Óskarsverðlauna í sama flokki.[65]

Gaga hafði varið stórum hluta æsku sinnar í að vilja verða leikkona og náði því markmiði þegar hún lék í American Horror Story: Hotel.[66] Frá október 2015 til janúar 2016 var Hotel fimmta serían í sjónvarpsþáttaröðinni American Horror Story, þar sem Gaga lék hóteleigandann Elizabeth.[67] Á 73. Golden Globe-verðlaunahátíðinni hlaut Gaga verðlaun fyrir bestu leikkonu í stuttþáttaröð eða sjónvarpsmynd (Best Actress in a Miniseries or Television Film) fyrir hlutverkið sitt í þáttaröðinni.[66]

Thumb
Gaga á Joanne World Tour tónleikaferðalaginu árið 2017

Í febrúar 2016 söng Gaga bandaríska þjóðsönginn á Super Bowl 50, fór með flutning til heiðurs David Bowie á 58. Grammy-verðlaunahátíðinni og flutti lagið „Til It Happens to You“ á 88. Óskarsverðlaunahátíðinni.[68] Þar var hún í fylgd á svið með 50 einstaklingum sem höfðu orðið fyrir kynferðisofbeldi.[69] Gaga lék nornina Scathach í American Horror Story: Roanoke, sjöttu seríu þáttaraðarinnar, sem var sýnd frá september til nóvember 2016.[70] Í september 2016 gaf hún út smáskífuna „Perfect Illusion“ af fimmtu plötunni sinni. Platan, titluð Joanne, var nefnd eftir látinni frænku Gaga, sem veitti henni innblástur fyrir tónlistina.[71] Hún var gefin út 21. október 2016 og varð fjórða plata Gaga til að ná toppsæti Billboard 200-listans. Önnur smáskífa plötunnar, „Million Reasons“, kom út í nóvember og náði fjórða sæti í Bandaríkjunum. Hún gaf síðar út píanóútgáfu af titillagi plötunnar árið 2018, sem vann Grammy-verðlaun fyrir besta poppsólóflutning (Best Pop Solo Performance).[72] Til að kynna plötuna hélt Gaga þrenna tónleika sem kölluðust Dive Bar Tour.[73]

Gaga fór með hálfleikssýningu Super Bowl LI þann 5. febrúar 2017. Alls horfðu 117,5 milljónir manns í Bandaríkjunum á sýninguna, sem voru fleiri en áhorfendur á leikinn sjálfan og gerði hana að hálfleikssýningu með þriðja mesta áhorf í sögu Super Bowl á þeim tíma.[74] Flutningurinn veitti henni tilnefningu til Emmy-verðlauna í flokknum Outstanding Special Class Program.[75] Í apríl kom Gaga fram á Coachella tónlistarhátíðinni.[76] Hún gaf einnig út lagið, „The Cure“, sem náði topp-10 í Ástralíu. Fjórum mánuðum síðar hóf hún Joanne World Tour ferðalagið, sem hún hafði tilkynnt eftir hálfleikssýningu Super Bowl LI.[77] Sköpun plötunnar Joanne og undirbúningurinn hennar fyrir hálfleikssýninguna voru sýnd í heimildarmyndinni Gaga: Five Foot Two, sem var frumsýnd á Netflix í september sama ár.[78] Í myndinni mátti sjá hana þjást af verkjum, sem síðar voru tengdir við langvarandi vefjagigt.[79] Í febrúar 2018 neyddist Gaga til að hætta við síðustu tíu sýningar Joanne World Tour vegna verkjanna, en tónleikaferðalagið skilaði 95 milljónum dala í tekjur þar sem 842.000 miðar voru seldir.[80]

2018–2019: A Star Is Born og Las Vegas-sýningar

Thumb
Gaga á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Torontó 2018 fyrir frumsýningu A Star Is Born, sem var fyrsta aðalhlutverkið hennar í kvikmynd[81]

Árið 2018 lék hún söngkonuna Ally í tónlistar- og rómantísku dramamyndinni A Star Is Born í leikstjórn Bradley Cooper. Myndin, sem er endurgerð á samnefndri kvikmynd frá 1937, fjallar um samband Ally við söngvarann Jackson Maine (leikinn af Cooper), sem flækist þegar ferill hennar fer að skyggja á hans. Myndin hlaut lof gagnrýnenda, sem töldu hana bjóða upp á „heillandi aðalleikara, snjalla leikstjórn og hjartnæma ástarsögu.“[82] A Star Is Born var frumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Feneyjum 2018 og fór í almennar sýningar í október sama ár. Fyrir hlutverkið sitt vann Gaga National Board of Review-verðlaun og Critics' Choice-verðlaun fyrir bestu leikkonu í aðalhlutverki (Best Actress), ásamt því að hljóta tilnefningar til Óskarsverðlauna, Golden Globe-verðlauna, Screen Actors Guild-verðlauna og BAFTA-verðlauna í sama flokki.[83]

Gaga og Cooper sömdu og framleiddu megnið af lögunum fyrir A Star Is Born, sem Gaga lagði áherslu á að yrðu flutt lifandi í myndinni.[84] Aðallagið, „Shallow“, sem var flutt af þeim tveimur, kom út 27. september 2018 og náði toppsætinu á vinsældalistum í ýmsum löndum, þar á meðal í Ástralíu, Bretlandi, Bandaríkjunum og á Íslandi.[85] Hljómplatan inniheldur 34 lög, þar af 17 frumsamin lög, og fékk almennt jákvæða dóma. Hljómplatan fór beint í toppsæti vinsældalistans í Bandaríkjunum. Í júní 2019 hafði platan selst í yfir sex milljónum eintaka á heimsvísu.[86] Hún vann fjögur Grammy-verðlaun og BAFTA-verðlaun fyrir bestu kvikmyndatónlist (Best Film Music). „Shallow“ hlaut Óskarsverðlaun, Golden Globe-verðlaun, Critics' Choice-verðlaun og Satellite-verðlaun fyrir besta frumsamda lagið (Best Original Song). Gaga flutti lagið á 61. Grammy-verðlaunahátíðinni og 91. Óskarsverðlaunahátíðinni.[87]

Gaga samdi um tónleikaröð í Las Vegas, sem fékk nafnið Lady Gaga Enigma + Jazz & Piano, þar sem hún kom fram í MGM Park Theater.[88] Á tónleikunum voru tvær gerðir sýninga: Enigma, sem lagði áherslu á leiklist og innihélt stærstu smelli Gaga, og Jazz & Piano, sem bauð upp á lög úr Great American Songbook ásamt einfölduðum útgáfum af lögum Gaga. Enigma-sýningin hófst í desember 2018 og Jazz & Piano í janúar 2019.[89] Í september 2019 setti Gaga á markað vegan förðunarvörulínu, Haus Laboratories, sem var eingöngu seld á Amazon.[90]

2020–2023: Chromatica, Love for Sale, og House of Gucci

Sjötta stúdíóplata Gaga, Chromatica, var gefin út 29. maí 2020 við jákvæðar viðtökur.[91] Hún komst á topp vinsældalistans í Bandaríkjunum og varð sjötta plata hennar í röð til að ná fyrsta sæti á þeim lista. Platan náði einnig toppsætinu í mörgum öðrum löndum, þar á meðal Ástralíu, Bretlandi, Frakklandi, Ítalíu og Kanada. Aðallagið af plötunni, „Stupid Love“, kom út 28. febrúar 2020 og náði fimmta sæti bæði í Bandaríkjunum og Bretlandi. Önnur smáskífan, „Rain on Me“, ásamt Ariana Grande, kom út 22. maí.[92] Lagið vann Grammy-verðlaun fyrir besta poppflutning tvíeykis/hóps (Best Pop Duo/Group Performance) á 63. árlegu Grammy-verðlaunahátíðinni og fór beint í fyrsta sæti í Bandaríkjunum.[93] Á MTV Video Music-verðlaununum 2020 vann Gaga fimm verðlaun, þar á meðal nýstofnuðu Tricon-verðlaunin, sem heiðrar listamenn sem hafa náð árangri á mismunandi sviðum skemmtanaiðnaðarins.[94]

Thumb
Gaga á The Chromatica Ball tónleikaferðalaginu árið 2022

Þann 20. janúar 2021, á innsetningarathöfn Joe Biden sem 46. forseta Bandaríkjanna, söng Gaga bandaríska þjóðsönginn.[95] Í febrúar 2021 var Ryan Fischer, aðstoðarmaður hennar, skotinn í Hollywood og fluttur á sjúkrahús.[96] Hundunum hennar, Koji og Gustav, var rænt, en þriðji hundurinn, Miss Asia, slapp og fannst síðar af lögreglunni. Gaga bauðst til að borga 500.000 dali í lausnargjald ef hundarnir skyldu koma til baka í heilu lagi.[97] Tveimur dögum síðar, 26. febrúar, kom kona með hundana á lögreglustöð í Los Angeles. Báðir voru óskaddaðir. Lögreglan í Los Angeles sagði í fyrstu að konan sem skilaði hundunum virtist ekki tengjast skotárásinni, en þann 29. apríl var hún ein af fimm sem voru ákærð í tengslum við skotárásina og þjófnaðinn.[98] Í desember 2022 var maðurinn sem skaut Fischer dæmdur í 21 árs fangelsi.[99]

Þann 3. september gaf hún út þriðju endurhljóðblönduðu plötuna sína, Dawn of Chromatica. Síðar sama mánuð, fylgdi hún því eftir með annarri samstarfsplötunni sinni með Tony Bennett, Love for Sale. Platan fékk almennt góðar viðtökur og fór beint í áttunda sæti vinsældalistans í Bandaríkjunum.[100] Til að kynna plötuna var sýndur sjónvarpsþátturinn One Last Time: An Evening with Tony Bennett and Lady Gaga í nóvember 2021 á CBS. Þátturinn sýndi valda flutninga frá tónleikum þeirra tveggja sem haldnir voru 3. og 5. ágúst í Radio City Music Hall.[101] Önnur upptaka af flutningi þeirra, sem tekin var fyrir MTV Unplugged, var gefin út í desember sama ár.[102] Á 64. árlegu Grammy-verðlaunahátíðinni vann Love for Sale verðlaunin fyrir bestu hefðbundnu söngpopp plötuna (Best Traditional Pop Vocal Album).[103]

Hún lék Patrizia Reggiani í glæpamyndinni House of Gucci í leikstjórn Ridley Scott.[104] Fyrir hlutverkið lærði Gaga að tala með ítölskum hreim.[105] Aðferðaleikurinn hafði áhrif á andlega líðan hennar, og í lok tökunnar þurfti hún að hafa geðhjúkrunarfræðing með sér á tökustað.[106] Myndin var frumsýnd 24. nóvember 2021 og fékk misgóðar viðtökur, þó frammistaða Gaga væri mikið lofuð og talin „fullkomin í hlutverkinu“.[107] Hún vann verðlaun hjá New York Film Critics Circle og hlaut tilnefningar til BAFTA-verðlauna, Critics' Choice-verðlauna, Golden Globe-verðlauna og Screen Actors Guild-verðlauna fyrir bestu leikkonu í aðalhlutverki (Best Actress).[108]

Gaga samdi lagið „Hold My Hand“ fyrir kvikmyndina Top Gun: Maverick frá árinu 2022 og samdi einnig tónlistina fyrir myndina ásamt Hans Zimmer og Harold Faltermeyer.[109] Í júlí 2022 hóf Gaga tónleikaferðalagið The Chromatica Ball sem lauk í september sama ár. Tónleikaferðin þénaði 112,4 milljónir dollara í tekjur með 834.000 selda miða á tuttugu tónleika.[110] Árið 2023 vann hún með Rolling Stones að laginu „Sweet Sounds of Heaven“ fyrir plötuna þeirra Hackney Diamonds.[111]

2024–í dag: Joker: Folie à Deux og Mayhem

Thumb
Gaga ásamt unnusta sínum Michael Polansky á kvikmyndahátíðinni í Feneyjum 2024

Í apríl 2024 trúlofaðist hún athafnamanninum Michael Polansky, fjórum árum eftir að þau byrjuðu saman.[112] Í júlí flutti hún útgáfu af „Mon truc en plumes“ eftir Zizi Jeanmaire á setningarhátíð Ólympíuleikanna 2024 í París.[113] Þann 16. ágúst gaf Gaga út smáskífuna „Die with a Smile“, dúett með Bruno Mars. Lagið náði fyrsta sæti á vinsældalistanum í Bandaríkjunum og vann Grammy-verðlaun fyrir besta poppflutning tvíeykis/hóps (Best Pop Duo/Group Performance).[114][115]

Gaga fór með aðalhlutverk ásamt Joaquin Phoenix í söngleikja-sálfræðitryllinum Joker: Folie à Deux í leikstjórn Todd Phillips, framhaldi af kvikmyndinni frá 2019, Joker. Gaga lék Harleen „Lee“ Quinzel.[116] Myndin var frumsýnd á 81. kvikmyndahátíðinni í Feneyjum og fór í almennar sýningar í október 2024. Þrátt fyrir að myndin hafi orðið undir væntingum almennings og ekki náð viðskiptalegum árangri, var frammistaða Gaga vel metin og gagnrýnendur töldu hana vera vanmetna í myndinni.[117] Lög sem hún og Phoenix fluttu í myndinni voru gefin út á meðfylgjandi hljómplötu. Auk þess framleiddi Gaga aðra plötu fyrir myndina, titluð Harlequin, sem kom út 27. september 2024. Hún og Polansky sömdu saman fjögur lög á henni.[118]

Platan Mayhem var gefin út 7. mars 2025.[119] Hún hlaut lof gagnrýnenda og komst í fyrsta sæti í Bandaríkjunum í útgáfuviku.[120] Gaga og Polansky voru bæði upptökustjórar á plötunni og sömdu saman sjö lög, þar með talið fyrstu smáskífuna „Disease“ sem var gefin út 25. október 2024.[121] Önnur smáskífan, „Abracadabra“, var gefin út 3. febrúar 2025 og náði topp-5 í Bretlandi og Þýskalandi. Lagið „Die with a Smile“ má einnig finna á plötunni.

Remove ads

Útgefið efni

Remove ads

Tónleikaferðalög

Leikarahlutverk

Tilvísanir

Heimildir

Tenglar

Loading related searches...

Wikiwand - on

Seamless Wikipedia browsing. On steroids.

Remove ads